Morgunblaðið - 17.05.2003, Blaðsíða 12
VIÐSKIPTI/ATHAFNALÍF
12 LAUGARDAGUR 17. MAÍ 2003 MORGUNBLAÐIÐ
JACK Welch, fyrrum forstjóri
bandaríska stórfyrirtækisins Gener-
al Electrics, GE, ræddi við áhorfend-
ur úr íslensku viðskiptalífi í troðfull-
um ráðstefnusal Nordica hótels gær.
Síðar um daginn ræddi hann við
MBA nemendur Háskólans í Reykja-
vík, starfsfólk skólans og boðsgesti,
einnig fyrir fullum sal af fólki. Við
það tækifæri sagði hann að fyrirtæki
þyrftu að vera eins og háskóli, þar
sem fólk væri sífellt að læra og
þroskast.
Fyrirlestrar Welch, sem hann vill
fremur kalla samræður, voru langt
frá því að vera formlegir. Forstjórinn
fyrrverandi sat, í báðum tilfellum, í
hægindastól á sviðinu og ræddi hásri
röddu við gesti undir stjórn Strat-
fords Sherman, ráðgjafa og fyrrver-
andi blaðamanns bandaríska við-
skiptatímaritsins Fortune til 20 ára,
en eins og kom fram á öðrum fyr-
irlestranna eru þeir tveir góðir vinir
og Sherman hefur fylgst vel með
Welch og hans starfi um árabil.
Spádómar eru bull
Við bæði þessi tækifæri var Jack
spurður um margvísleg efni sem
snúa að stjórnun fyrirtækja, sem og
spurninga er varða efnahagslífið og
hvort hann gæti spáð einhverju um
framtíðina. Við þeirri spurningu
hafði Jack einfalt svar; að hvorki
hann né aðrir væru færir um slíkt.
„Spádómar eru bull. Hver sá fyrir
kreppuna í Asíu? Hver sá fyrir
bráðalungnabólguna? Hver gat
ímyndað sér að Peking, þar sem
venjulega er varla hægt að þverfóta
fyrir fólki, liti nú út eins og 19. aldar
þorp með fáeinar hræður á stangli á
ferli.“
Jack sagði aðspurður um hugsan-
lega aðild Íslendinga að ESB, að sér
virtist sem fólk hér væri ánægt, dug-
legt, það væri stolt og væri sífellt með
bros á vör, og landsframleiðsla á
mann væri há. Því spyrði hann sig
hverju ESB aðild gæti bætt þar við.
Á fundunum tveimur bar Welch
viðskipti ítrekað saman við íþrótta-
kappleiki, enda er hann sjálfur góður
íþróttamaður. Hann sagði t.d. að við-
skipti væru eins og fótbolti. Það sem
skipti máli væri að vera með betra lið
og til þess að vera með betra lið þyrfti
að vera með betri leikmenn og þá
þyrfti síðan að hvetja áfram. „Losaðu
þig við slöku leikmennina,“ sagði
Welch. „Þú býrð ekki til vinningslið
með einhverja hálfdrættinga innan-
borðs,“ sagði Welch.
Hann sagði einnig að eini munur-
inn á viðskiptum og íþróttakappleik
væri sá að í viðskiptum tækju hlut-
irnir aðeins lengri tíma.
Heiðarleiki mikilvægur
Meginstefið, og líklega meginskila-
boð Welch í máli hans á fundunum
tveimur var að stjórnendur ættu að
hugsa um starfsmennina fyrst og
fremst, hlúa að þeim og hæfileikum
þeirra, og þá gengi allt betur. Hann
ræddi mikið um heiðarleika og að
fólk á vinnustaðnum þyrfti að koma
hreint fram hvað við annað, hrósa og
benda á bæði það sem er jákvætt og
neikvætt.
Meðal gesta úti í sal á Nordica var
hinn þekkti fyrirlesari Brian Tracy
og lagði hann tvær spurningar fyrir
gestinn. Bað hann Welch meðal ann-
ars um ráð til handa íslenskum fyr-
irtækjum sem flest væru lítil eða
meðalstór, nú þegar þau væru að rísa
upp úr efnahagslægð. „Ekki vera
fastir í „gömlu góðu dögunum“. Þeir
voru ekkert svo góðir. Það er á morg-
un sem hlutirnir gerast,“ sagði
Welch.
