Morgunblaðið - 09.04.2003, Blaðsíða 18
ERLENT
18 MIÐVIKUDAGUR 9. APRÍL 2003 MORGUNBLAÐIÐ
GEORGE W. Bush, forseti Banda-
ríkjanna, lýsti yfir því gær að Sam-
einuðu þjóðirnar (SÞ) myndu koma
til með að gegna „mjög mikilvægu
hlutverki“ við endurreisn Íraks eftir
að stríðinu þar lyki en lagði jafnframt
þunga áherslu á að íraska þjóðin ætti
sjálf að ráða framtíð sinni.
Bush lét þessi orð falla á blaða-
mannafundi með Tony Blair, for-
sætisráðherra Bretlands, eftir fund
þeirra á Norður-Írlandi. Á fundinum
ræddu þeir gang stríðsins í Írak, leið-
ir til að koma á friði með Ísraelum og
Palestínumönnum og ástandið á
Norður-Írlandi.
Mesta athygli vakti sú yfirlýsing
Bush á blaðamanafundinum að
Bandaríkjamenn teldu að SÞ hefðu
„mjög mikilvægu hlutverki“ að gegna
eftir að átökin væru á enda í Írak. Var
þetta í fyrsta skiptið sem Bandaríkja-
forseti lætur slík orð falla en í Banda-
ríkjunum hefur verið deilt um hvort
og þá með hvaða hætti Sameinuðu
þjóðirnar eigi að koma að endurreisn
Íraks.
„Við endureisn Íraks verður þörf á
stuðningi og sérþekkingu alþjóða-
samfélagsins. Við höfum skuldbundið
okkur til að vinna með alþjóðastofn-
unum, þ. á m. Sameinuðu þjóðunum,
sem munu gegna mjög mikilvægu
hlutverki við að leysa þetta verkefni,“
sagði forsetinn.
Leiðtogarnir hétu því báðir að
stjórn Íraks yrði fengin Írökum í
hendur svo fljótt sem auðið yrði. At-
hygli vakti að Bush gaf í skyn að
Sameinuðu þjóðirnar gætu komið að
skipan bráðabirgðastjórnar í Írak
sem gert er ráð fyrir að sitji þar til
landsmenn hafi fengið tækifæri til að
kjósa sér stjórnvald í lýðræðislegum
kosningum.
Vandi Blairs
Fréttaskýrendur töldu yfirlýsingu
Bush mikilvæga en bentu á að ekki
hefði verið útlistað nákvæmlega
hvert hlutverk Sameinuðu þjóðanna
ætti að vera. Þá var vakin á því at-
hygli að orðalagið „mjög mikilvægt
hlutverk“ hefði sýnilega verið valið í
stað t.a.m. „leiðandi hlutverk“. Þann-
ig væri engan veginn ljóst á hvern
hátt þeir Bush og Blair teldu að SÞ
ættu að koma að enduruppbyggingu
Íraks.
Tony Blair hefur einkum verið um-
hugað um að tryggja hlut SÞ í end-
urreisn Íraks en með því móti telur
hann að stuðla megi að sáttum innan
samtakanna eftir átökin í Írak, sem
sundrað hafa allri samstöðu lykil-
þjóða á þessum vettvangi. Að auki
telur Blair að þannig megi leggja á ný
grunn að samstöðu Bandaríkjanna og
Evrópuríkja. Ráðherrar bresku
stjórnarinnar hafa lagt á það ofur-
áherslu að undanförnu, að Samein-
uðu þjóðirnar gegni lykilhlutverki í
Írak strax frá upphafi enda getur eft-
irleikurinn í Írak orðið Blair jafnvel
erfiðari en stríðið sjálft.
Trúverðugleiki hans sjálfs er í veði
og einnig samskipti Breta við önnur
Evrópuríki. Bandaríkjastjórn hefur
verið sökuð um að hafa farið í stríð til
að tryggja sér aðgang að írösku olíu-
nni og því getur framvindan á næstu
mánuðum ráðið miklu um sannleiks-
gildi þeirra ásakana í margra augum.
Tillaga Breta er, að SÞ kalli saman
ráðstefnu, sem skipuð verði fulltrú-
um hinna ólíku hópa í Írak, og þá með
það fyrir augum, að hún velji ríkinu
nýja leiðtoga. Bandaríkjamenn draga
hins vegar enga dul á, að þeir vilja
takmarka hlutverk SÞ við hjálpar-
starf í landinu.
Colin Powell, utanríkisráðherra
Bandaríkjanna, sagði á dögunum að
nú í vikunni yrði hópur manna sendur
frá Bandaríkjunum til Persaflóa-
svæðisins til að leggja á ráðin um
nýja stjórn í Írak en forystu um það
mun hafa bandaríski uppgjafaherfor-
inginn Jay Garner. Eftir honum hef-
ur verið haft, að hann vilji vera farinn
frá Írak eftir þrjá mánuði en hvað þá
á að taka við er óljóst.
