Morgunblaðið - 08.06.2001, Blaðsíða 50
MINNINGAR
50 FÖSTUDAGUR 8. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Eyjólfur Guð-mundsson fædd-
ist að Brekkum í Mýr-
dal 27. mars 1910.
Hann lést á Landspít-
alanum í Fossvogi 29.
maí síðastliðinn. For-
eldrar Eyjólfs voru
Guðmundur Eyjólfs-
son bóndi að Brekk-
um, f. 1. ágúst 1885,
d. 30 nóvember 1962,
og kona hans Ragn-
hildur Stígsdóttir, f.
27. ágúst 1887, d. 29.
mars 1951. Alls eign-
uðust þau 8 börn en
fimm þeirra létust á barnsaldri.
Bræður Eyjólfs sem upp komust
voru Jóhann Guðmundsson, f. 21.
janúar 1917, d. 16. apríl sl., og
Stígur Guðmundsson, f. 11. janúar
1914, d. 14. október 1989.
Þann 22. september 1933
kvæntist hann Sigrúnu Þórdísi
Þórarinsdóttur, f. 18. júlí 1912 frá
Úlfsá í Skutulsfirði, þeirra synir
eru 1) Þórir B. Eyjólfsson, f. 25.10.
1937, kona hans Helga Pálsdóttir,
f. 16. júní 1940, þeirra dætur eru
a) Erna fædd 2. apríl 1963, maki
Magnús E. Eyjólfsson, þeirra barn
Helga Kristín, f. 3. september
1992. b) Guðrún Kristín, f. 11.
ágúst 1972, sambýlismaður Aðal-
steinn H. Jóhannsson, þeirra dæt-
ur Dóra Jóna og Þórný Edda, f. 15.
febrúar 1999. 2) Guðni R. Eyjólfs-
son, f. 11. október 1947, kona hans
Guðríður Karlsdóttir, f. 31. des-
ember 1948. Þeirra dætur eru a)
Lára, f. 10. maí 1972, sambýlis-
maður Philippe Balzt Nielsen,
þeirra börn Yasmine og Oliver, f.
12. apríl 2001. b) Þórdís, f. 20. júní
1976. c) Unnur, f. 18. apríl 1986.
Einnig ólu þau upp systurson Sig-
rúnar, Þórarinn Guðnason, hans
kona er Anna Eymundsdóttir og
eiga þau 5 börn. 1)
Eyrún Björk, 5. mars
1967, maki Vignir
Sigurðsson og eiga
þau 2 dætur. 2) Inga
Sigrún, f. 30. nóvem-
ber 1969, sambýlis-
maður Heiðar Þór
Björnsson, eiga þau
einn son. 3) Finnur
Breki, f. 29. júlí 1974,
maki Hrefna Marín
Gunnarsdóttir. 4)
Eymundur Freyr, f.
12. maí 1976, sam-
býliskona Aðalheið-
ur Konráðsdóttir og
5)Steinunn Þyri, f. 1. mars 1984.
Eyjólfur lauk kennaraprófi frá
Kennaraskólanum í Reykjavík
1931. Hann var kennari í Arnar-
dals- og Skutulsfjarðarskóla-
hverfi 1931- ’43. Njarðvíkum 1943
-’47. Veturinn 1947-48 stundaði
hann nám við Danmarks Lærehöj-
skole í Kaupmannahöfn og kenndi
síðan í Melaskólanum 1948 -’50 og
síðan við Lækjarskólann í Hafnar-
firði 1950 -’61. Fostöðumaður
unglingavinnu Hafnarfjarðarbæj-
ar í nokkur ár eftir 1951. Síðan í
17 sumur við tollgæslustörf á
Keflavíkurflugvelli. Kennari við
Flensborgarskólann 1961 -’79, þar
af síðustu árin við bókasafn skól-
ans við að flokka og skrásetja
safnið.
