Morgunblaðið - 25.08.2005, Blaðsíða 36

Morgunblaðið - 25.08.2005, Blaðsíða 36
36 FIMMTUDAGUR 25. ÁGÚST 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR vélum um fyrirsjáanlega framtíð. Þorsteinn hafði sem fyrirlesari og kennari sterk áhrif á alla sem á hann hlýddu og þáttur hans í vexti heim- speki við Háskóla Íslands á áttunda áratugnum, sem gekk kraftaverki næst, og viðgangi hennar æ síðan var mikill. Hann lét sér einstaklega annt um nemendur sína eins og við getum um borið þar sem bæði börn okkar voru í þeim hópi. Sem rúmlega tvítugur eldhugi fékk Þorsteinn þá hugmynd að end- urvekja Lærdómslistafélagið sem stofnað var í anda upplýsingarinnar á 18. öld til að uppfræða íslendinga og bæta vísindakunnáttu þeirra og bókmenntasmekk. Þótt ekki hafi formlega verið stofnað nýtt félag með þessu nafni hratt Þorsteinn hugmyndinni í framkvæmd með Lærdómsritum Hins íslenska bók- menntafélags sem hann ritstýrði í um þrjátíu ár. Metnaðurinn var mik- ill og þær kröfur sem hann gerði til sjálfs sín og annarra sem að þýðing- um, formálum og skýringum komu, voru frá upphafi slíkar að þessi rit- flokkur hlýtur að teljast með merk- ustu framlögum Þorsteins til ís- lenskrar menningar og er þó af nógu að taka. Þorsteinn var ekki síðri sem fag- urkeri en fræðimaður og samræðu- snillingur. Hann var fádæma smekk- maður á bókmenntir og tónlist enda sjálfur bæði ljóðskáld og tónskáld. Hann var einnig listamaður á sviði matargerðar og frábær gestgjafi. Margar af þeim ógleymanlegu stundum sem við áttum saman eru í minningunni tengdar ilmi af góm- sætum réttum og góðum vínum, hvort sem var í stórum veislum hans á Aragötunni eða Mímisveginum, eða sameiginlegri tilraunastarfsemi ásamt Reyni Axlessyni í litla eldhús- inu okkar á Sóleyjargötunni. Við kveðjum góðan dreng og samferða- mann sem sannarlega gerði líf okkar auðugra. Guðrún Kvaran og Jakob Yngvason. Þorstein Gylfason hitti ég í fyrsta sinn haustið 1995 á tónleikum mín- um í Kaffileikhúsinu. Að þeim lokn- um kom hann baksviðs og þakkaði mér fyrir á sinn einstaka hátt. Stuttu síðar hafði hann samband við mig til þess að segja mér að hann hefði áhuga á að þýða fyrir mig ljóð Bert- olts Brecht til söngs. Í framhaldi af því bauð ég honum heim í mat til skrafs og ráðagerða. Strax á þessum fyrsta fundi okkar varð mér ljóst að Þorsteinn var gæddur sérstöku næmi fyrir hinu spaugilega og grát- broslega í mannlegri breytni og óf það inn í frásögur sínar af hreinni snilld. Sögurnar urðu margar þetta kvöld og átti eftir að fjölga til muna þegar fram liðu stundir; fullar af lífs- visku, fróðleik og fegurð eins og sagnamaðurinn sjálfur. Þetta kvöld markaði upphaf tíu ára órjúfandi vináttu okkar Þorsteins, sem hélst allt til hinstu stundar. Ég læt öðrum eftir að tíunda öll hans mörgu afrek á fræða- og lista- sviðinu, en ég get ekki látið hjá líða að minnast á kvæðakvöldin hans Þorsteins á Akureyri sem ég, ásamt þeim Jóni Michael Clarke óperu- söngvara og píanóleikaranum Rich- ard Simm, bar gæfu til að vera þátt- takandi með honum í. Frumkvæðið að fyrsta kvæðakvöldi