Morgunblaðið - 12.09.2003, Side 45
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. SEPTEMBER 2003 45
sem Katla Rún óx varð hún hændari
að afa sínum og hann að henni. Þið
voruð ótrúleg saman. Hún gat spilað
soldið með hann afa sinn. Það þurfti
ekki mikið suð þá varstu rokinn af
stað og búinn að segja já við öllum
hennar óskum. En svona vildir þú
hafa þetta. Ég sagði oft við þig að
þetta kæmi nú í bakið á þér að láta
svona eftir stelpunni, en þú hafðir
bara lúmskt gaman af þessu öllu.
Á þessu ári bættust svo þrjú
barnabörn í hópinn, tvær stelpur og
einn strákur, þannig að barnabörnin
voru allt í einu orðin sjö. En þér
tókst að gefa öllum tíma. Það var
enginn útundan. Meira að segja
Katla Rún sem átti í afa sínum hvert
bein skildi alveg að nú væri hún
stóra frænka og yrði að hjálpa til
með litlu frænkur og frænda. Sorg-
legast er að þau litlu fá aldrei að
kynnast afa sínum, en við sem eftir
erum verðum að vera dugleg að
segja þeim frá þér.
Að lokum vil ég segja þér, Villi
minn, að mér finnst svo gott til þess
að hugsa að síðustu nóttina sem þú
lifðir fengu Katla Rún og Brynjar
Freyr að sofa hjá afa og ömmu. Þú
hafðir eins og svo oft áður hringt í
mig á föstudaginn og spurt hvort þú
mættir ekki sækja Kötlu í leikskól-
ann og fara með hana á Duus þar
sem verið var að opna listasýningu
hjá gömlum vini þínum. Þú fórst með
prinsessuna með þér og þú varst svo
montinn með hana því hún var svo
stillt og prúð. Síðan bauðstu Brynj-
ari líka að gista sem hann auðvitað
þáði því það var svo gott að dvelja í
Háholtinu í góðu yfirlæti.
Elsku Villi minn, takk fyrir allt,
með sorg og trega í hjarta kveð ég
þig og ég bið Guð að styrkja okkur
öll.
Þín tengdadóttir
Kristín Jóna.
Það var sunnudagur, það var sept-
ember og árið var 2000. Við Margeir
fórum í bíltúr og var ferðinni heitið
suður með sjó. Fyrsta stopp var Bláa
lónið, þaðan keyrðum við í Hafnirnar
og sýndi Margeir mér m.a. Braut-
arhól þar sem langamma hans hafði
búið. Því næst var keyrt til Sand-
gerðis og Leiruleiðina til Keflavíkur.
Áður en ég vissi af vorum við stopp
fyrir utan Háholt 19. Margeir drap á
bílnum og steig út. Ég hins vegar
haggaðist ekki. Komdu inn, sagði
hann við mig, það er kominn tími til
og svo gekk hann inn. Ég sat enn í
bílnum og hugsaði með mér að ég
gæti nú ekki hitt foreldra hans í
fyrsta skipti eins og ég var til fara,
íþróttagalli og ómáluð. Hann minnt-
ist ekkert á að við færum hingað
hugsaði ég, annars hefði ég sett upp
andlit og farið í betri föt.
Við Margeir höfðum þekkst í fimm
ár og verið mjög góðir vinir síðustu
tvö. Ég vissi hver Garðar og Svanur
voru, hafði séð þá öðru hverju á golf-
vellinum, Villa yngri hafði ég hins
vegar þekkt mun betur. Hann vann
með okkur við golfþing sem GR hélt
árið 1999 og einnig var ég svo lánsöm
að kynnast honum enn betur á
Landsmótinu í golfi sem haldið var á
Akureyri í ágúst árið 2000. Í dag er
sá tími ómetanlegur, ekki bara fyrir
mig heldur Margeir líka. Völu systur
hafði ég ekki hitt. Ekki gat ég setið
úti í bíl svo inn fór ég á eftir Mar-
geiri. Frá þessum degi hef ég ekki
þurft að hika við að fara út úr bílnum
þegar við höfum rennt suður. Mér
var strax vel tekið og Vilhjálmur og
Sigrún létu mig finna það alveg frá
upphafi að á Háholtið væri ég alltaf
velkomin. Betri tengdaforeldra er
ekki hægt að hugsa sér.