Frá 1989 starfaði hann við
hjúkrunarheimilið Skjól, við að
koma á fót og skrásetja bókasafn-
ið þar ásamt upplestri fyrir vist-
fólk. Mörg ár var hann í stjórn Al-
þýðuflokksfélags Hafnarfjarðar
og nokkur ár ritsjóri Alþýðublaðs
Hafnarfjarðar og í stjórn Rauða-
krossdeildar Hafnarfjarðar.
Útför Eyjólfs fer fram frá Víði-
staðakirkju í dag og hefst athöfnin
klukkan 13.30.
Elsku afi minn. Allar minningar
sem koma upp í huga mér eru óend-
anlegar, en þó er ein sem sækir
sterkast að mér, það er þegar þú
sagðir mér frá draum einum, sem
þig hafði dreymt:.
Þú ásamt vini þínum voruð á leið
til himnaríkis og komust loks að
hliðinu mikla, kom þá Lykla-Pétur
til dyra en vildi bara hleypa vini þín-
um inn, en ekki þér, þar sem þú
varst á skítugum skónum, að hans
mati.
Efast ég þó ekki um að þú hafir
náð að bjarga þessu eins og öllu öðru
og fengið inngöngu í Himnaríkið,
elsku afi minn.
Ég sakna þín sárt og geymi minn-
ingar um þig í hjarta mínu.
Unnur.
Elsku afi. Alltaf er gott að eiga
góðan afa, en við systurnar höfum
verið þeirrar ánægju aðnjótandi í
mörg ár. Við höfum fengið að dreypa
á þeim viskubrunni og þekkingu
sem þú hafðir til að bera og mun það
fylgja okkur í gegnum gleði okkar
og sorgir.
Við varðveitum minninguna um
þig í hjörtum okkar.
Hugsa um það helst og fremst,
sem heiðurinn má næra.
Aldrei sá til æru kemst,
sem ekkert gott vill læra.
Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður,
sem hafnar siðum góðum.
Oft er sá í orðum nýtur,
sem iðkar menntun kæra,
en þursinn heimskur þegja hlýtur,
sem þrjóskast við að læra.
Elsku afi, þín verður sárt saknað.
Lára og Þórdís.
Eyjólfur Guðmundsson kenndi
okkur í Barnaskóla Hafnarfjarðar á
árunum áður. Hann var kennarinn
okkar frá upphafi til enda, í sex vet-
ur. Rólegur og yfirvegaður hélt Eyj-
ólfur í taumana á tápmiklum og fjöl-
mennum bekk. Við vorum orðin 35 í
12 ára bekk!
Eyjólfur las fyrir okkur sögur og
lét okkur læra ógrynni ljóða utan-
bókar. Sú undirstaða sem hann
veitti okkur nýttist okkur mjög vel á
lífsleiðinni. Eftir að hann sleppti af
okkur hendinni að loknu fullnaðar-
prófi fundum við líka að hann bar
fyrir okkur umhyggju og fylgdist
með hvernig okkur vegnaði.
Þegar við kvöddum Eyjólf vorið
1959 fórum við til Gunnars Hjalta-
sonar gullsmiðs og keyptum handa
honum silfursleginn bókahníf. Við
urðum þrælmontin þegar við sáum
hvað hann varð glaður. Annað tæki-
færi fengum við til að gleðja hann,
og þá ekki síður okkur sjálf, því þeg-
ar hann varð áttræður héldum við
honum kaffisamsæti og gáfum hon-
um armbandsúr.
Eyjólfur var góður maður og frá-
bær kennari. Í þakklætis- og kveðju-
skyni tileinkum
við honum ljóðið Jarðerni eftir Jó-
hannes úr Kötlum:
Af þér er ég kominn undursamlega jörð:
eins og ljós skína augu mín á blóm þín
eins og snjór lykja hendur mínar um grjót þitt
eins og blær leikur andardráttur minn um gras
þitt
eins og fiskur syndi ég í vatni þínu
eins og fugl syng ég í skógi þínum
eins og lamb sef ég í þínum mó.
Að þér mun ég verða undursamlega jörð:
eins og sveipur mun ég hverfast í stormi þínum
eins og dropi mun ég falla í regni þínu
eins og næfur mun ég loga í eldi þínum
eins og duft mun ég sáldrast í þína mold.
