Morgunblaðið - 25.08.2005, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 25.08.2005, Blaðsíða 30
30 FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Szymon Kuran,fiðluleikari og tónskáld, fæddist í Szeligi í Póllandi 16. desember 1955. Hann andaðist á heimili sínu í Reykjavík 6. ágúst. Foreldrar hans eru Stanislawa Kuran og Tadeusz Kuran. Systir Szymonar er Halina Rozbiecka. Szymon kvæntist Guðrúnu Theodóru Sigurðardóttur sellóleikara. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Szymon Héðinn, f. 28. mars 1988, Anna Kolfinna, f. 5. desember 1989, og Jakob, f. 1. nóvember 1991. Szymon lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Varsjá 1975. Hann hlaut MGR-gráðu í fiðluleik frá Tónlistarakademí- unni í Gdansk 1980, og lauk prófi í fiðluleik og tónsmíðum frá Goldsmith’s College, University of London, National Centre for Orchestral Studies, 1984. Hann stofnaði kammersveitina Polska Filharmonia Kamerlana og spil- aði með henni í átta ár. Hann var konsertmeistari með Baltnesku Fílharmóníuhljómsveitinni 1981– 1983 og annar konsertmeistari með Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1984–2000. Szymon Kuran lék einleik við frumflutning fyrsta fiðlukonserts eftir Karol Szym- anowski hérlendis með Sinfóníu- hljómsveit Íslands 1986, og fiðlu- konsert eftir Panufnik 1993, einnig með Sinfóníuhljómsveit Ís- lands, og síðar aftur með Sinfón- íuhljómsveit Norðurlands. Hann var einn af stofnendum djass- hljómsveitarinnar Súldar og einnig Kuran Swing. Þá var hann konsert- meistari með Sin- fóníuhljómsveit Norðurlands og með Íslensku óper- unni. Hann lék tón- list í nokkrum kvik- myndum, m.a. Börnum náttúrunn- ar og Englum al- heimsins. Eftir Szy- mon liggja margar tónsmíðar og útsetningar, m.a. Elegia fyrir strengi, flutt af Sinfóníuhljóm- sveit Íslands 1985, Square, flutt af Kammersveit Reykjavíkur 1985, Sinfónía Consertante, D. Sjostakovitsj in memoriam, frum- flutt af Sinfóníuhljómsveit Ís- lands 1987. Konfrontacja, frum- flutt af hljómsveitinni Súld á Musica Nova–tónleikum 1987. In The Light of Eternity, frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands 1991. Vorið 2005 voru gerðar upptökur á nýju verki eftir Szy- mon – Veni Creator. Að auki voru gerðar upptökur með samspili þeirra Szymonar og Reynis Jón- assonar. Szymon hlaut ýmsar viður- kenningar, m.a. fyrstu verðlaun á Sacral Music Festival í Póllandi 1978 fyrir tónsmíð og útsetningu. Hann var borgarlistamaður Reykjavíkur 1994. Szymoni verður sungin sálu- messa í Kristskirkju í Landakoti í dag og hefst athöfnin klukkan 13. Jarðsett verður í Mszczonów í Póllandi. Kveðja frá Sinfóníuhljómsveit Íslands Þegar hringt var í mig um miðjan dag hinn 7. ágúst sl. og tjáð að Szy- mon væri látinn, brá mér hastarlega. Ekki það að ég vissi ekki að hann hafði lengi átt við þrálátan og erfiðan sjúkdóm að glíma, sjúkdóm sem lék hann oft grátt, heldur hitt að ég hafði hringt í hann tveimur dögum fyrir andlátið og rætt við hann. Honum leið greinilega ekki vel, en við ræddum um endurkomu hljómsveitarinnar á nýju starfsári og ýmislegt því tengt. Þegar við kvöddumst með miklum virktum datt mér það síst í hug