Morgunblaðið - 24.10.2001, Blaðsíða 25

Morgunblaðið - 24.10.2001, Blaðsíða 25
UMRÆÐAN MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 24. OKTÓBER 2001 25 ÉG VIL leyfa mér að gera orð vinar míns og starfsbróður Edwards Frederiksens tónlistar- manns og kennara að mínum nú þegar um ell- efu þúsund tónlistar- nemar um land allt hafa verið sendir heim í verkfall ásamt kennur- um sínum. Alls munu um átta þúsund manns koma að uppfræðslu ís- lenskrar æsku og hefur verið gengið frá samn- ingum við alla kennara í landinu á öllum stigum menntakerfisins nema þá sex hundruð og tutt- ugu er fást við tónlistarkennslu. En ég ætla ekki að fjasa um tölfræði í þessum fátæklegu orðum mínum heldur gefa litla mynd af tónlistar- námi nokkurra barna sem ég hef ver- ið svo lánsamur að fá að kynnast í gegnum tíðina. Ég eftirlæt öðrum þá staðreynd að verkfallið snertir auð- veldlega tíu, tuttugu jafnvel þrjátíu þúsund heimili í landinu ef við teljum afa og ömmur með. Og enn aðrir munu stíga fram á ritvöllinn hafandi reiknað það út að með því að sigla kjaraviðræðunum í strand hafa sveit- arstjórnarmenn náð að snerta strengi tuttugu, fjörutíu jafnvel sex- tíu þúsund kjósenda í væntanlegum sveitarstjórnarkosningum er fram munu fara að vori. Ég mun ekki velta mér upp úr þeirri erfiðu stöðu er margir tónlistarskólastjórnendur horfast nú í augu við í kjölfar einset- ins grunnskólans, nefnilega að starf- semi tónlistarskólanna getur í mörg- um tilvikum ekki hafist svo nokkru nemi fyrr en síðdegis vegna lengri viðveru barna í skólum landsins en áður hefur þekkst en því fylgir að margir tónlistarskólakennarar mega orðið sætta sig við að inna kennslu- skyldu sína af hendi í kvöld- og helg- arvinnu. Ég mun ekki heldur dvelja við þá staðreynd að tónlistarkennur- um býðst nú að skrifa upp á 20–30% lægri laun en viðmiðunarstéttir með svipaða menntun og starfsreynslu innan menntakerfisins njóta né heldur að vel yfir 90% þeirra tónlist- arkennara er á kjör- skrá voru neyttu at- kvæðisréttar síns og þar af voru yfir 95% þeirra hlynt verkfalls- boðun. Þetta munu aðr- ir fjalla um. Ég hef orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að vera samvistum við grunnskólabörn nánast allan minn starfsferil, nú síðast undanfarin 13 ár í Breiðagerðisskól- anum í Reykjavík. Þar starfrækjum við nem- endurnir og nokkrir tónlistarkennar- ar Lúðrasveit Breiðagerðisskóla þó alls ekki megi kalla sveitina því nafni á opinberum vettvangi af ótta við for- dæmisgildið og að í kjölfarið komi foreldrafélög annarra grunnskóla í Reykjavík og hrópi eftir lúðrasveit- um í sína skóla. Við skulum því halda okkur við hið skrifaða orð en starf- semin er á pappírum útibú Lúðra- sveitar Laugarnesskóla (Austurbæj- ar) en þar hefur merki Skóla- lúðrasveita Reykjavíkurborgar verið haldið á loft af miklum myndarskap undanfarna áratugi undir styrkri stjórn Stefáns Þ. Stephensens. Ungu hljóðfæraleikararnir í Breiðagerðisskólanum hafa í haust slegið öll fyrri þátttökumet en þar nema nú hljóðfæraslátt vel yfir 50 börn og unglingar. Aðstaðan er hreint til fyrirmyndar enda er skóla- stýran, Guðbjörg Þórisdóttir, vakin og sofin yfir velferð tónlistarstarfsins og nær áhugi hennar og velvild í okk- ar garð langt út fyrir hennar verk- svið. Þegar börnin hafa komið sér fyrir í skólastofum sínum á haustin og eru farin að muna hvar þau ætla að sitja gerum við tónlistarkennar- arnir liðskönnun fyrir veturinn og þegar við sjáum hversu mörg hljóð- færi ganga af vegna brottfluttra eða eldri nema er snúið hafa sér að öðru getum við kynnt starfsemina vænt- anlegum nýnemum. Þá er nú kátt í höllinni. Stóreyg