Og við munum upp rísa undursamlega jörð.
Við vottum sonum Eyjólfs og fjöl-
skyldum þeirra innilega samúð.
7–12 ára bekkur A í
Barnaskóla Hafnarfjarðar
1953–1959.
Fallinn er frá sómamaðurinn,
Eyjólfur Guðmundsson, fyrrum
kennari, rúmlega níræður að aldri.
Með honum er genginn góður og
gegn jafnaðarmaður, sem Alþýðu-
flokkurinn í Hafnarfirði á margt að
þakka.
Hafnarfjarðarbær hefur einnig
misst einn af sínum góðu sonum,
sem settu mark sitt á bæjarlífið á
liðinni öld; Eyjólfur meðal annars
með störfum sínum sem farsæll
kennari í Barnaskóla Hafnarfjarðar,
síðar Lækjarskóla, um langt árabil
og virkri þátttöku í margháttuðu
félagsstörfum sem höfðu mannbæt-
andi áhrif á bæjarlífið.
Sjálfur man ég fyrst eftir Eyjólfi,
þegar ég hóf grunnskólanám í Lækj-
arskóla upp úr 1960. Eyjólfur hafði
þá starfað þar um árabil og var þar í
hópi traustra og góðra skólamanna.
Hann ávann sér fljótt virðingu okk-
ar krakkanna. Var fjölfróður og átti
hægt með að miðla þekkingu, en gat
verið fastur fyrir og jafnvel strangur
í fasi, ef þörf var á. Var ekki laust við
að ég bæri óttablandna virðingu fyr-
ir Eyjólfi á þessum barnaskólaárum.
Okkar samskipti tóku síðar á sig
nýja mynd á áttunda áratugnum,
þegar ég hóf virka þátttöku í Al-
þýðuflokknum í Hafnarfirði. Varð ég
þess fljótt var, að Eyjólfur naut
trausts og trúnaðar samflokks-
manna sinna, enda hafði hann gegnt
fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir
jafnaðarmenn í Hafnarfirði í gegn-
um árin. Var m.a. ritstjóri Alþýðu-
blaðs Hafnarfjarðar og meðal for-
ystumanna hinnar öflugu og
kröftugu sveitar Alþýðuflokks-
manna. Við endurnýjuð kynni á
breyttum vettvangi birtist mér
mannkostamaðurinn Eyjólfur Guð-
mundsson, sem hafði réttlæti, jöfnuð
og samhjálp sem viðlag í hinu dag-
lega lífi. Hann var hógvær í fasi, en
fastur fyrir ef því var að skipta.
Eyjólfur lét víðar til sín taka á
vettvangi félagsmála en í starfi fyrir
Alþýðuflokkinn. Þannig var hann í
forystusveit Rauða krossins í bæn-
um, í fyrstu stjórn Norræna félags-
ins í Hafnarfirði og var ásamt
Snorra Jónssyni samkennara sínum
fyrsti forstöðumaður vinnuskólans í
Krýsuvík, sem bæjaryfirvöld komu
á fót fyrir drengi til sumardvalar á
sjötta áratugnum. Hér er fátt eitt
talið.
Þegar árin færðust yfir lét Eyjólf-
ur yngra fólki eftir stöðu í forystu-
sveit jafnaðarmanna í bænum. Æv-
inlega var hann þó skammt undan,
kom á fundi, leit við í Alþýðuhúsinu
á ferð um bæinn og var ætíð
reiðubúinn að leggja jafnaðarstefn-
unni lið, ef á þurfti að halda.
Þessum áhuga sínum og þessari
ræktarsemi í garð samherja á hinum
pólitíska vettvangi hélt hann fram
undir það síðasta.