Villi, eins og hann var alltaf kall-
aður, hafði alla tíð stundað íþróttir
og ég hugsaði það oft þegar ég hitti
hann hvað það væri mikill munur að
sjá fimmtugan mann svona vel á sig
kominn. Þegar við Margeir fluttum í
Hamravíkina tók Villi ekki annað í
mál en að fá að leggja parketið og
flísarnar og mætti hann eftir vinnu
til okkar og parket og flísar var lagt
á mettíma. Aðra eins barnagælu
hafði ég heldur ekki hitt. Það leið
varla sú helgi að Viktor bæði ekki
um að fara til Keflavíkur að hitta afa
Villa, hann vildi helst búa í Keflavík.
Barnabörnin voru stór þáttur í lífi
Villa og hann fann alltaf tíma fyrir
þau. Síðustu átta mánuði hafa þrjú
barnabörn fæðst og það hefur verið
unun að fylgjast með þeim í fangi
Villa. Hann hafði sérstakt lag á að ná
athygli þeirra, nokkuð sem ég hef
aldrei fyrr séð og mun aldrei sjá aft-
ur. Dagur minn var ekki gamall þeg-
ar Villa tókst að fá hann til að brosa
og aldrei hef ég heyrt lítið barn
hlæja jafndátt í fangi nokkurs manns
og hjá afa Villa. Ásgeir, Brynjar,
Katla og Viktor hafa misst mikið en
sá tími sem afi Villi átti með þeim er
þeim ómetanlegur. Dagur, Vilborg
og Svava Ósk áttu öll sína fáu en
yndislegu mánuði með honum og ég
veit að hann mun áfram fylgjast með
þeim og leika við þau á sinn einstaka
hátt.
Í dag er skírnardagur Dags og
Svövu Óskar mér efst í huga. Við
Margeir vorum ekki á leiðinni að
skíra strax en í dag er ég þakklát
fyrir að Háholt 19 og laugardagurinn
2. ágúst síðasliðinn hafi orðið fyrir
valinu. Minningin um ferðina upp í
Skorradal með fjölskyldunni eftir
skírnina mun alltaf lifa.
Ég er ekki enn búin að ná því að
þú sért dáinn, elsku Villi minn, og ég
mun aldrei sætta mig við þetta.
Þetta er bara rugl.
Elsku Sigrún mín, missir þinn og
ykkar allra er mikill og það er ekki
rétt að leggja svona mikið á eina fjöl-
skyldu. Styrkur þinn síðustu daga
hefur verið alveg ótrúlegur og held-
ur okkur hinum gangandi á þessum
erfiðu tímum.
Elsku Margeir minn, Viktor og
Dagur litli, ég get lítið annað gert en
að hugsa vel um ykkur og við vitum
að afi Villi var bestur. Garðar, Svan-
ur og Vala, þið hafið misst mikið og
sendi ég ykkur og fjölskyldum ykkar
mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ketill minn, það er mikið á þig lagt,
elsku vinur, en við vitum að Villi er í
góðum höndum ömmu Valgerðar og
Vilhjálms yngri. Bræðrum Villa og
fjölskyldum þeirra votta ég einnig
mína dýpstu samúð.
Villi minn, hvíl í friði og við höld-
um áfram þar sem frá var horfið þeg-
ar við hittumst á ný.
Þín
Herborg.
Elsku afi, þú varst alltaf góður við
okkur og alla krakka. Öllum þótti
vænt um þig og enginn vildi missa
þig. Við gleymum aldrei sögunum
sem þú sagðir okkur. Þú varst bara
einum of góður til að vera tekinn
burt frá okkur. Þú varst hreinlega
besti afi í heimi og við söknum þín
mikið.
Vertu guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni
hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni.
(Hallgrímur Pétursson.)
