Morgunblaðið - 24.06.2001, Blaðsíða 14
14 SUNNUDAGUR 24. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
Hjá ríkissjóði hafa verið gjaldfærðar mjög
stórar tölur, sem þó skipta ekki máli upp á
fjárstreymið, vegna lífeyrisgreiðslna kenn-
ara – ekki milljónir heldur milljarðar af því
að lífeyrisskuldbindingar kennara lenda á
ríkinu.“
Aðgerðir ríkisins styrkja stöðu
gjaldmiðilsins
–En er ekki eðlileg spurning núna þegar
bæði fyrirtæki og heimili herða sultarólina,
hvort ríkið eigi ekki að gera slíkt hið sama,
sýna gott fordæmi og spara?
„Jú, ríkið þyrfti út af fyrir sig að gera það.
Á móti kemur að við höfum yfirleitt skorið
niður framkvæmdafé, því að ríkið hefur lítil
tækifæri til að draga saman í rekstri. Rekst-
ur er fyrst og fremst laun og það er ekkert
hlaupið að því að draga saman laun. Þau eru
bundin í kjarasamningi og eina leiðin er þá
að segja fólki upp, sem er hægara sagt en
gert þegar ríkið á í hlut. Þá er alltaf þrauta-
lendingin sú að draga saman í framkvæmd-
um og fjárfestingum. Það höfum við stund-
um gert og verið skammaðir fyrir. Núna í
augnablikinu er það ekki endilega rétta
lausnin þegar samdrátturinn í framkvæmd-
um annars staðar er svona mikill.
Kosturinn er þó sá að við erum ekki að
fara í halla á ríkissjóði, heldur aðeins minni
afgang. Það segir mikla sögu um styrk rík-
issjóðs á þessum tíma. Harkalegur niður-
skurður er því kannski ekki nákvæmlega það
sem við þurfum að ráðast í núna. Aðrir hafa
svigrúm. Einstaklingar hafa svigrúm til að
fara ekki í fjárfestingar í bili, í það minnsta
forðast hreinar eyðslufjárfestingar. Við höf-
um öll farið í slíkar fjárfestingar þegar laun-
in hafa hækkað. Nú verðum við öll að hægja
aðeins á og það er fólk að gera. Það þarf ekk-
ert að prédika yfir því. Við sjáum þetta á
samdrætti í bílaviðskiptunum og fleiri slík-
um hlutum.
Við ætlum nú að selja hlut ríkisins í
Landsbankanum og Landssímanum og það
verður gert með þeim hætti að það stuðli að
því að hingað geti komið stórir erlendir fjár-
festar, sem styrki stöðu gjaldmiðilsins og
stuðli þannig að hækkandi gengi. Varðandi
virkjunarframkvæmdir og verksmiðjubygg-
ingar mun með þeim streyma inn erlent fjár-
magn, sem mun hafa sömu áhrif.
Þið nefnduð skattalækkanirnar. Það er
ekki víst að af þeim verði fyrr en um áramót-
in. Það eru þó sterkar vísbendingar um að
þær verði, meðal annars vegna yfirlýsinga
Halldórs Ásgrímssonar á flokksfundi Fram-
sóknarflokksins sem eru mjög í takt við mín-
ar yfirlýsingar. Svo eru atriði, sem ættu að
vera til þess fallin að auka öryggi í rekstri
fyrirtækja. Ríkisstjórnin hefur verið að
skoða breyttar reglur, þannig að fyrirtæki
geti gert upp reikninga sína í erlendri mynt.
Það hefur mikla þýðingu fyrir fyrirtæki, sem
eru með stóran hluta eða jafnvel næstum alla
starfsemi sína erlendis en fyrirtækið skráð
hér á landi. Þetta er líka þýðingarmikið að
gera um leið og við tölum um að lækka
skatta á fyrirtækjum svo mikið að það sé til
þess fallið að fyrirtæki flytji starfsemi sína
hingað og greiði skatta hér. Þá skiptir miklu
máli að menn geti gert upp í erlendum gjald-
miðlum.
Tekin hafa verið erlend lán til að styrkja
gjaldeyrisforðann og Seðlabankinn hefur
gert samninga um að hafa aðgang að miklu
fjármagni, sem hann hefur nú í meiri mæli
en nokkru sinni fyrr.
Allar þessar aðgerðir af hálfu ríkisins ættu
að vera til þess fallnar að styrkja stöðu
gjaldmiðilsins og efla trú á honum. Þá ætti
það að ganga fram, sem flestir spá og við
höfum haldið fram að væri líklegast að
myndi gerast; að gengið muni frekar styrkj-
ast en veikjast úr því sem komið er, jafnvel
verulega.
