Morgunblaðið - 12.03.2004, Blaðsíða 41
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 12. MARS 2004 41
✝ Hlynur Júlíussonfæddist í Sól-
heimum á Svalbarðs-
strönd 29. nóvember
1925. Hann andaðist
á heimili sínu í
Reykjavík mánudag-
inn 1. mars síðastlið-
inn. Hlynur var son-
ur Herdísar Þor-
bergsdóttur, f. 1891 á
Breiðumýri, d. 1965,
og Júlíusar Jóhann-
essonar, f. 1893 á
Litlu-Tjörnum, d.
1969. Börn þeirra
eru: Auður, f. 1919,
Heiður, f. 1921, Ingvi, f. 1923, d.
1995, Hlynur, f. 1925, d. 2004,
Gunnur, f. 1927, d. 1984, Haddur,
f. 1928, Þrúður, f. 1930 og Jenný,
f. 1934.
Herdís og Júlíus bjuggu m.a. í
Sigluvík, á Þönglabakka, Sól-
heimum og Grund, en árið 1944
reistu þau húsið Hörg á Sval-
barðseyri, sunnan undir Borgar-
hóli, og var þaðan stutt í vinnu
fyrir Júlíus, sem starfaði hjá
kaupfélaginu á staðnum. Árið
1962 seldu þau húsið og fluttu til
Akureyrar.
Kona Hlyns var Ingunn Helga
Níelsdóttir, f. 1923, d. 2001, dóttir
Halldóru Guðrúnar Ívarsdóttur, f.
1887, d, 1967, og Níelsar Hafstein
Sveinssonar, f. 1876, d. 1930, sem
bjuggu um tíma á Þingeyrum, síð-
an á Ytri-Kóngsbakka á Snæfells-
nesi og í Stykkishólmi en lengst af
í Þingeyrarseli í
Vatnsdal. Dóttir
Hlyns og Ingunnar
er Helga Guðrún, f.
1956, börn hennar
eru Hlynur Ingi, f.
1972, Gunnar Örn, f.
1974, Stefanía Rut, f.
1981 og Eyþór
Smári, f. 1985.
Barnabörnin eru
fimm. Sonur Hlyns
og Ingunnar er Júl-
íus Hermann, f.
1951, kona hans er
Hulda Gunnarsdótt-
ir, f. 1945, börn
hennar og stjúpbörn Júlíusar eru
Birna, f. 1963 og tvíburarnir
Hanna og Gunnar, f. 1965. Barna-
börnin eru átta. Sonur Ingunnar
og fóstursonur Hlyns er Sævar
Bragi Arnarson, f. 1949, kona
hans er Ingibjörg Gestsdóttir, f.
1949, börn þeirra eru Ásta Ing-
unn, f. 1972, María, f. 1976, Jón-
ína, f. 1979 og Gestur Örn, f. 1981.
Barnabörnin eru sjö.
Hlynur Júlíusson stundaði sem
ungur maður fiskveiðar og sigl-
ingar, var síðan verkstjóri hjá
Reykjavíkurhöfn við ýmsar fram-
kvæmdir, svo sem gatnagerð í Ör-
fyrirsey og grjótnám í upp-
hleðslur hafnarmannvirkja, en
lauk starfsferli sínum sem birgða-
stjóri hjá Apóteki Vesturbæjar.
Útför Hlyns Júlíussonar fer
fram frá Fossvogskapellu í dag og
hefst athöfnin klukkan 15.
Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa, ...
Þegar ég lít til baka og rifja upp
minningar bernskunnar, þá sé ég að
Hlynur Júlíusson leikur þar merki-
lega stórt hlutverk. Honum bregður
fyrir í svipleiftrum: grannur, sterk-
legur maður með stórskorið andlit,
rautt hár, hrjúfa rödd, með stríðn-
isblik í augum og mikla útgeislun. Sú
aðlaðandi mynd steig líka oftar en
ekki fram á raunveruleikasvið föð-
urlausra barna, drengs og stúlku,
sem leituðu ósjálfrátt að viðmiðun,
athygli og handleiðslu karlmanns,
umfram það sem mæður þeirra gátu
veitt. Hann stjanaði við okkur
Hönnu, lék við okkur, henti okkur í
loft upp, og færði okkur leikföng að
utan, úr heimi ævintýra og dular-
fullra staða. Það fylgdi honum
tvenns konar ára, annars vegar
rótgróinn blær úr víðfeðmri sveit,
staðfesta, ábyrgð og skylda, hins
vegar andvari af hafi og ferðum til
ókunnra landa, útþrá og eftirvænt-
ing. Hann fylgdi okkur eftir úr fjar-
lægð, en þó nálægt, umhyggjusam-
ur, greip í verk fyrir mæður okkar,
systurnar, færði margt til betri veg-
ar og var þeim ávallt innan handar.
