Morgunblaðið - 31.01.1981, Blaðsíða 33

Morgunblaðið - 31.01.1981, Blaðsíða 33
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 31. JANÚAR 1981 33 Einar Hannesson: Islenzku silungsvötnin - vannýtt náttúruauðæfi Stöðuvötn hér á landi setja sterkan svip á andlit landsins, ef svo má að orði komast, fegra það og bæta. Vatnið sjálft auðgar íslenska náttúru með fjölbreyttu dýralífi bæði á láði og legi. Það „fæðir" af sér góða veiðiá, því að ljóst er að straumvatn, sem fellur úr stöðuvatni, býður laxfiskum betri lífsskilyrði en vatnsfall, sem ekki hefur slíkan bakhjarl, vatnið er hlýrra og rennsli jafnara. Hlutverk stöðuvatns í víðara samhengi er þannig mikilvægt og gagnsemi þess sem bústaður sil- ungs (bleikja og urriði) ótvíræð og í raun ómetanlegt framlag. Lax- og göngusilungur kemur hér einn- ig víða við sögu, á leið fisksins til hrygningarstöðvanna í ám og sumstaðar dvelja lax- og göngusil- ungsseiði á uppvaxtarskeiði sínu í stöðuvatni um lengri eða skemmri tíma. Margir þættir fléttast saman þegar ræða skal um fiskabúskap í stöðuvatni. Það efni verður ekki krufið til mergjar í þessari grein, heldur aðeins vikið að meðferð silungsvatna, þessara ágætu nátt- úruauðæfa, og nýtingu silungs- stofnsins í stöðuvötnum. Þykir rétt að fara fyrst nokkrum orðum um eignarrétt veiði og öðru skyldu efni, sbr. ákvæði laga, og koma síðan að fjölda stöðuvatna á land- inu og fjalla að lokum um ástand og horfur í veiðiskap í silungs- vötnum. Veiðiréttur fylgir landi Höfuðreglan er sú, að veiðirétt- ur fylgir landi. Óheimilt er að skilja veiðirétt frá landi. Þá er í lögum um lax- og silungsveiði innlausnarheimild á veiðirétti sem skilin hefur verið frá landar- eign fyrr á tímum. Landeiganda er einum heimil veiði fyrir landi sínu. Hann getur ráðstafað veiði til annarra, en eigi til lengri tíma en 10 ára í senn nema leyfi ráðherra komi til. Landhelgi út í vatn er 60 faðmar eða 115 metrar og nefnist netlög. í stöðuvatni er svo almenningur utan fyrrgreindrar landhelgi eða svonefnds vatnsbeltis. í almenn- ingi stöðuvatns er landeigendum sem land eiga að viðkomandi vatni öllum veiði jafnheimil, en þeir mega ekki leigja eða ráðstafa veiði í almenningi til annarra. Afréttarvötnin Búendum sem rétt eiga til upprekstrar á afrétt, er einum heimil veiði í vötnum á þeim afrétti til búsþarfa á sama hátt sem verið hefur, enda sé veiðirétt- ur í þeim vötnum eigi einkaeign. Gildir sama um afréttarvatn og almenning stöðuvatns, að hlutað- eigandi má ekki leyfa öðrum að veiða. Hins vegar hefur veiðifélag um slík vötn heimild til að ráð- stafa veiði í báðum tilvikum, þ.e. í afréttarvatni og almenningi stöðuvatns. Frá 1970 er lagaskylda að stofna veiðifélag um allar ár og stöðuvötn á landinu. 800 stöðuvötn Hér á landi munu vera um 800 stöðuvötn stærri en 0,3 km2 að flatarmáli (Vatnamælingar, Orkustofnun). Er tíundi hluti þessara vatna meira en 1 km2 að flatarmáli og þar af 12 vötn 10 km2 eða meira, 13 stöðuvötn 5—10 km2 og 58 vötn á bilinu 1—5 km2 að flatarmáli. Yfirlit þetta færir okkur heim sanninn um að við búum býsna vel, hvað varðar stöðuvötn á landinu. Fiskifræð- ingur Veiðimálastofnunar hefur áætlað að framleiðsla í meðalgóðu silungsvatni hér á landi gæti verið 