Morgunblaðið - 24.01.2002, Qupperneq 31
LISTIR
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 24. JANÚAR 2002 31
JÓN Nordal er eitt okkar mestu
tónskálda. Hann er jafnframt eitt
þeirra tónskálda sem mest hafa
stuðlað að uppgangi íslenskrar kór-
menningar í okkar samtíma, með því
að semja – kannski ekki mörg – en
afar góð – kórverk, stór sem smá.
Það var því vel til fundið af Tón-
skáldafélagi Íslands að heiðra Jón
Nordal með sérstökum kórtónleik-
um á Myrkum músíkdögum þar sem
gat að heyra fimm ný og nýleg kór-
verk Jóns, samin á árunum 1995–
2001. Kórinn sem söng, Hljómeyki,
undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar
er ekki ókunnugur kórverkum Jóns
því að mörg þeirra hefur hann frum-
flutt og sungið oftar en einu sinni og
hafa þá Sumartónleikar í Skálholti
oft verið vettvangur frumflutnings.
Hvort sem það hefur verið tilviljun
eða ekki var ljósið eins konar þema
tónleikanna en verkin voru Lux
mundi, eða Ljós heimsins, við texta
úr Jóhannesarguðspjalli; þrjár þjóð-
lagaútsetningar úr kvæðabók séra
Ólafs Jónssonar á Söndum í Dýra-
firði; Ljósið sanna, við sálm sem
eignaður er Bjarna Jónssyni Borg-
firðingaskáldi; Trú mín er aðeins
týra við hluta ljóðs Jóns Helgasonar,
Á sjúkrahúsinu; og loks Requiem,
sem var elst þeirra verka sem flutt
voru á tónleikunum og Hljómeyki
söng fyrir nokkrum árum inn á
geisladisk sem Íslensk tónverkamið-
stöð gaf út ásamt fleiri kórverkum
Jóns.
Kórtónlist Jóns Nordal ber með
sér sterk höfundareinkenni tón-
skáldsins. Þéttur hljómavefur er ein-
kennandi; en þótt tónlistin sé þannig
byggð upp af lóðréttum einingum
hljómanna og hómófónískum stíl er
hljómaferlið sjálft þó jafnframt sá
drifkraftur sem kveikir lárétta, eða
lagræna, framvindu tónlistarinnar.
Ómstríður eru miklar og mikilvægur
þáttur í samfelldu ferli hljómanna.
Kórinn er eitt hljóðfæri, ein rödd,
einn rómur og minnir jafnvel á forn-
grískan leik, þar sem fjöldinn talar
einum rómi. Þótt tónlist Jóns beri í
sér svipmót nýrra tíma er þar samt
að finna fornan streng, einhverja æð
sem tengir núið við það gamla – eða
kannski væri réttara að segja æð
sem líkt og eldsúla í eldfjalli hleypir
steinblóði löngu liðinna tíma aftur
upp á yfirborðið og gerir það nýtt.
Lux mundi, sem Jón Nordal
samdi fyrir Dómkórinn árið 1996, er
yfirmáta fallegt verk. Hægt og
mjúklega leið hljómaferlið áfram
með vaxandi styrk og afburðafalleg-
um söng Hljómeykis. Þjóðlagaút-
setningar við kvæði Ólafs frá Sönd-
um voru skínandi perlur þar sem
ytri lögin, hæg og stillt, römmuðu
inn hraðara og gáskafyllra miðlagið
rétt eins og í klassískri formskipan.
Ljósið sanna, eða Gæskuríkasti
græðari minn, var
samið fyrir Hljóm-
eyki til flutnings á
Sumartónleikum í
Skálholti síðasta
sumar. Þarna var
hljómaskipan mjög
þétt og hverri rödd
skipt niður í að
minnsta kosti tvær.
Þessi áttradda
hljómur í þéttri og
ómstríðri framvindu
skapaði hrífandi
spennu. Hljómeyki
fór á kostum í flutn-
ingi verksins og
sýndi að enn er þessi
gamalreyndi kammerkór í fremstu
röð. Trú mín er aðeins týra er verk
sem Hljómeyki frumflutti í Reyk-
holtskirkju í júní 1999 í tilefni ald-
arafmælis skáldsins, Jóns
Helgasonar. Þar var enn
reynt á þanþol hins
hljómræna ferlis í krefj-
andi dramatík. Mesta
verkið á tónleikunum var
Requiem, sem Hljómeyki
frumflutti í Skálholti í júlí
1995. Þetta stórbrotna
verk getur vart látið
nokkurn mann ósnortinn,
fegurð þess er slík.
Það var mikið gæfu-
spor fyrir Hljómeyki að
fá Bernharð Wilkinson til
liðs við sig á sínum tíma.
Hljómeyki hefur sjaldan
verið betra, raddirnar
jafnari og hljómurinn heilsteyptari.
Tæknileg atriði eins og hnífjafnar
innkomur, jafnvel í veikasta veika
söng, eru ekkert mál og niðurlag
hendinga er jafnstílhreint og fag-
mannlegt og innkomurnar; – engin
aukahljóð; engin auka ess; enginn
ójafn andardráttur – allt eins og best
verður á kosið. Músíklega hefur
Hljómeyki alltaf verið sterkt, enda
skipað góðu og músíkölsku tónlist-
arfólki sem margt, eða jafnvel flest,
á að baki mikla menntun og reynslu í
tónlist. Undir stjórn Bernharðs hef-
ur tekist að skerpa allt það besta í
fari Hljómeykis.
Það eina sem verður að finna að er
það að textar verkanna skyldu ekki
fylgja í efnisskrá. Það er ljóður sem
hefði átt að vera auðvelt að leysa.
Tónleikarnir voru þó sérstaklega
góðir og fallegir og nautn þeim sem
hafa yndi af góðri kórtónlist og fal-
legum söng.
Bergþóra Jónsdóttir
Ljósið í myrkri
daganna
Jón Nordal
TÓNLIST
Hjallakirkja
Hljómeyki undir stjórn Bernharðs Wilkin-
sonar flutti kórverk eftir Jón Nordal.
KÓRTÓNLEIKAR
DAS Blueshorn, þýsk þýðing pró-
fessorsins Gert Kreutzer á Trega-
horni Gyrðis Elíassonar, fékk á dög-
unum lofsamlega dóma í
Sueddeutsche Zeitung. Bókina
myndskreytir Bernd Koberling en
nú stendur yfir í Listasafni Reykja-
víkur – Hafnarhúsi sýning á verkum
hans.
Í umfjöllun blaðsins segir m.a.
„Gyrðir Elíasson er töframagnaður
impressionisti; sagan sem hann set-
ur við upphaf hins hugvitsamlega
samansetta bindis er ófeimin við að
segja frá „veiðum“ sem tengjst tröll-
unum.: „Í Haustmyrkrinu...fá þær
ljós sitt“. Stundum verður maður að
brynja sig gagnvart ævintýralegu
samhengi og melankólískum hug-
leiðingum (eiginlega: tilætlunar-
semi). En fljótlega grípur maður
bókina aftur. Einhvern tíma kemur
aftur sumarsaga, með hálfbrenndri
bók, sögunni „Pan“ eftir Knut
Hamsun; og önnur bókasafnssaga
um „Gluggakistubókasafn“: leikrit
Tsjekovs, smásögur Sherwoods
Anderson, Dægradvöl Gröndals.“
Tregahorn
fær góða dóma
í Þýskalandi