Þín
Ásgeir Elvar, Brynjar Freyr
og Katla Rún.
Dauðinn birtist í svo mörgum ólík-
um myndum, stundum kemur hann
hægt og nánast falinn eða svo hratt
að augað eigi festir. Þessi orð lét Villi
bróðir falla í minningargrein um
móður okkar fyrir rétt rúmu ári síð-
an. Varla hefðum við getað ímyndað
okkur þá, að eitthvað slíkt myndi
henda okkur svo fljótt aftur, rétt um
það leyti sem birta tók á ný í hjarta
okkar allra. Nú sjáum við á eftir okk-
ar elsta bróður í faðm hins almátt-
uga, bróður sem í senn var fyrir-
mynd hreysti, elju og dugnaðar,
fyrirmynd skóla- og uppeldismála og
síðast en ekki síst, var hann fyrir-
myndar faðir, afi og bróðir. Sýndi
það og sannaði jafnvel allt í sömu
andránni!
Vandamál sem öðrum óx í augum,
voru jafnvel óyfirstíganleg á stund-
um, leystust í meðförum hans af
meðfæddri umhyggju og ástúð fyrir
mannfólki, hvar sem það var statt í
lífinu. Mest þó hjá þeim sem minna
máttu sín og höfðu orðið undir í lífs-
baráttunni og kapphlaupi tímans.
Hugur minn reikar aftur til Tún-
götunnar, þar sem við bræður ól-
umst upp í kotinu litla, umvafðir
kærleika og kátínu. Villi var þó fljót-
ur að finna sér lífsförunaut og fyrr
en varði var hann floginn úr hreiðr-
inu með Sigrúnu sinni, rétt um það
bil sem ég komst til vits og ára. Ég
man þó vel eftir því þegar hann kom
heim úr heimshornaflakki frá Ber-
múda og færði okkur yngstu bræðr-
um boli, merktum landinu fjarlæga,
og allir supu hveljur í skólanum af öf-
und. Við fylgdumst vel með því þeg-
ar hann kleif upp metorðastigann í
fótboltanum, söfnuðum og klipptum
út umsagnir í blöðunum um baráttu
hans og vilja á knattspyrnuvellinum,
eitthvað sem hann átti síðar meir eft-
ir að tileinka sér í hinu daglega lífi og
verða öðrum til eftirbreytni.
Ófáar stundir sat ég hjá Villa og
Sigrúnu á Ásabrautinni og passaði
gormana þeirra yngstu, sem þá voru
orðnir tveir, annar gæðablóð en hinn
hamhleypa. Gleymi því aldrei hversu
gaman var að vera sóttur í grænu
Chevy Novunni og síðan ekið heim í
hendingskasti, á kolólöglegum
hraða, af því litla bróður fannst svo
gaman að renna til á sætisbekknum í
amerísku drossíunni. Oftast þá með
nokkra hundraðkalla í vasanum fyrir
viðveruna, sem fór þó að mestu í
sjónvarpsgláp í pínulitla Kanasjón-
varpstækinu.
Þegar ég hins vegar nálgast tán-
ingsaldurinn er Villi farinn að kenna
í skólanum og einn vetur sat ég í
tíma hjá honum þar sem hann
kenndi skrift. Hann hafði einstak-
lega fallega rithönd og var vel skrif-
andi, hvort heldur sem um var að
ræða fagurfræði eða heimildarritun.
Hrein unun að lesa það sem eftir
hann lá og mér og öðrum hvatning til
frekari dáða á þeim vettvangi.
Stelpunum í bekknum fannst hann
ægilega sætur og sögðu að hann
væri alveg eins og Paul McCartney í
Bítlunum. Ég naut góðs af og fékk
meiri athygli en ella hjá stelpunum
af Heiðarbrúninni. Seinna meir átti
Villi eftir að setjast þar að með fjöl-
skylduna áður en þau fluttu í glæsi-
heimilið að Háholti 19.
