Goðasteinn - 01.09.2007, Page 137
Goðasteinn 2007
reynivið og birkitré með sér og gróðursettu við húsið sitt og vöktu upp áhuga á
trjárækt. Isleifur tók upp þann sið að gefa nýjum íbúum Hvolsvallar trjáplöntur,
sem hann hafði ræktað í garði sínum. Þessum sið hélt hann meðan kraftar leyfðu.
Edith Einarsson húsmóðir í Arnarhvoli, kona Agústs kaupfélagsstjóra, hafði áður
gróðursett nokkra fallega hlyni við Arnarhvol og gerði þar snotran blómagarð. Af
öðrum garðræktarkonum frumbýlisáranna nefni ég þær Margréti Sæmundsdóttur á
símstöðinni, Lilju Árnadóttur, eiginkonu Guðjóns Jónssonar, og Guðrúnu Þor-
steinsdóttur, eiginkonu Gísla Jónssonar.
Ævisagan
Þetta á víst ekki að vera ævisaga mín en ég held að ég verði að byrja á því að
segja frá aðdraganda komu minnar í Hvolsvöll. Á sumardaginn fyrsta 1942 var ég
vinnukona á Breiðabólstað í Fljótshlíð og var mér boðið að heimsækja foreldra
mína sem þá bjuggu í Miðkoti í sömu sveit. Vinnumaður á heimilinu lánaði mér
gæðinginn sinn og ég var upp með mér þegar ég lagði af stað á svo góðum hesti
en ekki var ég fær að stjórna honum. Hann tók af mér tauminn og tók sprettinn í
öfuga átt. Eg sá hvað verða vildi og kastaði mér af baki en þeir sem á hlaðinu
höfðu fylgst með ferðum mínum voru skelfingu lostnir og héldu mig stórslasaða
en sú stutta stóð upp og kenndi sér ekki meins. Eg varð að hafa hestaskipti og fékk
nú hægan og þægan hest til heimfararinnar.
Þegar niður að Staðarhliði kom stöðvaðist vörubíll frá Kaupfélagi Rangæinga
og út úr honum sté ungur maður sem ég aðeins kannaðist við. Þegar við höfðum
spjallað nokkra stund sagði hann mér að það vantaði stúlku til afgreiðslu í búðinni
þá um vorið og þar sem ég var hvergi ráðin fannst mér forvitnilegt að athuga
málið. Ekki sagði hann mér frá erindi sínu í Fljótshlíðina þennan dag en löngu
seinna sagði hann mér að hann hefði verið að sækja andarstegg fyrir fósturforeldra
sína og ekki hefði verið fráleitt að mér hefði verið boðinn bíltúr ef betur hefði
staðið á. En hvað um það, ég réðist til starfans og 19. maí 1942 kom ég með
mjólkurbíl úr Hlíðinni. Koffortið mitt og sængin fylgdu mér og hér hef ég verið
síðan.
Gamla búðin
Ef ég fer að lýsa gömlu búðinni er hún þannig í minningunni: Dyr móti norðri
þrjár tröppur upp í búðina. Þegar inn var komið voru skrifstofudyr á hægri hönd,
móti suðri, stiginn upp á geymsluloftið að hurðarbaki. Undir stiganum voru hillur
fyrir pakka, ein fyrir Eyjafjöllin, önnur fyrir Landeyjarnar og sú þriðja fyrir
135