Aldamót - 01.01.1898, Blaðsíða 12
Úr dauða-haii jarðar vall aurgrár eðju-leir,
og orðnar voru grundir sem dýjaflesja meyr.
Grátlegt var að líta’ yfir grænar hlíðar þá,
ginu breiðar sprungur á mót oss til og frá.
Fagrar höfðu brekkur á brjóstið fengið sár,
björg þar víða lágu sem höfug stirðnuð tár.
Ömurlegt að horfa þá bygt var yfir ból,
bærinn, sá er nýlega hýrt skein móti sól,
allur lá í rústum sem róstugt moldarflag,
reisulegu húsin voru jarðföll nú í dag.
Öllu því, sem fyrr meir í röð og reglu var,
rótað hafði nóttin og fleygt því hér og þar;
margt þar eftir slaginn á tjá og tundri lá
til og frá í valnum, sem kannaður var þá.
Víða hafði orrusta verið þessa nótt,
vígstöðvarnar margar og stríð af kappi sótt.
Valköstunum hlaðið sást út um alla bygð,
eyðingar og rústa sá marga viðurstygð.
Sannlega þó alls engin Sódóma var hér;
Sílóams hér turninn að nýju fallinn er.
Ekki fyrir það samt, að engin væri sekt. —
Undarlegt er ráð guðs, en harðla merkilegt.
Eigin syni kærum ei hlífði drottinn hár,
hann þótt væri saklaus, þá leið hann dauðans fár
Eigin húsum sínum guð eigi þyrmdi nú,
eins á þeim og dundi hin mikla hryðjan sú.
Drottins húsið mæta, sem stóð á helgum stað,
stóð að vísu uppi, en rokna högg fékk það.
Bæði kvöld og morgun af sjálfsdáðum þar söng
sönginn yfir valnum hin helga líkaböng.