Morgunblaðið - 31.05.2001, Page 20
SUÐURNES
20 FIMMTUDAGUR 31. MAÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
„ÍSLENDINGAR ættu því að koma
meira hingað suður með sjó, á
Reykjanesið, og njóta þess sem við
getum boðið,“ sagði Kristján Páls-
son, formaður Ferðamálasamtaka
Suðurnesja, á blaðamannafundi
samtakanna í gær. Fundurinn fór
fram um borð í hvalaskoðunarbátn-
um Moby Dick í Keflavíkurhöfn og
þar var kynnt ýmislegt af því sem
ferðafólki stendur til boða á Reykja-
nesi.
Fram kom hjá Kristjáni að Íslend-
ingar eru aðeins um 20-30% af þeim
gestum sem koma á Suðurnesin.
„Skilaboðin héðan eru því skýr, hér
er flest hægt að sjá eða upplifa sem
hægt er annars staðar á landinu,
jafnvel jökla, sagði Kristján. Johan
D. Jónsson, ferðamálafulltrúi
Reykjanesbæjar, sagði að lögð yrði
aukin áhersla á að fá innlenda ferða-
menn til að koma á Reykjanesið.
Unnið er að stefnumörkun í ferða-
málum á Reykjanesi og eru megin-
markmið fimm. Að fjölga ferða-
mönnum allt árið um kring og lengja
dvöl þeirra, að fjölga áningarstöðum
og að auka fjölbreytni afþreyingar.
Einnig að Reykjanes verði þekkt
sem eitt besta hvalaskoðunarsvæði
landsins og að þar verði höfuðstöðv-
ar heilsutengdrar ferðaþjónustu á
Íslandi.
Margar faldar perlur
Á fundinum voru kynntir gisti-
möguleikar á Reykjanesi. Tvö hótel
eru í Reykjanesbæ auk gistiheimila,
og hótels við Bláa lónið. Tvö fyrir-
tæki bjóða upp á hvalaskoðun og hef-
ur starfsemin farið vaxandi, auk þess
sem farið er að bjóða upp á sérstakar
skoðunarferðir með hópferðabifreið-
um undir heitinu Dekur og djamm.
Sagt var frá Bláa lóninu, sem er mik-
ilvægur punktur í ferðaþjónustu
svæðisins og heilsutengdri ferða-
þjónustu í tengslum við hana.
Einnig var vakin athygli á ýmsum
möguleikum á sviði menningar-
tengdrar ferðaþjónustu. Á Reykja-
nesi eru til dæmis fimm kirkjur frá
19. öld og fjöldi safna og ferðasumr-
inu lýkur með menningarhátíðinni
Ljósanótt í Reykjanesbæ í byrjun
september. Bent var á hafnirnar, þar
sem allt iðar af lífi og ýmsa afþrey-
ingarmöguleika, svo sem útreiðar-
túra og hestakerruferðir í Grindavík
og Go-kart brautina í Njarðvík. Þá
var vakin athygli á miklu fuglalífi,
meðal annars á Garðskaga og fjöl-
breyttri náttúru Reykjanessins. Úti-
vistarmöguleikar eru miklir. Þannig
er merkt gönguleið, Reykjavegur,
frá Reykjanestá og upp að Hengli og
á svæðinu eru fjórir golfvellir, svo
nokkuð sé nefnt.
Helga Ingimundardóttir, sem ger-
ir út Moby Dick, sagði að Reykjanes-
ið væri nánast óplægður akur í ferða-
málum og sagði að þar væru margar
faldar perlur, sem ástæða væri til að
hvetja ferðafólk til að skoða.
Margar leyndar ferðamannaperlur eru á Reykjanesinu
Johan D. Jónsson ferðamálafulltrúi með ferðakort af Reykjanesi.
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Fjöldi ferðaþjónustufólks kynnti kosti Reykjanessins sem ferðamannasvæðis á fundi um borð í Moby Dick.
