Morgunblaðið - 24.06.2001, Blaðsíða 18
LISTIR
18 SUNNUDAGUR 24. JÚNÍ 2001 MORGUNBLAÐIÐ
SIGNÝ Sæmundsdóttir, sópransöng-
kona og Þóra Fríða Sæmundsdóttir,
píanóleikari, verða með næstu þriðju-
dagstónleika í Listasafni Sigurjóns
Ólafssonar í Laugarnesi. Á tónleikun-
um frumflytja þær tvö lög eftir Atla
Heimi Sveinsson við ljóð eftir Ma-
dame Béatrice Cantoni.
Atli Heimir Sveinsson segir þessi
nýju sönglög sín löng; um sjö til átta
mínútur hvort, eins og hann hafi verið
að gera svolítið að undanförnu. En
hver er Madame Béatrice Cantoni?
Skáld og sendiherrafrú
„Béatrice Cantoni var gift Robert
Cantoni, sem var sendiherra Frakka
á Íslandi. Þetta var mjög menning-
arlegt fólk og hafði mikinn áhuga á ís-
lenskri menningu og menningarsam-
skiptum Íslendinga og Frakka.
Béatrice Cantoni var hið ágætasta
skáld, og hafði töluvert samband við
skáld og tónlistarmenn hér. Hún var
mikil áhugamanneskja um tónlist og
hennar fjölskylda öll. Ég samdi þessi
lög við ljóð eftir hana. Svo stóð alltaf
til að flytja þetta, en það hefur dregist
þar til núna.“ Atli Heimir segir að til
séu mjög fallegar þýðingar eftir Sig-
urður Pálsson á þessum ljóðum, og
þær munu fylgja með í tónleikapró-
grammi á tónleikunum í Sigurjóns-
safni. „Þetta eru nútímaleg ljóð, í
hinni frönsku ljóðahefð tuttugustu
aldar; mjög tjáningarrík og myndræn
og ég held að músíkin endurspegli dá-
lítið af því, – oft mjög innhverf. Béat-
rice er trúuð; trú, heimspeki og hug-
leiðsla eru henni mjög hugleikin mál
og tónlistin er svolítið í þeim stíl. Can-
toni hjónanna var mikið saknað þegar
þó fóru héðan fyrir tveimur árum. Við
Signý höfum unnið mjög mikið sam-
an. Hún söng í óperu minni Tungl-
skinseyjunni, sem var frumflutt í
Kína og söng Jónasarlögin mín. Signý
er í geysifínu formi núna. Ég heyrði
lögin mín á æfingu hjá þeim í morgun
og var mjög hrifinn.
Ástarljóð, orðaleikir
og Interview
Signý Sæmundsdóttir segir ljóð
Madame Béatrice mjög sérstök. „Það
má kannski segja að þetta séu hug-
leiðingar skáldsins um lífið. Ljóðin
eru mjög impressjónísk og myndræn;
hún dregur upp sérkennilegar mynd-
ir og fléttar þær saman. Maður þarf
svo að púsla myndunum saman til að
fá heildarmynd ljóðsins. Atli Heimir
semur lögin svolítið í þessum stíl.
Söngvarinn er mikið með talsöng á
móti myndum í hljóðfærinu og falleg-
ar og mjúkar laglínur brjóta þetta
upp. Þetta er afskaplega fínleg músík
og maður þarf að setja sig svolítið í
franskar stellingar fyrir þetta tilfinn-
ingaspil.“
Eftir frumflutning á lögum Atla
Heimis Sveinssonar verður áfram
haldið á franskri tungu, fyrst með
þremur ljóðasöngvum eftir Ernest
Chausson: Kólibrífuglinum, Ítalskri
serenöðu og Le temps des lilas, en
Signý segir að það sé djúp tilfinning í
þessum ljóðum og lög Chaussons al-
veg frábær. „Svo erum við með þrjú
lög eftir Poulenc, allt við mjög fallega
texta. Fyrsta ljóðið heitir einfaldlega
C og er fallegt ástarljóð, þá koma Fêt-
es galantes, orðaleikur um allt og ekk-
ert, þar sem ímyndunaraflinu er gef-
inn laus taumurinn og loks Les
Chemins d’Amour, – eða vegir ástar-
innar, sem er eitt þekktasta lag Poul-
encs. Inn á milli setjum við grúppu af
lögum eftir Karl O. Runólfsson, að-
eins jarðbundnari lög, við mjög fal-
lega texta. Þetta eru lögin Síðasti
dansinn, Heimþrá, Allar vildu meyj-
arnar, Ferðalok og loks Interview eða
Spjallað við spóa.“
Signý Sæmundsdóttir segir tón-
leikana ekta sumartónleika, það sé
mikil birta og litadýrð í þessari tón-
list.