Villi var mikill alþýðumaður og
naut sín vel í hópi krata á uppgangs-
tímabili Alþýðuflokksins í Keflavík,
rétt um það leyti sem ég kemst á
kosningaaldur. Ég fylgdi honum að
verkum, bæði í ræðu og riti, og átti
einstaklega góðar stundir í fylgd
hans um pólitísk öngstræti bæjar-
lífsins. Villi tók nefnilega af skarið
þegar mér fannst aðrir sitja hjá,
vann verk sín af einlægni og einurð,
svo að eftir var tekið. En skólinn átti
hug hans allan, jafnvel bæjarstjóra-
stóllinn varð að víkja fyrir áhuga
hans á menntamálum og lét hann sér
í léttu rúmi liggja að segja skilið við
æðstu stöðu bæjarfélagins. Hann
var fyrst og fremst skólamaður, eng-
inn gat tekið það frá honum og þar
leið honum best. Þar var hann betri
en nokkur annar að flestra mati, for-
eldrar tóku honum fegins hendi á ný
og umvöfðu hann óskabörnum þjóð-
arinnar.
Nú sitjum við eftir, hnípin á sorg-
arstundu og endurnærumst af minn-
ingunum um elskulegan bróður, sem
leit eftir okkur hinum á ögur-
stundum en naut sín mest og best í
faðmi ört stækkandi fjölskyldu.
Þeirra missir er mikill og erfiðasta
raun. Ég vona að bráðlega birti á ný í
þeim lífsins ólgusjó sem fjölskyldan
hefur mátt þola og tek undir lokaorð
bróður míns í áðurnefndri minning-
argrein, að maður skuli hugleiða
áfram tilvist sálarinnar og tilvistina í
Paradís.
Valur Ketilsson.
Kæri bróðir, á fallegum og
skemmtilegum degi Ljósanætur
minnir sorgin, systir gleðinnar sem
var jú í aðalhlutverki þennan dag, á
sig. Á ýmsu átti ég von, Villi minn, en
ekki þessu. Þú þessi hrausti og
reglusami maður ert tekinn frá okk-
ur fyrirvaralaust. Ég hélt að við
hefðum verið búin að fá okkar
skammt í bili, fyrst Villi þinn og svo
mamma. Þú hittir þau fyrr en ráð var
fyrir gert. En svona er lífið, ekki allt-
af mjög sanngjarnt. Óskiljanlegt,
satt að segja.
Þú varst ekki aðeins elstur okkar
bræðra, þú varst höfuð fjölskyldunn-
ar, foringinn. Ákveðinn, fylginn þér,
nákvæmur og vinnusamur. Kostir
sem flestir foringjar hafa. Þeir komu
þér til góða í þínum fjölbreyttu störf-
um. Þér var treyst til góðra verka.
Aðeins 36 ára varðst þú bæjarstjóri í
Keflavík. En best kunnir þú við þig
innan um börn og unglinga og þess
vegna snerir þú aftur í skólann þinn,
þar sem þú kunnir best við þig. Þú
áttir svo auðvelt með að vinna með
unga fólkinu sem sést best á ferli
þínum sem skólastjóri og æskulýðs-
fulltrúi.
Þú hittir þína elskulegu Sigrúnu,
eftirlifandi eiginkonu, þegar þið vor-
uð fimmtán ára og hafið þið verið
saman síðan. Í nær fjörutíu ár. Ykk-
ur varð magra barna auðið en þið
þurftuð að taka á móti sorginni í tví-
gang, fyrst þegar þið misstuð Ásgeir
nýfæddan og síðan Vilhjálm sem dó
tvítugur fyrir þremur árum. Þá
reyndi mikið á þig og ykkur en það
var með ólíkindum hvað þið voruð
sterk í þessari miklu sorg.
Þú fylgdist alltaf vel með þínu
fólki. Þú passaðir mig lítinn og í raun
alveg þar til ég varð stálpaður. Ég
man svo vel eftir að ég byrjaði með
Víkurfréttir að ég fór fyrstu árin
alltaf heim til þín og lét þig fá eintak,
rétt áður en því var dreift. Ég leitaði
oft til þín með ráðleggingar, það var
svo gott að leita ráða hjá þér. Við
unnum saman að mörgum málum og
síðastliðið vor gerðum við saman
blað, Mylluna, fyrir skólann þinn,
Myllubakkaskóla. Þú fórst oft þínar
leiðir og vildir fá sérblað fyrir skól-
ann. Þú ljósmyndaðir sjálfur nokkur
hundruð nemendur og við gerðum
þetta fína blað.
