Morgunblaðið - 23.09.2004, Blaðsíða 30

Morgunblaðið - 23.09.2004, Blaðsíða 30
30 FIMMTUDAGUR 23. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR ✝ Gunnar Haf-steinn Sigurðs- son fæddist í Reykja- vík 2. apríl 1929. Hann andaðist á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 13. sept- ember síðastliðinn. Foreldrar Gunnars voru hjónin Sigurður Þorsteinsson skip- stjóri, og Gróa Þórð- ardóttir húsfreyja, og var hann yngstur 11 barna þeirra. Árið 1950 kvæntist Gunnar Ólöfu Þór, f. á Akureyri 29. september 1930. Foreldrar hennar voru hjónin Jón og Jó- hanna Þór. Börn Gunnars og Ólafar eru: 1) Jón Þór, f. 1950, kvæntur Sigríði Ólafsdóttur, f. 1954. Synir þeirra eru Gunnar Þór, f. 1979 og Ólafur Karl, f. 1985. 2) Gróa, f. 1953, gift Pétri Jóhannessyni, f. 1953. Dæt- ur þeirra eru Ólöf, f. 1981 og Birna, f. 1988. 3) Gunnar, f. 1956, sambýliskona er Valva Árnadóttir, f. 1950. 4) Jóhanna, f. 1963, gift Pétri Ás- geirssyni, f. 1962. Synir þeirra eru Ás- geir Hafsteinn, f. 1991 og Magnús, f. 1993. Gunnar hóf störf hjá Skipadeild SÍS 1946, lauk síðan námi frá Stýri- mannaskólanum í Reykjavík 1953 og var eftir það stýrimaður á ýmsum skipum Skipadeildarinnar fram til ársins 1965 er hann hóf störf hjá Sam- vinnutryggingum, síðar Vátrygg- ingafélagi Íslands. Þar starfaði hann til ársins 1994. Útför Gunnars fer fram frá Bú- staðakirkju í dag og hefst athöfn- in klukkan 13.30. Það er með miklum söknuði að ég kveð ástkæran föðurbróður minn og einn besta vin minn, Gunna frænda. Sem lítill gutti beið ég eftir Gunnari á bryggjunum þegar hann kom í land á Hvassafellinu og Dísarfellinu. Hann átti alltaf glaðning handa litlum snáðum og færði mér og bræðrum mínum „útlenskt nammi“ sem ekki var auðfengið í þá daga. Einnig dót sem var enn sjaldgæfara líkt og magasleðann með stýrinu og öllum „græjum“ sem við urðum að láta af hendi vegna þess hve hættu- legur sleðinn var í bænum. Rauði brunabíllinn sem allir vildu leika með og kínverja-sprengjurnar. Það var Gunnari líkt að hafa skilning á strákapörum og hann lagði sig fram við að kenna okkur góðlátlega „hrekki“ og hafði gaman af. Sem unglingspiltur átti ég því láni að fagna að fá að sigla undir stjórn Gunnars í fyrstu ferð hans sem skip- stjóra á Hamrafellinu árið 1965. Ferðin var ævintýri og upp úr standa lönd eins og Arúba og Perú að ógleymdri siglingunni í gegnum Panamaskurðinn. Margar skemmti- legar sögur rifjast upp af Gunnari og áhöfninni. Ég lærði margt af Gunnari í þessari ferð. Hann hélt hópnum saman með léttleika. Áhöfnin var sem ein stór fjölskylda þar sem glettni einkenndi samveru- stundir. Þrátt fyrir að lítið bæri á stéttaskiptingu um borð naut Gunn- ar virðingar áhafnar í hvívetna. Við minntumst oft þessara stunda á seinni árum, nú síðast nokkrum dög- um áður en Gunnar kvaddi. Mikið var gaman að rifja upp þessar stundir með honum og hvað við hlógum mikið því að alltaf urðu sög- urnar betri og betri. Við hjónin fengum ítrekað að kynnast hjálpsemi Gunnars og atorku. Margvíslegar „reddingar“ í tengslum við okkar fyrstu hjúskap- arár þegar hann aðstoðaði við að út- vega varning sem ekki var fáanlegur hérlendis á þeim tíma. Einnig ómet- anleg aðstoð