Um samruna og yfirtökur sagði
Welch aðpurður að menn þyrftu að
vita muninn á þessu tvennu, en í raun
væri ekkert til sem héti samruni.
Þegar tvö fyrirtæki rynnu saman
væri það alltaf stærra fyrirtækið sem
ætti að ráða mestu ef ekki öllu og
taka hitt yfir, en Welch kvaðst hafa
talsverða reynslu af samrunum og yf-
irtökum eftir að hafa staðið að mikl-
um fjölda þeirra í starfi sínu hjá GE.
Welch var spurður að því sérstak-
lega hvenær forstjórar ættu að hætta
að skipta sér persónulega af ráðn-
ingu almennra starfsmanna. Hann
svaraði því á þá leið að forstjórar
ættu að vera með puttana í ráðning-
um í allt að 2-300 manna fyrirtækj-
um, enda þyrfti að vanda til verka því
hver starfsmaður endurspeglaði
stjórnunarhætti forstjórans. „Ég
held að miðað við stærðir fyrirtækja
hér á landi, ættu forstjórar íslenskra
fyrirtækja almennt að þekkja alla
starfsmenn sína persónulega.“
Steinhættið kennslu í reikningi
Í fyrirlestrinum í Háskólanum í
Reykjavík beindist umræðan meira
en ella út í menntun, þekkingar-
stjórnun og lærdómsstefnu innan
fyrirtækja, en GE var frumkvöðull að
því leyti og lagði mikla áherslu á
menntun starfsmanna og þróaði sér-
staka stefnu varðandi það. Welch
ræddi einnig um ákvarðanatöku og
hvað væri mikilvægast að hafa til
hliðsjónar. Sagði hann að hann hefði
ekki tekið ákvarðanir út frá útreikn-
ingum í 20 ár, en notaði frekar kjark
og eðlisávísun, ásamt því að horfa á
markaðinn og greina hann. „Við-
skiptaháskólar ættu að steinhætta
kennslu í útreikningum,“ sagði
Welch og sagði að það skipti meira
máli að hafa rétta fólkið með í liðinu
en að týna sér í tölum.
„Ég stóð að nærri 3000 samrunum
og yfirtökum í GE og þegar maður
stendur í slíku þá spyr maður ekki
um einhverjar tölur heldur hvaða
mat maður getur gert sér úr eign-
unum sem keyptar eru.“
Welch lofaði óhefðbundinn bak-
grunn stjórnenda, og sagði sem
dæmi að sálfræðibakgrunnur Guð-
finnu Bjarnadóttur rektors Háskól-
ans í Reykjavík, og sessunautar hans
í spjallinu, væri frábær fyrir stjórn-
anda.
Jack Welch var spurður um hinn
mikla fjölda uppsagna sem hann stóð
fyrir, eða 100.000 manns á ferlinum.
Hann sagði að miklu skipti að vera
heiðarlegur við fólk og ekki að telja
því trú um að það væri að standa sig
vel ef það væri ekki að gera það.
„Ekki hvetja þau 10% sem standa sig
verst með því að gefa þeim launa-
hækkun reglulega. Þá halda þau að
þau séu að standa sig vel. Og hvað
gerist þá við fimmtugsaldurinn þegar
nýr stjórnandi kemur og sér að fullt
af fólki er ekki að standa sig, sem hélt
sjálft að það væri að skila góðu verki.
Þetta fólk missir vinnuna, og það á
versta tíma. Þetta kalla ég falska
góðmennsku, og hún er það versta
sem þú getur gert starfsmönnum
þínum,“ sagði Welch en þegar Welch
hætti hjá GE var fyrirtækið sex sinn-
um stærra en þegar hann tók við því,
en starfsfólkið 30% færra.
