Goðasteinn - 01.09.2007, Page 244
Goðasteinn 2007
yngstu bræðurnir voru miklir mátar og unnu saman og skemmtu sér bæði við
vinnuna og aðra skemmtun.
I Asi var torfbær sem vék svo fyrir nýju steinhúsi sem var fyrsta steinhúsið í
Hrunamannahreppi. Sveinbjörn var þá fimm ára og það er í frásögur fært að
honum þóttu húsaskiptin ekki góð. Mömmu hans þótti það heldur ekki í fyrstu og
fannst þægilegra að hafa gamla byggingarlagið með einni hæð heldur en kjallara
og hæðir til að hlaupa á milli. Sveinbjörn fór ungur að heiman og vann bæði til
sjós og lands. Hann vann verkamannavinnu, keyrði vörubíl í vegavinnu og við
aðrar framkvæmdir og sótti varning í hreppinn á vegum Sigurjóns Guðjóns-
sonar. En sjósóknin var honum alltaf minnisstæðari en landvinnan. Þó var það á
sjónum árið 1949 sem hann varð fyrir því slysi sem bagaði hann alla ævi. Hann
lenti í opnu spili og hnéskelin brotnaði og út af því spunnust mikil veikindi sem
hann stríddi við alla tíð. Skipið var úti fyrir Vestfjörðum og hann var settur í land
og fékk ekki þá læknishjálp sem hann þurfti.
Þetta sama ár, 1949, urðu önnur og betri kaflaskipti í lífi Sveinbjörns. Þá
kynntist hann konu sinni Sigurbjörgu Finnbogadóttur. Þau fluttust að Heiði
1951. Þau byggðu upp jörðina með því að þurrka mýrar og rækta tún og Svein-
björn vann þessi verk að miklu leyti sjálfur. Vegasamgöngur voru erfiðar að Heiði
og Sveinbjörn keyrði mjólkina á hestvagni fjóra kílómetra niður á veg. Þegar hann
keypti lítinn traktor árið 1954 komst hann ekki veginn. Húsin voru gömul og úr
sér gengin en Sveinbjörn naut þess sem í honum bjó, hugsjóna sinna, þráa og lagni
og byggði nýtt íbúðarhús og tjós, hlöðu og mjólkurhús.
Arið 1955 fæddist sonurinn Tryggvi sem seinna varð bóndi á Heiði og tón-
listarmaður. Hann vann með foreldrum sínum og tók við búrekstrinum þegar
heilsu Sveinbjörns hrakaði. Arið 1976 fékk Sveinbjörn eitrun í hnjáliðinn og út af
þessu spunnust mikil og þung veikindi sem hann barðist við heilan vetur. En hann
náði sér, var á Grensásdeild, og þau Sigurbjörg og Tryggvi keyrðu suður heiðar í
óveðrum vetrarins til að heimsækja hann.
Búskapurinn á Heiði var alltaf rekinn af mikilli kunnáttu og myndarskap. Þau
öll þrjú kunnu vel til verka, ræktuðu tún eftir tún, höfðu góðar mjólkurkýr og
öfluðu sér véla við allan búreksturinn.
Heilsu Sveinbjörns hrakaði mikið síðustu mánuðina sem hann lifði en hann
gladdist yfir því að vera heima hjá Sigurbjörgu og Tryggva. Viku áður en hann dó
var honum boðin hvíldardvöl á dvalarheimilinu Lundi á Hellu og þar lést hann
föstudaginn 1. desember 2006. Hann var jarðsettur í kirkjugarðinum í Hruna laug-
ardaginn 9. desember.
Sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir
242