þegar við byggðum okkur heimili. Gunnar mætti með pensilinn, „sparslið“ og góða skapið. Ærslagangur og fjör fylltu okkur Önnu nýju þreki og Gunnar hló dátt, málaði allt húsið af einstakri natni og vandvirkni utan sem innan. Þvílík hjálp og aldrei tók Gunnar í mál að taka greiðslu fyrir en sagði gjarnan; „ég fæ lúðu í soðið hjá þér, Bubbi minn“. Á löngum vetrarvertíðum var allt- af kátína þar sem Gunnar fann sér stað í verkuninni og aðstoðaði okkur við að hausa, kinna og gella. Starfs- fólkið og stelpurnar mínar kepptust við að vera í návist hans því að þar leið tíminn fljótt. Gunnars verður sárt saknað á kaffistofunni en frá- sagnir hans og sýn á þjóðfélagsmál- um, sér í lagi sjávarútvegsmálum, komu okkur alltaf í gott skap. Ég þakka fyrir allar stundirnar með Gunnari og minningarnar sem hann skilur eftir í hjarta mínu. Elsku Lóa og fjölskylda, Guð veri með ykkur í sorg ykkar. Guðbjartur Einarsson. Okkur bræðurna langar að minn- ast hans Gunnars frænda, eins og við kölluðum hann. Gunnar var yngstur af ellefu föðursystkinum okkar, faðir okkar var elstur. Gunn- ar var tólf ára þegar hann missti föð- ur sinn. Gunnar byrjaði sem sendisveinn hjá SÍS ungur að árum en síðar lá leiðin á sjóinn hjá sama félagi. Árið 1946 sótti Gunnar nýtt skip, Hvassa- fell, til Ítalíu. Hann lauk farmanna- prófi frá Stýrimannaskólanum 1953 og var stýrimaður og skipstjóri hjá SÍS til margra ára. Þegar Sam- bandið keypti Hamrafell sem var þá langstærsta skip sem Íslendingar höfðu eignast varð hann stýrimaður og síðar skipstjóri á því skipi. Hamrafellið var olíuskip og var í siglingum til Rússlands og S-Amer- íku. Gunnar sá til þess að við bræð- urnir komust allir að sem hásetar hjá honum á Hamrafellinu. Þegar Gunnar hætti á sjónum varð hann tjónaskoðunarmaður hjá sjódeild Samvinnutrygginga. Gunn- ar var mikill veiðimaður bæði til sjós og lands. Fljótlega eftir að hann hóf störf hjá Samvinnutryggingum eignaðist hann trillu, sem bar nafn konu hans „LÓU“. Fram undir 1980 var Þorsteinn heitinn bróðir Gunn- ars mikið með honum en þeir stund- uðu handfæraveiðar og skutu svart- fugl. Er við bræður eignuðumst fisk- verkun reyndist Gunnar okkur af- burðavel. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa okkur við öll þau störf er til féllu. Á vertíðum starfaði skólafólk hjá okkur á kvöldin og um helgar. Gunnar hafði góð áhrif á þetta unga fólk enda var hann hrókur alls fagn- aðar með sinni léttu lund og glettni. Gunnar kenndi okkur margt í gegnum árin. Fjaran var ein af hans sérgreinum og snemma kenndi hann okkur að tína sprettfiska og aðra „leyndardóma“ sem þar var að finna. Elsku Lóa, börn, tengdabörn og barnabörn, Guð styrki ykkar í sorg- inni. Sigurður og Stefán Einarssynir. Mig langar með örfáum orðum að kveðja hann elsku Gunna frænda minn. Hann Gunni frændi var litli bróðir hans Einars afa og sem barni fannst mér það alltaf stórfurðulegt að þessi hvíthærði maður gæti verið litli bróðir einhvers. Gunni frændi var alveg frábær maður sem var alltaf ótrúlega hress og aldrei leiddist mér að vinna í fiskverkuninni þegar Gunni frændi var í húsinu. Þá fengu ófáir brandararnir að fjúka og Gunni lék á als oddi. Hjá frænda