Á bæjarfulltrúa- og bæjarstjóra-
árum mínum í Hafnarfirði á níunda
áratugnum og fram undir miðjan
þann tíunda, þá hittumst við Eyjólf-
ur að máli annað veifið og ræddum
lífsins gagn og nauðsynjar. Var þá
Eyjólfur kominn á efri ár, en þó vel
hress til líkama og sálar. Fann ég þá
sem fyrr hlýhug hans til bæjar-
félagsins og áhuga hans á vexti þess
og viðgangi.. Þá voru áherslur hans
þær sömu og fyrr: mikilvægt væri að
jafna rétt fólks til lífsins gæða og að
samfélagið gætti vel að þeim er höll-
um fæti stæðu í lífsbaráttunni.
Hvatti hann mig og aðra fulltrúa
flokksins til dáða og bað okkur vel
að duga í baráttunni fyrir jafnaðar-
stefnuna.
Að verðleikum var Eyjólfur Guð-
mundsson gerður að heiðursfélaga í
Alþýðuflokksfélagi Hafnarfjarðar
fyrir rúmum tíu árum.
Við leiðarlok vil ég þakka Eyjólfi
Guðmundssyni samfylgdina og hans
góðu störf fyrir Alþýðuflokkinnn
alla tíð. Það veit ég að hafnfirskir
jafnaðarmenn, sem nú skipa sér
undir merkjum Samfylkingarinnar,
minnast hans með þakklæti og
hlýju.
Fjölskyldu Eyjólfs sendi ég mínar
innilegustu samúðarkveðjur.
Blessuð sé minning Eyjólfs Guð-
mundssonar.
Guðmundur Árni Stefánsson.
Þegar Eyjólfur Guðmundsson hóf
ævistarf sitt sem kennari fyrir rétt-
um sjötíu árum var ekki liðinn fullur
aldarfjórðungur frá því að fræðslu-
lög tóku gildi á Íslandi. Hann var af
annarri kynslóð íslenskra barna-
kennara, þeirri kynslóð sem í æsku
naut handleiðslu fyrstu kynslóðar-
innar: frumherjanna sem höfðu bar-
ist harðri baráttu fyrir setningu
fræðslulaganna og loks haft sigur
1907. Kynslóðin sem við tók mótað-
ist af viðhorfum hinna eldri og hug-
sjónaeldi þeirra, ekki síst þeirri trú
að almenn menntun væri undirstaða
allra framfara og að enginn væri svo
aumur að ekki mætti kenna honum
eitthvað ef rétt væri að farið. Í aug-
um þessara manna margra var
kennarastarfið köllun ekkert síður
en lifibrauð.
Í Mýrdalnum, átthögum Eyjólfs,
var strax í aldarbyrjun vaknaður
mikill metnaður og áhugi á að sinna
barnafræðslunni sem best, og var
meiru til þeirra mála kostað þar í
sveit en víðast hvar annarstaðar.
Þar voru þegar fyrir setningu
fræðslulaganna komnir á fót fimm
formlegir barnaskólar og auk þess
farkennsla fyrir þau börn sem
bjuggu of fjarri skólastöðunum. Og
til að annast kennsluna völdust yf-
irleitt kennarar í fremstu röð.
Mér þykir líklegt að sá mikli
fræðslumálaáhugi sem var ríkjandi í
Mýrdalnum á uppvaxtarárum Eyj-
ólfs og kynni hans af kennurum sín-
um í barnaskóla og síðar í unglinga-
skólanum í Vík hafi átt þátt í, ef ekki
beinlínis valdið því, að hann leitaði í
Kennaraskólann til að gera kennslu
að ævistarfi sínu. Þetta veit ég að
vísu ekki; ég spurði Eyjólf aldrei að
því, datt það hreinlega aldrei í hug
fyrr en nú nýlega en kom því ekki í
verk frekar en mörgu öðru, – og svo
var það allt í einu orðið of seint.
En hver sem ástæðan kann að
vera, þá fór Eyjólfur í Kennaraskól-
ann og lauk þaðan kennaraprófi vor-
ið 1931. Sama ár fékk hann starf við
farkennslu fjarri æskuslóðunum, í
Skutulsfirði í Ísafjarðarsýslu. Á því
svæði voru tveir gamalgrónir heim-
angönguskólar: í Ísafjarðarkaup-
stað og í Hnífsdal, en farkennsla
varð að nægja í öðrum hlutum Eyr-
arhrepps. Þar voru skólahús á
tveimur stöðum, annað við botn
Skutulsfjarðar en hitt í Arnardal úti
á nesinu sunnan fjarðarins, og voru
um 10 kílómetrar milli kennslustað-
anna og um Kirkjubólshlíð að fara
sem gat verið erfið yfirferðar að
vetrarlagi.
