Goðasteinn - 01.09.2007, Síða 229
Goðasteinn 2007
sjá um búreksturinn og uppeldi yngri barnanna rneð góðri aðstoð eldri systkinanna
eftir því sem þau uxu úr grasi.
Tvítugur að aldri hélt Ingólfur til Reykjavíkur og hóf að stunda leigubílaakstur,
og þar hitti hann lífsförunaut sinn Liiju Matthildu Fransdóttur frá Skálmholti. Var
það upphaf langs og farsæls búskapar og stýrði Lilja heimili þeirra af fágaðri
háttprýði og hlýju sem einkenndi öll hennar störf. Þau hófu búskap sinn í
Reykjavík árið 1948 en fluttu síðan að Skálmholti 1952 og bjuggu þar í eitt ár en
tóku þá við föðurleifð Ingólfs í Króki og bjuggu þar í rúma þrjá áratugi. Börn
þeirra eru dóttir Lilju, Hólmfríður Rannveig Hjartardóttir, og fóstursynirnir
Ingólfur Magnússon og Jón Halldór Bergsson.
Þau Ingólfur og Lilja fóru samhent um langa ævibraut, veittu hvort öðru lífs-
fyllingu og stuðning. Þau voru miklir gestgjafar, veitul og viðmótshlý. Heimili
þeirra var ætíð mannmargt, sérstaklega um sumartímann. Gestagangur var mikill
enda frændgarður stór. Ingólfur var góður húsbóndi og kærleiksríkur heimilisfað-
ir, stóð dyggan vörð um þann garð og gerði sér far um að láta fólki líða vel í
kringum sig og hann gekk aldrei til náða fyrr en hann hafði þakkað heimilis-
fólkinu öllu fyrir starfið og verkin þann daginn.
Þeim hjónum búnaðist vel í Króki og Ingólfur byggði þar upp hús og ræktaði
tún, enda hamhleypa til verka og hlífði sér hvergi. Snyrtimennska og smekkvísi
jafnt utan bæjar sem innan bar húsráðendum fagurt vitni. Hann var framfara-
sinnaður bóndi, bjó hefðbundnum búskap, forsjáll og glöggur á búshagi jafnt sem
bústofn sem hann ræktaði bæði til augnayndis og aukinna afurða.
Hann var maður ákveðinn í skoðunum og hreinlundaður, maður skapfestu og
drenglyndis. Hann var mikill vinur vina sinna og hjálpsemin var honum í blóð
borin. Þeim þætti kynntust vel vinir hans, vandamenn og nágrannar. Var öll sú
aðstoð veitt með mikilli gleði og fúsum hug.
Ingólfur var um árabil fjallkónur Áshreppinga, þekkti afréttinn vel, var fróður
um alla staðháttu og gegndi því ábyrgðarstarfi af kunnáttusemi og trúmennsku svo
sem honum var eðlislægt. Jafnan var hann vel ríðandi í þessum ferðum, því
hestamaður var hann ágætur og átti sér sína uppáhalds reiðhesta.
Eftir farsæla búsetu og búskap í Króki tóku þau hjónin þá ákvörðun að bregða
búi vorið 1984 og fluttust að Nestúni 19 á Hellu og áttu þau þar góð ár fram á
ævikvöldið. Lilja andaðist 26. nóvember 2002 og frá þeim degi beið Ingólfur eftir
því að fá að hitta ástvinu sína hjá góðum Guði. Hann lést hinn 21. mars sl. og var
jarðsunginn frá Kálfholtskirkju 1. apríl 2006.
Sr. Halldóra J. Þorvarðardóttir, Fellsmúla
227