Goðasteinn - 01.09.2007, Page 93
Goðasteinn 2007
brandur okkur af stað og kvaddi okkur með góðum ráðleggingum. Þökkuðum við
honum hjartanlega og óskuðum honum alls góðs.
Sólin skein í heiði og fljótlega fórum við að svitna þótt Gráni gamli, en svo hét
hesturinn, bæri nú aðalfarangurinn. Tíndum við af okkur það sem við gátum við
okkur losað og varð þá gangan léttari.
Brátt fóru Landeyingar að þeysa fram hjá okkur á leiðinni upp að Kanastaða-
bökkum. Gáfu margir sig á tal við okkur og mátti heyra á þeim að undarlegur þótti
þeim búningur okkar. Skátabúninginn sáu þeir þarna í fyrsta skipti. Leist þeim við
nánari athugun ekki svo illa á fötin og höfðu orð á að hattarnir okkar myndu góðir
við heyvinnu, þá sól væri hæst á lofti. Stuttbuxurnar vöktu aftur á móti minni
hrifningu og blái klúturinn. Skátahnífarnir þóttu og þarfaþing. Undruðust ferða-
mennirnir að við skyldum vera gangandi og hentu óspart gaman að Grána okkar
og spurðu hvar í ósköpunum við hefðum getað grafið upp þvílíka húðarbykkju.
Sögðum við til um það og þótti óvirðulega talað um Grána gamla. Töldum við
hann duga og væri hann mesta þægðarskepna.
Mesta kátínu vakti meðal félaga minna þegar ung heimasæta bauðst til að hafa
mig fyrir framan sig upp að Kanastaðabökkum. Var ég fljótur að neita boðinu og
varð stórmóðgaður. Stríddu strákarnir mér óspart á þessu.
Loks komumsí við á áfangastað og vorum mjög þreyttir enda óvanir svo langri
göngu. Tjölduðum við í skyndi skammt frá hátíðasvæðinu, hituðum okkur kakó-
sopa og snyrtum okkur eftir föngum. Voru nú allir í sólskinsskapi og héldum við
að skemmtuninni. Séra Jón Skagan, prestur að Bergþórshvoli, flutti þarna ræðu og
kirkjukór annaðist söng. Glímu sýndu piltar úr Fljótshlíð og Landeyjum. Magnús
Gunnarsson frá Flólmum í Landeyjum vann glæsilegan sigur. Varð okkur starsýnt
á Magnús en hann var með hæstu mönnum og þrekinn að sama skapi. Þarna hitt-
um við marga Eyjamenn og meðal þeirra Ragnar Benediktsson og ákvað hann að
slást í för með okkur inn á Þórsmörk.
A íþróttamótinu hitti ég bróður minn sem var elstur okkar systkina og ólst upp í
Ormskoti í Fljótshlíð hjá móðursystur minni. Akvað ég að fara með honum og
heilsa upp á skyldfólk mitt og hitta félaga mína kvöldið eftir í Fljótsdal, innsta
bænum í Fljótshlíðinni, en þaðan er stutt inn á Þórsmörk. Fórum við klukkan sjö
að tjaldi okkar til að undirbúa kvöldmatinn áður en ég legði af stað upp í Hlíð.
Þegar við komum að tjaldi okkar, lá við tjaldskörina dauðadrukkinn maður og hjá
honum tóm flaska sem við bárum fljótlega kennsl á. Höfðum við haft með okkur
þriggja pela flösku af brennsluspritti til að kveikja á prímusnum. Hafði gesturinn
sýnilega gert sig heimakominn í tjaldi okkar og drukkið allt úr flöskunni. Gengum
við fljótlega úr skugga um að annað var ekki hreyft af dóti okkar. Tókum við
manninn og færðum hann dálítið frá tjaldinu en hann brá ekki blundi og létum við
hann eiga sig og leyfðum honum að sofa úr sér vímuna.
91