að þetta væri síðasta kveðja okkar. Szymon Kuran varð annar kons- ertmeistari hjá Sinfóníuhljómsveit Ís- lands haustið 1984 eftir prufuspil sem fór fram í London. Hann hafði þá stöðu til vors árið 2000, en þá taldi hann að sér mundi vegna betur sem frjáls listamaður hér í Reykjavík, enda væru tækifærin yfrin og hann gæti um leið sinnt betur öðrum áhugamálum sínum s.s. tónsmíðum. Ári síðar var hann endurráðinn sem fiðluleikari í hljómsveitinni og var í þeirri stöðu þegar hann lést. Á þessu tímabili var aðeins einn fyrsti konsertmeistari í hljómsveit- inni og þurfti Szymon að leiða hljóm- sveitina í forföllum fyrsta konsert- meistara. Hann kom jafnframt fram sem einleikari með hljómsveitinni. Alls mun hann hafa komið fram sautján sinnum sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þegar hljómsveitin frumflutti hér- lendis tvo fiðlukonserta eftir pólska landa hans árin 1986 og 1993 lék hann einleik í bæði skiptin. Samhliða hljómsveitarstarfinu stundaði Szy- mon tónsmíðar. Hljómsveitin hefur alls flutt þrjú tónverk eftir Szymon á reglulegum tónleikum. Af þessari upptalningu má ljóst vera að Szymon og Sinfóníuhljóm- sveit Íslands voru tengd afar sterkum böndum um langt skeið. Vinátta og væntumþykja einkenndu samskipti hans og hljómsveitarinnar. Tónverk hans og hljóðfæraleikur báru vott um afar viðkvæma og fíngerða sál, en þannig einstaklingar eru berskjaldað- ir og auðvelt er að særa þá. Hann minnti mig stundum á fiðluna, hljóð- færið hans, oft fáguð dulúð en á milli hástemmdir tónar. Ef til eru eðal- menni þá var Szymon einn af þeim. Szymon var gagnmenntaður tón- listarmaður, bæði frá heimalandi sínu sem og frá Englandi. Hann var jafn- framt mikill listamaður hvort heldur sem hljóðfæraleikari eða sem tón- skáld. Sinfóníuhljómsveit Íslands þakkar skapandi, viðburðaríka en jafnframt farsæla samleið. Hans verður minnst og saknað. Í huga okkar er tregi. Börnum hans, ættingjum öðrum og vinum votta ég samúð okkar allra. Þröstur Ólafsson. Kær vinur er horfinn af sviðinu. Þegar Szymon Kuran kom til Ís- lands árið 1984 var það mitt hlutskipti að leiða hann fyrstu sporin í nýju heimalandi. Þá skaut rótum vinátta okkar sem hefur varað æ síðan. Orðið „listamaður“ er dýrt orð og að mínu mati mjög ofnotað en sú nafngift átti sannarlega við um Szy- mon. Hann var fiðluleikari af guðs náð, það að leika á fiðlu var honum jafn eðlilegt og að draga andann, hann var tónskáld gott og eiga tón- verk hans eftir að halda nafni hans á lofti, hann var drátthagur og hafði einkar fallega og sérstaka rithönd. Szymon náði fljótt góðu valdi á ís- lenskri tungu og oft furðaði ég mig á orðaforða hans sem var meiri en mað- ur á að venjast af mörgum landanum. Szymon var einkar viðkvæm sál, blíður og bóngóður og mátti hvergi vamm sitt vita. En þessi viðkvæma sál gerði það að verkum að ýmist var hann skýjum ofar eða fór niður í dýpstu lægðir öldudalsins þaðan sem hann hvarf okkur á fagurri sumar- nóttu 7. ágúst sl. Szymons er sárt saknað. Blessuð sé minning hans. Helga Hauksdóttir. Hefurðu gleymt hljómsöng gæfunnar Hefur stolt þitt týnst hefur æra þín brotnað. Hefurðu gleymt vorljóði haustvísu, hoppdansi