10—15 kíló á hvern hektara. Hér er því um mikil verðmæti að ræða. Stór akur óplægður Islensk stöðuvötn má skipa niður í tvo flokka, byggðavötn og afréttarvötn eða óbyggðavötn. Fyrrnefndu vötnin eru öll í góðu vegasambandi og í þeim hópi eru helstu veiðivötn landsins þar sem veiði hefur verið stunduð skipu- lega um langt skeið, þó að mis- jafnt sé hvað varðar nýtingu á , silungsstofni þeirra. Óbyggð- avötnin eru flest í lélegu vega- sambandi við byggðina enda liggja mörg þeirra afskekkt, og tiltölu- lega fá þeirra hafa verið nýtt reglulega til veiðiskapar. Flest eru þau vafalaust með ofsetin sil- ungsstofn. Það er skoðun þeirra sem best þekkja til í þessum efnum að silungsstofn í fáum stöðuvötnum hér á landi sé nytj- aður eins og æskilegt væri og reyndar nauðsyn beri til að gert sé. Hér er því stór akur óplægður. Matarkistur fyrri tíðar Eins og alkunna er, hafa orðið róttækar þjóðlífsbreytingar hér- lendis á þessari öld sem hafa markað djúp spor á ýmsum svið- um. Á hinn bóginn hafa breyt- ingarnar orðið til þess að dregið hefur úr eða jafnvel hafa verið lagðir niður góðir siðir og venjur sem áður tíðkuðust i strjálbýlinu. Þar má nefna, í sambandi við það sem hér er verið að fjalla um, silungsveiði í stöðuvötnum. Ýmis stöðuvötn voru miklar matarkist- ur á fyrri tíð og gerðu fólki kleift að bjargast frá hungurvofunni. Fækkun fólks í sveitum hefur orðið til þess að veiðiskap hefur hrakað mjög víða og hann jafnvel fallið niður með öllu, sem fyrr segir, á stöðum þar sem áður var stunduð töluverð veiði. Hið sama er að segja um það þegar byggð hefur dregist saman. Vaxandi stangveiði Til nokkurs mótvægis við fyrri tíðar veiðiskap, sem var nær eingöngu netaveiði í stöðuvötnum, hefur á seinni áratugum komið til sögunnar töluverð ásókn í stang- veiði í vötnum, auk skipulagðrar netaveiði veiðibænda í helstu veiðivötnum landsins. Mikill fjöldi sumarhúsa borgar- og bæjabúa hefur risið við mörg byggðavötnin og sumstaðar hafa heilu byggða- hverfin skotið rótum. Aðstaða til veiðiskapar í stöðuvötnum hefur víða verið komið í þokkalegt horf, þó að þar sé mikið verk óunnið, bæði við byggðavötn og afréttar- vötn. Stjórnun lögbundin Hagfelld nýting silungsstofns- ins í vötnum almennt er skammt á veg komin í samanburði við lax- veiðina, sem er í góðu horfi og hefur þróun í þeim málum verið ákaflega ör, eins og alkunna er. Hér er því mikið verk að vinna á sviði bættrar nýtingar á silungi í stöðuvötnum landsins. Eins og lög gera ráð fyrir ber að stbfna veiðifélag um allar ár og stöðu- vötn í landinu. Þessu ákvæði þarf að koma til framkvæmda víða við einstök stöðuvötn og stöðuvatna- klasa á afréttum. Þess má geta að þegar eru starfandi veiðifélög um vötn á Arnarvatnsheiði (Borgfirð- ingar), Auðkúluheiði, Gríms- tunguheiði, Höfðavatn í Skaga- firði, Mývatn, Skaftártunguafrétt, Landmannaafrétt, Holtamanna- afrétt, Þingvallavatn, Úlfljótsvatn og Hvítárvatn. Traust skipulag — betri nýting Til fróðleiks má geta þess að skipuleg þróun veiðiskapar í af- réttarvötnum mun vera lengst komin hjá Veiðifélagi Land- mannaafréttar, en á þeirra svæði eru hin víðfrægu Veiðivötn. I eigu félagsins eru nú 4 veiðimannahús og sérstakur eftirlitsmaður er starfandi um