Þegar ég stækkaði og vildi vinna mér
inn pening, útvegaði hann mér fyrsta
alvörustarfið og tók mig í flokk sinn
við Höfnina, lagði mér reglurnar í
samskiptum við eldri og reyndari
menn, suma nokkuð markaða af
óhollu líferni.
Hlynur ólst upp í stórum systk-
inahópi, á einum fegursta bletti
Eyjafjarðar, þar sem lífsbaráttan
krafðist alls hins besta og ítrasta af
hverjum manni, ungum sem öldnum.
Þá var margvíslegt umrót í þjóð-
félaginu, kreppa og skortur, órói í
fólki og heitar umræður. Sveitirnar
voru að leysast upp og fólkið flutti
unnvörpum til sjávarsíðunnar í leit
að betra plássi en það hafði. En um-
fram allt leitaði það frelsis til að
skapa sér sjálfstætt líf og mannsæm-
andi kjör, óháð niðurdrepandi leifum
gamla vistarbandsins og þrúgandi
þrældóminum sem því fylgdi. Hlyn-
ur mótaðist af kjarnmiklum samræð-
um sannleiksleitandi framfarasinna,
og varð síðan virkur í baráttunni fyr-
ir ríkari skilningi og stéttarvitund al-
þýðunnar og eðlilegri þátttöku í
ákvörðunum er vörðuðu hag hennar
sjálfrar. Hann var alla tíð lengst til
vinstri í stjórnmálum og lá ekki á liði
sínu að sannfæra villuráfandi sauði
um ágæti þess að bjarga skinninu
undan svipu atvinnurekenda og yf-
irstéttarinnar. Hann gat orðið heitur
í umræðum og sparaði þá ekki stór
orð og kaldhæðni, ef hann hélt að
menn væru að linast eða skildu ekki
röksemdarfærsluna fyrir þeim gild-
um og hugsjónum sem gætu leitt
þjóðina til sjálfstæðis, jafnréttis,
jöfnuðar og bræðralags.
Hlynur hafði mikinn áhuga á bók-
um, einkum um gagnlegan fróðleik,
sjómennsku, siglingar og ferðalög,
og safnaði eins miklu efni um þetta
eins og hann gat. Hann fór vandlega
í gegnum stæður og stafla hjá útgef-
endum, í fornbókabúðum og bóka-
mörkuðum í leit að því sem hann
vantaði, og lagði fljótt áherslu á að
kaupa óinnbundið efni. Í framhaldi
af því dreif hann sig, ásamt svila sín-
um, Sigurði Kristinssyni, á námskeið
í bókbandi hjá víðkunnum fagur-
kera, Helga Tryggvasyni, sem hafði
vinnustofu í risi Myndlista- og hand-
íðaskóla Íslands í Skipholti. Eftir
það batt hann inn bækur sínar sjálf-
ur. Með árunum eignaðist hann dá-
gott safn og kom því smekklega fyrir
í íbúð þeirra hjóna.
Hlynur batt inn fyrir mig ferða-
bækur Þorvaldar Thoroddsen, fjög-
ur bindi í svartri kápu, og Tímarit
Máls og menningar, tuttugu og eitt
bindi í rauðri. Hann lagði metnað
sinn í að útvega það sem vantaði í
safnið, gróf upp elstu eintökin og bjó
öllu hæfilegan búning sem ég var
mjög sáttur við. Ekki vildi hann
nema lágmarksgreiðslur fyrir efni
og vinnu, en til að jafna metin færði
ég honum forláta rit um bókband að
fornu og nýju og höfuðdjásn bóka-
gerðar heimsins, sem hann kunni vel
að meta og sótti þangað fróðleik og
aðferðir.