Blair hefur einnig áhyggjur af því,
að í arabaríkjunum verði litið á hugs-
anlega stjórn undir forystu Banda-
ríkjamanna sem hverja aðra lepp-
stjórn. Verði hún aftur undir forystu
SÞ, muni hún ekki aðeins njóta tiltrú-
ar í Írak, heldur í öllum heimshlut-
anum. Kofi Annan, framkvæmda-
stjóri SÞ, nefndi það einnig
síðastliðinn mánudag er hann sagði,
að aðeins SÞ væru færar um gefa
nýrri stjórn í Írak það lögmæti, sem
nauðsynlegt væri fyrir landið, Mið-
Austurlönd og heiminn allan.
Hvað verður um Vegvísinn?
Annað mikilvægt mál á fundi
þeirra Bush og Blairs var „Vegvís-
irinn“ svokallaði, áætlunin um frið og
samninga milli Ísraela og Palestínu-
manna. Blair trúir því, að það mál
muni skera úr um frið eða ófrið að
Íraksstríðinu loknu. Eigi bandamenn
að vinna friðinn eins og stundum er
sagt, verði að koma á fót palestínsku
ríki og setja þannig niður deilurnar í
Mið-Austurlöndum.
Á fyrstu dögum Íraksstríðsins
komu þeir Bush og Blair fram saman
og boðuðu, að Vegvísirinn yrði brátt
kynntur opinberlega en síðan hefur
ekkert gerst. Bush hefur raunar
frestað því sex sinnum að kynna frið-
aráætlunina og talsmenn Palestínu-
manna segjast nú bara bíða eftir því,
að hann geri það í sjöunda sinn.
SÞ gegni „mjög
mikilvægu“ hlut-
verki í Írak
George W. Bush og
Tony Blair kváðust í
gær sammála um að SÞ
hefðu hlutverki að
gegna við endurreisn
Íraks en gátu þess ekki
hvert hlutverkið yrði.
Reuters
George W. Bush (t.h.) Bandaríkjaforseti og Tony Blair, forsætisráðherra
Bretlands, eftir fundinn í Hillsborough-kastala, skammt frá Belfast, í gær.
STRÍÐ Í ÍRAK
KÚBANSKUR dómstóll hóf í gær að
kveða upp dóma yfir mörgum tugum
kúbanskra andófsmanna og baráttu-
mönnum fyrir lýðræðislegum stjórn-
arháttum í landinu. Vekur það athygli
hve þungir þeir eru. Hafa þessar of-
sóknir kommúnistastjórnarinnar vak-
ið áhyggjur á Vesturlöndum og verið
fordæmdar harðlega, meðal annars af
samtökunum „Blaðamönnum án
landamæra“, sem kölluðu réttarhöldin
„stalínísk“.
Hector Palacios, sem barist hefur
fyrir lýðræði á Kúbu, var dæmdur í 25
ára fangelsi og blaðamaðurinn Paul
Rivero og hagfræðingurinn Marta
Beatriz Roque voru dæmd í 20 ára
fangelsi. Gisela Delgado, eiginkona
Palacios, sagði, að reynt yrði að áfrýja
dómunum og bætti við, að megintil-
gangur ofsóknanna gegn andófsfólk-
inu væri að draga athyglina frá öm-
urlegu ástandi í landinu, jafnt í
efnahags- sem félagsmálum.
Þeir, sem dæmdir voru í gær, eru
meðal 79 manna, sem handteknir voru
í síðasta mánuði í mestu aðgerðum
stjórnvalda gegn andófi í landinu um
árabil. Elizardo Sanchez, andófsmað-
ur, sem slapp við handtöku, sagði í
gær, að Kúbustjórn hefði gripið til
þessara aðgerða í þeirri von, að Íraks-
stríðið drægi athygli frá þeim. Sagði
hann, að alls hefðu 43 menn verið
dæmdir víðs vegar um landið á mánu-
dag.
Kúbanski saksóknarinn hafði farið
fram á dauðadóma yfir Palacios og 11
öðrum en Palacios var einn af höfund-
um Varela-áætlunarinnar svokölluðu,
einnar mestu ögrunar við yfirráð
kommúnistaflokksins og Fidels Cast-
ros forseta frá upphafi. Safnað var
saman 11.000 undirskriftum með kröf-
um um þjóðaratkvæðagreiðslu um
tjáningar- og félagafrelsi, um frjálsa
atvinnustarfsemi, sakaruppgjöf póli-
tískra fanga, ný kosningalög og frjáls-
ar kosningar innan árs. 10.000 undir-
skriftir þurfti til að skylda þingið til að
taka málið fyrir en stjórnvöld brugð-
ust við með því að saka fólkið um und-
irróður og efndu síðan til þjóðarat-
kvæðagreiðslu með sínum hætti þar
sem því var slegið föstu, að sósíalismi
yrði ríkjandi á Kúbu um aldur og ævi.
