Morgunblaðið - 23.04.2005, Síða 38

Morgunblaðið - 23.04.2005, Síða 38
38 LAUGARDAGUR 23. APRÍL 2005 MORGUNBLAÐIÐ MINNINGAR Stundum kemur fólk inn í líf manns og svo bara fer, því oftar en ekki er það annar sem ræður för. Mig langar að minnast Ara Freys Jónssonar sem hefði orð- ið 23 ára í dag. Ég kynntist honum á mjög sérstakan hátt, svo ekki sé meira sagt. Það var í júní árið 2002 að ég greindist með bráðahvítblæði. Þetta var kjaftshögg að sjálfsögðu. Ég sem ætlaði aðeins að skreppa á spítalann og fá bót meina minna. Þá fékk ég að vita að ég ætti í vændum tveggja ára lyfjameðferð. En ég var ekki ein. Ari Freyr var sendur til mín á spítalann. Jú, við vorum með sömu tegund af hvítblæði. Ég gleymi aldrei okkar fyrsta fundi. Við náðum vel saman þó ég væri 21 ári eldri en hann. Ari Freyr var lífs- reyndari því hann hafði greinst í ágúst 2001, tæpu einu ári fyrr en ég. Hann talaði um að líklega væru sterarnir verstir og átti ég eftir að komast að því. Svo benti hann mér á það, í sambandi við hármissinn, að betra væri að vera karlmaður. Það væri í tísku að raka af sér hárið og gætu því krabbameinssjúkir karl- menn gengið um göturnar án þess að fólk vissi að þeir væru veikir. Þegar fólk veikist á þennan hátt þá er manni kippt út úr samfélag- ARI FREYR JÓNSSON ✝ Ari Freyr Jóns-son fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 23. apríl 1982. Hann lést á Huddinge-sjúkra- húsinu í Stokkhólmi 16. september síðast- liðinn og fór útför hans fram frá Frí- kirkjunni í Hafnar- firði 27. september. inu. Mér var kippt út úr sveitinni, frá fjöl- skyldunni og ekki var það skárra hjá Ara Frey. Hann var nem- andi í MA og einmitt bestu ár ævinnar framundan þegar hann þurfti að snúa sér að baráttunni við þennan skæða sjúkdóm. Ég verð að segja það að þessi góði vel- gerði drengur studdi mig og ég hann kannski líka. Við gát- um endalaust talað saman um lífið, meðferðina, sjúk- dóminn og okkar ágætu lækna. Þegar ég var hálfnuð með mína meðferð 15. júní 2003 fannst mér ómögulegt annað en að halda upp á það. Það gladdi mig mikið að Ari Freyr, Lóa systir hans og vinur hans komu í sveitina í kaffi. Svo var það seinna um sumarið að ég kom því í verk að bjóða því elskulega fólki sem starfar á deild 11G austur í Flóa í útreiðartúr og auðvitað bauð ég Ara líka. Hann kom og fékk góðan hest sem bara tölti, já, við þeystum hratt um á gæðingum. Veðrið var gott, hestarnir viljugir og við nutum þess að vera frjáls. Eftir á finnst mér vænt um að Ari skyldi geta verið með okkur þessa góðu stund. Ari Freyr kláraði sína meðferð í ágúst 2003. Leiðin lá þá í Fjöl- brautaskólann í Garðabæ þar sem hann náði að stunda nám eina önn. Í janúar 2004 kom svo höggið. Ari var kominn með meinið aftur. Hvað ég varð reið! Hvað hafði þessi drengur gert? Af hverju var hann ekki látinn í friði? Ég fór að biðja eins og hann væri minn eigin sonur. Óskaði þess að Ari fengi merg sem gæti bjargað lífi hans. Svo var það í maí að ég var með hitavellu og lá inni á spítala. Þá komu þeir feðgar Jón og Ari í dyragættina hjá mér. Ég sá á Ara að hann hafði góðar fréttir að færa. Það var búið að finna merggjafa. Þeir feðgar fóru utan í lok maí til Stokkhólms. Ég var búin með mína meðferð í júní og allt gekk vel. Það gladdi mig að Ari sendi mér SMS- kveðju, óskaði mér til hamingju með að vera búin í meðferðinni. Já, við sjúklingarnir skiljum svo vel hver annan. Hann hafði þær fréttir að færa að hann væri kominn með nýjan merg og