Goðasteinn - 01.09.2007, Page 108
Goðasteinn 2007
var hægt að flytja neinar þungavörur með þessum hætti en einmitt það stóð öllum
framförum í héraðinu fyrir þrifum.
Arið 1774 eru Eyjafjöll, Landeyjar og Fljótshlíð tekin undan Eyrarbakka og
færð til verslunarinnar í Vestmannaeyjum. Alla tíð munu Rangæingar hafa haft
mikil viðskipti við Vestmannaeyjar, bæði löglega og ólöglega, en með þessum
ráðstöfunum munu þau viðskipti hafa aukist um allan helming. Rangæingar áttu
margt að sækja til Eyja. Þaðan gátu þeir fengið sjávarfang margskonar, auk þess
stunduðu þeir sjóróðra frá Eyjum og margur landmaðurinn settist þar að til
frambúðar. En viðskiptin voru ekki bara hagstæð landmönnum heldur og ekki
síður Eyjamönnum. Úr landi fengu þeir kjöt, smjör, ullarvörur og annað það er
framleitt var í landi og Eyjamenn áttu ekki kost á með öðrum hætti.
Danskt verslunarfrelsi
Árið 1787 er verslunin gefin frjáls til allra þegna Danakonungs eftir mikil
harðindi og óáran bæði af manna- og náttúrunnar völdum. 184 ára áþján er létt af
landsmönnum. Sólin er aftur komin upp fyrir sjóndeildarhringinn. Svartasta
skammdegi íslandssögunnar er að baki. Jafnframt afnámi einokunarverslunarinnar
eru stofnaðir sex kaupstaðir og þar eru ekki ómerkari nöfn heldur en Reykjavík og
Vestmannaeyjar. Ekki er nokkur vafi á því að við það að fá kaupstaðarréttindi
hefur vegur Vestmannaeyja aukist að miklum mun og sömuleiðis viðskiptin við
fastalandið, báðum til hagsbóta.
Fyrsta raunverulega verslunin í Rangárþingi er útibú frá verslun í Vestmanna-
eyjum, sem sett var upp á Bakka í Landeyjum árið 1774 og fyrsti verslunar-
maðurinn í Rangárþingi er verslunarstjóri útibúsins, Jóhannes Zoega. Þetta útibú
er svo starfrækt til loka 18. aldar og hefur vafalaust verið til mikils hagræðis fyrir
sveitirnar í Rangárþingi eystra. Ekki voru þessi viðskipti þó áfallalaus. Leiðin
milli lands og Eyja gat verið varhugaverð því fljótt skipast veður í lofti og
stundum var farið af meira kappi enn forsjá.
Á uppstigningardag 16. maí 1901 varð hryllilegt slys um 600 til 700 faðma frá
lendingunni í Vestmannaeyjum. Áttæringur í verslunarferð undan Eyjafjöllum
fórst með 28 manns innanborðs, þar af 9 konur. Aðeins einum tókst að bjarga. Á
áttæringi eru venjulega 12 manns á vertíð en þarna er búið að hlaða í bátinn 28
manns 21 sauðkind, ásamt alls konar öðrum farangri. Það er því um gríðarlega
oftileðslu að ræða. Og þegar hvessti réðst ekki neitt við neitt. Þennan dag fóru
fjögur önnur skip sömu erinda undan Eyjafjöllum og komust klakklaust til hafnar.
Þetta hörmulega slys verður ennþá átakanlegra þegar þess er gætt að árið 1893
fórust tvö róðrarskip úr Landeyjum með 29 manns innanborðs með aðeins
106