Morgunblaðið - 23.09.2004, Blaðsíða 38

Morgunblaðið - 23.09.2004, Blaðsíða 38
38 FIMMTUDAGUR 23. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ HESTAR Óumdeilt er hver varstjarna landsmóts í röð-um stóðhesta og ekkineinum blöðum um það að fletta að hin svokallaða Laug- arvatnsræktun hefur aldrei fengið jafn góðan og almennt jákvæðan byr í seglin og þar. Það er einnig kunn staðreynd að erfiðlega hefur gengið að vinna stóðhestum af þessum stofni þær vinsældir sem ýmsum þykir þeir verðskulda og má til sanns vegar færa ef litið er á ein- kunnir og frammistöðu þeirra á vett- vangi kynbótadóma. En með frammistöðu Þórodds virtust í kjöl- far landsmóts góð sóknarfæri og loksins góðir möguleikar á að kné- setja þá neikvæðni sem randað hefur kringum Laugarvatnshrossin um langa tíð. Kyndilburður Orra senn á enda? Og nú stendur spurning um það hvort Þóroddur verði sá hestur sem muni taka við kyndlinum af Orra frá Þúfu sem um árabil hefur verið í fylkingarbrjósti í breiðfylkingu ís- lenskra úrvalsstóðhesta. Á það bæði við um ræktunar- og markaðslega hlið málsins. Enginn íslenskur stóð- hestur hefur náð þeim hæðum sem Orri frá Þúfu hefur komist í og hafa sjálfsagt margir velt fyrir sér hvort hans ævintýralega vegferð verði endurtekin af öðrum hesti og jafnvel bætt. Og þá í framhaldinu hvaða hestur það gæti orðið. Vissulega ögrandi og brennandi spurning sem framtíðin ein getur svarað því vegir kynbótanna eru svo sannarlega órannsakanlegir, ekki síður en vegir drottins. Bjarni Þorkelsson, eigandi Þór- odds, hyggst eðli málsins samkvæmt freista þess að koma sínum hesti í svipaða markaðslega stöðu og Orri hefur verið í. Hann hefur stofnað hlutafélag um hestinn sem er að því er virðist sniðið eftir félaginu um Orra eins og verið hefur um fjölmörg stóðhestafélög sem stofnuð hafa ver- ið. Sextíu hlutir verða í félaginu um Þórodd og leggur Bjarni upp með að markaðsvirði hestsins sé 60 milljónir króna sem er sama upphæð og Orri var metinn á þegar hæst lét hjá hon- um. Hyggst hann selja hvern hlut á eina milljón króna en síðan, eins og í öðrum félögum, verði seldir einir tíu tollar árlega til reksturs hestsins og félagsins. Í fyrstu atrennu hyggst Bjarni selja 28 hluti í hestinum og halda sjálfur eftir 32 hlutum. Taldi hann sig nú þegar vera búinn að tryggja sér sölu á 12 til 15 hlutum. Að- spurður taldi hann það ekki spilla fyrir sölu þótt hann ætti góðan meirihluta í hestinum og réði þar með öllu því sem hann vildi ráða, miðað við það sem gerist og gengur í hlutafélögum. Sagðist hann ekki síð- ur hafa misjafna reynslu af því þegar upphaflegir eigendur stóðhesta láti frá sér meirihluta eða stóran eign- arhlut í hestum. Auk þess hefði hann fundið það glöggt á þeim sem hann hefur verið í sambandi við vegna sölu á hlutum að þeim þætti vænna um að hann réði ferðinni. Aðspurður hvort honum þætti ekki í óvissu stefnt með svo háu verði á hlut sagði Bjarni að vissulega hefði það tekið nokkurn tíma að ákveða hvar ætti að setja mörkin. Niðurstaðan hefði orðið þessi og sér sýndist að þetta gæti verið raunvirði hestsins. „Að setja á hlutinn hálfa milljón og þar með meta hestinn á 30 milljónir króna fannst mér vera nán- ast um útsölu að ræða,“ sagði Bjarni. Samkvæmt upplýsingum Bjarna voru folatollar undir hestinn í sumar seldir á 65 þúsund krónur, að við- bættum virðisaukaskatti og girð- inga- og ómskoðunargjaldi, en aldrei verði boðið upp á slíkt verð aftur. Kvað Bjarni þetta verð hafa verið ákveðið síðastliðinn vetur en heita mátti að fullpantað væri undir hest- inn á vordögum og þetta verð því ekki dregið dám af frammistöðu hestsins á landsmótinu. Eftir lands- mót hafi verið gríðarleg ásókn í hest- inn og hefði verið auðvelt að selja tolla á mun