Morgunblaðið - 24.06.2001, Síða 25
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 24. JÚNÍ 2001 25
Á KVENRÉTTINDADAGINN, hinn19. júní síðastliðinn, kom út bókinKvennaslóðir, greinasafn til heiðursSigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræð-
ingi í tilefni af 70 ára afmæli hennar í mars á
síðasta ári. Í afmælisritið, sem gefið er út í sam-
vinnu við Kvennasögusafn Íslands, skrifa 40
konur, sem starfa á vettvangi sagnfræði bæði
hér heima og erlendis og er um helmingur
þeirra fyrrverandi nemendur Sigríðar. Víða er
leitað fanga í rannsóknarefnum, allt frá miðöld-
um til okkar daga og er efni greinanna afar fjöl-
breytt. Aðfaraorð skrifar frú Vigdís Finnboga-
dóttir, fyrrverandi forseti Íslands. Ritstjórn
skipa: Anna Agnarsdóttir, dósent í sagnfræði
við Háskóla Íslands, Erla Hulda Halldórsdótt-
ir, forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands,
Hallgerður Gísladóttir, forstöðumaður þjóð-
háttadeildar Þjóðminjasafns Íslands, Inga
Huld Hákonardóttir sagnfræðingur, Sigríður
Matthíasdóttir, doktorsnemi í sagnfræði, og
Sigríður K. Þorgrímsdóttir sagnfræðingur.
„Mér finnst auðvitað afskaplega gaman að
þetta rit sé að koma út, en mér finnst þetta vera
mjög óverðskuldaður heiður sem mér er sýnd-
ur með þessu framtaki,“ segir Sigríður í samtali
við blaðamann Morgunblaðsins þegar við kom-
um okkur fyrir í hlýlegri stofunni hennar.
Sigríður Th. Erlendsdóttir er fædd hinn 16.
mars árið 1930. Hún lauk stúdentsprófi frá MR
árið 1949. Hún hóf rannsóknir í kvennasögu
upp úr 1970, þá rúmlega fertug, og lauk BA-
prófi í sagnfræði árið 1976. Hún lauk kandí-
datsnámi í sagnfræði við Háskóla Íslands árið
1981 með ítarlegri frumrannsókn á atvinnu-
þátttöku reykvískra kvenna á árunum 1890–
1914. Árið 1982 varð hún fyrst til að bjóða upp á
sérstök námskeið í kvennasögu í sagnfræði við
HÍ þar sem hún var stundakennari þar til fyrir
tveimur árum að hún lét af störfum fyrir aldurs
sakir. Sigríður er brautryðjandi í rannsóknum
á sögu kvenna og hefur með kennslu sinni og
rannsóknum lagt grunn að kvennasögu sem
fræðigrein hér á landi. Má með sanni segja að
hún hafi kveikt áhuga nemenda sinna á sögu ís-
lenskra kvenna og hvatt þá til rannsókna á því
sviði.
Hvatning frá fjölskyldunni
Sigríður er fædd og uppalin í Reykjavík og
hefur aldrei búið annars staðar en á svæði 101,
eins og hún orðar það. Hún ólst upp á Bar-
ónsstíg 21 ásamt systrum sínum, þeim Guðríði
Ólafíu ritara og Guðrúnu hæstaréttardómara,
en Ólafur, tvíburabróðir Guðrúnar, lést á
fimmta ári. Foreldrar þeirra voru Jóhanna Vig-
dís Sæmundsdóttir húsmóðir og Erlendur
Ólafsson sjómaður. Hún og eiginmaður hennar,
Hjalti Geir Kristjánsson, húsgagnaarkitekt og
framkvæmdastjóri, sem lengi rak húsgagna-
verslunina Kristján Siggeirsson hf., byggðu
heimili sitt árið 1959 á Bergstaðastræti 70 þar
sem þau búa enn í dag og eiga nú fjögur upp-
komin börn og átta barnabörn. Elst er Ragn-
hildur, lögfræðingur og skrifstofustjóri í sam-
gönguráðuneytinu, þá Kristján,
viðskiptafræðingur og framkvæmdastjóri hjá
Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Erlendur,
rekstrarhagfræðingur og framkvæmdastjóri
hjá Eimskipafélaginu, og yngst er Jóhanna
Vigdís, fjölmiðlafræðingur og fréttamaður hjá
Sjónvarpinu.
„Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á sagn-
fræði og fannst það fag vera mjög heillandi,
sérstaklega kvennasagan svo ég ákvað að sér-
hæfa mig í henni. Ég hafði gift mig ung og farið
að eiga börn, eins og gengur, og var svo lánsöm
að geta verið heima og sinnt uppeldi barna
minna og fjölskyldunni. Mér fannst ég svo
ómissandi inni á heimilinu. Ég fór því ekki að
huga að háskólanámi fyrr en ég var komin yfir
fertugt, þá með þrjú börn á menntaskólaaldri
og eitt í barnaskóla. Þetta gekk allt saman upp
með góðum vilja og hvatningu frá fjölskyld-
unni. Ég útskrifaðist sem kandídat 51 árs að
aldri og gerðist svo stundakennari í kvenna-
sögu við HÍ ári síðar. Það voru nokkrar fram-
sýnar stelpur í sagnfræði sem skrifuðu yfir-
mönnum Sagnfræðistofnunar Háskólans bréf
og báðu um að farið yrði að kenna kvennasögu
við stofnunina. Það var síðan leitað til mín varð-
andi kennsluna þar sem ég var sú eina hér á
landi sem lokið hafði kandídatsprófi í þessum
fræðum. Ég var bara heppin, ef svo má að orði
komast.“
Kvenfélögin stórmerkileg
Sigríður hafði sérhæft sig í sögu kvenna á 19.
öld og á fyrrihluta 20. Aldar. „Ég fjallaði auðvit-
að um þetta tímabil í kennslunni, alla réttinda-
baráttuna auðvitað, atvinnusöguna, mennt-
unina og síðast en ekki síst kvenfélögin, sem
eru stórmerkileg fyrirbæri að því leyti til að
þau eru stór þáttur í allri okkar sögu og blönd-
uðu sér í öll mál. Hagsmunamál kvenna á þess-
um árum voru t.d. að bæta búskaparhætti og
hagsmunamál kvenna var líka að bindindi væri
viðhaft á heimilunum svo að hafa mætti reglu á
hlutunum því áður en giftar konur fengu nokk-
ur réttindi, gátu karlarnir í reynd eytt öllum
þeirra eigum að vild ef þeim sýndist svo.
Það má segja að árið 1911 hafi verið eitt
merkilegasta árið í allri réttindabaráttu kvenna
því þá fengu íslenskar konur sama rétt og karl-
ar til að stunda nám við alla skóla og sömuleiðis
sama rétt til embætta. Konur gátu því strax ár-
ið 1911 orðið prestar, svo dæmi sé tekið, þó liðið
hafi heil 63 ár þar til fyrsti íslenski kvenprest-
urinn var vígður til embættis, en það var árið
1974 þegar Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók
vígslu. Svo fengu íslenskar konur kosningarétt-
inn árið 1915 sem var vitaskuld önnur merkileg
réttarbót til handa konum. Bríet Bjarnhéðins-
dóttir, sem var mikill áhrifavaldur í allri rétt-
indabaráttu íslenskra kvenna, ruddi þessa
braut og fékk Hannes Hafstein beinlínis til að
flytja frumvarp árið 1911 sem kæmi konum inn
í menntastofnanir.“
Gífurleg vakning
Í kvennasögu er blómatímum kvennabarátt-
unnar gjarnan skipt upp í tvö tímabil, gömlu og
nýju kvennahreyfinguna, sem báðar mörkuðu
upphaf sitt í Bandaríkjunum. Tími gömlu kven-
réttindahreyfingarinnar náði allt til ársins 1920
og kom lægð í kvenréttindamálin eftir að kosn-
ingaréttur og réttur til náms var fenginn allt til
ársins 1960 þegar nýja kvennahreyfingin svo-
kallaða fór að láta á sér kræla, en upphaf henn-
ar er rakið til útkomu bókar eftir bandarísku
kvenréttindakonuna Betty Friedan árið 1963
sem ber yfirskriftina „The Feminine Mystique“
eða „Goðsögnin um konuna“.
