Morgunblaðið - 04.01.2001, Qupperneq 6
FRÉTTIR
6 FIMMTUDAGUR 4. JANÚAR 2001 MORGUNBLAÐIÐ
SÖLVI Sveinsson, skólastjóri Fjöl-
brautaskólans í Ármúla og formað-
ur Félags framhaldsskóla, segist
vita til þess að allmargir nemendur
hafi þegar ákveðið að hætta námi í
vetur í framhaldsskólunum vegna
verkfallsins í skólunum. Hann telur
verulega hættu á að þeim fjölgi
hratt takist ekki að ljúka samn-
ingum um helgina.
Samkvæmt starfsáætlun fram-
haldsskólanna áttu kennarar að
mæta til starfa í dag að loknu jóla-
leyfi. Kennsla átti að hefjast í skól-
um með bekkjakerfi í dag en öðrum
skólum á morgun. Sölvi er afar
óánægður með að enn skuli ekki
hafa náðst samningar í kjaradeil-
unni.
„Mér finnst þetta ástand orðið
óþolandi. Viðræður hafa gengið allt
of hægt. Það virðist sem aðilar hafi
hreinlega ekki verið nægilega vel
undirbúnir. Mér finnst að þær við-
ræður sem hafa staðið um breyt-
ingar á vinnutíma og breytingar á
skipulagi hefðu átt að eiga sér stað
fyrir löngu. Niðurstaða hefði átt að
vera fengin í viðræður um þessi at-
riði áður en farið var að ræða um
kaup og kjör,“ sagði Sölvi.
Sölvi sagðist rétt ætla að vona að
takist að ljúka kjarasamningum um
helgina. Allmargir nemendur hefðu
þegar tekið ákvörðun um að hætta
námi í vetur. „Ég er fullviss um að
dragist að hefja kennslu aftur fjölgi
þeim stórlega sem hverfa frá námi.
Þessir dagar sem eru framundan
skipta því miklu máli. Slæmt er
þetta búið að vera, en út yfir tekur
ef menn taka sér ekki tak og klára
þetta núna um helgina.“
Haustönninni ljúki
í lok janúar
Sölvi sagðist ekki telja annað
verjandi en að nemendur fengju
námsmat á þær rúmar 10 vikur
sem þeir voru við nám á haustönn.
„Ég tel að við verðum að reyna að
ljúka haustönninni núna í janúar og
hefja vorönn í byrjun febrúar og
ljúka henni með einhverju móti fyr-
ir hvítasunnu. Ég tel að við verðum
að kenna þétt og haga námsmati
með þeim hætti að þetta verði
hægt.“
Sölvi Sveinsson, formaður Félags framhaldsskóla, gagnrýnir samninganefndir kennara og ríkisins
Hætt við að margir
hverfi frá námi ljúki
verkfalli ekki skjótt
SÓLIN varpaði geislum sínum yfir Suðurland hvern
dag jólahátíðarinnar og gladdimenn og dýr með
einstakri litadýrð. Á myndinni má sjá Heklu og Þrí-
hyrning.
Morgunblaðið/Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir
Sólin lýsir upp Suðurlandið
ALMENN ánægja virðist ríkja
innan Verzlunarskóla Íslands með
nýgerðan kjarasamning við þá
kennara skólans sem eru innan
Kennarasambandsins og voru í
verkfalli. Þorvarður Elíasson
skólastjóri er ánægður með niður-
stöðuna í atkvæðagreiðslu kenn-
ara. Hún styrki sig í þeirri trú að
samningurinn hafi verið góður fyr-
ir skólann í heild. Mikilvægt sé að
skólastarf geti hafist í dag. Tals-
maður kennara er sömuleiðis
ánægður með samninginn og segir
þá mega vel við una.
Ríflega eitt þúsund nemendur
Verzlunarskólans eiga að mæta í
skólann samkvæmt stundaskrá í
dag en kennsla átti einmitt að hefj-
ast eftir áramót hinn 4. janúar.
Þorvarður sagðist í samtali við
Morgunblaðið vona að velflestir
nemendur mættu. Byrjað yrði á að
vinna upp, eins og kostur er, það
nám sem legið hefði niðri vegna
verkfallsins, sem hófst 13. nóvem-
ber sl. Miðsvetrarpróf áttu að fara
fram í desember en að sögn Þor-
varðar munu þau að öllum líkind-
um falla niður vegna verkfallsins
og skyndipróf þá haldin í staðinn
fyrstu dagana í janúar. Hann sagð-
ist þó eiga eftir að ræða þessi mál
betur við kennarana. Einnig væri
beðið eftir því hvað aðrir fram-
haldsskólar með bekkjarkerfi
gerðu þegar samningar tækjust við
ríkið. Þorvarður taldi ekkert því til
fyrirstöðu að útskrifa þá nemendur
í vor sem gert hafði verið ráð fyrir.
„Að sjálfsögðu verður ekki mán-
aðarverkfall hjá Verzlunarskólan-
um án þess að þess sjáist merki.
