Eimreiðin - 01.09.1920, Síða 45
EIMREIÐINl
BIFREIÐ NR. 13
301
vona, að þú gætir klárað kjólinn hennar Stínu. Þú hefir
vonandi munað eftir sniðunúm í fötin hans Villa? Eg
þarf að byrja á þeim í kvöld, annars hefir. hann ekkert
til að fara í á sunnudaginn, grey-tusku-skinnið að tarna«.
»Eg er svo voða þreytt«, sagði Imba og stundi við, —
»eg vildi að eg mætti fara svolítið út á eftir«.
»Út núna!« sagði Þorgrímur. — Hann kom inn í þessu.
»Altaf viljið þið vera úti á flandri, þessar ungu stúlkur,
— réttu mér sápu og handklæði, Imba. — Út í soll og
synd, það eru ykkar ær og kýr! Eg held að það verði
nú ekki af því í þetta sinn, ef eg má ráða. — Farðu með
matinn inn í stofuna, Ingibjörg!«
Hún hafði ekki nokkra lyst á matnum. Aldrei hafði
henni fundist jafn ömurlega óvistlegt heima, alt var á úi
og strúi. Og nú byrjaði gauragangurinn og ólætin á ný.
— Villi og Stjáni fóru að rífast um grásleppuhaus, en
Stína skældi, milli þess sem hún saug »snuðið«, sem Þor-
grímur hafði fundið á gólfinu og stungið upp í hana.
Gvendur greip báðum höndum um höfuðið, beit á jaxl,
og talaði eitthvað um hávaðan. »Eg fer ofan á »Land«,
eða í »Bíó«, eða einhvern árann, það er ekki fyrir mensk-
ar manneskjur að vera í þessu argi. Náðu fötunum
mínum og brúnu stígvélunum, Imba«.
Þegar hún hafði gert það, og stilt til friðar milli bræðr-
anna, flýtti hún sér upp á loft. Stúlka, sem var fyrir norð-
an í síld, hafði lánað henni herbergið sitt yfir sumarið,
annars svaf hún í flatsæng í stofunni.
Hún settist þreytulega á rúmið, og hugsaði ráð sín, og
niðurstaðan varð sú, að reyna að biðja mömmu sína að
lofa sér út, og láta ekki Þorgrím heyra það, því þá voru
erindislokin auðsæ. — En hvað átti hún að segja, þegar
hún yrði spurð hvert hún ætlaði? Var það synd að skrökva
því, að Ella hefði boðið henni? Einu sinni hafði þó Ella
boðið henni, gat hún ekki notað það boð núna? Hafði
ekki majórinn — eða hvað hann nú var — sagt: »þó
syndir þínar séu rauðari en blóð« — og svo sungið á
eftir: »Hvítari en snjór, h-v-í-t-a-r-i en snjór«. — Hann
hefði ekki verið að segja það, ef það væri ekki satt. Hún