Vilja fá fleiri inn-
lenda ferðamenn
Reykjanes
KRISTJÁN Pálsson, formaður
Ferðamálasamtaka Suðurnesja,
sagði á blaðamannafundi í gær
að ef fjölskyldan eða einstak-
lingurinn vildi ferðast á bíl um
Reykjanes væri um margt að
velja. Sjálfur vildi hann bjóða
upp á eftirtalda tíu mismunandi
ferðamatseðla:
Fara í Go-kart-brautina, veiði
í Seltjörn, grill í Sólbrekku-
skógi, sund í Bláa lóninu.
Fara í gönguferð um Reykja-
veg frá Reykjanesvita þar sem
er ævintýralegt landslag með
leirhverum, grónu hrauni, eld-
vörpum og hellum og enda dag-
inn með ferð í hestakerru og
góðum kvöldverði í Grindavík.
Sigla í hvalaskoðun, fara í
Go-kart, golf í Leirunni og njóta
matar og gistingar í Keflavík.
Skoða fugla á Hafnarbergi, á
Garðskaga, á Fitjum í Njarðvík
og gista á tjaldsvæði.
Fara á sjóstöng, í sund með
hvölum og þeysa á sjóketti frá
Keflavík.
Skoða kirkjur og koma við í
Stekkjarkoti í Njarðvík og
borða í Reykjanesbæ.
Skoða sædýrasafnið í Höfn-
un, Fræðasetrið í Sandgerði og
fara í fjöruferð í nágrenni
Sandgerðis með Reyni Sveins-
syni.
Skoða byggðasafn Suður-
nesja í Reykjanesbæ, sjóminja-
safnið í Garði og safn Slysa-
varnafélags Íslands í Garði.
Skoða vitana á Reykjanesi en
þeir eru á Knarrarnesi á
Vatnsleysuströnd, Garð-
skagaviti, Sandgerðisviti, Staf-
nesviti, Reykjanesviti og Hóps-
nesviti í Grindavík.
Fara í jarðfræðiferð, skoða
hvernig Reykjaneshryggurinn
varð til og hvar plöturnar
þrýstast í sundur, önnur til
Evrópu og hin til Ameríku.
Skoða stærstu gufuborholu í
Evrópu og elddyngjurnar
Háleyjarbungu og Skálafell.
„Verði ykkur að góðu,“ sagði
Kristján að lokum.
Tíu ferðamatseðlar
AFTURKIPPUR virðist kominn í
áform vélsmiðjunnar Norma hf. í
Garðabæ um að byggja iðnaðarhús-
næði í Vogunum og flytja starfsem-
ina þangað vegna þess að starfsleyfi
fyrir slíka starfsemi er gefið út til
fjögurra ára í senn.
Vatnleysustrandarhreppur hefur
skipulagt nýtt iðnaðarhverfi utan við
Voga. Ráðist var í það nú vegna
áforma Norma hf. sem rekur vél-
smiðju og plastverksmiðju í Garðabæ
að flytja starfsemi sína þangað. Hef-
ur Normi fengið stærstu lóðina á
svæðinu, hugðist reisa þar 2000 fer-
metra hús í upphafi og flytja starf-
semina um áramótin.
Veikur grunnur
til fjárfestingar
Fyrirtækið er fjörutíu ára gamalt
en Sævar Svavarsson framkvæmda-
stjóri segir að fyrir tíu árum hafi það
verið beðið um að sækja um starfs-
leyfi vegna rekstursins í Garðabæ.
Það hafi verið gert en síðan hafi ekk-
ert heyrst frá heilbrigðiseftirlitinu.
Fyrirtækið seldi landið og þar á nú
að reisa umdeilt Bryggjuhverfi.
Normi fékk lóð í Hafnarfirði og hugð-
ist flytja starfsemina þangað. Þá fékk
það starfsleyfi út á gömlu umsókn-
ina, til fimm ára fyrir vélsmiðjuna og
til tíu ára fyrir plastverksmiðjuna.
Segist Sævar hafa verið óánægður
með þetta og svo hafi komið upp önn-
ur atriði, meðal annars varðandi lóð-
ina, sem gerðu það að verkum að
hann hafi viljað fara með fyrirtækið í
Vogana enda verið tekið vel á móti
þeim þar.