heldurðu að dagur sé nótt himinn í djúpi. Með ljósi að utan og inn skaltu opna hægt fyrir golu og gusti og gleymérei. Einu einasta bláu blómi blíðu smáu fríðu barni Maríu. Það var í júní í sumar að við Szy- mon Kuran fiðluleikari hittumst enn og aftur. Það var á Landspítalanum, en Szymon bjó skammt frá, í fallegu timburhúsi við Laufásveg. Að því dyttaði hann og dundaði og þar samdi hann tónlist og átti flygil og það vissu kannski fáir að hann vildi sem ungur maður verða konsertpíanisti. Hann varð fiðluleikari og annar konsert- meistari við Sinfóníuhljómsveit Ís- lands. Hann veiktist fyrir nokkrum árum en bar sitt barr, hann stóð sig, hann mætti þangað sem hann átti að mæta með fiðluna sína og lék á hana af list sem afar fáum er gefin. Nú er hann allur. Hann kann að hafa gleymt hljómsöng gæfunnar, en gæfa okkar sem heyrðu hann verður söm. Geisla- diskar, fiðla, flygill. Ekkert var hon- um óviðkomandi í tónlistinni. Hann gat raunar teiknað líka og gerði það vel, þegar hann var ekki við trésmíði eða annað nostur, því listrænir hæfi- leikar hans lágu víða. Fjölskyldu Szy- mons er vottu samúð. Blessuð sé minning hans. Þórunn Þórsdóttir. Ég held að tíminn sé ekki til sé bara sjónhverfing sem við skiljum ekki fyrr en eftir dauðann hann flýtur bara allt um kring án þess þó að vera raunverulegur eða hvað … og þarna sé ég þig þar sem þú stendur í dyragættinni með kisuna í fanginu tilbúinn að kveðja og þetta andartak sem kom og fór lifir alltaf ennþá þarna einhvers staðar Við erum bæði til í draumi ég í þínum þú í mínum og þegar ég vakna heyri ég í fiðlunni á bakvið vegginn og brosi til þín þar sem þú stendur ennþá í dyragættinni með kisuna í fanginu og segir svo fallega í kveðjuskyni eins og áður „Takk fyrir að vera til“ Þórdís Björnsdóttir. Mikill meistari Szymon Kuran er fallinn frá. Það verður mikil eftirsjá að þessum mikla manni. Manni sem var æðri en margir aðrir menn. Szy- mon var eins og flestir vita snillingur í tónlist sinni og annarri list. Hann samdi ótvírætt eina fallegustu tónlist sem ég veit um og svo var hann líka flinkur að teikna, smíða og setja sam- an alls konar hluti. Hann var lista- maður hvernig sem á það er litið. Listin kom frá hjartanu og sálinni. Hann leyfði okkur hinum að sjá inn í sál sína með tónverkum sínum og túlkun sinni á tónlist. Hann var með tónverkin sín tilbúin í höfðinu, átti bara eftir að setja þau á blað. Þegar ég bjó á neðri hæðinni á Laufásveg- inum heyrði ég oft þegar tónverkin urðu til. Oft um nætur mátti heyra angurværa tóna spilaða á flygilinn eða þá þung högg í hamrinum eða hvininn í söginni því þá var of mikið að gerast í huga þessa manns, hann gat ekki sofið. Szymon var góður maður, hann var ein sú besta sál sem ég þekkti. Auð- vitað gat hann bitið frá sér en vondur var hann aldrei! Ég var spurð að því rétt eftir andlát hans hvort mér hefði þótt vænt um hann. Já, svaraði ég, mjög vænt um hann. Ég held samt að ég hafi ekki gert mér grein fyrir því hversu vænt mér þótti um þennan mann fyrr en á þessari stundu. Hann var góður vinur. Góður vinur sem hjálpaði manni oft en þurfti líka oft á hjálp að halda. Hann var veikur, mik- ið veikur, og ég