Þú ætlaðir að hætta að vinna sex-
tugur, ekki degi seinna. Þetta fannst
mér skemmtilegt markmið og við
Ásdís mín ræddum það oft og sáum
þig fyrir okkur sem rithöfund. Þú
áttir svo ótrúlega auðvelt með að
skrifa skemmtilegan og góðan texta.
Ósjaldan stóðst þú upp og talaðir til
fólks á tímamótum, t.d. á fertugsaf-
mæli mínu og einnig Ásdísar afmæli
í sumar.
Því gleymi ég aldrei, það sem þú
sagðir og hvernig þú sagðir það. Ég
geymi þetta á myndbandi og á eftir
að ylja mér við það síðar.
Ég skoðaði myndavélina þína fyrir
nokkrum dögum. Nokkur hundruð
myndir frá sumrinu, nær allar af
barnarbörnunum sem eru þrjú ný á
þessu ári. Þú varst svo ótrúlegur afi
og það sást svo vel hvernig þú varst
við öll börn, úr þinni fjölskyldu og
einnig í skólanum. Þú varst barna-
maður.
Mér finnst ótrúlega erfitt að skrifa
um þig, kæri bróðir, því þú varst mér
svo mikil fyrirmynd. Svo stór í mín-
um huga. Ég sakna þín svo mikið. En
lífið heldur áfram. Minningarnar um
þig koma í röðum í huganum, allt frá
því ég passaði fyrir ykkur í risinu á
Ásabrautinni í Keflavík og var sem
pjakkur að klippa út fótboltaum-
sagnir um þig í blöðunum, fram á
þinn lokadag hérna megin sem var
síðastliðinn laugardag, á Ljósanótt.
Ég beið eftir að þú kæmir til að
skoða ljósmyndasýninguna mína. Í
stað þín kom lögreglan með mynd af
þér.
Hvernig á maður að skilja svona
lagað. Það mun taka sinn tíma.
Sjáumst síðar, elsku Villi.
Þinn bróðir,
Páll Hilmar.
Sárt er vinar að sakna,
sorgin er djúp og hljóð.
Minningarnar mætar vakna,
svo var þín samfylgd góð.
Daprast hugur og hjarta,
lýsir upp myrkrið svarta,
vinir þó falli frá.
Góðar minningar geyma,
gefur syrgjendum ró.
Til þín munu þakkir streyma,
þér munum við ei gleyma,
sofðu í sælli ró.
Ég kveð ástkæran mág minn með
söknuði og þakklæti fyrir allt sem
hann var okkur, fjölskyldunni á
Bragavöllunum. Hann var horn-
steinn stórfjölskyldunnar og hjarta-
hlýrri manni hef ég ekki kynnst. Ég
veit að nú hittast þau hinum megin,
Villi og Ásgeir synir hans og Gerða
móðir hans. Það verða fagnaðar-
fundir.
Ég bið guð að styrkja Sigrúnu,
börnin og aðra ástvini.
Þín mágkona,
Ásdís Björk.
Elsku mágur. Hugurinn barðist
við afneitun og ég reyndi allt til að fá
afslátt af þeirri tilfinningu sem greip
mig þegar Sigrún systir mín hringdi
og tilkynnti mér þessi hörmulegu
tíðindi. Fyrir aðeins þremur árum
barði sorgin dyra hjá fjölskyldunni í
Háholti 19 og enn reynir á styrk
þeirra. Í mínum huga var Vilhjálmur
Ketilsson tákn heilbrigðs lífernis.
