Goðasteinn - 01.09.2007, Page 242
Goðasteinn 2007
Börn þeirra eru þrjú: Elstur er Þorsteinn, búsettur á Hvolsvelli. Sambýliskona hans
er Guðbjörg Sigurðardóttir. I miðið er Elínborg, búsett á Egilsstöðum, gift Aðal-
steini Hákonarsyni. Hún bjó áður með Hermanni Jóni Einarssyni á Hvolsvelli en
þau slitu sambúð. Yngstur er Ólafur, búsettur í Reykjavík, kvæntur Sigríði Krist-
ínu Sigurðardóttur. Barnabörnin voru við lát Sigrúnar 9 að tölu, langömmubarn
eitt og stjúpbörn barna hennai' þrjú.
Meðfram önnum á heimili vaxandi fjölskyldu vann Sigrún sem saumakona
þorpsins á Hellu fyrstu árin. Hún bjó yfir mikilli færni í saumaskap og hönnun
fata og flókin vandamál á því sviði voru henni auðleysanleg. Hún var órög að fara
sínar eigin leiðir og kom þar vel í ljós rík sköpunargáfa hennar sem einnig sá stað
í listmunum hennar sem prýddu heimilið. Arið 1976 hóf hún að kenna handmennt
við Grunnskólann á Hellu. Síðar bættist einnig á hana tónmenntakennsla við
skólann ásamt verkefnum á bókasafni. Henni féll þessi starfi vel og kennslan átti
vel við hana. Sigrún hafði miklu að miðla til nemenda sinna af kunnáttu sinni og
listfengi og var metnaðarfull í kennslunni. Hún átti gott með að ná til barnanna og
vann hug þeirra og hjörtu með glaðlegu viðmóti sínu og þeirri hlýju og alúð sem
þau fundu stafa frá henni. Það var því í góðu samræmi við ágæta starfsreynslu
hennar og gott orðspor í skólastarfinu að hún aílaði sér frekari menntunar
meðfram kennarastarfinu og lauk réttindanámi frá Kennaraháskóla Islands árið
1992.
Árið eftir tók hún til við að læra á harmoniku í Tónlistarskóla Rangæinga, og
jók enn við kunnáttu sína sem byggð var á langri reynslu og sjálfsnámi.
Sigrún var félagslynd kona, og lagði mörgum góðum málefnum lið hér í hérað-
inu. Hún hlaut ung sína frumþjálfun í félagsmálum á vettvangi Ungmennafélags-
ins Merkihvols og var formaður þess eitt ár upp úr tvítugu. Kvenfélag Oddakirkju
naut krafta hennar og áhuga um árabil og um tíma sat hún í Héraðsvökunefnd
Rangæinga. Sigrún var meðal stofnfélaga Harmonikufélags Rangæinga árið 1985,
var ritari í stjórn þess fyrstu fjögur árin og gegndi síðan formennsku í félaginu frá
1989 til 1997. Er á engan hallað þótt fullyrt sé að Sigrún hafi verið driffjöðrin í
starfi félagsins frá upphafi. Hún lagði harmonikuunnendum einnig drjúgt lið á
landsvísu, var varaformaður Sambands íslenskra harmonikuunnenda 1993 til 1996
og síðan formaður til ársins 1999. Sigrún var vakin og sofin yfir þeim trúnaðar-
störfum eins og öðrum verkefnum sem henni voru falin í lífinu og skilaði þeim
öllum með sæmd. Hún sótti harmonikumót víða um land árum saman og einnig út
til Noregs og Svíþjóðar. Ekki færri en 17 sumur ferðuðust þau Valur um á hús-
bílnum sínum og leituðu uppi heillandi hljóma dragspilsins og þá gáskafullu glað-
værð sem jafnan fylgir því. Síðast spilaði Sigrún á afmælisfagnaði Harmoniku-
félags Selfoss og Harmonikufélags Reykjavíkur í Hveragerði mánuði fyrir andlát
sitt. I þeim verkefnum sem öðrum voru þau hjón samhent og samstíga og deildu
240