Morgunblaðið - 09.04.1980, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 09.04.1980, Blaðsíða 29
MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 9. APRÍL 1980 37 Minning: Knut Ottersted rafveitustjóri Fæddur 11. des. 1891. Dáinn 1. apríl 1980. í dag er til moldar borinn Knut Otterstedt rafveitustjóri, sem lést í Fjórðungssjúkrahúsinu á Akur- eyri 1. apríl, eftir alllanga legu á 89. aldursaíi. Með honum er horf- inn einn elsti starfsmaður bæjar- ins, og um leið sá maður, sem var einn af frumherjunum í rafvæð- ingu hans þar eða hann hafði stjórn þeirra mála á hendi um 40 ára skeið. Þegar vér lítum á þessi atriði sjáum vér best, hversu íslensk rafvæðing og sú iðnþróun er henni fylgdi, er ung. Knut Otterstedt kemur hingað þrítugur að aldri, gerist fyrsti rafveitustjórinn, og hefir þannig lifað alla þróunar- sögu þessa mikla fyrirtækis, sem undir hans stjórn þróaðist frá smáorkuveri við Glerá upp í hina miklu Laxárvirkjun, sem var ný- reist eitt af stærstu orkuverum landsins. Með starfi sínu um áratugi varð Knut Otterstedt þannig einn frumherjanna í raf- væðingarsögu landsins, og þar lagði hann fram krafta sína og kunnáttu meðan starfsdagur ent- ist, en um leið varð hann einn þeirra manna, er sköpuðu sögu Akureyrar um áratugi á fyrri hluta þessarar aldar og fram yfir hana miðja, einmitt á þeim árum, sem vöxtur bæjarins var örastur, og hann óx úr viðjum gelgju- skeiðsins yfir í fullmótaðan bæ. Fátt er það, sem átt hefir meiri þátt í þeim vexti en rafvæðing bæjarins en þau mál voru í hinum traustu höndum Knut Otterstedts Knut Otterstedt fæddist 11. desember 1891 í Dalsland í Svíþjóð, þar sem faðir hans var kornmyllueigandi. Var hann fjórði í röðinni í 10 systkina hóp, en af honum lifa nú þrjár systur. Otterstedt lauk raffræðings- prófi frá Chalmers tekniska Inst- itut í Gautaborg 1919. Næstu árin starfaði hann við ýmis rafveitu- störf einkum í Helsingborg og veitti þá um skeið forstöðu Hels- ingborgardeild fyrirtækisins J.L. Eriksen. Til Akureyrar fluttist hann 1922, og þar varð síðan starfsvettvangur hans og saga. Rafveita Akureyrar varð til á árunum 1921—1922, með því að virkja Glerá sunnan við Banda- gerði, sem enn má sjá merki til. Ekki var þá íslenzkri verktækni lengra komið en fá varð sænskt fyrirtæki til að byggja virkjunina, sem ekki mundi þykja nú stórt mannvirki, enda var orka hennar einungis 330 hestöfl, en var samt næst stærsta virkjun í landinu á þeim tíma. Fyrir atbeina umsjón- armanns verksins, er Sandell hét var Otterstedt ráðinn til að sjá um lagningu bæði háspennu- og lág- spennulína, en línubygging mun hafa verið sérgrein hans. Þegar rafveitan síðan tók til starfa haustið 1922 var hann ráðinn rafveitustjóri. Það mætti ef til vill þykja undarleg ráðstöfun, að ráða útlendan mann til slíks trúnaðar- starfs, en þar kom til, að naumast var um nokkurn Islending að ræða á lausum kili, sem hefði kunnáttu og færni til að takast þann vanda á hendur, og þann stutta tíma, sem Otterstedt hafði starfað hér hafði hann skapað sér traust og vináttu þeirra, sem honum kynnt- ust, og sýnt að honum var lagið að setja sig inn í íslenska staðhætti og viðhorf. Og