Þetta eru meginþættirnir. En það verða
engar pataðgerðir af hálfu ríkisins. Það er
löngu liðinn tími að menn séu með slíkar að-
gerðir.“
Betra að selja bréf í ríkisfyrirtækjum
á raunhæfu verði
–Þú nefndir einkavæðingu ríkisfyrirtækja.
Það ber talsvert á umræðum um að hún fari
of seint af stað og að vegna verðlækkunar á
hlutabréfamarkaði muni einkavæðingin ekki
skila þeim árangri, sem hún hefði gert fyrir
ári. Misstuð þið af góðu tækifæri?
„Hún mun ekki skila ríkissjóði jafnmiklum
tekjum og hún hefði gert fyrir ári, það er
rétt. En mér þætti satt að segja djöfullegt að
sitja uppi með það að við hefðum selt þessi
fyrirtæki fyrir ári, almenningur hefði keypt
hlut í góðri trú og nú ári síðar sæti almenn-
ingur uppi með mikið tap en ríkissjóður hefði
fitnað eins og púkinn á fjósbitanum. Við
verðum að horfa á þetta frá tveimur sjón-
arhornum; ekki bara ríkissjóðs. Ég held að
það hefði orðið mikið áfall fyrir einkavæð-
inguna og trú almennings á henni ef fólk
hefði keypt bréf af ríkissjóði, sem síðan
hefðu lækkað um 30–40% í kjölfarið. Mér
finnst betra að markaðurinn róist, að síðan
verði bréfin seld á raunhæfu verði og al-
menningur geti þá búist við að þau hækki.“
–Þú ræddir jafnframt eingöngu um sölu á
Landssímanum og Landsbankanum.
„Við munum fara fyrr af stað með Lands-
bankann en Búnaðarbankann. Ríkisvaldið,
sem ræður því, hefur ákveðið að það þurfi að
færast kyrrð yfir þessi mál, sem hafa verið
hjá Búnaðarbankanum. Þau þurfa að klárast
og það þarf allt að vera á hreinu. Ekki það að
við höldum að óhreint mjöl sé í pokahorninu,
alls ekki, en þessi mál þurfa öll að vera frá
áður en sú vara er seld.“
Sjálfstæð mynt lagar
sig að efnahagsástandinu
–Við höfum talað mikið um krónuna og
gengi hennar. Gengissveiflurnar að undan-
förnu virðast hafa leitt til þess að í viðskipta-
lífinu hafi fylgi aukist við þá skoðun að krón-
an dugi ekki til lengdar og nauðsynlegt sé að
leita samstarfs við stærra myntsvæði. Þá
horfa menn ýmist til evru eða dollars. Á
krónan, sem menn hafa sagt að sé minnsta
sjálfstæða mynt heims, langa framtíð fyrir
sér?
„Mér sýnist að menn hafi helst horft til
evrunnar. Það gerðu þeir þó ekki þegar evr-
an var að falla um 15–20%, algerlega óháð
því, sem var að gerast í íslensku efnahagslífi.
Hinn augljósi kostur við að hafa sérstaka
mynt í landi, sem hefur sérstakan efnahag
og um margt ólíkan því sem gerist í ná-
grannaríkjunum, er að ef krónan lækkar og
það er ekki út af einhverri taugaveiklun, er
það væntanlega vegna þess að það er í sam-
ræmi við það efnahagsástand, sem er í land-
inu. Myntin lagar sig að því. Þegar evran
lækkar um 15–20%, þvert ofan í spár allra
hagfræðinga sem höfðu sagt að hún yrði
sterkari en dollarinn, hefur það ekkert með
efnahagsástand á Íslandi að gera. Evran
myndi aldrei verða fyrir neinum áhrifum af
efnahagsástandi á Íslandi. Hún verður aftur
á mótifyrir áhrifum af efnahagsástandinu til
dæmis í Þýskalandi. Nú eru Þjóðverjarnir að
heimta vaxtalækkun, sem kemur t.d. bölv-
anlega við Íra af því að hún gæti hleypt verð-
bólgunni hjá þeim í loft upp. En Írarnir
skipta ekki máli. Þeir eru bara pínulítil þjóð
og menn sjá að við myndum engu máli skipta
í þessu sambandi.
Menn hafa sagt að Mónakó geti fengið að-
ild að evrunni án þess að vera í Evrópusam-
bandinu. Þetta er svo sprenghlægilegt að
það tekur engu tali. Mónakó er búin að vera í
tollabandalagi við Frakkland frá 1865 og hef-
ur haft sömu mynt og Frakkland frá 1925.