held að fæstir hafi gert sér það í hugarlund hversu erfitt hann átti oft á tíðum. Fólk er svo dug- legt að loka á þessa tegund veikleika, þorir ekki að skilja eða hreint og beint vill ekki skilja hvernig það er að vera svona veikur. Oft sátum við saman og þögðum, ekki að það væri eitthvað slæmt. Nei, hann þurfti bara á fé- lagsskapnum að halda og við þurftum ekkert að tala saman. Ég veit að hann átti góða vini sem gátu hjálpað honum á þessum erfiðu stundum en svo voru aðrir sem voru fljótir að loka dyrun- um á hann. Ekki voru allir tímar erfiðir tímar hjá Szymon. Hann átti sínar góðu stundir með gleði og hlátri. Þá komst oft mikið í verk, t.d. að klára útgáfu verka, vinna í tónsmíðum og fleira. Þar naut hann dyggs stuðnings vina sinna við að koma öllum þessum framkvæmdum í verk. En eftir þess- ar tarnir varð lífið oft erfitt og þá sá maður hverjir stóðu honum næst. Szymon þótti afskaplega vænt um börnin sín og vildi allt fyrir þau gera. En það er ekki alltaf auðvelt þegar maður gengur ekki heill til skógar og oft var hann misskilinn. Honum fannst afar sárt að horfa á eftir börn- um sínum flytja til annars lands því honum fannst hann á einhvern hátt hafa misst þau of langt frá sér. Það er erfitt að þurfa að kveðja þig á þennan hátt elsku Szymon en ég vona að þér líði betur þar sem þú ert núna. Ég kveð þig með þeim minn- ingum sem ég á um þig á góðum jafnt og erfiðum stundum. Hvíl í friði, kæri vinur. Kristín Halla Bergsdóttir. Ég hef marga séð hverfa og suma sviplega, örfáa hef ég séð falla fyrir eigin sorg. Szymon Kuran þekkti ég aðeins í hálft ár en samt hef ég aldrei saknað nokkurs jafnsárt. Hann var einstakur, það ber öllum saman um. Ég læt aðra um að lýsa, sjálf ætla ég aðeins að láta mér þykja vænt um hann, ég get ekki annað; þó ég hafi verið nýtilkomin í einn af vinahópum Szymons. Hann leitaði til mín og mannsins míns – gefandi og glaður, kraftmikill og einlægur – og var inni- lega velkominn jafnt í skini sem skúr- um. Við glöddumst yfir því sem við álitum ævilöng tengsl en hann reiddi sig ef til vill meira á vináttuna en við gerðum okkur grein fyrir. Ein af náð- argáfum hans var að tengja innilega við aðra og vonandi finnur einhver hugsun sinni farveg með mér í þess- um línum þó fáar séu: Guð er of upptekinn að annast himin og jörð heyrir ekki reyrinn granna svigna bresta Hví lítur ekki Jesús upp frá lækningum sínum? Heilög móðir hleypur til kastar sér fram – fyrr en fellur dansar af gleði með feng í faðmi Himininn hvirflast í kjölfar þeirra ljær ótal litbrigði „Takk fyrir að vera til…“ „Takk fyrir að koma!!“ Samt sit ég og sakna alls sem var og hefði orðið Hér svíður hvert hugsað faðmlag hvert ósagt orð og hindrandi hik spjall öxl við öxl sem aldrei varð en Fyrirgefðu mér þú máttir fara fleygar óskir fylgja þér einar tár tindrandi falla Ég votta öllum þeim sem sakna Szymon Kuran mína dýpstu hluttekn- ingu. Jóhanna Margrét. Í minningu kærs vinar. Við Szymon kynntumst þegar ég leitaði að manni sem gæti hjálpað mér áfram í fiðluleik. Það var dálítið stressandi að taka upp símann og hringja í Szymon þar sem við þekkt- umst ekkert. Samtalið var ekki mjög langt, Szymon sagðist ekkert vera að kenna og hann væri nær hættur því. Við héldum áfram spjalli og þegar hann heyrði að ég hefði ekkert verið í klassískri tónlist spurði hann, „Nú, værirðu til í að spila eitthvað annað þá?