Um mikilvægi þess að búa til þekk-
ingarumhverfi í fyrirtækjum þar sem
starfsmenn væru síellt að læra, sagði
hann að nauðsynlegt væri að hlusta á
starfsmenn og breyta eftir vilja
þeirra. „Það verður að gefa starfs-
mönnum rödd, og virðingu. Fyrir-
tæki verða að vera eins og háskóli,“
sagði Welch að lokum.
Fyrirtæki þurfa að
vera eins og háskólar
Morgunblaðið/Arnaldur
Jack Welch og spyrillinn Stratford Sherman á sviðinu á Hótel Nordica.
Þú talar mikið um
starfsfólk og gæði
sem liggja í því.
Finnst þér stjórn-
endur almennt ekki
gera nóg af því að
hvetja starfsfólk sitt?
„Það er aldrei hægt
að gera nóg af því að
hvetja starfsfólkið.
Mér finnst ég t.d.
aldrei hafa gert nóg
af því. Stjórnendur
geta annaðhvort
kveikt í manni eða
slökkt á manni, allt eftir því
hvernig hann eða hún eru.“
Hér á Íslandi eru fyrirtæki
gjarnan að bera sig saman við er-
lend fyrirtæki, þrátt fyrir mikinn
stærðarmun. Er það raunhæft?
„Já, ég held það. Við hjá GE
viljum t.d. helst vera á stærð við
íslenskt fyrirtæki, þ.e. okkur
langar að láta sem svo sé. GE vill
verða mjög stórt en líða eins og
það sé lítið. Þetta er það erfiðasta
af öllu erfiðu fyrir fyrirtæki, að ná
þessu. Wal Mart (stærsta fyr-
irtæki Bandaríkjanna) hefur náð
þessu, að vera í stöðugum vexti en
halda sér samt litlu. Það má ekki
gleyma rótunum.“
Hvernig er útlitið í Bandaríkj-
unum um þessar mundir? Er
efnahagslífið að rétta úr kútnum?
„Dollarinn er veikur sem stend-
ur, þannig að útflutningur ætti að
vera sterkari. Það þýðir að fyr-
irtækin ættu að hagnast og neyt-
endur einnig. Fyrirtæki verða
samkeppnishæfari sem þýðir að
atvinnuleysi eykst, og það er að
aukast. En þegar eftirspurnin í
landinu byrjar aftur að vaxa,
verður fólkið ráðið aftur.
Ég get ekki sagt hvort það
muni gerast eftir þrjá mánuði, sex
eða fimmtán, en það er aðeins
tímaspursmál hvenær hjól efna-
hagslífsins fara að snúast á ný.
Það er í raun allt til reiðu í efna-
hagslífinu fyrir komandi vaxt-
artímabil. Í dag er hagvöxtur 1%,
en við þurfum að fá hann upp fyr-
ir 3%. Þessa stundina framleiðum
við ekki eftir getu. Þannig að at-
vinnuleysi mun aukast ef efna-
hagurinn tekur ekki við sér fljót-
lega, og það verður ekki gott fyrir
forsetann okkar, George W.
Bush, en ég er mikill aðdáandi
hans. Ég vona að hjól efnahags-
lífsins fari að snúast hraðar, því
þó að Bush sé vinsæll í dag gætu
vinsældirnar dalað haldi fólk
áfram að missa vinnuna. Ég vona
að þetta batni í tæka tíð, svo það
komi ekki niður á endurkjöri for-
setans,“ sagði Jack Welch að lok-
um í samtali við Morgunblaðið.
Stjórnendur geta
bæði kveikt í
manni og slökkt
Jack Welch segir að stjórnendur geri aldrei
nóg af því að hvetja starfsfólk sitt.
SEÐLABANKI Íslands telur að
auknum tekjum ríkissjóðs vegna
uppsveiflu í hagkerfinu eigi ekki að
verja til að lækka skatta. Bankinn
segir brýnt að hið opinbera skeri
niður útgjöld meðan á stóriðju-
framkvæmdum stendur. Þetta var
meðal þess sem fram kom í máli
formanns bankastjórnar Seðla-
banka Íslands, Birgis Ísleifs Gunn-
arssonar, á fundi sem haldinn var í
gær þegar ný þjóðhagsspá bankans
var kynnt.