Venjan hafði verið sú að kennar-
inn væri viku í senn við kennslu á
hvorum staðnum en hina vikuna áttu
börnin að búa sig undir næstu lotu
með heimanámi. Þetta fyrirkomulag
var algengt við farskólakennslu, þó
að sumstaðar væru bæði loturnar og
hléin milli þeirra höfð lengri og þá
oftast tvær vikur. En Eyjólfur hafði
vanist því í Mýrdalnum að örari
skipti væru milli skóladaga og
heimanámsdaga, því að þar hafði sá
siður komist á að sami kennarinn
kenndi í tveimur skólum til skiptis
annan hvorn dag. Honum þótti vika
of langur tími fyrir börnin að vera án
skólans og stytti því bæði kennslu-
loturnar og hléin niður í hálfa viku.
Vegna aðstæðna gat hann ekki stig-
ið skrefið til fulls, en þetta var í átt-
ina og almennt var viðurkennt að
þessi breyting hefði orðið til að bæta
árangur skólastarfsins.
Ég nefni þetta hér af því að mér
finnst það lýsa Eyjólfi býsna vel.
Hann hefði ekki þurft að taka upp
þessa nýbreytni; enginn hefði getað
fundið að því þótt hann hefði hagað
starfi sínu á sama hátt og áður hafði
tíðkast. En hann taldi þetta vera til
bóta fyrir börnin, og fyrst svo var
taldi hann ekki eftir sér að bæta því
á sig að þurfa að ganga milli skóla-
staðanna erfiða leið og stundum við-
sjárverða vegna snjóflóða helmingi
oftar en fyrri kennarar höfðu gert.
Eftir tólf ára dvöl í Skutulsfirði
fluttist Eyjólfur suður árið 1943.
Hann var þá búinn að vera fjöl-
skyldumaður í áratug, en 1933
kvæntist hann heimasætu úr sveit-
inni, Sigrúnu Þórarinsdóttur frá
Úlfsá í Skutulsfirði, sem varð honum
traustur lífsförunautur ævilangt.
Þau settust fyrst að í Njarðvíkum,
þar sem Eyjólfur kenndi í fjögur ár.
1947–48 fékk hann orlof og stundaði
þá nám við Kennaraháskólann í
Kaupmannahöfn, en eftir heimkom-
una starfaði hann við Melaskólann í
Reykjavík í tvo vetur. Þá flutti hann
sig enn um set 1950 og réðst sem
kennari við Barnaskóla Hafnar-
fjarðar, sem þá bar ennþá sitt rétta
nafn.
Hafnarfjörður varð eftir það
heimili hans og starfsvettvangur í
hálfa öld. Hann kenndi þar við
barnaskólann í rúman áratug, en
1961 fluttist hann í gagnfræðaskóla
bæjarins, Flensborgarskólann, og
starfaði þar uns hann féll fyrir ald-
ursmarkinu 1980. Lengi vel kenndi
hann einkum þeim nemendum sem
mestrar aðstoðar þurftu við, en síð-
ustu árin sá hann um bókasafn skól-
ans. Samhliða kennslustörfum tók
hann talsverðan þátt í félagsmálum í
bænum og var meðal annars rit-
stjóri Alþýðublaðs Hafnarfjarðar
um skeið. Eftir að hann lét af störf-
um starfaði hann einnig mikið hjá
félögum eldri borgara og stóð meðal
annars fyrir gönguferðum á þeirra
vegum fram á níræðisaldur.