Þorsteins í Deiglunni á Listasumri átti Sigurður Jónsson listunnandi, og alls urðu kvæðakvöldin fimm sem Sigurður skipulagði af óviðjafnanlegri alúð. Hin fyrstu fjögur voru Ó bræður í mannheimi (1999); Ástin, tíminn og dauðinn (2000), sem einnig var flutt á Ísafirði í október sama ár; Endir allra funda (2001) og Á morgun ó og aska (2002). Síðasta kvæðakvöldið, sem bar yfirskriftina Dansinn fram í dauðann, fór fram fyrir aðeins rúm- um mánuði og óraði þá engan fyrir því að það yrði jafnframt svanasöng- ur þessa yndislega samstarfs. Þor- steinn ljómaði af tilhlökkun þegar við „klíkan“, eins og hann kallaði hópinn, vorum að nesta okkur til far- arinnar norður og að vanda fór hann á kostum þegar hann flutti texta sinn þetta kvöld, hrífandi sambland af skáldskap, fróðleik og skemmtileg- heitum. Víst er að kvæðakvöld Þor- steins verða öllum sem á þau hlýddu eftirminnilegur vitnisburður um snilli hans og frásagnargáfu, enda var honum ævinlega óspart og inni- lega fagnað að kvöldi loknu. Norðanferðum okkar Þorsteins fylgdu ávallt skemmtiferðir hingað og þangað um sveitir landsins, en sjálfur kaus hann fremur að aka norður en að fljúga. Eftir kvæða- kvöldin dvaldist okkur gjarnan á Ak- ureyri um hríð í skjóli góðra vina og Þorsteinn lagði sig í framkróka við að gleðja mig með lengri og skemmri heimsóknum á fallega og áhuga- verða staði á svæðinu. Þær ferðir eru allar dýrmætar og ógleymanlegar. En nú er komið að leiðarlokum – kveðjustundinni þar sem ég þakka ástkærum vini mínum, Þorsteini Gylfasyni, samfylgdina með trega og sárum söknuði, en líka einlægu þakklæti fyrir að hafa fengið að njóta leiðsagnar hans, trúnaðar og vináttu. Margar fallegar gjafir gaf hann mér og sumar þeirra voru ljóð – skínandi ljóðaperlur sem ég mun varðveita eins og sjáaldur auga míns. Eftirfarandi ljóð er ein þeirra, en aðdraganda þess má rekja allt aftur til fyrsta fundar okkar fyrir tíu árum. Þá sagði ég Þorsteini bernskusögu af afa mínum „blá- dúfu“, en bládúfur voru haföldur í líki hafmeyja sem afi fléttaði inn í ævintýrin sín. Að frásögu lokinni trúði ég Þorsteini fyrir því að hefði ég fengið snefil af skáldagáfu í vöggugjöf væri ég fyrir löngu búin að yrkja ljóð um bládúfur. Eftir þetta kvöld var aldrei minnst á blá- dúfurnar hans afa, þ.e.a.s. ekki fyrr en fyrir tveimur árum á afmælisdeg- inum mínum þegar Þorsteinn færði mér óvænt Bládúfuvísur sínar að gjöf: Héldu um haf aldur húfum. Bládúfum brá er stýrandi landa leysti þær. Lýstist af skipstöfnum hæstum höfn í eldi álfoldar af auði glóðrauðum þá. Sól fór að bóli og bládúfa hóf sig há við sindur á sundum, skartaði bjartasta trafi og í hafið hneig í kvöldsólareldi í auðan blóðrauðan sjá. Svona var hann örlátur og gjaf- mildur vinur. Guðrúnu, móður Þorsteins, litlu systkinunum Gylfa Þorsteini og Eyju, sem Þorsteinn sá ekki sólina fyrir, og öllum öðrum ástvinum hans sendi ég dýpstu samúð mína og fjöl- skyldu minnar. Sif Ragnhildardóttir. Þorsteinn var sumarbarn í marg- víslegum skilningi þess orðs. Fædd- ur í sumrinu, ljómaði líkt og sólin. Hló innilega og