Bókasafnið - mar. 2024, Page 29

Bókasafnið - mar. 2024, Page 29
Bókasafnið 44. árg – 2024 29 núna varð það að vera mitt fyrsta verk að fylgja nýútkomnu bókinni minni úr hlaði með upplestrum og kynningum. Ég beið því óþreyjufull eftir að fá að vita hvernig henni reiddi af meðal allra þeirra stórkostlegu bóka sem voru gefnar út á svipuðum tíma. Ég var satt að segja ekki bjartsýn því mér var sagt af reynslumiklum rithöfundum að textinn missti allan sjarma þegar bækur væru skrifaðar á löngum tíma. En öllum þykir vænt um börnin sín, sjarmalaus eða ekki, svo ég þurfti enn frekar að styðja við bakið á henni og koma henni á framfæri eins og öllum góðum mæðrum sæmir. Og viti menn, bókinni minni var tekið með kostum og kynjum og viðtökurnar fóru fram úr mínum björtustu vonum. Því var það svo að þegar þetta óendanlega frí mitt blasti við mér var tilfinningin framandi gleðitilfinning og mér fannst lífið vera rétt að byrja. Í stað þess að þurfa að einbeita mér að verkefnum vinnunnar, helltust núna yfir mig í huganum öll þau óskaverkefni sem mér fannst ég skyndilega þurfa að leysa af hendi í hvelli áður en ég gæti sest niður aftur og skrifað nokkurn skapaðan hlut. Mér fannst tíminn vera enn á ný að hlaupa frá mér og mér myndi ekki endast ævin til að gera allt sem mig langaði til að gera. Fyrstu dagarnir fóru því í heimsóknir og skipulagslaust rand á milli ættingja og vina og fálmkennda tiltekt heima hjá mér, bæði í handavinnudóti og hinum ýmsum skjölum, blöðum og bókum sem bóka safnsfræðingurinn hafði ekki haft neitt skipulag á til þessa. Ég sökkti mér á bólakaf ofan í skúffur og kirnur við tiltektina uns ég hélt allt í einu á fagurrauðum kassa, fullum af bæði handskrifuðum og ljósrituðum blöðum auk óteljandi snepla með athugasemdum og hugleiðingum, jafnvel heilu köflunum. Snögglega rankaði minnið við sér og undarleg kitlandi tilfinning gerði vart við sig að sjá þetta. Sannast sagna hafði ég steingleymt þessum gömlu minnisblöðum sem urðu til löngu áður en nýútkomna bókin mín varð að veruleika og löngu fyrir aldamótin síðustu og því hafði lítið af því komist inn í heilabú tölvunnar minnar. En þarna lá þetta allt saman, alls konar hugmyndir og uppköst. Það var ótrúlega spennandi að handfjatla þessi kaótísku gögn á nýjan leik. Ég sá að ég hafði þegar byrjað á að skrifa drög að skáldsögu út frá öllu þessu efni, því skáldsaga yrði það að vera. Rauði kassinn Nú voru heimsóknir, tiltektir og prjónaskapur snarlega lögð til hliðar því þegar ég opnaði lokið á kassanum mínum góða opnaði ég um leið rykugt hólf í heilabúinu fullu af hug myndum sem höfðu legið þar dormandi um langan tíma. Þetta var orkuinnspýting sem ég ætlaði sannar lega að nýta mér. Ég heilsaði persónunum á þessum blöðum eins og gömlum vinum og ég fann vanþóknunina streyma frá þeim yfir sinnuleysi mínu. Ég gældi við sumar þeirra og hampaði þeim, en sussaði á aðrar sem gerðust frekar og vildu alltaf hafa orðið. Þær héldu vöku fyrir mér á nóttunni með skvaldri sínu svo ég átti fullt í fangi með að ná því niður sem þær vildu segja mér. Eftir nokkrar vikur ­ eða voru það kannski mánuðir? ­ sagði ég þeim að hafa hljótt, nú væri þetta komið gott og nú tæki ég völdin. Sem ég gerði. Sat og snurfusaði textann og lét allt annað reka á reiðanum. Loks taldi ég mig hafa sæmileg drög að bók sem ég gæti sent til útgefanda.

x

Bókasafnið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bókasafnið
https://timarit.is/publication/245

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.