Goðasteinn - 01.09.2007, Page 120
Goðasteinn 2007
við vorum aðeins peð. Kannski voru örlög okkar ráðin í herbergi í íbííð Jónasar
Jónssonar í nýja Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu á þriðju hæð, þar sem okkar
góði gamli kaupfélagsstjóri Guðbrandur Magnússon sat fundi í Tímaklíkunni
svonefndu ásamt Jónasi, Hallgrími Kristinssyni forstjóra SIS, Tryggva Þórhalls-
syni og ýmsum öðrum innvígðum framámönnum í Framsóknarflokknum þar sem
margar stórar ákvarðanir voru teknar án þess að nokkru sinni væri skrifaður staf-
krókur um það sem þar var skrafað og ákveðið. Menn mundu, trúðu og fram-
kvæmdu.
Ef til vill hefði verið hægt að komast að hagkvæmari lausnum ef hin harðvítuga
og illvíga pólitík hefði verið rekin með meiri skynsemi á báða bóga. Því segi ég
þetta að Rangæingar voru klofnir í tvær ósættanlegar fylkingar á þessum árum
sem áttu eftir að móta allt starf og uppbyggingu héraðsins og má reyndar segja að
svo standi enn í dag.
Árið 1930 er stofnað kaupfélag í vestursýslunni er hlaut nafnið Kaupfélag
Rangæinga og hóf starf sitt í gömlum rjómabússkála á Rauðalæk. Bæði Kaupfélag
Rangæinga á Rauðalæk og Kaupfélag Hallgeirseyjar á Hvolsvelli voru í Sambandi
íslenskra samvinnufélaga. Eftir að samgöngur bötnuðu mátli heita að um eitt og
sama verslunarsvæðið væri að ræða.
Kaupfélagsstjóri á Rauðalæk var Helgi Hannesson, mikil gáfu- og hæfileika-
maður en nokkuð sérsinnaður og hafði ákveðnar skoðanir og vildi að menn færu
eftir þeim. Það væri víst kallað forræðishyggja í dag. Hann trúði á gömlu góðu
gildin sem svo lengi höfðu gefið góða raun. Árið 1935 réðst til starfa hjá félaginu
ungur framsóknarmaður að nafni Ingólfur Jónsson, frá Bjólu. Ingólfur þessi var
dugnaðarforkur, framsækinn og metnaðargjarn. Ekki samdi þeim Helga enda vildi
Ingólfur fara aðrar leiðir og breyta gömlum háttum. Nú fór svo að átök urðu um
hvort Ingólfur eða Helgi skyldu veita félaginu forstöðu. Á fulltrúafundi voru svo
greidd atkvæði um þá félaga og fór svo að Helgi hafði betur og munaði aðeins
einu atkvæði. Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi, segir máltækið. Ég held að sjaldan
hafi það átt betur við enn í þessu tilfelli. Ingólfur undi ekki þessari niðurstöðu og
hætti.
Á þessum tíma var rekin lítil kaupmannsverslun við Ytri-Rangá sem Þorsteinn
Björnsson hafði komið á fót 1930. Þá tóku nokkrir sjálfstæðismenn sig til og
keyptu verslunina og stofnuðu upp úr henni kaupfélag er þeir nefndu Kaupfélagið
Þór. Það var venjulegt samvinnufélag en skar sig úr að því leytinu að þar var ekki
um sameiginlega ábyrgð félagsmanna á skuldbindingum félagsins að ræða eins og
hjá sambandsfélögunum. Ingólfur Jónsson var ráðinn kaupfélagsstjóri hins nýja
félags og þar með var víglínan dregin. Uppbygging hófst á Hellu og samkeppnin
milli þessara tveggja þéttbýliskjarna varð harðsvíruð, öllum til tjóns.
Ingólfur Jónsson gerðist forystumaður sjálfstæðismanna og varð fljótlega annar