Tvö lög eftir Atla Heimi Sveinsson frumflutt í Sigurjónssafni
Hljóðfærið málar
myndir sem fal-
legar mjúkar lag-
línur brjóta upp
Morgunblaðið/Jim Smart
Signý Sæmundsdóttir sópransöngkona, Þóra Fríða Sæmundsdóttir
píanóleikari og Atli Heimir Sveinsson tónskáld saman komin á æfingu.
FERÐAFÉLAG Íslands hefur
gefið út árbók óslitið frá 1928 eða í
rúm sjötíu ár. Í flestum þeirra er ít-
arlega gerð grein fyrir ákveðnum
svæðum, landslagi og leiðum lýst,
rakin saga byggðar og megindrættir í
náttúrufari auk annars fróðleiks sem
fellur til í hvert sinn. Árbækurnar eru
löngu orðnar sígildar og fjölfróðasta
Íslandslýsing sem völ er á.
Að þessu sinni fjallar árbókin ann-
ars vegar um Kjöl, hálendið á milli
Langjökuls og Hofsjökuls og hins
vegar um jöklana sjálfa, útverðina í
austri og vestri. Fyrri hlutinn er sýnu
lengri og hann ritar Arnór Karlsson,
bóndi í Arnarholti í Biskupstungum.
Um jökla við Kjöl ritar Oddur Sig-
urðsson jarðfræðingur. Þetta er ekki
í fyrsta sinn sem árbók fjallar um há-
lendið á milli jöklanna. Árið 1929 kom
bókin Kjalvegur, Kerlingarfjöll 1942
og Kjalvegur hinn forni 1971. Síðast-
nefnda bókin hefur einkum verið
mönnum til leiðsagnar á Kili fram til
þessa enda vel skrifuð af gagnkunn-
ugum manni, Hallgrími Jónassyni.
Kjölur er, eins og flestum er kunn-
ugt, víðáttumikið skarð á milli Lang-
jökuls og Hofsjökuls og nær frá Hvítá
og Jökulfalli í suðri til Seyðisár og
Svörtukvíslar í norðri. Alfaraleið hef-
ur legið um Kjöl frá fyrstu tíð því að
þar er stytzt á milli Norður- og Suð-
urlands og leiðir greiðar að undan-
skildum vatnsföllunum Hvítá og
Blöndu. Víða sjást djúpar götur, forn
örnefni eru við hvert fótmál og ljósar
menjar um dvöl manna. Því er margt
forvitnilegt að skoða og ekki er síðra
að dvelja þar áhyggjulaus í faðmi
fjalla. Náttúrufegurð er við brugðið
og fjallasýn er mikil á Kili. Það er því
að vonum að umferð yfir Kjöl hefur
aukizt mikið hin síðari ár.
Umtalsverðar bætur hafa verið
gerðar á vegi og er hann yfirleitt fær
öllum bílum á sumrin. Margir fara á
hestum þvert yfir og þá er vinsæl
gönguleið á milli Hvítárness og
Hveravalla með viðkomu í Þver-
brekknamúla og Þjófadölum.
Þá er ógetið vetrarferða en þær
njóta síaukinna vinsælda.
Enda þótt þrjátíu ár séu ekki ýkja
langur tími hefur margt breytzt frá
því Hallgrímur reit lýsingu sína. Hún
er enn í fullu gildi en hér hefur svo
sannarlega bætzt við allnokkur fróð-
leikur, ekki sízt um jöklana. Það
leynir sér heldur ekki að höfundar
gerþekkja þessar slóðir. Telja verður
ólíklegt að nokkur maður hafi oftar
farið á Hofsjökul en Oddur Sigurðs-
son.
Sagan af Kili er sögð af manni sem
er alinn upp við rætur hálendisins,
hefur tekið þátt í vorrekstrum sauð-
fjár og fjallferðum í hálfa öld og ung-
ur heillast án efa af sögu um greiðar
ferðir Guðmundar á Gýgjarhóli.
Hann er fróður um örnefni og fer að
líkindum eftir gamalli venju Tungna-
manna.
Athygli vekur að hann nefnir ekki
Hvítársand á milli Jökulfalls og
Svartár en tekur upp nýnefnin Gunn-
arshólma, Baldurshaga og Girðingar-
vík í Hvítárvatni sem eiga þarna alls
ekki við. Sá er hér ritar sigldi nokkr-
um sinnum á vatninu með hinum
mesta sómamanni, Gunnari Högna-
syni, meðal annars inn í Karlsdrátt en
leyfir sér samt að draga í efa rétt-
mæti örnefnisins.