Tónlistaráhugi Hlyns kom
snemma fram, en það var ekki fyrr
en honum áskotnaðist orgel, lærði
nótur og æfði sig reglulega að hann
náði viðeigandi tökum á viðfangsefn-
um sínum og gat leikið sér til hug-
arhægðar. Forsaga málsins var sú,
að afi hans, Jóhannes Jónatansson,
bóndi í Sigluvík á Svalbarðsströnd,
keypti orgel af Magnúsi Einarssyni
organista á Akureyri um 1916, og lék
á það eftir því sem aðstæður leyfðu.
Síðar erfði Konkordía dóttir hans
hljóðfærið, en eftir lát hennar fékk
Hlynur það sent suður, og mun það
hafa verið árið 1967. Hann greip í
það á kvöldin og um helgar, og lék
einkum angurværa söngva, ættjarð-
arlög og sálma. Þrjátíu árum síðar
var hann svo til hættur að spila
vegna stirðleika í fingrum og flaug
þá í hug að orgelið færi aftur á Sval-
barðsströnd. Hann vildi ekki að það
dagaði uppi sem rykfallið stofustáss
eða vanræktur ættargripur, heldur
fengi að hljóma fyrir fjöldann. Það
varð úr að hann bað mig að taka það
með mér norður þegar hann frétti að
ég væri að flytja á æskuslóðir hans, í
gamla skólann og samkomuhúsið.
Þar er það troðið hvern dag og spilað
og sungið fyrir gesti á sumrum, og
dansað eftir tónum þess ef þannig
stendur á. Með orgelinu fylgdu
nótnaheftin og Svalbarðsstrandar-
bók sem faðir hans tók saman, því ég
yrði að vita deili á svæðinu, hvar ég
væri staddur og hverjir byggju í ná-
grenninu.
Hlynur gekk snemma til liðs við
Karlakór Trésmíðafélags Reykja-
víkur og söng með honum í fjölda-
mörg ár, bæði í bænum og úti á landi.
Í veislum og samkvæmum vildi hann
syngja og lagði til mjúkan og örugg-
an baritón sem hvergi skeikaði, en
þegar menn fóru að rembast og
þenja sig til að yfirgnæfa hver ann-
an, eins og verða vill, þá dró hann sig
hæversklega í hlé og tók menn tali í
öðru herbergi, jafnvel unglinga sem
voru utanveltu og ræddi við þá eins
og fullorðið fólk um tómstundir
þeirra og hugðarefni.
Á Meistaravöllum þar sem þau
Hlynur og Ingunn bjuggu var stór
sameiginleg lóð sem aldrei náðist að
rækta að ráði, enda íbúarnir margir
og misleitir, og flestir þeirra fastir í
harðri lífsbaráttu. Þau ákváðu því að
slást í hóp með systrum Ingunnar,
Maríu og Elsu, og eiginmönnum
þeirra, Sigurði Gunnarssyni og Her-
manni Guðnasyni, og leigja land
undir sumarbústað uppi í Hvalfirði.
Áður en varði reis þar lítið þorp í
samstarfi og samheldni, með gleði-
ríkum fundum og skemmtunum und-
ir skjólgóðri hlíðinni. Þarna undi
Hlynur sér við viðgerðir, nýsmíði og
endurbætur, reisti sér geymslu- og
verkstæðisskúr á lóðinni og eyddi
þar mörgum stundum við tilfallandi
verk. Hann var útsjónarsamur og
fundvís á tækifæri til að snúa sér í
hag, hversu smátt sem það var í snið-
um, og þá komu sér vel fjölmörg
verkfæri sem hann á yngri árum
hafði fundið aflóga á víðavangi og
gert upp af hagleik. Natni hans við
smáatriði var viðbrugðið, iðnin og
starfsgleðin innborin. Hann sá fljótt
árangur erfiðis síns, því bústaðurinn
stækkaði hægt og örugglega, umvaf-
inn ilmandi trjánum sem Ingunn
plantaði og hlúði að með þrautseigju
og næmi.
Hlynur Júlíusson var gáfaður
maður, heitur í hjarta, trúr og
traustur, skoðanafastur, hreinskil-
inn, snöggur til svars og orðheppinn,
og svo hvass stundum að undan
sveið. Hann var stríðinn, jafnvel
hrekkjóttur ef honum fannst deyfð
ríkja í mannfagnaði. Fólki blöskraði
uppátækjasemin, en hló samt því það
vissi að tilgangur hans var ekki að
særa og stuða, heldur halda því við
efnið, stríkka á skilningi þess og við-
brögðum, svo það væri á varðbergi
og léti ekki glepjast.