Otterstedt brást ekki trausti því, er honum var sýnt. Hann var framkvæmdar- stjóri Rafveitu Akureyrar í rúm 40 ár eða til ársloka 1962, og frá því Laxárvirkjun var gerð var hann einnig framkvæmdastjóri hennar til ársloka 1965. Hann var þannig í fararbroddi um raf- magnsmál Akureyrar og nær- sveita í meira en fjóra tugi ára. Undir hans stjórn óx fyrirtækið úr litlu Glerárvirkjuninni með sín 330 hestöfl í Laxárvirkjun II er gaf 11500 hestafla orku. Þessar tölur gefa nokkra hugmynd um hversu umsvif og ábyrgð rafveitu- stjórans uxu frá ári til árs, en þó kemur það ef til vill enn betur fram, er vér athugum, að á sama tíma meira en fjórfaldaðist fjöldi bæjarbua, og notkun rafmagns varð sífellt víðtækari eða frá því að vera nær eingöngu til ljósa, í það að verða meginorkan til hverskonar iðnaðar, sem óx upp á Akureyri í ríkari mælikvarða en annars staðar á landinu, auk þess sem hin daglegu not urðu sífellt meiri og mikilvægari með tilkomu allra hugsanlegra tækja. Það leik- ur ekki á tveimur tungum, að rafmagnið átti drýgstan þáttinn í, að gera Akureyri að iðnaðarbæ. Þegar Otterstedt hóf störf voru umsvif rafveitunnar lítil, starfs- menn fáir og starfsskilyrði frum- stæð. Svo mátti kalla fyrstu árin, að rafveitustjórinn yrði alls stað- ar að hafa hönd í bagga, og taka sjálfur til höndum, bæði til að leiðbeina óvönum starfsmönnum og vinna með þeim störfin. Kom honum nú að góðu haldi, að hann var eigi síður vanur hverskyns útistörfum en hinni fræðilegu hlið, sem til starfs hans heyrði. Margt var við að stríða. Bilanir voru alltíðar, og eftir að Laxár- virkjun kom til sögunnar hinar miklu og tíðu rennslistruflanir, sem myrkvuðu bæinn og stöðvuðu æðaslátt hans ef svo mátti segja dögum saman. Spurði hann þá hvorki um erfiði eða lengd vinnu- tíma, heldur var á verði og að vinnu, svo lengi sem nauðsynin krafði. Hann skildi flestum betur, hvað í húfi var og þörfinni varð að sinna. Var hann fáum mönnum líkur í þeim efnum enda vinnu- þrek hans flestum mönnum meira. Naumast mun Ottersted hafa hugsað sér að setjast að á íslandi, er hann kom hingað fyrst. En enginn má sköpum renna. Og drengskaparbragð var það af hans hálfu, að hverfa frá ættlandi sínu og fjölskyldu til að taka a sér erfitt og annasamt starf hér úti í fásinninu. Var það gæfa Akureyr- ar, að hann réðst til starfans og gæfa hans, því að hér eignaðist hann ágæta konu, og leysti af hendi mikið þjóðnytjastarf, sem ekki gleymist. Vel má vera, að til þessa starfs hefði fengist maður með meira frumkvæði og ákafari framkvæmdahug, en enginn, sem var fyrirtækinu trúrri eða traust- ari, og mörgum betur skildi hann, hvað var fært, og hverju væri unnt að fresta, því að honum var gætni í blóð borin. Þykist ég mæla þar af nokkrum kunnleika á stjórnun hans og starfi, þar eð ég sat í stjórn rafveitunnar og Laxár- virkjunar í nær tvo áratugi. Það var fátt ,sem fór framhjá Otter- stedt í daglegum störfum og rekstri, án þess þó að yfirsýn hans drukknaði í smáatriðum. Hvert mál, sem til stjórnarinnar kom, lagði hann vel undirbúið fyrir fundi, svo að létt var að átta sig á því, og sjaldan fundust þar betri lausnir en þær, sem hann lagði