Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1960, Blaðsíða 60
STURLA FRIÐRIKSSON:
JURTALEIFAR FRÁ BERGÞÓRSHVOLI
Á SÖGUÖLD
Árið 1927 fékkst Matthías Þórðarson þáverandi þjóðminjavörður
við uppgröft í bæjarhólnum á Bergþórshvoli. Kom hann þá niður á
brunaleifar svo djúpt niðri, að þær máttu kallast á óhreyfðri jörð.
Var brunalagið um 5—15 sm þykkt, og ætlaði Matthías, að þar hefði
brunnið útibúr eða kornskemma. Er sú ályktun meðal annars dregin
af því, að í brunaleifunum fundust „auk rafta og viða, kornastengur
og korn og jafnvel heil öx“. Telur Matthías miklar líkur til þess, ,,að
brunaleifar þessar stafi frá Njálsbrennu, þar sem hús þetta hefur
staðið á óhreyfðri jörð, svo að segja, og áreiðanlega brunnið".9)
Fyrir nokkru fékk núverandi þjóðminjavörður, Kristján Eldjárn,
mér til rannsóknar sýnishorn af brunaleifum þessum, sem tekið hafði
verið og geymt á Þjóðminjasafninu. Skal hér á eftir skýrt frá athug-
un minni á þeim jurtaleifum, sem greinanlegar voru í því sýnishorni.
1. Ástand efnisins.
Jurtaleifar þær, sem hér um ræðir, voru kolaðar og höfðu bersýni-
lega brunnið við hægan eld. Hafa því einstakir jurtahlutar haldið
sinni lögun furðu vel, og má af þeim greina með nokkru öryggi, hvað
þar hefur brunnið. Eins og sýnishornið leit út við þessa rannsókn
var það allsundurlaust og molnað, en mun hafa verið heillegra við
uppgröftinn, enda voru heilleg öx á stöngum. Við rannsókn þessa
voru hins vegar engin heil öx finnanleg, en nokkrir hlutar af öxum
og einstök korn voru í góðu ástandi. Sumar stangirnar voru sam-
liggjandi, líkt og þar hefði brunnið kornakerfi. Brunaleifarnar, sem
upp voru grafnar, munu upphaflega hafa verið nokkur hundruð
grömm, en athugun þessi var aðeins gerð á litlum hluta þess eða um
62 grömmum.