Við munum þurfa að einbeita okk-
ur betur að kjarna málsins, fara
hraðar yfir og ekki eins djúpt í
námsefnið og við hefðum gert hefði
verkfallið ekki komið til,“ sagði
Þorvarður.
Umbylting á launakerfi
Bertha Sigurðardóttir var annar
tveggja kennara skólans sem áttu
sæti í samninganefnd. Hún sagði
við Morgunblaðið að kennarar
skólans mættu vel við una. Samn-
ingurinn væri góður og hún sagði
niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar
ekki hafa komið á óvart. Kennarar
hefðu verið vel upplýstir um gang
samningaviðræðna og eins eftir
kynningu á samningnum sjálfum.
Aðspurð hvað væri hagstæðast fyr-
ir kennara í samningnum nefndi
Bertha umbyltingu á uppbyggingu
launakerfisins. Það hefði verið ein-
faldað og aukagreiðslur alls konar
komnar inn í dagvinnulaunin, sem
hækkað hefðu verulega. Yfirvinnu-
stuðull hefði verið lækkaður og
hluti af honum tekinn inn í dag-
vinnuna.
Bertha taldi að takast ætti að
vinna upp það námsefni sem ann-
ars hefði verið farið í hefði verkfall
ekki komið til. Menn væru allir af
vilja gerðir svo það mætti takast.
„Við höldum okkar striki.“ Hún
vildi koma á framfæri ánægju og
þakklæti frá kennurum Verzlunar-
skólans til formanns Félags fram-
haldsskólakennara, Elnu Katrínar
Jónsdóttur, fyrir framgöngu henn-
ar í samningaviðræðunum, sem
hún leiddi fyrir hönd kennara. Við-
ræðurnar hefðu gengið vel eftir að
skriður komst á þær um miðjan
desember.
Kennarar
segjast mega
vel við niður-
stöðuna una
KENNARAR við Verzlunarskóla
Íslands samþykktu nýjan kjara-
samning framhaldsskólakennara
og Verzlunarskólans með miklum
mun. Fimmtíu og einn kennari
sagði já, tveir sögðu nei og tveir
skiluðu auðu. Sextíu og tveir voru
á kjörskrá og greiddu fimmtíu og
fimm atkvæði. Samningurinn var
því samþykktur af 92% þeirra sem
greiddu atkvæði. Kennsla við skól-
ann hefst samkvæmt stundaskrá í
dag.
Grunnlaun tvöfaldast
á samningstímanum
Birt hafa verið nokkur helstu at-
riði samningsins á heimasíðu
Kennarasambands Íslands. Þar
kemur fram að samningurinn felur
í sér yfir 50% hækkun grunnlauna
nú strax um áramótin og lætur
nærri að grunnlaun tvöfaldist á
samningstímanum, sem er til apríl
2004. Hækkun grunnlauna skýrist
af áfangahækkunum og stórtækum
tilfærslum milli yfirvinnu og dag-
vinnu svo og breyttri samsetningu
launa vegna þess að kennarar
skipta framvegis með sér ábyrgð á
störfum, s.s. deildarstjórn og um-
sjón með nemendum. Auk þess
færast sérstakar greiðslur á prófa-
tíma nú inn í grunnlaun. Kennarar
hafa eftir sem áður tryggingu fyrir
því að þeir fái sömu launagreiðslur
á kennslutíma og prófatíma.
„Þrátt fyrir þessar breytingar á
starfsskyldum kennara samkvæmt
nýjum kjarasamningi eru störf
þeirra í grundvallaratriðum
óbreytt og í samræmi við gildandi
lög og reglugerðir um skólastarf í
framhaldsskólum.
Í kjarasamningi VÍ er haldið í
öll helstu atriði er varða vinnutíma
kennara, s.s. 9 mánaða starfstíma,
175 kennslu- og prófadaga er fara
skulu fram innan níu mánaða
starfstíma, fjóra daga eða 32 klst.
við upphaf og/eða lok starfstíma
og 80 klst. til endurmenntunar ut-
an starfstíma,“ segir á heimasíðu
Kennarasambandsins.
Kennsluskylduafsláttur
minnkar í áföngum
Sérstök bókun fylgir samningn-
um um kennlsuskylduafslátt sem
er minnkaður í skilgreindum
áföngum gagnvart starfandi kenn-
urum við skólann á löngum tíma.
Inn í kjarasamninginn bætist
grein um samstarfsnefnd við VÍ.
„Kjarasamningurinn leiðir til
verulegrar launajöfnunar sem
kemur m.a. ungum kennurum til
góða. Með honum dregur úr tekju-
sveiflum og verða kennarar ekki
fyrir sömu tekjurýrnun á sumrin
og áður. Þá er þess að geta að
mikil hækkun grunnlauna kemur
sérstaklega til góða kennurum
sem eru í B-deild Lífeyrissjóðs
starfsmanna ríkisins.“
50% upphafshækkun grunnlauna í samningi
framhaldsskólakennara og Verzlunarskóla Íslands
92% kennara sam-
þykktu samninginn
Morgunblaðið/Kristinn
Nemendur Verzlunarskólans hefja nám að nýju í dag. Verkfall hófst í skólanum 13. nóvember.