Íslenskar konur fylgdust alltaf grannt með
og voru mjög móttækilegar fyrir þeim bylgjum,
sem bárust utan úr heimi, segir Sigríður. „Inn-
an Kvenréttindafélagsins starfaði hópur í
kringum 1968 sem nefndi sig Úur, sem var
stofnað til að frumkvæði Önnu Sigurðardóttur,
stofnanda og forstöðumanns Kvennasögusafns
Íslands.
Þær voru að heita má upphafið af nýju
kvennahreyfingunni hérlendis. Þær voru mjög
skeleggar, fóru m.a. að rannsaka laun kvenna
og karla í bönkum og komust að raun um að þar
væri mikill munur á. Jafnframt rannsökuðu
þær hvaða ímynd skólabörn fengju af konum og
körlum í gegnum skólabækurnar. Í ljós kom að
jafnrétti var ekki virt í skólabókunum fremur
en í rauveruleikanum. Það varð gríðarleg vakn-
ing á þessum árum. Rauðsokkurnar komu fram
um 1970. Sameinuðu þjóðirnar ákváðu síðan að
árið 1975 skyldi marka upphaf kvennaáratugar
og íslenskar konur urðu frægar út um allan
heim þegar þær lögðu niður störf í einn dag og
skunduðu til fundar á Lækjartorgi með miklum
hamagangi til að sýna fram á að vinnuframlag
kvenna bæði heima og að heiman skipti þjóðfé-
lagið verulegu máli. Við lok kvennaáratugar,
árið 1985, var svo efnt til annars fundar þar sem
áhersla var lögð á jöfn laun fyrir sömu vinnu, en
fullyrða má að það sé eitt helsta viðfangsefni
kvennabaráttunnar enn í dag.“
Veröld sem ég vil
Sigríður hefur setið í fjölmörgum stjórnum
og hefur flutt fjölda fyrirlestra er varðað hafa
sérsvið hennar. Hún er jafnframt höfundur
bókarinnar „Veröld sem ég vil“, sem kom út ár-
ið 1993 og er saga Kvenréttindafélags Íslands
frá stofnun 1907 til 1992 og í leiðinni er hér um
að ræða sögu jafnréttisbaráttunnar á 20. Öld.
„Kvenréttindafélag Íslands var stofnað á mikl-
um umbrotatímum í sögu þjóðarinnar þegar
frelsisvindar blésu og sjálfstæðisbaráttan stóð
sem hæst. Barátta fyrir réttindum kvenna var
samofin sjálfstæðisbaráttunni og framsýnir
menn, konur og karlar, sáu til þess að Íslend-
ingar voru meðal fyrstu þjóða til að samþykkja
almennan kosningarétt kvenna,“ segir m.a. á
bókarkápu. Sigríður gerir í bók sinni grein fyrir
aðdraganda að stofnun félagsins og fjallar um
kvenfélögin, sem störfuðu fyrir daga þess, upp-
runa Bríetar Bjarnhéðinsdóttur, stofnanda og
fyrsta formanns félagsins, kvennaframboðin og
baráttuna fyrir kosningarétti kvenna. Hún
fjallar ítarlega um starfsemi félagsins allt fram
til ársins 1992, um þátt kvenna í mótun velferð-
arþjóðfélagsins, í verkalýðsbaráttu, málefnum
mæðra og barna og skattamálum svo fátt eitt sé
nefnt. Einnig er lýst þátttöku félagsins í al-
þjóðlegu samstarfi.