dátt (líkt og sólin myndi gera ef hún bara kynni). Hlýja hans og örlæti á gáfur sínar urðu mörgum innblástur til afreka. Vafalaust hans stærsta afrek, því auðlegð sinni sáldraði hann allt um kring. Þorsteinn kaus hinsvegar að halda ákveðinni fjarlægð við sólina, undi sér ekki vel í miklum hita, leið best í loftkældum skólastofum, fræðasetr- um, í stofunni á Mímisveginum, í leikhúsinu eða raflýstum tónleika- sölum. Þess á milli fór hann í reglu- legar heimsóknir til vina í Vín, Cam- bridge og Harvard. Þetta voru heimahagarnir. Eitt sinn trúði hann nemendum í fornaldarheimspeki fyrir því að til Grikklands hefði hann aldrei komið. Það þótti með öllu ótækt. Í félagi við vin minn og samstúdent Halldór Friðrik og Sigurð A. Magnússon, annálaðan Grikklandsvin, voru lögð drög að pílagrímsferð Þorsteins til vöggu vestrænnar menningar. Okkar maður steig út úr flugvél- inni, klæddur Seersucker-jakkaföt- um með sólbrillur, nýkominn frá Vín þar sem hann sótti fyrirlestra í eðl- isfræði og fylgdist með píanókeppni kennda við Beethoven. Við biðum hinum megin við hliðið, Akrapólis- megin. Hitinn í Aþenu þennan dag var 43 gráður, leigubílar í kaótískri röð og svitastorknir ferðamenn að troðast hver um annars tær. Þarna mættust ólíkir menningarheimar, Grikkland hið forna og Grikkland nútímans, Þorsteinn og túristarnir. Við ferðuðumst í gamla heiminum og okkur þótti gaman. Við skunduðum um víðan völl, Akrapólis, Delfí og Akademíu Plat- óns svo eitthvað sé nefnt. Eitt sinn sem oftar rökræddu Sigurður og Þorsteinn af kappi og að þessu sinni um löggengi heimsins og andmælti Þorsteinn. Taldi það ágætt dæmi að fylgjast með fuglunum sem flögruðu milli trjágreinanna allt í kringum okkur. Það væri varla hægt að sjá einhverja reglu í flugi þeirra, eða segja til um hvað þeir gerðu næst. Í þeim svifum flaug fugl yfir og skeit á hausinn á Þorsteini – (þögn) – Þor- steinn skellti upp úr og hváði að þarna hefði löghyggjan endanlega verið sönnuð, fuglinn hlaut að gefa skít í andmæli hans. Síðar átti Þorsteinn eftir að lýsa þessari ferð í bréfum til vina sinna sem einni skemmtilegustu viku í lífi sínu. Ég er ekki frá því að svo hafi átt við hvern um sig í hópnum. Okk- ur hina einkum fyrir þær sakir að njóta andríki góðs vinar og læri- meistara. Sjö árum síðar skein sólin skært í garðinum á Aragötunni. Við fyrrver- andi nemendur vorum að kasta á Þorstein kveðju í tilefni afmælisins, sjúkdómurinn hafði tekið yfir og það var af honum dregið. Þorsteinn ræddi um sjúkdóminn og dauðann af æðruleysi þess á milli sem hann stakk inn einni og einni gamansögu og hló í sumrinu. Við mættum með eitthvað smáræði og Þorsteinn var sífellt að þakka fyrir sig og komuna. Nei, Þorsteinn minn, þakka þér miklu fremur. Þakka þér fyrir alla birtuna og ylinn. Sæmundur Norðfjörð. Hún er mér ógleymanleg fyrsta kennslustundin hjá Þorsteini Gylfa- syni. Fagið var frumspeki, fyrsti tíminn minn í heimspekináminu í Háskólanum haustið 1994. Þorsteinn var góður kennari, rétt einsog hann var heimspekingur á heimsmæli- kvarða. Tær og frumleg hugsun