Vilhjálmur var fæddur foringi, fyr-
irmyndarfjölskyldufaðir og skóla-
maður af Guðs náð. Hann varð þeirr-
ar gæfu aðnjótandi að velja sér
lífsstarf sem jafnframt var hans
áhugamál. Margt leitar á hugann, og
fáum við seint þakkað forsjóninni
fyrir að eignast Vilhjálm sem fjöl-
skyldumeðlim en fyrst og fremst
sem vin. Við eignuðumst okkar
fyrstu börn um svipað leyti. Fórum
saman í okkar fyrstu fjölskylduferð-
ir og áttum saman dásamlegar
stundir í Skorradalnum. Vilhjálmur
var einstaklega laginn við börn og
sagði margar furðusögur af tröllum
og fyrirbærum. Gamla og nýja tíma
þekkti hann vel og minntist oft á
veru sína hjá ömmu og afa í Höfn-
unum. Það skarð verður vandfyllt
sem Vilhjálmur gegndi í stórfjöl-
skyldunni, hann var lykilmaður í svo
mörgu tilliti, við ýmis tímamót flutti
Vilhjálmur minningar um lífshlaup
fjölskyldumeðlima af hreinni snilld á
gullaldarmáli. Já það var hrein unun
að heyra hann flytja ritað mál samið
af næmi og vandvirkni sem ein-
kenndu öll hans verk. Um leið og ég
kveð þig, vinur sæll, vill fjölskylda
mín þakka þér fyrir allt. Við munum
sakna þín sárt og heiðra minningu
þína best með því að halda ótrauð
áfram.
Nú reynir á tryggð, fjölskyldu- og
vináttubönd. Hvíl í friði góði vinur.
Elsku Sigrún, fjölskyldu og ástvin-
um sendum við samúðarkveðju.
Sturlaugur Ólafsson
og fjölskylda.
Ég má til með að skrifa nokkur
orð um heiðursmanninn Vilhjálm
Ketilsson, sem Sigrún móðursystir
mín kom með inn í fjölskylduna um
svipað leyti og ég fæddist. Aftur og
aftur þegar að ég var barn stigu þau
hjónin inn í líf mitt er á reyndi. Eftir
að ég varð fullorðinn var Villi sá sem
ég leitaði til þegar að ég var að taka
mín stóru skref og þurfti stuðning.
Mig skortir orð til að lýsa þakklæti
mínu fyrir að hafa notið Villa og fyrir
áhugann, örlætið og væntumþykj-
una sem hann sýndi mér. Það eru
einstök forréttindi að fá að kynnast
manni sem var eins trúr sér og
stefnufastur og Villi. Stórir menn
eins og Villi skilja eftir sig stór spor
sem ekki verður fyllt upp í.
Það var mikil gæfa fyrir Villa að
kynnast Sigrúnu og ganga sína lífs-
göngu með henni frá unglingsaldri.
Við hlið stórra manna eru stórar
konur.
Það er engin tilviljun að þau eign-
uðust þann myndarlega afkomenda-
hóp sem börn þeirra og barnabörn
eru. Börn voru Villa yndi og hann
var yndi barna. Þeim sem þekktu
Villa kom það ekki á óvart að hann
gæfi upp starf bæjarstjóra fyrir
skólastarfið.
Þau eru óteljandi börnin sem notið
hafa Villa. Kannski var það í hlut-
verki hans sem stóra bróður sem
hann tók fyrstu skrefin. Ég á auðvelt
með að sjá það í gegnum vináttu
mína við Palla bróður hans og fjöl-
skyldu.
Elsku hjartans frænka, ég finn svo
mikið til með þér, missir þinn er svo
mikill. Megi góður Guð og allt það
sem gott er vera með þér.
Elsku Gæi, Maddi, Svanur, Vala
Rún, makar og börn, ég samhryggist
ykkur innilega. Missir barna-
barnanna sem áttu hug og hjarta afa
síns er svo mikill. Föður Villa,
bræðrum, tengdaföður, honum afa,
tengdafjölskyldu, vinum, samstarfs-
fólki og nemendum sendi ég samúð-
arkveðjur og öllum öðrum sem um
sárt eiga að binda.
Ólafur.
Fleiri minningargreinar um Vil-
hjálm Ketilsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu daga.