Við Hlynur sáumst ekkert sjaldn-
ar þótt lengra væri orðið á milli okk-
ar, við héldum sambandi í síma og
skiptumst á skoðunum og fréttum.
Ég heimsótti hann syðra og vildu þá
samræður okkar dragast á langinn,
frá hádegi fram á kvöld. Honum
þótti gaman að heyra um mannlíf og
framkvæmdir heima í héraði, og rifj-
aði upp sögur og atburði sem settu
svip sinn á fólk. Ég sendi honum ár-
lega eintak af Héraðsriti Þingeyinga
sem honum fannst gott að glugga í,
enda þekkti hann til margs sem þar
var fjallað um. Fyrir nokkrum árum
komu þau Ingunn norður til stuttrar
dvalar, og þá bauð hann mér í bíltúr
um svæðið, ók hægt og hugsandi,
mældi út og mat það sem hafði farið
úrskeiðis eða áunnist síðan hann
hleypti heimdraganum. Var hann
nokkuð sáttur við breytingarnar,
enda skildi hann að tíminn fer sínu
fram, og að mannanna verk eru mis-
góð og misgáfuleg.
Hlynur Júlíusson átti þess ekki
kost að stunda nám umfram barna-
skóla, heldur hélt ungur á braut til
erfiðra starfa, eins og títt var um
jafnaldra hans um miðja síðustu öld.
Hann ræktaði meðfædda hæfileika
sína, studda af smekkvísi, handlagni
og alúð þess manns sem veit, að eng-
inn árangur næst nema ávaxta þau
gildi sem fleyta honum yfir erfiðleika
lífsins. Hann var trúr sínu, hvikaði
hvergi, ræktaði skap sitt og vann
bug á brestum sínum, miðlaði
reynslu og þekkingu af góðvild og
ástúð, mótaði mann og annan, og lifði
lífinu eins og það þróaðist. Hann var
þeirrar gerðar að flíka ekki tilfinn-
ingum sínum, heldur byrgði þær
inni, í hófi þó, af eðlislægu stolti, við-
kvæmni og hógværð, en sneri
skrápnum út, svo að menn sem
þekktu hann ekki héldu hann oft
annan en hann raunverulega var.
Hlyni var mjög brugðið þegar Ing-
unn féll skyndilega frá, eins og lostin
eldingu. Þau voru mjög ólíkir ein-
staklingar, hún ljós, hann dökkur,
hann var eins og undiraldan, þung,
áköf og taktföst, hún svif á báru, kvik
af suðrænu hljómfalli. Þau brýndu
hvort annað, rákust á, en undu sam-
an á vandmeðfarinn máta, í súru og
sætu, fylltu í eyðurnar, bættu hvort
annað upp, vonum framar, og voru
reyndar óaðskiljanleg. Síðan fór
hann sjálfur jafn óvænt og skyndi-
lega, svo menn standa agndofa eftir.
Síðustu árin styrkti Hlynur vin-
áttubönd sín við Hönnu og Ragnar
og þáði matarboð þeirra í Mos-
fellsbæ og morgunkaffi í sumarbú-
staðnum. Hann leitaði líka oftar nið-
ur að höfn, tók menn tali og innti
tíðinda. En erindi hans var ekki síð-
ur að leita samhljóms við liðna tíð,
finna andblæ hafsins, rifja upp minn-
ingar, horfa inn í fjarska sjóndeild-
arhringsins, með gamla þrá í brjósti,
en þó sáttur við lífið, hvernig það
mótaðist í ólgusjó væntinga og von-
brigða, drauma og úrlausna, og gerði
hann að þeim sterka og eftirminni-
lega persónuleik sem menn tóku eft-
ir og virtu mikils, og sjónarsviptir er
að.
Með þessum orðum fylgja hlýjar
kveðjur til eftirlifandi systkina
Hlyns, barna, tengdafólks og afkom-
enda, frá okkur Hönnu, mökum,
börnum og barnabörnum. Hann var
okkur eins og elskulegur fóstri
fyrstu árin sem við lifðum og rækt-
arsamur vinur alla tíð síðan. Blessuð
sé minning hans, megi hann hvíla í
ást og friði.
... og flykkjast heim að fögru landi ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.
(Jónas Hallgrímsson.)
Níels Hafstein.