og yndisleg með- taka nemendur 2. bekkjar boðskap- inn og koma svo hlaupandi með um- sóknir í lúðrasveitina næstu daga undirritaðar af pabba eða mömmu. Og ekki er nú verra þegar sú stund rennur upp að þau fá að kíkja ofan í hljóðfæratöskurnar … var einhver að tala um undirskálar? Og síðan byrjar ballið. Og það er blásið og blásið og blásið … Áhuginn er svo mikill að einn sjö ára vinur minn sem fingurbraut sig í hádegishléi um dag- inn neitaði að fara á slysavarðstofuna fyrr en hann hefði lokið lúðrasveitar- æfingu dagsins! Starfið er deildaskipt; auk byrj- endahópsins eru yngri og eldri deild- ir. Börnin halda gjarnan tónfundi fyr- ir foreldra sína og aðra aðstandendur síðla hausts eða áður en farið er að huga að aðventunni en þá er nú gam- an. Í Breiðagerðisskóla má spila jóla- lög í mánuð eða frá 24. nóvember og ekki ráð nema í tíma sé tekið því des- ember er einkar annasamur ef mað- ur spilar í lúðrasveit. Á síðastliðnum vetri komu börnin fram á sex jóla- trésskemmtunum í skólanum auk þess sem þau heimsóttu barnastarfið í Seljakirkju síðasta sunnudag fyrir jól og er það fastur liður í starfsem- inni sem enginn vill missa af. Þá eru árlega samverustundir nemenda skólans í Bústaðakirkju skömmu fyr- ir jól og ekki lætur lúðrasveitin sig vanta þar. Þá hefur sveitin einnig hjálpað til með nokkur jólalög þegar jólasveinarnir koma í Ráðhús Reykjavíkur að heilsa upp á leik- skólabörn. Eftir áramótin heldur starfið síðan áfram og á útmánuðum höfum við stundum fengið að heim- sækja Sinfóníuhljómsveit Íslands á æfingar hennar í góðri samvinnu við Helgu Hauksdóttur tónleikastjóra og hafa börnin m.a. orðið vitni að lokaæfingum bæði á Madama Butt- erfly Puccinis og Aida Verdis. Fyrr en varir er kominn tími til að huga að vorverkunum en undanfarin ár hafa elstu bekkingarnir lagt á sig aukna vinnu og heimsótt höfuðstöðvarnar í Laugarnesskóla í nokkrar vikur og undirbúið vortónleika með nemend- um þar. Í vor voru þeir tvennir og léku börnin fyrir fullu húsi bæði á sal Laugarnesskóla og í Tjarnarsal Ráð- hússins. Þar fyrir utan höfum við skemmt okkur með ýmsum hætti; splæst í pítsur og gos, leigt okkur myndbönd, farið í bíó og jafnvel út- vegað okkur rútu og skroppið út í óvissuna með sundföt og nesti. Einn hópurinn kannaði til að mynda hljómburðinn í Almannagjá fyrir fá- einum misserum og spilaði nokkur lög í Skálholtskirkju í bakaleiðinni (við létum það ekkert á okkur fá þótt áheyrandinn væri einungis einn, rútubílstjórinn sjálfur, því hann var svo dæmalaust þakklátur okkur fyrir spilið). Að baki vel heppnuðum tónleikum barnanna liggur heilmikil vinna, þrotlausar æfingar og yfirlega en fyrirhöfnin er fljótlega gleymd þegar þau uppskera þakklátt lófatak að- standenda og annarra tónleikagesta að leik sínum loknum. Skín þá stoltið úr andlitum barnanna sem glöð og ánægð hafa meðtekið boðskapinn að svo uppsker maður sem maður sáir. En til hliðar stendur tónlistarkennarinn og gleðst yfir enn einum sigri unga tónlistar- mannsins. En sjaldnast er ég stoltari af eða ber meira traust til íslenskrar æsku en þegar börnin láta sig hafa blind- bylinn, 20 metra á sekúndu og svart- asta skammdegið og mæta samt í spilatímann sinn eins og sólargeislar á sumarhimni. Slíkt lætur engan ósnortinn. En nú eru lúðrarnir þagnaðir … „Sá sem blæs í lúður brýtur ekki rúður“ Oddur Björnsson Tónlistarkennarar Stoltastur er ég af ís- lenskri æsku þegar börnin mæta í spilatím- ann sinn í blindbyl í svartasta skammdeg- inu, segir Oddur Björnsson, þá eru þau eins og sólargeislar á sumarhimni. Höfundur er tónlistarkennari.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.