Þeir hafa ekki einu sinni eigin forsætisráð-
herra; hann situr í frönsku ríkisstjórninni,
skipaður af Frakklandsforseta. Ekki nóg
með það, heldur kemur fram í Maastricht-
sáttmálanum að Mónakó geti verið með í
evrunni. Ég skil ekki af hverju þetta kemur
upp núna. Þetta er einhver dæmigerð íslensk
vitleysa, sem menn grípa og er svo horfin
eftir viku þegar menn átta sig á að þeir hafa
hlaupið á sig.
Mér finnst hins vegar sjálfsagt og eðlilegt
að þessi umræða um krónuna komi upp. Það
hefði verið óheilbrigt að ganga í gegnum
svona lotu eins og við höfum nú gert með
myntina, án þess að menn ræddu hvort við
ættum að taka upp evru eða dollar. Við eig-
um að fara hart í gegnum þá umræðu, en
rökin sem ég færi gegn slíku hljóta að koma
fram jafnt og rökin með því. Meginatriðið er
þó það, að slíkt er ekki lausn á þeim skamm-
tímavanda, sem við erum í. Ég held að menn
séu ekki að tala um það í neinni alvöru að
fara út í einhliða tengingu, eins og Bretar og
Svíar gerðu og töpuðu ofboðslegum fjárhæð-
um á. Í Svíþjóð voru vextirnir komnir upp í
800% þegar þeir voru orðnir hvað örvænt-
ingarfyllstir að bjarga þeirri tengingu.
Þetta er svipuð röksemdafærsla og varð-
andi gengisfestuna en lýtur allt öðrum lög-
málum. Ef evran hækkaði t.d. langt upp fyrir
dollar og það passaði ekki fyrir okkur, yrð-
um við samt að hamast við að elta það.
Ef okkar markaður væri hins vegar þann-
ig að hann væri að langmestu leyti tengdur
evrusvæðinu, Bretar, Svíar, Danir og
kannski fleiri, t.d. Svisslendingar, komnir
þangað inn, þá væri slík tenging miklu raun-
særri, hvort sem við værum í myntinni eða
tengdumst henni. Þá væri miklu líklegra að
okkar sveiflur væru mjög líkar þeirra sveifl-
um. Í dag eru rúmlega 30% okkar viðskipta
við evrusvæðið.“
Upptaka evru er ekki lausn
á skammtímavanda
„Ég tek undir að umræðan á fullan rétt á
sér við þessar aðstæður. Hvenær ættu menn
að ræða þetta ef ekki núna? En menn verða
þá líka að hafa staðreyndir fyrir framan sig.
Í ávarpi mínu 17. júní sagði ég að það gæti
tekið 6–7 ár að breyta skipan gjaldmiðils-
mála. Það var mjög varlega talað af minni
hálfu. Ef við ætlum að fara í evruna þurfum
við fyrst að fara í Evrópusambandið. Til að
fara í Evrópusambandið þurfum við að
breyta stjórnarskránni. Um það er ekki
deilt. Það var samdóma álit þeirra lögfræð-
inga, sem töldu að okkur væri óhætt í EES
án þess að breyta stjórnarskránni. Stjórn-
arskránni er breytt þannig að Alþingi þarf
að samþykkja breytingarnar tvisvar, fyrir og
eftir kosningar. Það er enginn vilji til þess í
augnablikinu að breyta stjórnarskránni.
Sumir flokkar tala um að skilgreina samn-
ingsmarkmið gagnvart ESB, hvað sem það
nú þýðir, en enginn talar um að breyta
stjórnarskránni. Þá geta menn varla breytt
stjórnarskránni fyrr en 2007, nema að fara
að rjúfa þing og boða til kosninga. Það væri
hægt en ekki líklegt.
Síðan kæmi fram lagafrumvarp, sem yrði
mjög umdeilt á þinginu eftir kosningarnar,
hvernig sem þær færu. Það lagafrumvarp
yrði kannski samþykkt 2008 eða 2009. Þá
færum við væntanlega í viðræður við Evr-
ópusambandið. Þær hafa yfirleitt tekið 2–5
ár hjá nýjum ríkjum. Ég geri ráð fyrir að
okkar viðræður tækju miklu skemmri tíma,
vegna þess að við erum búin að aðlaga okkur
í gegnum EES. Segjum að þær tækju tvö ár.