hærra verði. „Ég var mun meira í símanum eftir landsmót heldur en fyrir og varð ég að vísa frá „haug“ af hryssum,“ bætti Bjarni við en hann taldi að hátt í 80 hryssur hefðu verið hjá Þóroddi í ár. Varðandi verð á tollum á næsta ári sagði Bjarni aðspurður að auðvitað væri ekki farið að ákveða það en þegar gengið var á hann játti hann því að hugmynd hefði komið fram um 200 þúsund krónur sem yrði trú- lega heildarkostnaður og taldi hann mjög líklegt að verðið yrði altént ekki undir þessari upphæð. Þá hefur Bjarni nú þegar haft samband við forráðamenn Sæðingastöðvarinnar í Gunnarsholti og þykir nokkuð ljóst að samningar um að sæða úr Þór- oddi næsta vor muni nást. Til eru í kringum fimmtán trippi undan Þóroddi, eins og tveggja vetra gömul og á fjórða tug folalda að sögn Bjarna og frjósemin liti afar vel út hjá honum. Ljóst hefði orðið í vor að hann skilaði vel yfir 90% fyljun á síð- asta ári og nú milli sýninga í vor hefðu verið leiddar 20 hryssur undir hann og væru 17 eða 18 þeirra fengnar. Framtíð Þórodds frá Þórodds- stöðum virðist björt. Um er að ræða fagurskapaðan alhliða gæðing sem hefur hlotið yfir 9 fyrir hæfileika sem er takmark sem aðeins þrír stóðhestar aðrir hafa náð en Þór- oddur nær þessum áfanga aðeins fimm vetra gamall. Hann er með 8,28 fyrir sköpulag og þar af 9 fyrir samræmi og 8,5 fyrir fótagerð, hófa og prúðleika. Fyrir hæfileika hlýtur hann 9,04 og þar er hann með 9,5 fyrir vilja og geðslag og 9,0 fyrir tölt, brokk og skeið og einnig fegurð í reið. Virðist hann sannarlega gott framlag til ræktunar hins íslenska alhliða gæðings þar sem mörgum finnst skeiðið standa höllum fæti. Ekki taldi Bjarni líklegt að hann yrði leiddur á nýjan leik fyrir dóm, sagðist satt best að segja ekki sjá að hann hefði meira að sanna en hann hefði nú þegar gert án þess hann vildi þó útiloka neitt í þeim efnum. Hann kvaðst þess hins vegar fullviss að hesturinn mundi koma fyrir sjón- ir manna á einhverjum vettvangi en það kæmi í ljós í fyllingu tímans. Ekki er úr vegi að bera saman stöðu Þórodds á þessum tímapunkti við stöðu Orra frá Þúfu þegar hann náði 60 milljón króna markinu. Þar er nokkur munur á og má telja að nýjum hæðum verði náð í sölu og markaðssetningu stóðhesta ef Bjarna tekst að selja þó ekki væri nema þessa 28 hluti sem hann hyggst selja í fyrstu atrennu. Orri frá Þúfu var þrettán vetra þegar fyrsti hluturinn í honum var seldur á eina milljón króna og hafði þá þegar sannað sig sem stóðhestur í allra fremstu röð. Hlaut Sleipnisbik- arinn árið eftir, þá fjórtán vetra og hafði þá þegar skilað gæðingum og kynbótahrossum í fremstu röð. Á þessum tíma voru tollarnir undir Orra seldir á 350 þúsund krónur og lítið mál að selja undir klárinn á þessum tíma því eftirspurnin að koma hryssum undir hann var meiri en hægt var að anna. Það þótti ýms- um þá og þar á meðal Bjarna Þor- kelssyni að verðið væri komið út fyr- ir alla skynsemi en ekki var hægt að horfa fram hjá þeirri staðreynd að á fjórða ári var Orri búinn að end- urgreiða kaupandanum kaupverðið og farinn að skila honum á þriðja hundrað þúsund krónum í hagnað. Þarna voru hrossaræktarmenn að upplifa markaðslögmálin á mjög áþreifanlegan hátt og er óhætt að segja að Orri frá Þúfu hafi valdið straumhvörfum hvað þetta varðar. Þóroddur er hins vegar aðeins fimm vetra og nánast óskrifað blað á vettvangi kynbótanna. Til er undan honum á fimmta tug afkvæma sem öll eru að sjálfsögðu ótamin og nokk- uð í að fyrsti árgangur verði taminn. Hani á haug ræður litlu um verðmyndun? Ekki er ósennilegt að einhverjum þyki boginn nokkuð hátt spenntur hjá Bjarna sem nú þreifar fyrir sér Morgunblaðið/Vakri Þóroddur frá Þóroddsstöðum komst vel frá viðskiptum sínum við kynbótadómara en nú er að sjá