Kynni okkar Eyjólfs voru einkum
tengd Flensborgarskólanum, þar
sem ég var fyrst samkennari hans
og síðan yfirmaður. Störf sín fyrir
skólann rækti hann af alúð og ósér-
hlífni og á kennarastofu var gott að
hafa hann nálægt sér. Úrlausnarefni
sem upp komu var hann alltaf tilbú-
inn til að leysa á þann veg sem best
kom sér fyrir skólann og einstaka
nemendur, og ef hann gat veitt að-
stoð við eitthvað bauð hann hana oft
fram ótilkvaddur.
Sérstakt dæmi um þetta síðasta
get ég ekki stillt mig um að nefna
hér, því að það lýsir nokkuð vel þess-
ari hlið á Eyjólfi.
Fyrst eftir að laugardagur var af-
lagður sem kennsludagur í Flens-
borgarskólanum kom fyrir að próf
væru höfð á þeim degi til að próf-
taflan gengi betur upp, og það þá
ákveðið í samráði við nemendurna
eða fulltrúa þeirra. Í eitt skipti var
stúdentspróf í íslenskri ritgerð
ákveðið á laugardegi, en þegar próf-
taflan hafði verið birt kom til mín
einn úr nemendahópnum og sagðist
ekki geta gengið undir próf á þeim
degi af trúarástæðum. Hann stakk
upp á því að hann fengi að taka próf-
ið kvöldinu áður, og síðan yrði lög-
reglan fengin til að geyma hann í
fangaklefa til morguns svo að tryggt
væri að ritgerðarefnin bærust ekki
öðrum nemendum fyrirfram; kvaðst
vita dæmi þess að slíkt hefði verið
gert í öðrum skólum. Nægur tími
var þá enn til stefnu, svo að ég sagð-
ist aðeins skyldi athuga málið og
láta hann vita niðurstöðuna. Satt að
segja hugnaðist mér ekki sú leið sem
nemandinn stakk upp á og færði það
í tal við samstarfsmenn mína hvort
ekki væri hægt að finna einhverja
manneskjulegri leið en þessa. Þetta
spurðist fljótt út meðal kennara og
þá leið ekki á löngu þar til Eyjólfur
kom til mín og bauðst til að hlaupa
undir bagga. Hann skyldi taka nem-
andann heim til sín strax að prófinu
loknu, bjóða honum gistingu og
halda honum hjá sér þar til prófið
væri hafið hjá hinum uppi í skóla.
Þetta boð Eyjólfs var auðvitað þáð
með þökkum. En um þetta má segja
það sama og um þéttingu kennslu-
daganna í Skutulsfirði forðum.
Hann hefði ekki þurft að gera þetta,
en gerði það samt af því að það kom
sér vel fyrir nemandann.
Eyjólfur Guðmundsson hefur nú
kvatt þennan heim eftir langa og
farsæla ævi. Hann var alla tíð trúr
þeim hugsjónum sem mótuðu hann
ungan og góður fulltrúi þeirrar kyn-
slóðar kennara sem komust til
þroska á fyrstu áratugum nýliðinnar
aldar. Manns af þeirri gerð er gott
að minnast.
Kristján Bersi Ólafsson.
EYJÓLFUR
GUÐMUNDSSON
Handrit afmælis- og minningargreina skulu
vera vel frá gengin, vélrituð eða tölvusett.
Sé handrit tölvusett er æskilegt, að disk-
lingur fylgi útprentuninni. Auðveldust er
móttaka svokallaðra ASCII-skráa, öðru
nafni DOS-textaskrár. Ritvinnslukerfin
Word og Wordperfect eru einnig auðveld í
úrvinnslu. Senda má greinar til blaðsins í
bréfasíma 569 1115, eða á netfang þess
(minning@mbl.is) — vinsamlegast sendið
greinina inni í bréfinu, ekki sem viðhengi.
Nánari upplýsingar má lesa á heimasíðum.
Það eru vinsamleg tilmæli að lengd greina
fari ekki yfir eina örk A-4 miðað við með-
allínubil og hæfilega línulengd – eða 2.200
slög. Höfundar eru beðnir að hafa skírnar-
nöfn sín en ekki stuttnefni undir greinunum.