Morgunblaðið - 08.05.2001, Blaðsíða 32
ERLENT
32 ÞRIÐJUDAGUR 8. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
DONALD Rumsfeld, varnarmála-
ráðherra Bandaríkjanna, hefur lagt
drög að gagngerri endurskoðun á
varnarstefnu Bandaríkjanna, sem
felur meðal annars í sér að horfið
verður frá því markmiði að geta háð
stórstyrjöld á tvennum vígstöðvum
í einu að því er The Washington
Post hafði í gær eftir embættis-
mönnum í varnarmálaráðuneytinu.
Að sögn blaðsins var áformað að
varnarmálaráðherrann kynnti drög-
in fyrir George W. Bush Banda-
ríkjaforseta í vikunni, hugsanlega í
dag, en þau hafa í för með sér
mestu breytingar á varnarstefnu
Bandaríkjanna sem gerðar hafa
verið í áratug.
Hefur í för með sér
fækkun hermanna
Brotthvarf frá meginreglunni um
að geta háð stórstyrjöld á tvennum
vígstöðvum samtímis hefur meiri
áhrif á stærð
heraflans en á
gerð hernaðar-
áætlana.
Undanfarinn
áratug hefur
Bandaríkjaher
notað mögu-
leikann á stríði á
tvennum víg-
stöðvum, til
dæmis í Írak og
Kóreu, til að reikna út lágmarks-
fjölda hermanna, flugvéla, skipa og
annars vígbúnaðar. Samkvæmt
þessari meginreglu hefur um árabil
þótt nauðsynlegt að hafa á hverjum
tíma um 1,4 milljónir manna undir
vopnum en nú er hugsanlegt að
þessi tala muni lækka. Herinn fengi
þá væntanlega aukið svigrúm til að
kaupa ný vopn og búnað, auk þess
sem fyrirsjáanlegt er að aukinn
hluti af fjárveitingum til varnar-
mála muni á næstu árum renna til
þróunar eldflaugavarnakerfisins
sem Bandaríkjastjórn hyggst koma
upp.
Breytingarnar munu hafa áhrif á
allar deildir hersins en ljóst er að
þær koma fyrst og fremst niður á
landhernum sem þarfnast mests
mannafla.
Minni áhersla verði lögð
á hefðbundinn hernað
Að sögn The Washington Post er
áformað að Bandaríkjaforseti kynni
nýja varnarstefnu í ræðu við banda-
ríska flotaháskólann í Maryland 25.
þessa mánaðar, en þeir varnarmála-
sérfræðingar sem blaðið ræddi við
vildu sem minnst tjá sig um hvaða
viðmið yrðu tekin upp í stað tveggja
vígstöðva reglunnar.
The Washington Post hafði eftir
ónafngreindum starfsmanni varnar-
málaráðuneytisins, sem komið hef-
ur að stefnumótuninni, að skynsam-
legast væri að tryggja að Banda-
ríkjaher hefði bolmagn til að
bregðast við ófyrirsjáanlegum
ógnum í síbreytilegum heimi.
Leggja ætti minni áherslu á hefð-
bundinn hernað en efla þess í stað
getuna til að takast á við ástand á
borð við að verja Taívan fyrir hafn-
banni af hálfu Kínverja eða að halda
Hormuz-sundi við mynni Persaflóa
opnu.
Ljóst þykir að aukið kapp verði
lagt á að Bandaríkjaher verði í far-
arbroddi í tækniþróun á sviði hern-
aðar- og upplýsingatækni. Þá er
gert ráð fyrir að herinn muni á
næstu árum fremur beina sjónum
sínum að Austur-Asíu en Evrópu og
að aukin áhersla verði lögð á að
koma í veg fyrir útbreiðslu eld-
flauga- og kjarnorkutækni í þróun-
arlöndum og svonefndum „útlaga-
ríkjum“.
Unnið að endurskoðun á stefnu Bandaríkjastjórnar í varnarmálum
Mestu breytingar á varn-
arstefnunni í áratug
Donald
Rumsfeld
JUNICHIRO Koizumi, forsætisráð-
herra Japans, flutti fyrstu stefnu-
ræðu sína á japanska þinginu í gær
og lofaði umfangsmiklum kerfis-
breytingum til að blása lífi í efna-
hag landsins. Hann hét því einnig
að gera allt sem á valdi sínu stæði
til að stjórnmálamennirnir end-
urheimtu traust almennings.