mínum fékk ég einnig óborganlegar lýsingar af föður mínum og bræðr- um hans og vandræðum þeim sem þeir höfðu komið sér í sem börn. Gunni frændi hafði frá hafsjó minn- inga að segja og allar voru þær jafn skemmtilegar. Aldrei hugsa ég þó um hann frænda minn án þess að konan hans, hún elsku Lóa, komi upp í huga mér. Hún var alltaf Lóa hans Gunna frænda. Elsku Lóa, missir þinn og barna þinna er mikill, ég kveð hér elsku frænda minn og votta þér og börnum þínum mína dýpstu samúð. Ragna Sóley. Yndislegt, fallegt og hlýtt sumar er að kveðja, svo er einnig um minn kæra föðurbróður Gunnar Hafstein Sigurðsson, sem var eins og sumarið bæði hlýr og fallegur. Ég minnist hans sem besta bróð- ur, sem leiddi mig mín fyrstu skref út í lífið. Örlögin höguðu því þannig til, að við fæðingu er ég tekin inn á heimili afa og ömmu, vegna veikinda móður minnar. Gunnar er þá sjö ára. Frá mínu fyrsta minni er hann í huga mínum sem stóri bróðir. Minningin frá bernskuárunum er í ævintýraljóma. Þú varst mesti töff- arinn í Vesturbænum, fallegur, glettinn, stríðinn og allar stelpurnar skotnar í þér. Þú varst duglegastur á skautum, gast hjólað án þess að halda um stýrið, gast stungið þér til sunds úti í Örfirisey í kaldan sjóinn, og svo mætti lengi telja. Ég var ekki svo lítið montin að eiga svona frænda. En lífið er ekki alltaf dans á rósum. Er Gunnar er tólf ára missir hann föður sinn, Sigurð Þorsteinsson skipstjóra. Nærri má geta hvílíkt áfall það hefur verið fyrir ellefta barnið í röðinni, og yngstur systkina sinna. En hún amma, Gróa Þórðar- dóttir, var dugleg kona, sem elskaði og dáði örverpið sitt. Sú ást var ríku- lega endurgoldin, því Gunnar unni móður sinni heitt, og reyndist henni góður sonur. Nú er svo komið að töffarinn velur sér ævistarf. Og ekki féll eplið langt frá eikinni. Faðirinn, afinn skip- stjórar og hafið kallaði á töffarann. Hann tók farmannapróf frá Stýri- mannaskóla Reykjavíkur 1953. Sjó- mennskan varð ævistarfið. Hann var háseti, stýrimaður og skipstjóri á skipum Sambands ísl. samvinnu- félaga frá 1946–1965. Síðar tjóna- skoðunarmaður hjá Samvinnutrygg- ingum. Gunnar valdi vel þegar hann kvæntist eftirlifandi konu sinni 1950, Ólöfu Þór, mikilli mannkosta- konu. Þau eiga fjögur góð börn og tengdabörn, barnabörnin orðin sex. Þetta varð lífið hans. Töffarinn með gullhjartað varð umhyggjusamur eiginmaður, faðir og afi. Hann dáði fjölskyldu sína, og varð henni allt. Þar naut sín hve Gunnar var ætíð barngóður. Öll börn í stórfjölskyld- unni elskuðu Gunnar frænda. Nú verðum við að kveðja töffar- ann okkar. Örlagadísirnar gáfu hon- um miklar og góðar vöggugjafir, sem við nutum öll í hans frændgarði. Þrátt fyrir heilsubrest og miklar þrautir, sem hrjáðu hann að síðustu, hvarf aldrei stríðnisglampinn í aug- unum, dillandi hláturinn og fallega brosið hans. Elsku Lóa, Jón Þór, Gróa, Gunn- ar, Jóhanna, tengdabörn og barna- börn. Mikill er missir ykkar. Megi góður guð styrkja ykkur í sorg ykkar. Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð hjartans þakkir fyrir liðna tíð lifðu sæl á ljóssins friðar strönd, leiðir sjálfur Drottinn þig við hönd. (Guðrún Jóhannsdóttir.) Guðrún Einarsdóttir. Vestast í Vesturbænum voru fyrir og upp úr aldamótunum 1900 mörg heimili reykvískra sjómanna. Flest voru þetta bárujárnsklædd timbur- hús, mörg smá en falleg og oftast vel við haldið. Stundum máluð í skærum litum. Mörg standa þau enn og hafa afkomendur frumbyggjanna fegrað umhverfi þeirra og skrýtt smáar lóð- irnar með blóma- og trjárækt. Þetta er fallegt hverfi, götur þröngar en mörg húsanna bera nöfn staðarins, oft skorin út í tré og fest framan á húsin. Í einu þeirra fæddist Gunnar Haf- steinn Sigurðsson árið fyrir Alþing- ishátíðina. Húsið stendur við Lág- holtsveg og hét Steinar. Sá háttur tíðkaðist þá að strákarnir í hverfinu voru nefndir eftir húsinu. Þannig var heiti Gunnars á yngri árum „Gunni í Steinabæ“. Munu margir félagar hans og samskipverjar minnast hans ennþá undir því heiti. Þetta var algengt. Einn vina okkar frá æskuárum, kunnur fótbolta- kappi, var t.d. aldrei annað kallaður en „Jón á Ellefu“. Það byggðist á því að hann átti heima á Framnesvegi 11. Og þannig var um marga aðra. Þarna í Steinabæ ólst Gunnar upp hjá foreldrum sínum, Sigurði Þor- steinssyni skipstjóra og konu hans, Gróu Þórðardóttur. Hann var yngst- ur ellefu barna þeirra. Ekki er að efa að það hefur verið harðsótt að sjá fyrir þessum stóra hópi og það í byrjun kreppunnar miklu, sem reyndar hófst í frumbernsku Gunn- ars. En Sigurður var aflasæll for- maður á báti sínum og hefur sjórinn lagt þeim góða björg í bú. Og elstu systkinin hófu störf á unga aldri og hjálpuðu til eftir megni. Búhyggni húsfreyjunnar hefur átt þar góðan hlut. Heimaslóð Gunnars var því í ná- grenni sjávarins. Leikvöllurinn bryggjurnar frá Geirsbryggju um Slippinn og vestur að Grandagarði, sem lá út í Effersey, eins og hún var kölluð. Að vestan var svo sjávar- garðurinn, öskuhaugar og strand- lengjan með bugðunni allt vestur á Seltjarnarnes. Þarna var barns- skónum slitið. Auðvitað þekktust þá allir íbúar hverfisins og mun Gunnar snemma hafa heilsað þeim með nafni. Upp úr fermingu fékk hann oft að fljóta með á báti þeim sem fað- ir hans hafði átt og bróðir hans gerði út. Hér má þess minnast að þessi bát- ur hét Aðalbjörg RE og varð frægur árið 1944 er honum var siglt í ham- faraveðri undir Viðeyjarstrendur að bjarga áhöfn tundurspillisins Skeena frá Kanada. Tókst að bjarga 198 sjóliðum af skipinu. Er það ein- hver mesta fjöldabjörgun, sem um getur við Ísland. Það var Einar bróðir Gunnars sem vænstan þátt- inn átti í því afreki. Nærvera hafsins, atvinna föður og bræðra hefur snemma tekið Gunnar Sigurðsson föstum tökum. Hann fór sína fyrstu ferð á farskipi 17 ára gamall, er hann var ráðinn háseti á Hvassafell, sem SÍS gerði út. Reyndar var hann einn þeirra, sem sóttu skipið til Ítalíu. Hann innrit- aðist svo í Stýrimannaskólann og lauk þaðan námi árið 1953. Síðan hófst ferill hans sem stýrimaður á ýmsum skipum Sipadeildar SÍS, þar á meðal var hann stýrimaður og skipstjóri í afleysingum á Hamra- fellinu, sem þá var stærsta skip Ís- lendinga. Hann stundaði far- mennsku fram til ársins 1965 er hann hóf störf hjá Samvinnutrygg- ingum, síðar Vátryggingafélagi Ís- lands. Störf hans hjá trygginga- félögunum sneru aðallega að tryggingum og sjótjónum sem urðu á skipum