Eins er með nafnið Yztu-Nöf á
Hveravöllum, en ekki verður annað
sagt um þá öðlinga, sem þar dvöldu,
að þeir héldu ávallt vöku sinni, svo að
nafnið er ekki alls kostar rétt. Það
vita þeir, sem til þekkja að með þess-
ari nafngift er ekki sögð nema hálf
saga.
Lýsingar á náttúrufari eru að
mestu teknar úr öðrum ritum. Guð-
mundur Kjartansson jarðfræðingur
lýsti landmótun frá ísöld, sem hér er
vitnað til.
Nokkuð er frásögnin slitin sundur
og gefur því ekki jafn heildstæða
mynd og Guðmundur ætlaðist til. Vel
hefði farið á að birta nokkrar af frá-
bærum teikningum Guðmundar. Þá
er stutt yfirlit yfir flóru á Kili (en ekki
gróður eins og fyrirsögn greinir), og
síðan eru skrár yfir tegundir hápl-
antna á vissum stöðum í viðeigandi
köflum. Ekki er þess þó getið, að hin
sjaldgæfa dvergtungljurt vex í hrauni
skammt sunnan við Hveravelli.
Merkilegast mun þó mörgum þykja
að í Þverbrekkum vex birki á strjál-
ingi. Þótt það séu aðeins kræklur og
legður er það eigi að síður óræk sönn-
un fyrir víðáttumeiri útbreiðslu birkis
fyrr á öldum. Sjaldan er vikið að
gróðri og skemmdum á honum eins
og víða má sjá, til dæmis með vest-
urjaðri Suðurhrauns. Fuglalífi eru
gerð góð skil og raunaleg er refasag-
an á Hveravöllum, sem eykur ekki
hróður grenjaskyttna.
Ferðaleiðum yfir Kjöl er lýst eins
og vera ber. Löngum voru reiðleiðir
tvær, hér nefndar Gamli-Kjalvegur
vestri og Gamli-Kjalvegur eystri.
Varlegt er að fullyrða um of, en þó
minnir þann, sem hér ritar, að gamlir
menn í Biskupstungum hafi kennt
þessar leiðir annars vegar við að fara
Þjófadali og hins vegar Kjalhraun,
sem þótti öllu seinfarnari.
Kaflinn um búskaparnytjar er
einkar fróðlegur. Gaman verður að
fylgjast með störfum óbyggðanefnd-
ar, þegar aftur verður tekizt á um
eignarhald á afréttinum og þá hvort
niðurstaða aukadómþings á Hvera-
völlum 1983 hafi einhverja lagastoð. Í
kaflanum koma og fram ýmis atriði,
sem hafa ekki verið skráð áður og eru
mikils virði. Þess hefði mátt geta hér
að fólk af höfuðborgarsvæðinu fer
gjarna upp á Kjöl til að tína heilsu-
plöntur í þeirri trú að þar séu þær
ómengaðar.
Í viðarmesta kaflanum »Skyggnst
um á Kili« er staldrað við á einum
þrjátíu stöðum, staðháttum lýst og
greint frá því, sem markverðast má
telja.
Þá er og minnzt á flesta bauta-
steina á Kjalvegi, en það er orðin
brýn þörf á að stemma stigu við þeirri
áráttu að reisa slíka minnisvarða í há-
lendinu.
Hér nýtur höfundurinn sín bezt og
þar á hann heima eins og í Fögruhlíð,
Gránunesi, Svartárbotnum og á
Hveravöllum. Þá eru ágætar og
gagnlegar lýsingar á Svörtutungum
og Austurkróki, en ekki leggja marg-
ir leið sína þangað. Oft fleygar höf-
undur frásögn sína með sögum, bæði
alkunnum og líka öðrum, sem eru á
fárra vitorði. Enn og aftur er sögð
sagan af Reynistaðarbræðrum og
reimleikum í sæluhúsi í Hvítárnesi.
Fullmikið er gert úr draugagangi í
húsinu og ýmsir hafa logið upp sögum
sem síðan hefur verið trúað. Má
minna á sögu Theódórs Friðriksson-
ar, sem var skálavörður sumarið
1942, um ríku Þóru, en enginn fótur
er fyrir henni. Þá er vert að minnast á
að stíll höfundar er látlaus, laus við
tilgerð en alls ekki fábreyttur.