Þá er komið 2010. Þá þarf að fara í þjóð-
aratkvæðagreiðslu, eins og allir flokkar hafa
lofað. Segjum að hún myndi vinnast, sem ég
efast reyndar um. Þá er komið að því að
ganga frá samningi við Evrópusambandið,
sem tekur kannski hálft ár, og þá er sam-
kvæmt reglum Evrópusambandsins ekki
heimilt að taka upp myntina fyrr en tveimur
og hálfu ári síðar. Þá er komið árið 2013.
Þetta eru bara staðreyndir málsins. Þann-
ig að um leið og ég segi að það sé sjálfsagt að
menn ræði kosti og galla þess að fara í evr-
una eða tengjast dollar, sem er miklu flókn-
ara af því að menn eru ekki að tala um að
fara að samsama sig bandarísku efnahagslífi,
þá er ekki hægt að leysa skammtímavanda í
gengismálum með þessari umræðu. Menn
verða að greina þar á milli. Mér finnst
glannalegt hjá einstökum mönnum að tala
eins og við getum leyst þennan vanda núna
með því að fara inn í evruna.“
–Þú ert í raun að segja að til þess að sækja
um aðild að Evrópusambandinu yrði að
breyta stjórnarskránni fyrst – öðruvísi væri
ekki hægt að sækja um?
„Já. Ég held að það væri út af fyrir sig
hægt að fara í ákveðnar viðræður án þess að
breyta stjórnarskránni, en þegar talað er um
að sækja formlega um aðild yrði að breyta
stjórnarskránni áður. Þetta skiptir þó
kannski ekki öllu máli; tímaramminn yrði
eftir sem áður svipaður – það myndi ekki
muna mjög miklu. Þegar ég talaði um 6–7 ár
á Austurvelli var ég að reyna að þrengja
þetta niður í það að allt gengi eins vel og
mögulegt væri, en líklegast er að þetta yrðu
12–13 ár.“
Verkföll notuð til að reyna að
sprengja sátt á vinnumarkaði
–Í ályktun miðstjórnar ASÍ fyrr í vikunni
varst þú gagnrýndur fyrir að reyna að dreifa
athyglinni frá efnahagsstjórninni með yfir-
lýsingum þínum í þjóðhátíðarræðunni um
verkföll. ASÍ heldur því fram að stjórnvöld
geti ekki firrt sig ábyrgð á verkföllum op-
inberra starfsmanna og sjómanna, af því að
þau séu annars vegar annar samningsaðila
og hins vegar hafi þau spillt fyrir með tíðum
inngripum.
„Þetta er hvort tveggja rangt. Ég er ekki
að reyna að draga athyglina frá einu eða
neinu. Hins vegar held ég að það sé ómót-
mælanlegt að í þessu góða landi okkar, þar
sem kjörin hafa verið býsna góð undanfarið,
er það furðulegt að t.d. kennarar fari í
tveggja mánaða verkfall. Ég held því fram
að það myndi enginn gera annars staðar í
heiminum. Þá segja menn að sjaldan valdi
einn þá tveir deila. Ég held því fram líka að
verkfall hefði alls staðar staðið í tvo mánuði
eða lengur ef krafan hefði verið 80% og að í
því tilfelli sé ekki hægt að saka menn um eitt
eða neitt. ASÍ hlýtur að sjá að ef við hefðum
samið um 80% launahækkun til að koma í
veg fyrir tveggja mánaða verkfall kennara,
hefði ASÍ ekki setið hjá og samningar á al-
menna vinnumarkaðnum splundrast. Al-
þýðusambandið getur alveg eins komið fram
við vinnuveitendur með sama hætti og op-
inberir starfsmenn koma fram við okkur, en
þeir gera það ekki af því að þeir vita að slíkt
myndi setja fyrirtækin á höfuðið. Opinberir
starfsmenn hafa ekki þá sömu tilfinningu.
Ríkið fer ekki á höfuðið þótt við fáum 80–
90% kauphækkun, hugsa þeir. En einmitt
þessi verkföll hafa verið notuð til að reyna að
sprengja upp þá sátt, sem hefur verið annars
staðar á vinnumarkaði og eru þannig
kannski hluti af því dæmi, sem við stöndum
frammi fyrir núna.
Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að tala um
þetta. Á Austurvelli sagði ég að engum ein-
um væri um þetta að kenna og ég tek auðvit-
að ríkisvaldið inn í það líka. Ég skil þó ekki
að það megi ekki tala um að þrátt fyrir að
verkfallsdögum hafi fækkað mjög frá því á
árunum 1980–1990, eigum við ennþá heims-
metið. Á níunda áratugnum hefur þetta verið
alveg óskaplega glæsilegt heimsmet. Ég skal
fullyrða að ef við ættum eitthvert annað
jafnglæsilegt heimsmet værum við búin að
tala heilmikið um það, en þetta virðist vera
eina heimsmetið, sem ekki má ræða af ein-
hverjum ástæðum. Mér finnst algerlega
nauðsynlegt að ræða það, því að ég held að
við séum að svíkja okkur sjálf. Það væru svo
miklu meiri peningar til skiptanna ef við ætt-
um ekki þetta heimsmet í töpuðum vinnu-
dögum. Fyrstu viðbrögð ASÍ voru að segja
að þetta væri rangt, en tölurnar eru annars
vegar frá OECD og hins vegar frá Alþjóða-
vinnumálastofnuninni.“
–Menn hafa bent á að ríkisvaldið sé seint
að ganga til viðræðna og það sé ekki fyrr en
fari að nálgast verkfall, sem samningavið-
ræður hefjist af einhverju viti.
„Kennarar voru komnir í verkfall viku eft-
ir að samningar losnuðu. Það held ég að sé
líka heimsmet. Þar var ekki hægt að segja að
ríkið drægi lappirnar. Hvort sem menn trúa
því eða ekki, liðum við önn fyrir það í rík-
isstjórninni að þurfa að setja lög á sjómenn.
Menn voru farnir að efast um að það væri
ríkisstjórn í landinu, fyrst við gripum ekki
inn í þetta fyrr. Það má alveg færa rök fyrir
að það megi áfellast okkur fyrir að hafa ekki
gripið inn í deiluna fyrr, því að gjaldeyr-
isþurrðin var að verða svo mikil að það er
stór hluti af því dæmi, sem við erum að lenda
í núna. Þegar Össur Skarphéðinsson og fleiri
segja að þeir hefðu aldrei sett lög á sjómenn,
þá spyr ég: Ætluðu þeir að leggja Ísland í
rúst? Voru þeir tilbúnir til þess? Þeir virðast
vera það. Það má ekki gleyma því að þrátt
fyrir að við gerðum okkur fulla grein fyrir
mögulegum áhrifum þess á gengið gáfum við
samningsaðilum sex vikna tækifæri sem þeir
því miður ekki nýttu.“
Málflutningur olíufélaga
ekki traustvekjandi
–Nú eru menn farnir að tala um að takist
ekki að hemja verðbólguna, megi gera ráð
fyrir að launaliður kjarasamninga stærstu
launþegasamtakanna komi til endurskoðun-
ar í febrúar á næsta ári. Þá séum við komin
inn í gamalt munstur víxlhækkana launa og
verðlags.
„Þá eru menn að gefa sér að samningarnir
verði teknir upp og launin hækkuð. Það er
ekkert gefið mál. Það getur vel verið að
menn segðu sem svo að það yrði að taka
samningana upp og lækka laun, fyrst efna-
hagslífið risi ekki undir því launastigi, sem
var ákveðið. Þetta getur gengið í báðar áttir.
Ég held að meginatriðið sé þess vegna fyrir
alla aðila, bæði atvinnurekendur og laun-
þega, að tryggja með samstilltu átaki að til
þessa þurfi ekki að koma. Spárnar ganga til
þess, en það getur margt breyst. Ég veit
ekki hvort verðkönnun DV í vikunni er rétt,
en sé hún rétt varðandi hækkun á verði mat-
væla, þá eru menn að taka sér hækkanir
langt umfram gengisbreytingarnar. Ríkis-
stjórnin ákvað að styðja Alþýðusambandið til
verðlagseftirlits með fjárframlagi. Ég veit
ekki hvort þeir eru ennþá komnir af stað
með það.
Morgunblaðið birti á föstudag athyglis-
verða mynd af lækkun heimsmarkaðsverðs á
olíu, sem er eins og í grínmyndunum þegar
línuritin verða eins og menn séu að detta
niður af Everest-fjalli. Hinir ágætu stjórn-
endur olíufélaganna virðast hins vegar ekki
telja þetta til merkra tíðinda – þeir segjast
ekki einu sinni byrjaðir að ræða hvort þessi
mikla lækkun hafi áhrif á verð innanlands.
Þetta er ekki traustvekjandi.“
’ Þetta er eins og að lenda í ókyrrð í lofti í flugvél. Rétt á meðan á því stendur sitjum við í sætunum og spennumbeltin en það er ekkert voðalegt að gerast. Flugvélin þolir tíu eða hundrað sinnum meiri ókyrrð en
við erum að fara í gegnum. Það er óþægilegt á meðan á því stendur, flugstjórinn segir okkur af því og lætur
okkur vita þegar hún er gengin yfir. ‘
kbl@mbl.is, olafur@mbl.is