hans, sett fram með tilþrifum og rit- stíl sem var einstakur, markaði djúp spor í tilveru mína og gerði háskóla- gönguna að þeim mikilvæga tíma sem hún var í lífi mínu. Við Þorsteinn urðum upp úr kynn- um okkar sem nemandi og kennari góðir vinir. Það var vinátta sem breytti lífi mínu og allri hugsun um heiminn. Lífið og tilveruna. Eftir Þorstein liggur fjöldi rit- smíða. Hvað er réttlæti? þar sem Þorteinn kynnti til sögunnar verð- leikakenningu sína um réttlæti er t.d. á meðal hans bestu verka. Þar rennur það allt saman; málið, stílinn og frumleikinn. Rekið áfram af heimspekilegum ákafa Þorsteins og tilfinningu hans fyrir réttlætinu, sem var honum mjög hugleikið í heim- spekiiðkuninni. Bækurnar hans; Til- raun um manninn, Tilraun um heim- inn, Að hugsa á íslensku og Rétt og rangt bera hæfileikum hans órækt vitni, hver með sínum hætti. Þá ekki síður ljóðaþýðingarnar. Þar naut listamaðurinn sín til fulls. Kynni mín af Þorsteini og vinskap okkar mun ég alla ævi verða almætt- inu ákaflega þakklátur fyrir. Sér- stakur persónuleiki þessa mikla heimspekings og listamanns var með þeim hætti. Það er með miklum trega sem ég kveð þennan vin minn svona allt of snemma. Lengi hafði staðið til að hittast en lífið er jafn ófyrirsjáanlegt og framvindan í heimspeki Þorsteins. Minningin lifir í verkum Þorsteins og með þjóðinni um aldur. Björgvin G. Sigurðsson. Þorsteinn Gylfason, vinur okkar, er dáinn. Hann var að mínu mati af þeirri tegund rithöfunda sem nú virðast vera að komast í útrýmingarhættu, nefnilega þeirra sem ólust upp í bók- menningu heimilanna fyrir daga sjónvarpsins, og skrifaði því fyrir þjóð sem taldi sig standa báðum fót- um í heimi ritmiðlanna, öðrum frem- ur. En nú, á eftir okkur af ’68-kyn- slóðinni, eru að koma upp skjámiðlakynslóðir með rithöfund- um, lesendum og bókmenntafræð- ingum, sem standa öðrum fæti í af- þreyingarmenningu, hvort sem það eru spennusögur, barnabækur, vís- indaskáldsögur, myndasögur, sjón- varpsmyndir, hljóðvarpsþættir eða þá bara ferðalög um veraldarvefinn eða sólarlöndin. Eða þá að þeir lesa skáldsögur og ljóð sem eru útþynnt af öllu þessu. Blaðagreinar virðast nú vera hvað háfleygasta lestrarefn- ið í raun. Hverjir eiga þá að halda utan um arfleifð rithöfunda eins og Þorsteins, eða Sartres, eða íslenskra þjóð- skálda, þegar stoðkerfi svosem al- mennir lesendur, bókaforlög og styrktaraðilar eru að reyna að teygja sig sem mest niður til vaxandi milli- menningar og múgmenningar? Ég tel að þar muni íhaldssemi bók- menntasamfélagsins koma okkur til bjargar, einkanlega í formi bók- menntaprófessora og hinna vand- fýsnari bókmenntaunnenda. En það var einmitt á málþingi bókmenntafræðinga um ljóðabók- menntir, í H.