Goðasteinn - 01.09.2007, Page 205
Goðasteinn 2007
og barnmörgu sveitasamfélagi efldi án efa félagsþroska og samkennd barna og
ungmenna og í huga sér átti Aðalheiður aðeins bjartar og heiðar minningar um
bernskuár sín.
Aðalheiður naut skammvinnrar farskólakennslu heima í Vetleifsholtshverfi og
austur í Bjóluhverfi, að ógleymdum undirbúningi fyrir fermingu. Bústörfin heimt-
uðu krafta hvers og eins og snemma munaði um þátt Aðalheiðar í þeim verkum.
Ung fór hún í vist til Reykjavíkur til fjölskyldu Guido Bernhöft sem hún bast
böndum tryggðar og vináttu sem aldrei rofnuðu.
Aðalheiður giftist hinn 23. febrúar 1946 Þórarni Vilhjálmssyni frá Meiri-Tungu
í Holtum, syni hjónanna Vigdísar Gísladóttur og Vilhjálms Þorsteinssonar. Hófu
þau búskap sama ár að Litlu-Tungu og bjuggu þar allan sinn búskap. Fyrstu árin
voru með þeim í heimili hjónin Eva Vilhjálmsdóttir og Hallgrímur Jónasson, mág-
kona og svili Aðalheiðar, og snemma komu á heimilið fóstrur hennar frá Vet-
leifsholtsparti, þær Þórdís og Sigríður, og áttu þar heima meðan lifðu. Þórdís dó
1953 og Sigríður lést í desember 1998, komin fast að tíræðu. Börn Aðalheiðar og
Þórarins eru í aldursröð talin: Karl Jóhann, kvæntur Ingu Jónu Einarsdóttur,
Þórdís Torfhildur, Vilhjálmur, kvæntur Guðbjörgu Ólafsdóttur, Vigdís, gift Gunn-
ari A. Jóhannssyni, Margrét, sem dó á 13. ári, og yngstur er Þorsteinn Gunnar,
kvæntur Sigríði Ásu Sigurðardóttur. Afkomendur Aðalheiðar voru við lát hennar
23 talsins, auk 14 stjúptengdra ömmu- og langömmubarna.
Húsakynni í Litlu-Tungu á frumbýlingsárum Aðalheiðar og Þórarins þar þættu
likast til þröng nú á dögum og margt fólk í heimili. Engu að síður var alltaf nægt
rými til að hýsa ferðalúinn næturgest og reiða fram veitingar því hjartarými skorti
Aðalheiði ekki og bar einlægt gott fram úr góðum sjóði hjarta síns. Öllum gestum
var fagnað sem höfðingjum og allir sem komu að Litlu-Tungu, bæði skyldir og
vandalausir, fundu glöggt hvernig að þeim sneri gestrisni, greiðvikni og gjafmildi.
Þeim hjónum búnaðist enda vel þar, varð vel ágengt í ræktun gróðurs og gripa og
voru samhent í öllum störfum sínum sem þau reyndu að létta sér eftir föngum með
nýjustu tækni og búnaði á hverjum tíma. Aðalheiður var afburða verkmanneskja,
dugmikil, lagin og einkar ósérhlífin. Ekki er ofsagt að flestir hlutir hafi leikið í
höndum hennar, hvort heldur var fínlegur saumaskapur eða grófari útiverk.
Vinnustundirnar voru ekki taldar. Hún var á fótum fyrir dag á hverjum morgni og
gekk síðust til náða að kvöldi, þegar róandi suðið í saumavélinni hafði leitt börnin
inn í draumalandið.
Velsæld, gifta og góð heilsa eru hvorki sjálfgefnir né sjálfsagðir hlutir. Aðal-
heiður mátti reyna þungbært andstreymi í erfiðum veikindum Margrétar dóttur
sinnar, sem lést 1968. Margrét var efnileg stúlka, greind og bráðþroska, og var
missir hennar fjölskyldunni allri að vonum þungbær. Þórarin bónda sinn missti
203