„Við núverandi aðstæður og
horfur er afar óheppilegt að slaka
frekar á í opinberum fjármálum því
það mun leiða til frekari þrenginga
fyrir útflutnings- og samkepps-
greinar þar sem raungengi yrði
hærra en ella. Þá er brýnt að inn-
byggð sveiflujöfnun sem felst í
auknum tekjum hins opinbera í
uppsveiflu verði látin virka og
tekjuauka verði ekki eytt í aukin
útgjöld eða lækkun skatta.
Í ljósi þess að líklegt er að lítils-
háttar tekjuhalli verði á hinu op-
inbera í ár munu skattalækkanir á
allra næstu árum krefjast niður-
skurðar útgjalda.“
Hagvöxtur eykst
frá síðustu spá
Í þjóðhagsspá Seðlabankans er
gert ráð fyrir 2,5% hagvexti á
þessu ári og 3,25% hagvexti á árinu
2004. Þetta er töluverð aukning frá
síðustu spá sem út kom í febrúar
en í spánni nú er hugsanleg stækk-
un Norðuráls og flýtiframkvæmdir
hins opinbera teknar með í spánni.
Í máli Birgis Ísleifs kom fram að
þær framkvæmdir auk líklegrar
aukningar á aflaheimildum væru
skýringar á hækkun á spá bankans
um hagvöxt á þessu ári og næsta.
Atvinnuleysi verður meira en það
var á síðasta ári, að því er fram
kemur í þjóðhagsspá bankans. Gert
er ráð fyrir 3% atvinnuleysi sem er
þó minna en ráð var gert fyrir í síð-
ustu spá bankans í febrúar.
Að sögn Birgis Ísleifs felur spáin
í sér þokkalegt jafnvægi í þjóð-
arbúskapnum á þessu og næsta ári.
„Mun minni“ launahækkanir
forsenda lágrar verðbólgu
Reiknað er með að verðbólga
verði undir markmiði bankans fram
eftir næsta ári. Undir lok ársins
mun verðbólgan hins vegar hækka
og fara upp fyrir markmiðið á fyrri
hluta ársins 2005.
Lág verðbólga næstu misseri
kemur til vegna sterks gengis
krónunnar og minni alþjóðlegrar
verðbólgu en reiknað var með.
Verðbólguspána sagði Birgir Ís-
leifur byggjast á „þeirri forsendu
að launahækkanir verði tiltölulega
hóflegar á næsta ári og mun minni
en undanfarin ár. Þannig er reikn-
að með að launakostnaður á árs-
verk hækki aðeins um 4,5% á
næsta ári.“ Sagði Birgir að að öðr-
um kosti færi verðbólgan upp fyrir
markmið Seðlabanka, sem er 2,5%.
Peningastefnan veldur
ekki hágengi
Birgir sagði að gengishækkun að
undanförnu mætti rekja til vænt-
inga vegna fyrirhugaðra stóriðju-
framkvæmda en ekki til peninga-
málastefnu Seðlabanka Íslands.
Hann sagði hækkun gengis fela í
sér aðlögun hagkerfisins vegna
stóriðjuframkvæmda.
„Það er eindregin skoðun Seðla-
bankans að vaxtalækkun Seðla-
bankans við núverandi aðstæður
myndi aðeins hafa skammvinn áhrif
á gengið, ef þá nokkur áhrif kæmu
fram. Hið sama myndi gilda um
inngrip á gjaldeyrismarkaði og
breytingar á vægi innlendra og er-
lendra lána ríkissjóðs,“ sagði Birgir
Ísleifur í gær.
Fram kom á fundinum að Seðla-
banki Íslands hyggst auka dagleg
kaup á gjaldeyri í 2,5 milljónir
Bandaríkjadala. Hingað til hefur
bankinn keypt gjaldeyri fyrir 1,5
milljónir dala. Breytingin tekur
gildi 19. maí og gildir til loka þessa
árs.
Seðlabanki Íslands kynnti nýja þjóðhagsspá í gær
Tekjuauka verði hvorki
eytt í lækkun skatta né
aukningu útgjalda
Gert ráð fyrir
2,5% hagvexti
á árinu