til. Starf Otterstedts hafði það í för me sér, að hann hafði frá upphafi nokkur mannaforráð, sem vitan- lega jukust eftir því sem fyrirtæk- ið óx. Frá upphafi lét hann sér annt um starfsmenn sína var eigi síður félagi þeirra og vinur en húsbóndi. Gat hann sér miklar vinsældir meðal þeirra, enda var það ekki einungis, að hann væri stjórnandinn, heldur tók hann þátt í vandamálum þeirra, og var í senn traust margra og hjálpar- hella ef með þurfti. Ekki munu þeir margir útlend- ingarnir, sem gerst hafa íslensk- ari en Knut Otterstedt. Hann hóf þegar að leggja sig eftir íslenskri tungu, og náði á henni betri tökum en þorri annarra útlendinga. Hann háði sér snemma mikinn orðaforða, enda las hann mikið íslenskar bækur og blöð, og ekki síst fornsögurnar á fyrstu árum sínum hér. Taldi hann sig einkum hafa lært málið af þeim. Sjald- gæft var að hann beygði orð skakkt, en þó hygg ég málið hafi ætíð verið honum nokkur fjötur um fót, ef hann þurfti að tjá sig í ræðu, og kom þar ekki síst til sú vandvirkni hans og stolt, að segja heldur færra, en skrumskæla mál sitt. En það var ekki einungis að hann lærði íslenska tungu. Hann samdi sig í hvívetna að íslenskum háttum og hugsunarhætti. Var í einu orði sagt íslenskur í anda og athöfnum, þótt fjarri færi því, að hann gieymdi föðurlandi sínu, sem hann ætíð var tengdur traustum böndum. Otterstedt kvæntist Lenu Krist- jánsdóttur 29. jan. 1927, og var það honum mikið gæfuspor. Lena er innborinn Akureyringur, mikil húsmóðir, gáfu kona og listhneigð. Var hún um langt skeið virk í tónlistarlífi bæjarins. Heimili þeirra var í senn hlýtt og fagurt, bar það vitnisburð um smekkvísi og prúðmennsku húsbændanna og sameinaði sænska og íslenska heimilismenningu. Var heimili þeirra víða kunnugt fyrir gestrisni og menningarbrag. Voru þeir eigi fáir gestirnir, innlendir og erlend- ir, sem notið hafa gestrisni þeirra hjóna, því að margir áttu erindi við húsbóndann vegna starfs hans, en allir eru á einu máli um það, að í návist þeirra leið þeim vel. Sonur þeirra hjóna er Knútur rafveitustjóri, er tók við lífsstarfi föður síns, og kjörson áttu þau Hauk, sem heima á í Reykjavík. Knut Otterstedt var manna mestur á velli, höfði hærri en flestir aðrir, beinvaxinn, virðu- legur í framgöngu og hélt reisn sinni fram í háa elli. Vafalaust var hann afrenndur að afli og fór þannig saman líkamlegt atgervi og sterk skaphöfn, hvorttveggja rismikið og traust. Svipmikill var hann og sviphreinn. Hversdags- lega var hann fálátur gat jafnvel virst stuttur í spuna við fyrstu kynn, en það hvarf brátt, því að hjartað var hlýtt og hugurinn góðviljaður. Hann var manna glaðastur í góðum vina hópi, vinsæll og vinafastur. Ekki tók hann mikinn þátt í almennum félagsskap, en löngum var gott til hans að leita um aðstoð við góð málefni, enda maður örlátur í eðli sínu og ljúft að leysa hvers manns vanda. Og nú er Knut Otterstedt allur. Um áratugi gegndi hann einni af mestu trúnaðarstöðum bæjarfé- lagsins. Margir minnast hans vegna starfa hans, en þeim sem best þekktu verður þó persóna hans hugstæðari, þar ber hann hærra en aðra eigi síður en á mannþingum. Bærinn er svip- minni að honum