Skírnir - 01.04.1913, Qupperneq 16
112
Um jarðarfarir, bálfarir og trúna á annað lif.
Lík látinna manna eru óhrein, sögðu kaþólskir prest-
ar, satt og rétt; fáið okkur þau sem fyrst, við skulum gæta
þeirra, að þeir liggi kyrrir, sofi í friði, þangað til á dóms
degi, að þeir rísa upp, og þá fyrst verður líkaminn dýr-
legur. Og þeir voru dyggir verðir; kirkjurnar ljómuðu af
ljósum og ómuðu af söng jafnt á nótt sem degi. Líkamir
helgra manna urðu þó strax dýrlegir.
En þá kom Lúter og kveikti ófrið á þessu gamla
kaþólska friðarheimili. Hann gerði uppreisn á móti ráðs-
manninum. Lúter var postuli frelsisins, lifsgleðinnar og
trúarinnar. Þið eruð börn guðs, en ekki páfans og prest-
anna, guð er okkar heilagi faðir, sagði Lúter. Þið eigið
að lifa eftir ykkar heilbrigðu fýsnum og tilhneigingum,
aukast og margfaldast og gera ykkur jörðina undirgefna;
þið eigið ekki að afneita ykkar eigin eðli, sem guð hefir
skapað ykkur með, eins og munkar gera og nunnur. Góð-
verkin gagna ekki og því síður bænir dáinna manna.
Trúin er fyrir öllu. Trúin mun gera ykkur frjálsa. Einn
skólabróðir minn, sem las guðfræði, sagði mér í fylstu al-
vöru á háskólaárum okkar, að eg hlyti að fara til hel-
vítis, hvað vel sem eg breytti, ef eg ekki t r y ð i, tryði
á guðdóm Krists, tryði öllu, sem hann trúði. Hann var
einlægur Lútersmaður.
Fyrstu áhangendum Lúters fanst sem þeir losnuðu úr
fangelsi; þeir hoppuðu og hlógu og sungu af fögnuði yfir
frelsinu; þeir bölvuðu páfanum, brutu alla helga dóma í
kirkjunum, myndir og dýrlingabein, köstuðu því út, og
slöktu ljósin og lokuðu kirkjunum, nema rétt á sunnudög-
um. En tvílifistrúin varð nú magnaðri en
nokkru sinni fyr. Líkin eru ekki óhrein, sögðu
Lútersmenn, það er pápisk lygi; sá andaði maður — lík-
aminn — á að sofa, en aftur upp að rísa og komast í
himnaríki, eins og sálin; hann er ekki óhreinn, hann er
sofandi ástvinur okkar, sem vaknar upp aftur á efsta degi.
Þessi trúarbreyting olli þeirri stórbreytingu á útfararsið-
unum, að nú varð mönnum hughaldið að hafa líkið, þann
sofandi ástvin, sem lengst heima hjá sér, láta hann standa