“ Svarið var að sjálfögðu já og þá heyrðist, „Frábært! Heyrðu, komdu í kaffi á föstudaginn.“ Við Szymon urð- um fljótlega bestu vinir og satt að segja höfðum við áhyggjur af að það kæmi niður á kennslunni. Við gátum þó haldið því aðskildu og hann hikaði ekki við að segja mér til eftir falskar nótur og önnur mistök. Hann vissi ná- kvæmlega hvað þyrfti að gera til að laga hlutina. Í raun vissi hann allt um fiðluna og allt sem henni tengist. Szymon var án nokkurs efa merk- asta persóna sem ég hef kynnst. Ef bein tengsl væru á milli manngæsku og veraldlegra auðæfa þá hefði Szy- mon verið ofsalega ríkur maður. Szy- mon var virkilega einstakur og ég set hann hiklaust í hóp með mestu mönn- um heims og veit að margir sem þekktu hann eru því sammála. Fyrir ekki svo löngu síðan var Szy- mon fyrir tilviljun staddur á jazztón- leikum hér í borginni, það spurðist út að hann væri í salnum og hann var dreginn upp á svið þar sem fiðluleik- arinn rétti honum fiðluna sína. Eftir nokkra stund og agndofa áhorfendur ætlaði Szymon svo að skila fiðlunni. Fiðlarinn sem fyrir var neitaði pent að taka við henni, hann hefði ekkert haft að gera á sviðið aftur eftir slíka spilamennsku og hélt sig við tromp- etleik eftir það. Ég hitti Szymon daginn eftir og hann sagði, „Veistu, mér hefur ekki liðið svona vel í mörg ár, þetta voru svo góðir spilarar.“ Szymon, ég veit að ég og allir þínir félagar búum að því alla okkar ævi að hafa átt þig að. Svo ég noti þín orð: takk fyrir að vera til. Ólafur Egilsson. Kæri Szymon minn. Þú heimsóttir mig þriðju nóttina. Skælbrosandi eins og þú átt að þér. Augun þín lýstu af hamingju og ást. Sorgin og doðinn hurfu mér og ég sagði við þig undrandi, glöð: Szymon, þau sögðu að þú værir dáinn. María, sagðir þú, það er ekki rétt. Ég er á leið til Póllands og er kominn til að kveðja þig. Þú kysstir mig og faðmaðir mig innilega eins og þú átt að þér með fiðlutöskuna í annarri hendi uppábúinn í frakkanum þínum með alpahúfuna á höfðinu. Takk fyrir að vera til, heyrðist hvíslað í eyra mér. Ég votta börnum Szymons og öll- um nákomnum honum mína innileg- ustu samúð. María Ásmundsdóttir Shanko. SZYMON KURAN Þú komst með rauðvíns- flösku upp á arminn. Við hjónin drukkum með þér verkalýðskaffi, ræddum um Pólland, fórum í göngu, hlýddum á tónlist og drukk- um enn meira kaffi. Við snæddum síðan saman kvöldverð. Við kvöddumst og vorum með áform um að hitt- ast aftur. Af því verður ekki – dreggjar dagsins hafa ver- ið drukknar. Far vel félagi og takk fyrir komuna. Elín Gunnlaugsdóttir. Elsku Szymon. Fáir voru jafn elskulegir og þú. Fáir gáfu meira af sér en þú. Fáir kvöddu jafn inni- lega og þú. Og fáir gátu þakkað jafn vel og þú. Ef ég gæti það, þá yrði greinin mín löng. En maðurinn er mis- jafn. Takk kærlega fyrir allt, elsku Szymon. Kveðju þinni breyti ég ofurlítið og skrifa: Takk fyrir að hafa verið til. Þín, Líney Halla. HINSTA KVEÐJA

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.