Goðasteinn - 01.09.2007, Page 110
Goðasteinn 2007
hér sauðfé á fæti og flytja lifandi út til Englands verður bylting í búskaparháttum
sem menn áttuðu sig kannski ekki á í fljótu bragði. Englendingar greiða með
peningum út í hönd. Allt í einu hafa menn peninga og þegar þeir voru komnir með
þá í hendurnar gátu þeir verslað hvar sem þeim sýnist og þar með losað um þau
heljartök sem kaupmaðurinn hafði á viðskiptamönnum sínum gegnum reiknings-
viðskipti með tilheyrandi skuldasöfnun. Bændum varð það smátt og mátt ljóst að
þeir þurftu ekki að knékrjúpa kaupmanninum með auðmýkt og undirgefni.
Peningarnir gerðu rnenn frjálsa.
Þessi verslun var gríðarlega mikil á tímabili, ekki aðeins með fé heldur einnig
með hross er send voru niður í bresku kolanámurnar til að vinna þar í myrki og
raka og sáu aldrei sólarljósið. Þessi hrossasala er svartur blettur sem við eigum
erfitt með að þvo af okkur en peningar fengust fyrir hrossin og komu sér vel.
Arið 1889 eru seld um 60 þúsund fjár til Englands sem er geipimikið miðað við
þann fjölda fjár er var í landinu. Þá fengust 12-15 kr. fyrir veturgamalt, 15-18 fyrir
tvævetur, 17-20 fyrir eldra og 18-20 fyrir sauði en þeir munu hafa verið uppi-
staðan í þessari verslun. Hve mikið hefur komið í hlut Rangæinga vitum við ekki,
það mun hafa verið umtalsvert og haft veruleg áhrif á afkomu manna.
Ekki var hægt að koma fénu á markað nema með því að reka það til Reykja-
vfkur. En það var ekki einfalt. Austan undan Eyjafjöllum þurfti að fara yfir Mark-
arfljót, Affall, Ála, Þverá, Rangárnar báðar, Þjórsá og Ölfusá sem allar gátu verið
skaðræðisvatnsföll í haustrigningum en á haustin fór þessi rekstur fram. Um söl-
una til Englands giltu fyrirframgerðir samningar. Tekið var við fénu er til Reykja-
víkur kom. En þegar farið var með fé á markað urðu bændur að semja við kaup-
menn eftir að þeir voru komnir til Reykjavíkur og má nærri geta hvernig samn-
ingsstaða þeirra var undir þeim kringumstæðum enda gat það tekið marga daga og
þurftu bændur að standa yfir fé sínu í lélegum högum utan við Reykjavík og reka
það svo á morgnana í hin og þessi húsasund og losna kannski ekki við nema fáar
kindur á hverjum stað. Þetta fannst mönnum erfiðast eftir jafnvel 13 daga ferð í
misjöfnum veðrum allar götur austan úr Skaftafellssýslu. Þessar ferðir voru miklar
svaðilfarir eins og gefur að skilja með allt að 700 til 900 fjár í rekstri. Sundleggja
þurfti fljótin eða taka ferjur þar sem því varð við komið eins og yfir Þjórsá og
Ölfusá. Reksturinn austan undan Eyjafjöllum gat tekið sex til sjö daga. Það þótti
við hæfi að hafa einn rekstarmann á 100 kindur og var rekstrarmönnunum greitt
um 40 til 60 aurar á kind. Skaftfellingar fóru oft Fjallabaksleið nyrðri og tók
reksturinn þrjá til fjóra daga milli byggða en oft lentu rnenn í byljum og ófærð a
fjöllum og er óhætt að segja að þessi barátta hafi ekki verið heiglum hent en þetta
máttu menn búa við og þá gilti það annað tveggja, að duga eða drepast.
Sú verslun er var alls ráðandi á Suðurlandi var Lefoliiverslunin á Eyrarbakka.
108