Goðasteinn - 01.09.2007, Side 139
Goðasteinn 2007
upp á kvikmyndasýningar á kvöldin en þeir höfðu vélar til slíkra sýninga. Sumir
þáðu þetta boð því ekki var margt til tilbreytingar en ég fór aldrei. Starfsfólkið í
búðinni skiptist á að vinna í matartímanum og það var þá einn sem tók vaktina,
það fór að bera á því þegar ég var ein í hádeginu að herjeppi stoppaði fyrir utan og
tveir til þrír dátar komu og oft var erindið lítið, ein dós af skóáburði eða eitthvað
þvflíkt. Eitt sinn vantaði þá ofnsvertu og var ég nokkra stund að skilja hvað um
var beðið, ég segi nú ekki að þeir hafi ekki lætt að mér smásúkkulaðistykki sem ég
að sjálfsögðu þáði með þökkum en fljótlega tók húsbóndi minn til sinna ráða og
aftók með öllu að ég væri ein í búðinni í hádeginu. Ég sá nú engar hættur í þessu
en hann hefur talið sig bera ábyrgð á 17 ára starfsstúlku sinni.
Það var mikill viðburður hjá börnum og búaliði á vorin eða rétt fyrir sláttinn
þegar ullin var sótt á bflum heim á hvern bæ. Ofan á ullarpokunum á bflnum mátti
sjá brosandi börn með foreldrum og skylduliði. Verslun í Kaupfélaginu marg-
faldaðist enda var ekki verið að fara frá í verslunarerindum fyrir einhvern hégóma
meðan menn bjuggu enn við forna heyskaparhætti. „Ullarkaffi“ fengu allir,
pilsner, maltöl sítrón og kex og til var brennsluspritt í búðinni og sumir drukku sig
góðglaða af „lampanum“ enda voru þeir margir sem trúðu því að þeir bættu heilsu
sína með þvf að dreypa á þessum drykk. Allur lífsmáti var einfaldur og úttekt hjá
flestum miðuð við getu til að standa í skilum.
Margt fer öðruvísi en ætlað er. Árið 1945 hófum við Pálmi húsbyggingu okkar,
við fengum lóð norðan megin Hvolsvegar, vorum fyrst til að byggja þar í móan-
um, þar var kominn húsgrunnur og timburhlaði, þá gekk framhjá stórbóndi úr
næstu sveit og spurði: „Hver er að byggja hér?“ Hann fékk svar við því og sagði:
„Hérna byggir enginn óvitlaus maður." Mér sárnaði við karl en í hjarta mínu var
ég nokkuð sammála honum. Mér fannst lítil framtíð hér en hvað fannst mér vanta?
Hér var mjög takmarkað vatn, ekkert frárennsli, bara þrær við hvert hús, gatan
moldartroðningur sem rauk úr þegar þornaði af steini, vindmyllur voru við flest
húsin, annaðhvort á þaki eða stöpli. Árið 1946 fluttum við Pálmi með rúmlega
eins árs gamla dóttur í húsið okkar. Við fengum rafljós frá rafstöð Kaupfélagsins
og einnig rafmagn fyrir straujárn, hraðsuðuketil og útvarp. Slökkt var á rafstöðinni
klukkan ellefu á kvöldin og kveikt klukkan átta á morgnana, fór þá útvarpið í gang
og vakti eigendur sína með fyrsta lagi fyrir fréttir!
Uppgjör
Þegar ég kom fyrst í Hvolsvöll fannst mér hann grár og gróðurlítill. Eins
saknaði ég fuglalífsins úr Fljótshlíðinni. Hver myndi trúa því núna að þetta sé
137