látnum. Að endingu þakka ég Otterstedt fyrir löng og góð kynni, og sendi Lenu og fjölskyldu hans allri alúðarkveðjur. Steindór Steindórsson frá Hlöðum Þann 1. apríl s.l. andaðist á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akur- eyri Knut Otterstedt fyrrverandi rafveitustjóri. Hann var af sænsk- um ættum, hlaut menntun sína í Svíþjóð og kom til starfa við byrjunarframkvæmdir Rafveitu AkureyFar eftir að hafa starfað um árabil í heimalandi sínu. Knut Otterstedt var síðan rafveitustjóri er Rafveita Akureyrar hóf starf- semi sína. Hann kvæntist íslenskri konu Lenu Kristjáns- dóttur. Þau hjónin hafa ætíð átt heima á Akureyri og var heimili þeirra þekkt fyrir höfðingsskap og rausn. Þau munu varla finnast mörg fyrirtæki sveitarfélaga hér í landi, sem tengjast eins mikið starfs- sögu og ævistarfi eins manns og Rafveita Akureyrar tengist ævi- starfi Knut Otterstedt. Hann kom til starfa við Raf- veitu Akureyrar áður en hún hóf rekstur sinn, varð fyrsti rafveitu- stjórinn og gegndi því starfi í um fjörutíu ár eða til ársloka 1962. Ijá tók sonur hans, Knútur, við starfi rafveitustjóra á Akureyri og hefur hann gegnt því með miklum ágæt- um til þessa dags. Knut Otterstedt stóð í farar- broddi og leiddi Rafveitu Akur- eyrar í gegnum alla byrjunarörð- ugleika fyrirtækisins, og hann stjórnaði með glæsibrag og dugn- aði uppbyggingu og þróun rafveit- unnar á miklu og erfiðu framfara- skeiði. Þegar umsvif Rafveitu Akureyrar jukust, þá urðu einnig störf hans ábyrgðarmeiri og allt umfang þeirra varð fjölbreyttara og erfiðara. Öll voru störf Knut Otterstedt bæði heilladrjúg og farsæl, enda var hann mjög fórnfús og ein- staklega samviskusamur við alla sína vinnu og mátti hvergi vamm sitt vita. Þessir eiginleikar voru leiðarljós í öllum störfum hans hjá Rafveitu Akureyrar. Að leiðarlokum vil ég fyrir hönd stjórnar Rafveitu Akureyrar þakka störf hans öll og þann stórkostlega þátt, sem hann hefur átt í sögu rafmagnsmála á Akur- eyri. Eftirlifandi eiginkonu hans Lenu Otterstedt, sonunum Knúti og Hauki og fjölskyldum þeirra færum við okkar dýpstu samúð- arkveðjur. F.h. stjórnar Rafveitu Akureyrar, Sigurður Jóhannesson. í dag, miðvikudaginn 9. apríl 1980, er til moldar borinn Knut Otterstedt, fyrrverandi rafveitu- stjóri á Akureyri og fram- kvæmdastjóri Laxárvirkjunar. Hann andaðist hér í bæ þann 1. apríl sl. á 89. aldursári, en hann fæddist þann 11. desember 1891 í Dalsland í Svíþjóð. Verður lífshlaup hans ekki að öðru leyti rakið í þessum örstuttu kveðjuorð- um, heldur vísast til ítarlegrar minningargreinar, sem Steindór Steindórsson, fyrrv. skólameistari og fyrrv. stjórnarmaður í Laxár- virkjun ritar um Knut og birtist samtímis þessum kveðjuorðum. Þess skal hins vegar minnst, að Knut Otterstedt var hinn trausti og öruggi braútryðjandi og for- vígismaður, sem stjórnaði Laxár- virkjun sem framkvæmdastjóri hennar allt frá byrjun 1939 og til ársloka 1965, er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hann var brautryðjandinn, sem hóf verkið, hann hélt öruggum hönd- um um stjórnvölinn rúman aldar- fjórðung og skilaði traustu fyrir- tæki í starfslok. „Betri þóttu handtök hans / heldur