Unnið hefur verið að teikningum
og öðrum undirbúningi húsbygging-
ar í Vogum. Minnugur afskipta heil-
brigðiseftirlitsins hafi hann þó viljað
kanna starfsleyfismálin og fengið
þau svör hjá Heilbrigðiseftirliti Suð-
urnesja að samkvæmt reglugerð yrði
starfsleyfi ekki gefið út nema til fjög-
urra ára. Það yrði síðan endurnýjað.
„Mín reynsla af opinberum aðilum
er hins vegar sú að ég treysti þessu
ekki. Það gæti verið komin einhver
óvild eftir fjögur ár og settar kröfur
sem ekki væri hægt að uppfylla.
Þessi starfsemi er algerlega meng-
unarlaus. Ég hefði að sjálfsögðu ekk-
ert á móti því að starfsleyfið yrði aft-
urkallað ef við brytum af okkur. Það
fer enginn út í 200 til 250 milljóna
króna fjárfestingu á svona veikum
grunni. Ég held að niðurstaðan hljóti
að vera sú að við hættum við upp-
byggingu og hættum jafnvel alveg
rekstri,“ sagði Sævar. Hann vekur
jafnframt athygli á því að stóriðjufyr-
irtæki fengju starfsleyfi til mun
lengri tíma.
Samkvæmt reglugerð
Magnús Guðjónsson, forstöðumað-
ur Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja,
segir að umrædd starfsemi falli undir
reglugerð um starfsleyfi fyrir at-
vinnurekstur sem geti haft í för með
sér mengun, en hún var gefin út í
október árið 1999. Í umræddri reglu-
gerð kemur fram að starfsleyfi skuli
gefa út til tiltekins tíma og endur-
skoða á fjögurra ára fresti.
Magnús segir að stofnunin hafi eft-
irlit með 600 fyrirtækjum og þau séu
öll á fjögurra ára leyfi. Endurskoð-
unin sé nauðsynleg til að hægt sé að
taka tillit til breyttra aðstæðna, svo
sem breyttra reglna, nýrra efna á
markaði og hugsanlegra breytinga á
rekstri fyrirtækanna. Vissulega geti
kröfur til fyrirtækjanna verið hertar
við endurskoðun starfsleyfa en ekki
sé gripið til þess óyndisúrræðis að
loka þeim nema í algerum undan-
tekningartilvikum, þegar starfsemin
ógni öryggi eða heilsu starfsfólks eða
lífríkinu sé hætta búin. Afar sjald-
gæft sé að grípa hafi þurft til slíkra
úrræða.
Óöryggi vegna
fjögurra ára
starfsleyfis
Vogar
Afturkippur í áform Norma í Vogum
MYND júnímánaðar verður af-
hjúpuð í Kjarna næstkomandi föstu-
dag, 1. júní. Er það málverkið Nak-
in strönd eftir Hermann Árnason.
Nakin strönd er áttunda verkið í
kynningarátaki Markaðs- og at-
vinnumálaskrifstofu Reykjanes-
bæjar á myndlistarmönnum bæj-
arins. Myndin verður til sýnis í
Kjarna, Hafnargötu 57, allan mán-
uðinn og fer síðan yfir á Hótel
Keflavík og verður þar út júlímán-
uð. Í fréttatilkynningu frá menn-
ingarfulltrúa Reykjanesbæjar er
vakin athygli á því að á síðarnefnda
staðnum er enn hægt að sjá verk
maímánaðar en það er eftir Ástu
Árnadóttur.
Listamaður júnímánaðar, Her-
mann Árnason, er fæddur í Kefla-
vík 5. maí 1960 og hefur búið þar
meira og minna alla ævi. Hann er
sjálfmenntaður í myndlist en hefur
sótt námskeið víða, meðal annars á
vegum Baðstofunnar á árunum
1980 til 1982. Hermann hefur hald-
ið þrjár einkasýningar og tekið þátt
í einni samsýningu.
Hermann Árnason, myndlistarmaður júnímánaðar, við Nakta strönd.
Nakin strönd er
mynd júnímánaðar
Reykjanesbær