eða farmi þeirra svo og tryggingamálefnum er vörðuðu sjó- menn. Þessu starfi gegndi hann fram til ársins 1994. Eftir að Gunnar kom í land keypti hann trillubát, Lóu RE 67, og stundaði um árabil róðra samhliða vinnu sinni hjá tryggingafélögunum. Hann var ein- staklega starfsamur og hafði unun af sjómennskunni. Má því segja að starf hans hafi verið tengt sjónum með einhverjum hætti alla starfsævi hans. Gunnar átti sér mörg áhugamál. Eitt þeirra var stangveiði. Hann fór liðlega með veiðistöngina og hafði unað af því að njóta kyrrðarinnar við veiðivötn eða heyra nið tærrar berg- vatnsár. Eftir að tengdir tókust með fjölskyldum okkar fyrir um tveimur áratugum lágu leiðir okkar oft sam- an í fjölskylduboðum. Var þá mörg veiðisagan sögð, veiðistöðum í ám og vötnum lýst og voru það sannarlega góðar og glaðar stundir. Og oft fór Gunnar með afastrákana Ásgeir og Magnús og önnur barnabörn í veiði- ferðir. Það var vel metið hjá unga fólkinu. Þótt Gunnar væri störfum hlaðinn fann hann ávallt stundir til þess að sinna barnabörnunum og annast þær skyldur sem hann taldi að til- heyrðu fjölskylduföðurnum. Glað- sinna og góðhjartaður veitti hann öðrum styrk með jákvæðu hugarfari sínu. Þessir þættir skapferlis hans sköpuðu honum þær vinsældir sem hann öðlaðist í lífi sínu. Gunnar kvæntist eftirlifandi konu sinni, Ólöfu Þór, á árinu 1950. For- eldrar hennar voru hjónin Jón og Jóhanna Þór á Akureyri. Þau bjuggu um skeið í heimahverfi Gunnars við Lágholtsveg, en fluttu þaðan að Arnarfelli í Mosfellssveit. Þar mun hafa verið frekar þröngt um þau og gekk Ólöf í það að kaupa íbúð á Víðimel meðan Gunnar var úti á sjó. Þótti Gunnari það vel af sér vikið. En árið 1968 byggðu þau sér raðhús í Fossvogi þar sem þau bjuggu síðan. Gunnar átti við heilsubrest að stríða síðastliðin tvö ár. Hann lést eftir þung veikindi hinn 13. þ.m. Hugur okkar vina hans er hjá Ólöfu sem mest hefur misst og hjá afkom- endum þeirra hjóna. Gunnari er þökkuð samfylgdin og þess beðið að blessun fylgi minningu hans. Sigrún Hannesdóttir og Ásgeir Pétursson. „Góðan og blessaðan daginn,“ segir hress og kunnugleg rödd. Þar er kominn Gunnar H. Sigurðsson upp stigann að Fiskislóð 30. Það er gjarnan um hádegisbilið. Gunnar var einn af þeim mönnum sem kom öðrum í gott skap, því hann var svo léttur í lund. Við Gunnar höfðum haft góð við- skipti saman í gegnum árin áður fyrr. Gunnar átti trillubát sem hann skýrði Lóu. Hann og bróðir hans Þorsteinn fóru margan róðurinn út á flóann, ýmist á handfæraveiðar eða að skjóta svartfugl. Það veit ég að þeir bræður gengu sérstaklega vel frá sínum afla. Gert var að fiskinum og hann ísaður í kassa. Fuglinum raðað um allan bátinn til kælingar. Við urðum mjög góðir vinir og sakna ég mjög þessa góða manns. Lóa. Ég votta þér og fjölskyldu ykkar mína innilegustu samúð og vona að Guð styrki þig í þinni lífsbaráttu. Helgi Hafliðason. GUNNAR HAFSTEINN SIGURÐSSON Kársnesbraut 98 • Kópavogi 564 4566 • www.solsteinar.iswww.mosaik.is LEGSTEINAR sendum myndalista MOSAIK Hamarshöfði 4 - sími: 587 1960 Guðmundur Jóhannsson f. 10. 6. 1932 d. 8. 3. 1989 Minning þín lifir Hvíl í friði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.