veiðitímann. Félagið hefur staðið fyrir útleigu bæði til stangveiði og netaveiði og öllum tekjum af veiði hefur verið ráð- stafað til umbóta á eða við vatna- svæðið. Þá má í þessu sambandi taka annað dæmi um bætta að- stöðu til stangveiði við ób.vggða- vatn. Er það Hítarvatn í Mýra- sýslu, en þar 'er rúmgott veiði- mannahús og vegur hefur verið lagður að vatninu sem fær er öllum bifreiðum. Sem betur fer mætti nefna mörg fleiri dæmi af þessu tagi þó það verði ekki gert að þessu sinni. Nauðsyn kynningarstarfs Segja má að gott vegasamband við veiðivatn og afdrep (veiðikofi) á staðnum sé lykilatriði um út- leigu til stangveiði við óbyggða- vötn, auk góðrar gæslu sem er æskileg í öllum tilvikum. Þá er kynningarstarf á veiðiaðstöðu nauðsynlegt og að silungsveiði- leyfi séu seld sem víðast. í sam- bandi við kynningarstarf má geta um ritið „Vötn og veiði" sem Landssamband veiðifélaga gaf út í sumar. Þar er aðgengileg skrá ásamt korti um veiðivötn á Suður- og Vesturlandi. Mun ætlun Lands- sambandsins að halda þessu starfi áfram um aðra landshluta. Vísir að landsskrá, slíkri sem hér um ræðir, birtist á sínum tíma í Ferðahandbókinni, í þætti veiði- málastjóra í þeirri bók. Bækling- urinn „Vötn og veiði“ er ákaflega gagnlegur fyrir þá sem eru að huga að veiðiferð í silungsvatn. Málefni silungsveiðinnar eru stöðugt á dagskrá hjá ýmsum aðilum. Á sínum tíma var m.a. gerð úttekt á þessum málum á vegum Samgönguráðuneytisins í sambandi .við ferðamálaáætlun. Þannig hefur ferðamálaráð fjallað um þessi efni og gerðar hafa verið fleiri en ein ályktun um nauðsyn þess að greiða fyrir stangveiði í silungsvötnin víðs vegar um land- ið. Netaveiði — stangveiði Margir aðilar vinna að því að auðvelda fólki að komast í silungs- veiði, sem nýtur vaxandi vinsælda hér á landi. I því efni er bæði um að ræða vötn sem eru þegar opnuð almenningi og eins hin sem hafa verið lokuð. Þarna eiga hlut að máli félagasamtök veiðieigenda, leigutakar og einstaklingar, sem áður hefur komið fram. Gjarnan mætti nefna Stangveiðifélag Hafnarfjarðar sem hefur verið áhugasamt um að sinna þessum málum fyrir sína félagsmenn og aðra. Aukin nýting! Þrátt fyrir vaxandi stangveiði í silungsvötnum, er sýnt að það muni ekki duga til að fullnægja í langri framtíð kröfunni, ef svo má segja, um hagfellda nýtingu ís- lenska silungsstofnsins. Verður því að koma til stóraukin neta- veiði í þeim vötnum, sem hafa verið vanrækt, eins og fyrr grein- ir. Ábyrgir aðilar um silungs- vatnamálið hafa undanfarið ræðst við í sambandi við að leita mark- visst leiða til þess að nýta þessi náttúruauðæfi, sem liggja því miður í stórum mæli ónotuð í stöðuvötnum landsins. Er nú tekin til starfa sérstök samstarfsnefnd þessara aðila, 3ja manna, skipuð einum frá Veiðimálastofnun, öðr- um frá Búnaðarfélagi íslands og þeim þriðja frá Landssambandi veiðifélaga. Nýtur þessi starfsemi fjárstuðnings Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Fyrir nokkru var flutt á Alþingi tillaga til þingsályktunar um aukna nýtingu silungsstofnsins, en fyrsti flutningsmaður hennar er Vigfús B. Jónsson, Laxamýri. Er hér á verðskuldaðan hátt vakin góð athygli á þessu mikilvæga máli.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.