Bókasafnið - mar. 2024, Blaðsíða 28
28 Gróa Finnsdóttir
Að verða sjötug
Í dag heyrist því blákalt haldið fram að þegar kona verður sjötug sé það eitt og hið sama og
að verða fimmtug. Það er að segja eins og fimmtug kona var skilgreind fyrir um sjötíu árum
síðan. Af einhverjum ástæðum virðist mér sem þessu hafi aðallega verið haldið á lofti um
konur, en hvort það þýði að þetta sé bara skoðun einhverra kvenna í bjartsýniskasti skal
látið ósagt. Og ekki veit ég heldur hvenær þessi óvísindalega kenning skaut upp kollinum.
Kannski hefur það gerst þegar það uppgötvaðist að flestar sjötugar konur eru bara enn í fullu
fjöri, bæði andlega og líkamlega þegar þeim er sagt að nú sé þetta komið gott, gerið svo vel
að hætta að vinna því þið eruð orðnar sjötugar (lesist: gamlar).
Á sjötugsafmælinu mínu þ. 12. ágúst 2021 fékk ég kurteislega orðað bréf á stofnanaíslensku
þar sem mér var sagt upp störfum sem bókasafns og upplýsingafræðingi Þjóðminjasafns
Íslands eftir þrjátíu og þriggja ára starf. Ég hafði beðið spennt eftir þessu bréfi því elskulegt
samstarfsfólk mitt var búið að vara mig við að ég fengi slíkt bréf og voru örugglega búin að
mynda áfallateymi á laun ef ég fengi taugaáfall við að lesa það þótt ég vissi hvað í því stæði.
Ég var hins vegar vel undirbúin og las bréfið með brosi á vör enda þótt undarleg tilfinning
bærðist hið innra við að sjá þetta svona svart á hvítu, enda í fyrsta skipti á ævinni sem mér
var sagt upp störfum. Vissulega hálf skrítið með það í huga að ég hafði ekkert brotið af mér
í starfi og unnið mín störf bara þokkalega vel að ég held. Mér hafði hins vegar ekki tekist að
stöðva tímann og hafði unnið mér það eitt til saka að vera allt í einu búin að lifa í sjötíu ár.
Verkefnin eftir vinnu
Tilfinningin sem ég hafði þegar ég afhenti lykilspjaldið mitt á skrifstofunni, lokaði dyr unum
á eftir mér í síðasta sinn og steig út í veröldina var auðvitað tregafull en jafnframt bærðist
með mér tryllt frelsistilfinning. Það fyrsta sem mér datt í hug var að nú átti ég mig algjörlega
sjálf, gat sofið út og lesið heilu dagana, nokkuð sem ég hlakkaði mest til á því augnabliki.
Síðan bættist við óendanleg runa af skemmtilegheitum sem ég þráði að gera skil: heimsækja
gamla og nýja vini, klára hálfprjónuðu peysuna síðan í fyrra, fara oftar í sund og jóga, skoða
íslenskar plöntur, fara í útreiðartúr, hlusta á alla hlaðvarpsþættina sem ég átti eftir að hlusta
á, gerast sjálfboðaliði hjá Rauða krossinum, skoða landið mitt, ferðast til út landa, fara á söfn
og listsýningar, gerast túristi í Reykjavík, vera fyrirmyndar amma, rækta fjöl skylduna mína og
lesa! Loksins gæfist mér tími til að stytta hinn langa lista þeirra bóka sem ég átti eftir að lesa.
En fyrst og síðast var unaðslegt til þess að hugsa að núna hefði ég í fyrsta sinn á ævinni
raunverulegan tíma til að SKRIFA, nokkuð sem ég hafði dundað mér við á hlaupum og með
löngum hléum á undanförnum árum. Já, mér hafði nefnilega þrátt fyrir allt tekist að skrifa
bók, skáldsögu, sem ég hafði bitið í mig að gefa út áður en ég yrði sjötug og það tókst. Svo
Er líf eftir sjötugt?
Höfundur: Gróa Finnsdóttir