hvernig honum muni vegna undir mælistiku markaðar- ins á næstu mánuðum. Myndin er tekin á landsmóti hestamanna, knapi er Daníel Jónsson. Þóroddur fer á vit markaðslögmálanna Var frammistaða Þórodds frá Þóroddsstöðum á landsmótinu í sumar upphaf kaflaskipta í íslenskri hrossarækt? Áhugamenn um málefnið og eigandi hestsins standa frammi fyrir þessari spurningu og nú sem fyrr er torvelt að spá um framtíðina. Valdimar Kristinsson lítur yfir sviðið. ÚTKOMAN á Sæðingastöðinni í Gunnarsholti var heldur lakari í ár en síðustu tvö árin hvað varðar fyljunarhlutfall en einnig voru sæddar færri hryssur nú en á síð- asta ári. Eins og áður var það Orri frá Þúfu sem bar uppi starf- semina en alls voru 92 hryssur sæddar með sæði úr honum. Af þeim hafa 55 verið staðfestar með fyli en Páll Stefánsson, for- stöðumaður stöðvarinnar, sagði að ekki væri vitað um tíu hryssur. Það þýðir að fyljunarhlutfallið er um 67% og kvaðst hann gera ráð fyrir að hlutfall þessara tíu hryssna, sem ekki er vitað um, sé svipað og því verði lítil breyting á með upplýsingum um þessar tíu hryssur. Sagði Páll þetta ívið lak- ara hlutfall en verið hefði und- anfarin tvö ár þótt ekki munaði þar miklu. Einnig var sætt með sæði úr Adam frá Ásmundar- stöðum og Andvara frá Ey. Sæddar voru 27 hryssur með sæði úr Adam og náðist að fylja helm- ing þeirra en Páll gat þess að 12 eða 13 þessara hryssna væru vandamálahryssur svo þar væri tæpast um marktæka niðurstöðu að ræða. Aðeins voru sæddar 8 hryssur með sæði úr Andvara og fengu 5 þeirra. Sagði Páll að Andvari hefði gefið lítið sæði og því hefði sæðistöku úr honum verið hætt enda kom hann afar illa út í girð- ingu í sumar. Af 25 hryssum, sem hjá honum voru, hefði hann ein- vörðungu náð að fylja einar 7 eða 8 hryssur sem er í kringum 32% fyljun sem er að sjálfsögðu afleit útkoma. Sagði Páll að svo virtist sem talsverður fjöldi stóðhesta væri að dala hvað sæðisgæðum og magni viðkæmi þegar þeir væru þetta 10 til tólf vetra gamlir og hefði hann allnokkrar áhyggjur af því. Ekki væri neinum blöðum um það að fletta að hrossaræktin stæði frammi fyrir ákveðnu vandamáli sem væri orðið mjög brýnt að rannsaka því oftast lægju ekki fyr- ir neinar skýringar af hverju hest- ar féllu svo í frjósemi þegar ald- urinn færðist yfir þá. Hvað Orra viðkæmi þá væri frammistaða hans afar góð, sér í lagi ef tillit væri til þess tekið að hann gerði út á aðeins eitt eista. Mætti það gott kallast að ná nægu sæði í 92 hryssur úr átján vetra gömlum hesti með eitt eista, sagði Páll að endingu.. Sæðingastöðin í Gunnarsholti 127 hryssur sæddar ÆTTIR Orra frá Þúfu og Þórodds frá Þóroddsstöðum liggja víða sam- an en báðir eiga þeir ættir að rekja til Hrafns frá Holtsmúla og Sauð- árkrókshesta og þá einkum Her- vars frá Sauðárkróki. Hervar er föðurfaðir Orra en föður-föðurfaðir Þórodds. Þá er Hervar dóttursonur Hrafns frá Holtsmúla og þar með kemur Hrafn við sögu í föðurætt beggja. Orri er undan Dömu sem var dóttir Adams frá Meðalfelli og Adam er sem kunnugt er undan Hrafni frá Holtsmúla. Móðir Þór- odds Hlökk er aftur undan Hrafni og Sif frá Laugarvatni sem er að stórum hluta af hornfirskum meiði en svo mun líka um Hrafn þar sem á bak við hann er meðal annars Skuggi frá Bjarnanesi. Hornfirskt blóð í Orra kemur í gegnum Hrafn á báða vegu en auk þess í gegnum Andvara frá Varmahlíð sem er fað- ir Hrafnkötlu, föðurömmu Orra. Af þessu má sjá að ættarstrengir þessara tveggja hesta liggja mjög víða saman og því tæpast hægt að segja að með Þóroddi komi ferskt blóð. Hins vegar eru þetta nokkuð ólíkar hestgerðir, það er Orri og Þóroddur, og er nú að sjá hvernig hestgerðir sá síðarnefndi gefur. Margslungnir frændur

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.