Ræða Koizumis mæltist vel fyrir
og hagfræðingar sögðu að hann
væri á réttri braut en þyrfti að út-
færa umbótatillögur sínar frekar.
Skoðanakönnun, sem birt var í
gær, bendir til þess að Koizumi
njóti enn mikils stuðnings meðal
kjósenda þótt margir þeirra telji
enn óljóst hvort hann geti staðið við
loforðin. Um 80% Japana styðja
nýja forsætisráðherrann ef marka
má könnunina sem gerð var um
helgina.
AP
Boðar
róttækar
umbætur
í Japan
JOHANNES Rau, forseti Þýska-
lands, sagði í gær að þýska stjórnin
hefði þegar beðið Ný-Sjálendinga
afsökunar á staðhæfingu þýskrar
stofnunar um að riðuveiki herjaði á
sauðfé á Nýja-Sjálandi og ekki væri
þörf á annarri afsökunarbeiðni.
Rau kom í opinbera heimsókn til
Nýja-Sjálands á sunnudag og búist
var við að hann myndi biðjast form-
lega afsökunar á þessari staðhæf-
ingu sem kom fram í bæklingi sem
markaðsstofnun þýsku stjórnarinn-
ar dreifði til 33 milljóna heimila í
Þýskalandi í mars.
Staðhæfingin um að riðuveiki
herjaði á ný-sjálenskt sauðfé olli
miklu uppnámi á Nýja-Sjálandi.
Helen Clark forsætisráðherra
krafðist þess að þýska stjórnin
bæðist afsökunar og Jim Sutton
landbúnaðarráðherra sagði að full-
yrðingin hefði orðið til þess að sala
á ný-sjálensku lambakjöti í Þýska-
landi hefði minnkað verulega.
„Ég vil taka fram að þýska
stjórnin og viðkomandi stofnun
hafa beðist afsökunar á þessari
staðhæfingu, sem var svo augljós-
lega röng, og ég vona að þessu máli
sé nú lokið með þessari yfirlýsingu,
hvað stjórnvöld á Nýja-Sjálandi
varðar,“ sagði Rau.
Forsetinn bætti við að þetta mál
hefði borið á góma þegar hann
ræddi landbúnaðarmál og viðskipti
landanna við Clark og stjórnarand-
stöðuleiðtogann Jenny Shipley í
gær.
Nýja-Sjáland
Rau segir
aðra afsök-
unarbeiðni
óþarfa
Wellington. AFP.
FYRSTI geimferðalangurinn, bandaríski auðkýf-
ingurinn Dennis Tito, kom til jarðar á sunnudag
eftir átta daga dvöl í geimnum. „Ég er að koma úr
paradís,“ sagði Tito er hann steig út úr rússnesku
Soyuz-geimflauginni sem flutti hann og tvo rúss-
neska geimfara frá Alþjóðlegu geimstöðinni.
Soyuz-farið lenti á sunnudagsmorgun nálægt
Arkalyk í Kasakstan, um 400 km frá höfuðborg-
inni Arkana. Tito var óstöðugur er hann gekk út
úr flauginni, en það er ekki óvenjulegt eftir dvöl í
þyngdarleysi. Hann bar sig þó vel og sagði heim-
ferðina hafa gengið vel og lendinguna mjúka.
„Þetta var stórkostlegt, best af öllu,“ sagði Tito
með bros á vör.
Geimförunum þremur voru samkvæmt venju
færð epli við komuna og Tito reyndi að kasta þeim
í hringi í loftinu. „Ég er ennþá vanur þyngdar-
leysinu, þið skiljið,“ kímdi geimferðalangurinn.