Ofurkonan ekki til
„Það hafa bæði hæðir og lægðir einkennt
jafnréttisbaráttuna, eins og gengur, og þrátt
fyrir að jafnrétti karla og kvenna sé fengið að
lögum, vantar enn á að fullu jafnrétti sé náð, í
orði og á borði,“ segir Sigríður. „Ég hef engar
skýringar á reiðum höndum, en mér finnst bar-
áttuandinn hafa verið í hálfgerðri lægð að und-
anförnu þrátt fyrir að aldrei hafi fleiri konur
verið í áhrifastöðum og nú og í öllum deildum
HÍ eru fleiri konur en karlar ef undan er skilin
verkfræði- og raunvísindadeild. Hámenntaðar
konur eru í sívaxandi mæli að koma inn á vinnu-
markaðinn sem ég tel að sé mjög af hinu góða
fyrir fyrirtæki, stofnanir og stjórnvöld. Ég held
að það sé körlunum nauðsynlegt að hafa konur
sér við hlið þar sem þær hafa annan stíl en karl-
ar. Jafnréttisbaráttan gengur ekki út á það að
ýta körlunum í burtu. Hún gengur út á það að
bæði kynin vinni saman. Við breytum þó ekki
líffræðinni. Það eru og verða konur sem munu
eftir sem áður ganga með börnin og verða
tengdari þeim á þann hátt en karlarnir og ég er
í sjálfu sér á móti því að ýta konum út á vinnu-
markaðinn ef þær geta og vilja vera heima hjá
ungum börnum sínum. Flest heimili þurfa hins
vegar í dag orðið tvær fyrirvinnur auk þess sem
konur, sem hafa haft fyrir því að mennta sig,
vilja vinna við sitt fag. Á hinn bóginn held ég því
fram, statt og stöðugt, að ofurkonan sé ekki til.“
Hugsun og heilsa
Þegar Sigríður er spurð hvað nám á miðjum
aldri, kennsla og fræðistörf hafi gefið henni í
gegnum tíðina, kemur eilítið hik og dálítil um-
hugsun áður en hún svarar: „Kannski sjálfs-
traust. Konur skortir gjarnan sjálfstraust, að
minnsta kosti konur af minni kynslóð. Ég held
að við getum ekkert gefið dætrum okkar betra
en að reyna að efla sjálfstraust þeirra. Sjálfs-
traustið er mjög mikilvægt í allri kvennabar-
áttu. Ég hafði líka alltaf haft mikinn áhuga á
hversdagsleikanum í sögunni. Allt fram til 1970
var sagan aðeins saga styrjalda, kónga og keis-
ara, en eftir það fer söguritunin að breytast í
sögu hvunndagsins líka. Konur fóru að velta
fyrir sér hlutverki formæðra sinna í Íslands-
sögunni þar sem varla er á þær minnst. Ég vildi
líka vita meira um sögu kvenna þar sem mér
finnst ég eiga konum skuld að gjalda og er ég
þar að vísa til formæðra minna.
Sigríður segist síður en svo vera sest í helgan
stein þrátt að vera orðin sjötug enda segir hún
að aldur sé ekkert annað en heilsa og hugs-
unarháttur. Nýlega skrifaði hún 60 síðna grein
um Önnu Sigurðardóttur í Andvara, tímarit
Þjóðræknifélagsins, og segir hún ýmis verkefni
reka á fjörurnar við og við auk þess sem hún
sitji í stjórnum Kvennasögusafnsins og Minja
og sögu. „Svo hefur maður alltaf nóg að gera
við að sinna skylduliði enda er ég mikil fjöl-
skyldumanneskja.“
Morgunblaðið/Sigurður Jökull
Sigríður Th. Erlendsdóttir.
Afmælisrit til heiðurs Sigríði Th. Erlendsdóttur sagnfræðingi,
sem í skrifa fjörutíu konur sem starfa á vettvangi sagnfræði
bæði hér heima og erlendis, kom út á kvenréttindadaginn 19.
júní. Sigríður hóf nám í sagnfræði á miðjum aldri og er braut-
ryðjandi í rannsóknum á sögu kvenna. Jóhanna Ingvarsdóttir
fór í morgunkaffi til Sigríðar á sólbjörtum sumardegi.
„Ég á konum
skuld að gjalda“
join@mbl.is