Um fimmtungur árbókarinnar er
eftir Odd Sigurðsson og ber heitið
Kjalverðir – jöklar við Kjöl. Höfund-
ur hefur tínt til gríðarmikinn fróðleik
sem hefur ekki verið aðgengilegur
fyrr en nú enda eru fáir menn kunn-
ugri íslenzkum jöklum en hann. Í
fyrstu er saga jökulnafna rakin og
reynt að greiða nokkuð úr flækju
nafna í gömlum ritum. Vissulega er
það efni í sérstaka samantekt eins og
höfundur bendir á en hér er meginat-
riðum vel lýst. Ekki láta þó allir sann-
færast um að líta á orðið »suður-
jökla« sem sérnafn. Síðan koma kafl-
ar þar sem greint er frá eðli jökla,
skriðhraða, mældum breytingum, af-
komu jökla, jökulhlaupum og ösku-
lögum í jöklum. Hér er fjallað á skýr-
an og ljósan hátt um frumatriði í
jöklafræði og ekki sízt hvernig hreyf-
ingu jökuls er háttað með tilliti til
hjarnmarka.
Að lokum er rakin ítarlega saga
rannsókna á jöklum við Kjöl og sagt
frá hvað lesa má úr gögnum sem
safnast við síendurteknar mælingar.
Allt er efnið vel fram sett og höfundi
til sóma.
Allmargar myndir og kort prýða
árbókina. Myndirnar eru flestar all-
góðar og sumar ágætar. Uppröðun
mynda er talsvert ábótavant og ekki
alltaf haganlega fyrir komið á síðum
(sjá t.d. bls. 74 og 75, 104 og 105).
Myndatextar hafa því miður verið
settir inn á fáeinar myndir og er það
til mikillar óprýði og kemur vonandi
ekki fyrir aftur. Kort og aðrir upp-
drættir eru listilega gerð.
Árbók Ferðafélags Íslands 2001 er
svo sannarlega fróðlegt og eigulegt
rit. Mega höfundar báðir vera stoltir
af skrifum sínum. Ótvírætt mun ár-
bók þessi koma að miklum notum
hvort sem menn ferðast yfir Kjöl eða
kjósa að fara um jökla, jafnframt því
að vera mjög ánægjuleg lesning fyrir
þá sem heima sitja.
BÆKUR
N á t t ú r u f r æ ð i r i t
Á Kili eftir Arnór Karlsson og
Kjalverðir – jöklar við Kjöl
eftir Odd Sigurðsson. 241 bls.
Útgefandi er Ferðafélag Íslands.
Reykjavík 2000.
KJÖLUR OG
KJALVERÐIR
Norður kaldan Kjöl
Ágúst H. Bjarnason
TÍMARIT Máls og menningar er
komið út og er þetta 2. tölublað
tímaritsins í nýjum búningi. Í tíma-
ritinu eru m.a. greinar um náttúru
og menningu, hagfræði kynlífsins,
bókmenntir, myndlist, vísindi, minn-
ingar, hagfræði, skáldskapur og
skoðanir.
Þorvarður Árnason, náttúrufræð-
ingur, stýrir hringborðsumræðum
listamanna og vísindamanna þar
sem rætt er um umhverfisvitund,
náttúruvernd og samspil lista og vís-
inda við náttúruna. Rætt er hvernig
listamenn geta örvast af vísindum og
vísindamenn af listum. Þátttakendur
eru Pétur Gunnarsson, rithöfundur,
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasa-
fræðingur, Halldór Ásgeirsson,
myndlistarmaður og Guðmundur E.
Sigvaldason, jarðfræðingur.
Anne Brydon, mannfræðingur,
fjallar um rannsóknir sínar á sjálfs-
mynd Íslendinga út frá viðhorfum
þeirra til náttúrunnar. Sólmundur
Ari Björnsson hagfræðingur fjallar
um kynhegðun mannsins. Hann
kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að
konur tapi á banni við fjölkvæni.
Hann lýsir hjónabandinu sem við-
skiptasamningi en bendir á að kostn-
aðurinn við að vera samkynhneigður
hafi lækkað og kostnaður karla við
framhjáhald aukist. Ragnar Hall-
dórsson, kvikmyndagerðarmaður,
svarar grein Ásgríms Sverrissonar
um Ara Magg og Leni Riefenstahl
úr síðasta tölublaði og heldur áfram
að ræða um frelsi listamanna til að
sækja sér hugmyndir í gamlar stefn-
ur og strauma. Björn Th. Björnsson
rifjar upp hernámsárin, þegar hann
var reddari á Hvalfjarðarströnd, Ár-
mann Jakobsson skrifar grein um
Dagfinn dýralækni og alheims-
tungumálið. Birt er sigursagan úr
smásagnasamkeppni strik.is, fjallað
er um Salman Rushdie og nýja bók
hans, bítkynslóðin í Bandaríkjunum
kemur við sögu sem og ungir mynd-
listamenn á Íslandi sem gerðust inn-
brotsþjófar eina nótt.
Ritstjóri tímaritsins er Brynhild-
ur Þórarinsdóttir. Ólöf Birna Garð-
arsdóttir og Sveinbjörg Jónsdóttir
sáu um útlit blaðsins en flestar
myndir tók Páll Stefánsson.
Tímarit