Í. nýlega, sem ég hitti Þorstein síðast. Munum við báðir hafa getað sannfærst þar um að það vígi var ekki að bregðast okkur enn. Þorsteinn las fyrir nokkru upp úr þýðingum sínum á grískum fornbók- menntum á árlegum ljóðaupplestri okkar í Hellasarhópnum, en það eru skáld sem hafa vitnað mikið í hell- enskar og rómverskar bókmenntir. En ég hafði þó kynnst honum löngu áður, þegar ég sem menntaskóla- nemi fór til þessa unga háskólakenn- ara með hofmóðlega ritsmíð í far- teskinu. Tók hann þá á móti mér, feimnu og kvíðafullu ungmenninu, með alþýðlegri vinsemd. Vil ég nú kveðja þennan Rithöf- undasambandsfélaga minn með til- vitnun í þýðingu mína á helgileik T.S. Eliots um Tómas Becket, erki- biskup í Kantaraborg á miðöldum, en þar er hinn sæli biskup látinn segja á einum stað: Við vitum lítið um framtíðina nema að frá einni kynslóð til annarrar gerast sömu hlutirnir aftur og aftur, fólk lærir lítið af reynslu annarra. En í lífi sérhvers manns kemur sama tíðin aldrei tvisvar. Skerum því á strenginn, köstum gamla snákshamnum. Aðeins fíflið, í flónsku sinni heldur að hann geti snúið hjólinu sem hann sjálfur hverfist á. Tryggvi V. Líndal. Við andlát Þorsteins Gylfasonar er mér skapi næst að rjúka eitthvað og mótmæla. Andmæla. Hvaða rök eru fyrir þessu? Þó svo að Þorsteinn hafi kennt mér manna mest um gagnrýni og um að færa rök, þá lærði ég líka af honum að þetta snýst ekki allt um rök, heldur líka um til- finningar og um listina að lifa. Þor- steinn segir nefnilega á einum stað: „Líf hvers manns ætti líka að geta verið listaverk, bara ef hann fengi að lifa því til fulls. En það fá menn ekki, og þess vegna verðum við að berjast fyrir réttlætinu.“ Að lifa lífi til fulls er, allavega í einum skilningi, að vera sannur sjálfum sér, að fá að gera og lifa eins og manni stendur hugur til, að njóta sannmælis. Þessi sannmælishugmynd, sú hugmynd að það sé réttlætismál að sannleikurinn um hvern og einn fái að koma fram og njóta sín, er raunar kjarninn í hugsun Þorsteins um rétt- læti og ranglæti. Af þessu leiðir, eins og Þorsteinn útskýrði, og vitnaði þá til þess sem John Stuart Mill hafði eftir Wilhelm von Humboldt, „að um mannlegan þroska í ýtrasta marg- breytileika sé meira vert en alla hluti aðra“. Einn vandinn við þessa hug- mynd er að mannshugurinn getur ekki vitað hvers hann fer á mis, fyrr en hann þá þegar veit hvað það var sem hann áður vissi ekki. Líf Þor- steins var, á sinn hátt, ein samfelld tilraun til þess að opna huga annarra og stuðla þannig að því, eins og hann sagði í eilítið öðru samhengi, „að verðleikar mannlegra einstaklinga fái að koma fram“. Þess vegna var Þorsteinn ómetanlegur. Ég kynntist Þorsteini fyrst sem höfundi, þá sem kennara, og loks sem samverkamanni og vini. Þor- steinn var enginn venjulegur kenn- ari. Eitt er, hversu einstakur fyrir- lesari hann var. Það var engin þörf á því fyrirfram að hafa áhuga á því sem Þorsteinn talaði um. Allt sem hann fjallaði um varð áhugavert. Hann kunni þá list, sem er fáum gef- in, að kveikja í fólki. Fyrirlestrarnir voru vissulega ein- staklega vel skipulagðir, Þorsteinn fyndinn og skemmtilegur, en það sem gerði gæfumuninn var eldmóð- urinn og þessi einlægi og brennandi áhugi á hugmyndum, sem var ómót- stæðilega smitandi. Þetta var bein- línis skemmtun. Reyndar tekur Þor- steinn fram öllum fyrirlesurum sem ég hef kynnst síðar, hvort sem er við háskóla á Englandi eða í Bandaríkj- unum. Annað