Nokkrir aðrir kunnir andófsmenn
voru dæmdir í gær í 15 til 20 ára fang-
elsi.
„Stalínísk réttarhöld“
að öllu leyti
Hópur erlendra sendimanna,
breskra, kanadískra, tékklenskra,
spænskra, sænskra og bandarískra,
sem reyndi að vera viðstaddur rétt-
arhöldin í síðustu viku, var óðara rek-
inn burt. Hefur það og ofsóknirnar
vakið mikla reiði og kallað fram kröfur
um, að Evrópusambandið hafni óskum
Kúbustjórnar um að fá að vera með í
væntanlegum viðskiptasamningum
þess við 78 ríki í Afríku, Asíu og á Kar-
íbahafssvæðinu.
Í yfirlýsingu samtakanna „Blaða-
manna án landamæra“ sagði, að rétt-
arhöldin hefðu haft allt til að bera, sem
einkennir „stalínísk réttarhöld“. Máls-
meðferðin hefði tekið skamman tíma,
verjendum neitað um sjálfsögð rétt-
indi, leyniþjónustumenn hefðu verið
látnir bera vitni og síðast en ekki síst
hefði ekki vantað ásakanir um svik við
flokkinn.
Andófsmenn
á Kúbu fá
þunga dóma
Havana, París. AFP.
Kommúnistastjórnin sögð hafa notað
Íraksstríðið til mikilla ofsókna gegn
stjórnarandstæðingum
Claudia Marquez, eiginkona kúb-
verska andófsmannsins Osvaldo
Alfonso, ræðir við fréttamenn.
Reuters
SÉRFRÆÐINGAR Alþjóðaheil-
brigðisstofnunarinnar, WHO, luku í
gær sex daga ferð sinni til Guang-
dong-héraðs í Suður-Kína þar sem
þeir reyndu að finna orsakir nýs af-
brigðis af lungnabólgu, HABL. Alls
hafa nú 103 látist af völdum sjúk-
dómsins í samanlagt rúmlega 30
löndum, liðlega helmingurinn í
Kína. Um 2.800 hafa smitast en
flestir ná sér eftir nokkra daga.
Ekki er til neitt lyf við HABL enda
ekki með öllu ljóst hvaða veira veld-
ur honum. Hugsanlegt er talið að
veiran dreifist með kakkalökkum.
Sérfræðingar WHO vöruðu fólk
við því að gera of mikið úr hættunni
og fyllast skelfingu. Menn ættu
fyrst og fremst að forðast smitun
með því að sýna heilbrigða skyn-
semi, þvo sér oft um hendur og vera
sem minnst í mikilli mannþröng í
lokuðu rými þar sem margir hósta.
Þeir sögðust gera ráð fyrir að á
næstu vikum og mánuðum myndu
vísindamönnum verða mikið ágengt
í baráttunni við HABL en þegar
væri búið að afla mikilvægra upp-
lýsinga. Einn þeirra, Wolfgang
Preiser, sagði „líklegast“ að um af-
brigði svonefndrar kórónaveiru,
sem veldur venjulega kvefi í fólki,
væri að ræða en gera yrði frekari
rannsóknir á sýnum til að staðfesta
það. Annar úr sérfræðingahópnum
sagði að smitið bærist milli fólks
með snertingu eða með loftinu en
veiran virtist ekki lifa lengi í um-
hverfinu. Skýrt var frá því í Kína í
gær að tíðni nýrra tilfella þar sem
HABL kom fyrst upp færi nú hratt
lækkandi.
Rúmlega 900 manns hafa smitast
í Hong Kong og 25 látist. Þar könn-
uðu yfirvöld í gær kenningar um að
kakkalakkar gætu borið sjúkdóminn
milli manna. Er nú verið að sótt-
hreinsa stóra íbúðablokk þar sem
margir hafa veikst og blokkin var
nýlega sett í sóttkví. Talsmaður
heilbrigðisyfirvalda í borginni sagði
að ef til vill bæru kakkalakkar veir-
una með sér um skolplagnir inn í
hús. Einnig er verið að kanna hvort
fleiri skordýr komi við sögu og jafn-
vel rottur og önnur smádýr.
Hvatt til
handþvottar
Guangzhou, Hong Kong. AFP.
Varnir gegn HABL-smitun
STRÍÐSANDSTÆÐINGUR úr röðum græningja hang-
ir með skilti sitt utan á síðu freigátunnar HMAS Sydney
í höfninni í Sydney-borg í gær. Freigátan var á leið til
Persaflóa en fresta varð för hennar meðan maðurinn
var fjarlægður. Ástralir hafa sent um 2.000 manna her-
lið til átakasvæðanna í Írak auk nokkurra herskipa.
Reuters
Mótmæli gegn Íraksstríði í Ástralíu