nú væri bara að bíða og vona. Snemma í ágúst 2004 ákvað ég að fara með tveimur börnum mínum og móðursystur til Stokkhólms til að heimsækja ættingja. Og auðvitað tók ég mér tíma til að heimsækja Ara á þennan stóra spítala sem hann dvaldi á. Mér fannst Ari líta betur út en ég átti von á, en honum leið nú ekki vel. Öll aðstaða og hlý- leiki var til fyrirmyndar og vel var fylgst með líðan hans. Þar var einn- ig öll hans góða fjölskylda að styðja við bakið á honum. Svo var komið að kveðjustund okkar á spítalanum. Ég þorði hvorki að kyssa hann né faðma, því fólk er svo viðkvæmt eft- ir mergskipti. En við steyttum bæði hnefana móti hvort öðru og sögðum: Við gefumst ekki upp. Já, þannig eigum við líka að hugsa, aldrei að gefast upp. Svo var það hinn 16. september að englar himinsins komu og sóttu hann. Það hljóta að hafa verið fagrir englar. Það er nefnilega allt svo fagurt um Ara að segja. Ara Frey Jónsson sem ólst upp á þeim fagra stað Raufarhöfn. Ara Frey sem hafði til að bera mikla innri fegurð sem ekki er hægt að lýsa. Yfir Ara Frey Jónssyni er aðeins hægt að nota þetta eina orð: Fal- legur. Aldís Pálsdóttir. ✝ GunnlaugurÓlafsson fæddist í Þykkvabæ 6. ágúst 1946. Hann lést á krabbameinsdeild 11E Landspítala – háskólasjúkrahúss 16. apríl síðastliðinn. Foreldrar hans eru Ólafur Markús Guð- jónsson, f. 12. nóv. 1918, d. 28. apríl 1990, og Svava Guð- mundsdóttir, f. 21. sept. 1921. Systir Gunnlaugs er Sonja Huld, f. 20. okt. 1943. Árið 1969 kvæntist Gunnlaugur Kristínu Elínu Gísladóttur, f. 26. nóv. 1947. Foreldrar hennar eru Gísli Magnús Gíslason, f. 22. nóv. 1917, d. 9. okt. 1980, og Guðrún Sveinbjarnardóttir, f. 15. mars 1917. Dætur Gunnlaugs og Krist- ínar eru: 1) Guðrún Svava Gunn- laugsdóttir, f. 15. des. 1968, gift Einari Guttormssyni, f. 15. sept. 1964. Börn Guðrúnar og Einars eru Berglind, Gutt- ormur Freyr og Kristín. 2) Ellý Rannveig, f. 7. júní 1971. 3) Ólöf Elín, f. 15. mars 1978. Fyrir átti Gunnlaugur Huldu Björk, f. 29. ágúst 1966, börn hennar eru Sigur- geir Sveinn, Lilja Kristín og Guð- munda Líf. Gunnlaugur ólst upp á Ísafirði og byrjaði þar til sjós 14 ára gamall. Árið 1966 fluttist hann til Vestmanna- eyja og hóf þar nám við Stýri- mannaskóla Vestmannaeyja. Gunnlaugur vann hjá ýmsum út- gerðum þar til árið 1977 er hann stofnaði sína eigin útgerð ásamt eiginkonu sinni. Útför Gunnlaugs verður gerð frá Landakirkju í Vestmannaeyj- um í dag og hefst athöfnin klukk- an 10.30. Elsku pabbi. Takk fyrir allan stuðninginn og að vera ávallt til staðar. Takk fyrir ástina og um- hyggjuna. Takk fyrir að vera pabbi okkar. Margs er að minnast, margt er hér að þakka. Guði sé lof fyrir liðna tíð. Margs er að minnast, margs er að sakna. Guð þerri tregatárin stríð. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (V. Briem) Sárt er að kveðja en minningin um þig mun ávallt ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð. Við elskum þig. Þínar Guðrún Svava, Ellý Rannveig og Ólöf Elín. Elsku pabbi. Stuttu áður en þú kvaddir þetta líf hafði ég skrifað þér bréf, þetta bréf var aldrei sent. Samt sem áður ætla ég að reyna að koma tilfinningum mínum á blað í þeirri von að þú hafir fundið hvað mér þótti rosalega vænt um þig. Ég er þér og Kristínu ólýsanlega þakklát fyrir hvernig þið tókuð mér frá upphafi, ég veit að tilvist mín var þér hulin. Alla mína ævi hef ég þráð að eiga pabba sem þætti vænt um mig og ég gæti leitað til. Svo eignaðist ég þig og þú varst svar við