Goðasteinn - 01.09.2007, Side 232
Goðasteinn 2007
/
Jón Oskarsson, Laufskálum 6, Hellu
Jón Óskarsson fæddist í Berjanesi undir Austur-
Eyjafjöllum 11. júní 1932. Foreldrar hans voru hjónin
Sveinn Óskar Ásbjörnsson, sem ólst upp á Hrútafelii, og
Anna Jónsdóttir frá Seljavöllum í sömu sveit en þau hjón
bjuggu þá í Berjanesi. Hann var næstelstur 5 bræðra.
Eldri var Rútur sem er látinn fyrir áratug en yngri eru
Sigurður, Ásbjörn Rúnar og Ástvar Grétar. Jón fluttist
fjögurra ára gamall með fjölskyldu sinni að Seljavöllum
þar sem foreldrar hans tóku við búi og þar ólst hann upp
síðan. Hann vandist við almenn sveitastörf frá ungum aldri og snemma komu í
ljós mannkostir hans til orðs og æðis, dugnaður og vandvirkni.
Takmörkuð efni heima fyrir urðu til þess, líkt og víða um sveitir í þá daga, að
Jón hleypti heimdraganum 16 ára gamall og hóf störf á bílaverkstæði Kaup-
félagsins Þórs á Hellu. Sótti hann sjó frá Vestmannaeyjum yfir vetrarmánuðina á
þessum árum, alls 7 vetrarvertíðir, aðallega með Sigfúsi Guðmundssyni á ísleifi
II. Síðar gerðist Jón olíubílstjóri hjá Kaupfélaginu og vann við það um árabil. Frá
árinu 1969 helgaði Jón krafta sína óskipta fyrirtæki sínu, Mosfelli á Hellu, sem
þeir Einar Kristinsson frá Brúarlandi á Hellu stofnuðu 7 árum fyrr. Starfaði hann
þar æ síðan ásamt Einari og bar aldrei skugga á það áratuga farsæla samstarf.
Jón stofnaði heimili á Hellu árið 1952 með eftirlifandi eiginkonu sinni, Ás-
laugu Jónasdóttur, dóttur Ágústu Þorkelsdóttur og Jónasar Kristjánssonar er fyrr
bjuggu í Vetleifsholti í Ásahreppi. Gengu þau í hjónaband í Oddakirkju á gaml-
ársdag 1963. Hjúskapur þeiira einkenndist af gagnkvæmri umhyggju og ástúð.
Þau áttu alla tíð heima á Hellu, lengst af að Laufskálum 6 sem þau reistu með
eigin höndum um 1960. Þeim fæddust fjögur börn og eru þrjú þeirra á lífi, öll
fjölskyldufólk og eiga afkomendur. Elstur er Óskar, búsettur á Hellu, kvæntur
Dóru Sjöfn Stefánsdóttur, þá Ágústa Jóna sem býr í Hafnarfirði, gift Hreiðari Her-
mannssyni, Anna á heima á Selfossi; eiginmaður hennar er Bjarni Diðrik Sigurðs-
son, og yngstur var Gestur sem lést þriggja ára gamall árið 1977. Barnabörn Jóns
voru við lát hans 9 talsins, auk tveggja stjúpbarnabarna. Jón var umhyggjusamur
og ástríkur fjölskyldufaðir og fylgdist vel með vexti og viðfangsefnum síns fólks
og gekk helst aldrei svo til náða að hann vissi ekki af þeim öllum í öruggum stað.
Hann lét sér rnjög annt um heimili sitt og þau hjón prýddu það af smekkvísi og
listhneigð og ekki síður sumarbústað sinn á Seljavöllum þar sem þau dvöldu
löngum stundum seinni árin. Jón var mikill hagleiksmaður í höndum og nýtti vel
stopular stundir til smíða, ekki síst ýmissa smáhluta og skartgripa sem vitna
glöggt um listfengi hans og sköpunargleði.