en nokkurs annars manns“ var kveðið um þá þjóðsagnapersónu íslenzka, sem er persónugervingur hreysti og karl- mennsku. Þannig var það um handtök Knuts Otterstedt, hvort sem var á framkvæmdastjóra- skrifstofunni eða við stjórn á viðgerðum í stjórhríðum á fjöllum uppi, þegar línur biluðu og orkan hætti að veita lífi í æðar bæjarfé- lagsins og umhverfis. Þá var hann hraustastur í hópi hraustmenna og barðist ótrauður þar til sigur vannst á óblíðum náttúruöflum. Á hraðfleygri öld gleymast verk brautryðjendanna skjótt og fennir fljótt í gengin spor. Fjölmenn kynslóð nútímans elst upp við allsnægtir og er tamt að líta hvers kyns lífsþægindi sem sjálfsagða hluti. Barátta forfeðranna er tæp- ast skilin og nýtur ekki þeirrar virðingar sem skyldi. Brotalöm sögutengslanna skerpist og kröfu- gerð verður meir áberandi en fórnfýsi og jákvætt uppbyggingar- starf. Á ýmsum sviðum hafa þó verið unnin svo lýsandi brautryðj- endastörf af einstökum mönnum, að þau fyrnast tæpast þótt tímar líði. Um þetta eigum við sem betur fer fjölda dæma. Knut Otterstedt var einn þeirra manna, sem vann slíkt brautryðjendastarf á sínum starfsvettvangi, að seint mun gleymast. Verk hans blasa við og hafa bein áhrif á daglegt líf okkar, sem lifum og hrærumst í dag. „Þó að hríði heila öld / harðsporarnir sjást í snjónum" var kveðið eftir Skúla Thoroddsen. Þessi hending kemur mér í huga þegar ég hugsa til verka Knuts Otterstedt. Hraðfleyg öld mun tæpast gleyma þeim. Áhrif J>eirra eru svo mikil og lýsandi. Á hinztu kveðjustund flyt ég honum einlægar þakkir stjórnar Laxárvirkjunar fyrir störfin öll og bið honum Guðs blessunar handan móðunnar miklu. Innilegustu samúðarkveðj- ur sendi ég eftirlifandi eiginkonu hans, frú Lenu Kristjánsdóttur, sem var honum traustur og elsku- legur lífsförunautur, ennfremur kjörsyninum Hauki og fjölskyldu hans, og síðast en ekki síst synnum Knúti og fjölskyldu hans, sem verið hafa Knut og Lenu hald og traust á ævikvöldinu og halda starfi þeirra áfram á traustan og öruggan hátt, svo engin brotalöm hefur myndast. Guð blessi þau öll. Valur Arnþórsson, stjórnarformaður Laxárvirkjunar. ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og minningargreinar verða að berast blaðinu með góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast á i miðvikudagsblaði. að berast í síðasta lagi fyrir hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra daga. Greinar mega ekki vera í sendibréfs- formi. Þess skal einnig getið af marggefnu tilefni að frum- ort ljóð um hinn látna eru ekki birt á minningarorðasið- um Morgunblaðsins. Ilandrit þurfa að vera vélrituð og með góðu línubili. t Útför foreldra okkar og tengdaforeldra GUDBJARGAR SVEINFRÍOAR SIGURDARDOTTUR Ofl GUDJONS GÍSLA GUÐJONSSONAR frá Hesti Önundarfirði, Laugarnesvegi 40 fer fram frá Fossvogskirkju miðvikudaginn 9. apríl kl. 13.30. Börn og tengdabörn. t Hugheilar þakkir fyrir auðsýnda samúö og vinarhug viö andlát oq útför MARKUSAR H. GUDJONSSONAR. Sérstakar þakkir til verkstjórafélagsins Þórs. Sigurína Friöriksdóttir, börn og fjölskyldur þeirra, móöír og systkini hins látna.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.