er, að Þorsteinn var með eindæmum alúðlegur og hjálp- legur kennari. Það var hann sem út- skýrði fyrir mér einhvern sólríkan haustdaginn, þar sem ég sat hjá hon- um á litlu skrifstofunni, að það væri ekki nóg að kunna skil á efni, og ekki heldur nóg að skilja efni til hlítar. Það væri nauðsynlegt að vera fær um að setja efni fram svo aðrir gætu skilið án óþarfa fyrirhafnar. Og það var ekki nóg. Þorsteinn vildi sjá nemendur glíma við efni, standa á eigin fótum í hugsun sinni. Sérstak- lega kunni hann að meta þegar nem- endur andmæltu hans eigin hug- myndum. Þannig var Þorsteinn. Hann lagði sig í líma við að laða það besta fram í nemendum sínum. Hann opnaði huga og heima. Þor- steinn var enginn venjulegur sam- verkamaður. Við unnum saman að tveimur ritgerðasöfnum hans, og reyndar ýmsu öðru. Hlutverk mitt var að gera athugasemdir við hand- rit Þorsteins, bæði stíl og efni. Fyrir mig, ungan og óreyndan, var þetta afskaplega undarlegt hlutskipti, eins og mér hafði ávallt þótt mikið til um skrif Þorsteins. Var hægt að skrifa betur en hann? Minn eini kostur í þessum „ógöngum“, sýndist mér, var að ég legði mig gjörsamlega allan fram um það, að vera ósammála meistaranum, og hafa allt á hornum mér um þessar ritgerðir. Margur lærimeistarinn hefði eflaust orðið pirraður og þreyttur á unggæðings- skapnum. En slíkur var rausnar- skapur Þorsteins, að hversu ómerki- legar sem athugasemdirnar voru, tók hann þeim öllum af einstöku jafnaðargeði. Alltaf var tími til að ræða málin fram og aftur og hann út- skýrði í þaula af hverju hann vildi áfram vera ósammála. Það átti að heita að ég væri eitthvað að aðstoða Þorstein, en oftar en ekki snerust þessir fundir uppí ævintýralegustu lærdómsstundir sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Rökræðurnar voru ekki alltaf auðveldar, en hver stund með Þorsteini var engu að síður veisla. Hann átti alltaf sögur héðan og þaðan af mönnum og málefnum, og um allt milli himins og jarðar. Hann gat talað um allt, fannst mér, og hafði alltaf eitthvað áhugavert og skemmtilegt að segja. Enginn var fyndnari en Þorsteinn, þegar sá gáll- inn var á honum. Hann kunni að segja frá, og jafnvel þó hann færi í marga ranghala og anga á efni kom hann sér jafnan aftur að kjarna málsins, annaðhvort með stórkost- lega fyndnum endahnút eða með einni setningu, sem dró allt saman í eitt, svo allt varð skýrt og auðskilið. Þorsteinn var enginn venjulegur vinur. Fundir okkar hafa reyndar verið alltof strjálir nú síðari ár. Ég flaug utan til náms beint úr einni lærdómsveislunni. Eftir það varð það órjúfanlegur hluti af Íslandsför að líta við á Mímisveginum og ræða málin. Eins og svo margir hafa reynt var Þorsteinn áhugasamur um allt, ávallt jákvæður og hvetjandi og ein- læglega umhugað um velferð nem- enda sinna og vina. Alltaf fór maður af þessum fundum fullur innblásturs og reiðubúinn að bjóða heiminum byrginn. Eins og ég á nú erfitt með að ímynda mér Ísland án Þorsteins, er líka erfitt að ímynda sér Háskóla ÞORSTEINN GYLFASON

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.