Það fór ekki mikið fyrir föðurbróð-
ur mínum, Hlyni Júlíussyni, en með
vinum var hann spaugsamur, hnytt-
inn og minnugur á gamla tíma. Hann
hreif með sér fólk þegar hugurinn
leitaði til uppvaxtaráranna á Sval-
barðsströnd og fylgdist vel með þeim
sem þar búa, ætterni, framförum og
breytingum. Hann mundi vel gömlu
Reykjavík og þá sem settu svip á
daglega lífið, hann reyndi tímana
tvenna eins og hans kynslóð, sem
lifði miklar breytingar, átti stóra
drauma, sem sumir rættust, en í nýj-
um heimi ótrúlegra framfara.
Í önnum dagsins, þegar tíminn er
naumur hjá flestum, leitaði hann
frétta af sínu fólki. Stutt símtöl, inn-
lit, heimsmálin rædd yfir bolla af
góðu tei, ekkert fór fram hjá honum,
þjóðþrifamálin alltaf flóknari en al-
heimsmálin. Bækur voru góðir vinir,
hann batt inn bækur, handfjallaði
hverja bók af natni, honum þótti
vænt um bækur og þann heim sem
þær geymdu og deildu með honum.
Þegar vorið boðaði komu sína, var
undirbúin ferð og dvöl í sumarbú-
staðnum, helst sumardvöl, óþarfi að
flækjast í bæinn.
Það vorar senn, en óvænt er haldið
á nýjan áfangastað, þar bíður nýtt
rjóður, nýjar bækur og kærir endur-
fundir.
Áfram lifir minning um kæran
frænda og góðan vin.
María Elínborg Ingvadóttir.
Góður nágranni hefur kvatt og til-
hlýðilegt að fáein kveðju- og þakk-
arorð frá okkur fylgi honum yfir
móðuna miklu.
Þegar við segjum nágranni, þá er
það þannig vaxið að í 28 ár höfum við
átt sumarhús á svæði sem við okkar í
milli höfum kallað „Costa del Hval“.
Þar áttu hjónin Hlynur og Ingunn
einnig sinn sælureit og var samgang-
ur allnokkur og tókust með okkur
ágæt kynni og margar ánægjulegar
samverustundir áttum við þar. Ing-
unn kvaddi okkur árið 2001 og nú er
Hlynur farinn.
Það var skemmtilegt að umgang-
ast Hlyn, hann var víðlesinn og
margfróður og hafði skoðanir á nán-
ast hverju sem var, fylgdist vel með
öllu sem gerðist, einkum stjórnmál-
um, og var hrein unun að karpa við
hann um þau málefni, en gæta sín að
fara ekki yfir þrætumörkin, því innst
inni vissi maður að oftast var skoðun
hans byggð á mikilli íhugun og því
ógaman að láta hann reka sig í
strand.
Hlynur og Ingunn voru ekki rík af
veraldlegum auði en mikill mannauð-
ur var þar innra með, það sáum við
nágrannarnir í umgengni þeirra við
umhverfið, sumarhús þeirra er engin
höll, en snyrtimennskan og umhirða
öll til fyrirmyndar bæði ytra sem
innan. Einnig nostur þeirra við gróð-
urinn, trén, blómin og jafnvel grasið.
Nokkurt heilsuleysi hafði hrjáð
Hlyn nokkur ár, en hann kvartaði
aldrei og bar ekki veikindi sín á torg.
Aðrir munu eflaust segja hans lífs-
hlaup nánar, en við látum þessi
kveðjuorð nægja, við söknum góðs
granna og biðjum honum góðrar
ferðar á vit almættisins.
Við þökkum honum og reyndar
þeim báðum hjónum samfylgdina og
sendum börnum þeirra og öðrum ná-
komnum innilegar samúðarkveðjur.
Þóra og Atli.
HLYNUR
JÚLÍUSSON
Hjartkær eiginmaður minn,
EYJÓLFUR S. EINARSSON,
Hæðargarði 35,
er látinn.
Gerður Sigfúsdóttir.
Faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi,
GÍSLI ÞÓRÐARSON
loftskeytamaður,
Hlíðarhúsum 3,
lést á heimili sínu miðvikudaginn 10. mars.
Anna Gísladóttir, Eiríkur Þór Einarsson,
Jens Gíslason, Hafdís Jónsdóttir,
Brynhildur Jóna Gísladóttir, Guðjón Arngrímsson,
barnabörn og barnabarnabörn.