„En ég naut ferðarinnar út í ystu æsar. Draumur
minn hefur verið uppfylltur.“
Eftir læknisskoðun var flogið með þremenn-
ingana til Moskvu og þeir voru síðan færðir til
þjálfunarbúða fyrir geimfara skammt fyrir utan
höfuðborgina, þar sem þeir hafa gengist undir
frekari skoðanir. Talsmaður þjálfunarbúðanna
sagði í gær að Tito væri við hestaheilsu og að hann
hefði ekki kennt neinna óvenjulegra aukaverkana
vegna geimferðarinnar.
„Ólýsanleg reynsla“
Tito hóf sögulega för sína að morgni 28. apríl,
þegar Soyuz-fari var skotið á loft frá geimferða-
miðstöð Rússa í Kasakstan með hann innanborðs,
auk tveggja rússneskra geimfara. Farið tengdist
Alþjóðlegu geimstöðinni 30. apríl og þar dvaldi
Tito í sex daga. Önnur Soyuz-flaug, sem verið
hafði flóttafar Rússa í geimstöðinni, flutti þre-
menningana aftur til jarðar en fyrrnefnda farið
leysti það gamla af hólmi sem flóttafar.
Tito, sem er sextugur að aldri, er eldflaugaverk-
fræðingur að mennt og starfaði áður hjá Geim-
ferðastofnun Bandaríkjanna, NASA. Hermt er að
hann hafi greitt sem svarar tveimur milljörðum
króna fyrir geimferðina og af ummælum hans að
dæma varð hann ekki fyrir vonbrigðum.
Auðkýfingurinn Dennis Tito kominn til jarðar eftir átta daga dvöl í geimnum
„Ég er að
koma úr
paradís“
Astana, Moskva. AFP, AP.
Reuters
Dennis Tito, lengst til vinstri, kastar eplum upp í loftið ásamt félögum sínum, Talgat Musabajev
og Júrí Batúrín, eftir lendinguna í Kasakstan á sunnudag.
EIGINKONA svissneska sendiherr-
ans í Þýskalandi og fyrrverandi
Ungfrú Texas hefur beðið sviss-
neska utanríkisráðuneytið afsök-
unar á því að hafa látið taka af sér
ögrandi ljósmyndir, sem birtust í
þýsku tímariti. Í bréfinu segist hún
ekki hafa áttað sig á hvaða uppnámi
myndirnar gætu valdið.
Shawne Fielding, 32 ára gömul,
sat fyrir í myndröð, sem bar nafnið
„Kúrekastelpan í Ölpunum“ og birt-
ist í þýska tímaritinu Max. Á einni
myndanna var hún í rauðu pínupilsi
fyrir framan svissneska fánann og á
annarri var hún á hrossi á sendiráð-
ströppunum og í hlýralausum kjól.
Þá var hún líka sýnd með banda-
ríska fánann sem hálsklút og doll-
aramerkið letrað á bringuna.
Myndirnar ollu mikilli hneykslan
víða, ekki síst í Sviss þar sem fjöl-
miðlar og kunnir stjórnmálamenn
kröfðust þess, að eiginmaður henn-
ar, Thomas Borer, yrði sviptur
sendiherrastöðunni.
Lofar bót og betrun
Frú Fielding brást í fyrstu hin
versta við gagnrýninni og sagði
hana koma frá „ákaflega þröngsýnu
fólki“ en á sunnudag dró hún í land
og kvaðst ekki hafa ætlað að
„óvirða Sviss og Svisslendinga“.
Kemur það líka fram í bréfi, sem
hún hefur sent svissneska utanrík-
isráðuneytinu, og þar lofar hún að
leita samþykkis þess við viðtölum
síðar og hún ætlar ekki að vera við-
stödd vígslu nýs sendiráðs Sviss í
Berlín á fimmtudag til að koma í
veg fyrir óeðlilega umræðu í fjöl-
miðlum.
Talsmaður svissneska utanríkis-
ráðuneytisins segir, að þetta mál sé
enn til athugunar og ákvarðanir um
framhaldið verði teknar þegar þar
að komi.
Svissneska sendiherrafrúin í Berlín biðst afsökunar á ögrandi ljósmyndum
Ætlaði ekki að óvirða Sviss
Bern. AFP, Reuters.
AP
Svissnesku sendiherrahjónin Thomas Borer og Shawne Fielding.
♦ ♦ ♦