öllum mínum innstu þrám. Og ekki bara þú því þú áttir yndislega konu og þrjár dætur, í bónus eignaðist ég ömmu Svövu sem þarf nú að sjá á eftir eina syninum. Mér finnst ég ekki hafa komið því nógu vel frá mér hvað þið voruð mér mikils virði. Þennan stutta tíma sem þú og þín fjölskylda hafið verið hluti af mínu lífi hefur allt gjörbreyst. Elsku Kristín, ég votta þér, ömmu Svövu, systrum mínum og fjölskyldunni allri mína dýpstu sam- úð. Guð styrki ykkur og styðji í ykk- ar mikla missi. Að leiðarlokum vil ég þakka þér, elsku pabbi minn, allt sem þú hefur gert fyrir mig og börnin mín en fyrst og fremst fyrir að hafa verið pabbi minn. Ég bið þér Guðs blessunar í nýj- um heimkynnum og er Guði að eilífu þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Þín dóttir Hulda Björk. Ég veit ekki hvort þú hefur huga þinn við það fest að fegursta gjöf sem þú gefur er gjöfin sem ekki sést. Alúð í augnaráði auga sem góðlega hlær. Hlýja í handartaki hjarta sem örara slær. Allt sem þú hugsar í hljóði heiminum breytir til. Gef því úr sálarsjóði sakleysi, fegurð og yl. (Úlfur Ragnarsson) Elsku afi við þökkum fyrir að hafa fengið að kynnast þér. Guð geymi þig. Sigurgeir Sveinn, Lilja Kristín og Guðmunda Líf. Elsku bróðir minn, þar sem ég sit hér er svo mikil sorg í hjarta mínu. Ég veit líka af hverju hún stafar, að hluta. Það er vegna þess að við hefðum átt að rækta okkar sam- band betur. En þar sem við ólumst ekki upp saman, þá er það sjálfsagt þess vegna. Við vorum þó saman á Ísafirði í fjögur ár, þegar ég flutti 14 ára til mömmu og pabba. Það var oft skemmtilegur tími. Auðvitað tókum við smá glímur annað slagið. Sérstaklega man ég eftir einni góðri glímu í holinu heima á Hlíðarvegi. Við vorum bæði orðin ansi æst og reið og mamma okkar farin að blanda sér í málin. Kannski reiðari en við bæði til samans. Við vorum svo heppin að hún brá sér inn fyrir klósettdyrnar. Við afgreiddum það mál þannig að við læstum hurðinni á klósettinu. Sem sagt, læstum mömmu inni. Við lukum þessari glímu sem endaði með því að þú raukst í úlpuna þína, tókst fótbolt- ann og sagðir: „Ég er sko farinn út á völl.“ Þú snerir þér samt við í dyr- unum og sagðir: „Þú opnar sko fyrir mömmu, Sonja.“ Með það fórstu. Eins var með hjólið þitt. Þú varst nýbúinn að eignast hjól, það stóð fyrir utan blokkina. Þú varst í glugganum að horfa á það, svo kall- aðir þú allt í einu: „Mamma, púk- arnir eru að fikta í hjólinu mínu.“ Ég hentist upp og fór yfir allt sem fyrir varð. Þessu ætlaði ég, sveita- stelpan, ekki að missa af. Að sjá púka, þá hafði ég aldrei séð. Ég spurði þig, hvar púkarnir væru. „Sérðu þá ekki, þeir eru þarna tveir.“ „Þetta eru nú bara litlir strákar,“ sagði ég. „Nei, þetta eru engvir strákar, þetta eru púkar,“ sagðir þú. Og mikið var ég skúffuð. Þarna missti ég af því að sjá púka í fyrsta skipti á ævinni. Elsku Gulli minn. Eftir að við vorum fullorðin tók annað skeið við í lífi okkar. Þú fórst í Stýrimanna- skólann í Vestmannaeyjum. Þar kynntist þú yndislegri stúlku, er síð- ar varð konan þín. Þið hófuð búskap ykkar í Vestmannaeyjum og eign- uðust þrjár dætur. Guðrúnu Svövu, Ellý Rannveigu og Ólöfu Elínu. Allt eru þetta yndislegar og góðar stúlk- ur. Fyrir áttir þú eina dóttur, Lilju, er seinna kom inn í líf ykkar. Allan þinn starfsferil varst þú sjó- maður. Það rann bara sjómannsblóð í æðum þínum. Fyrst rerir þú með öðrum. Síðan eignaðist þú þinn fyrsta bát sjálfur, lítinn trébát. Þú varst alla tíð farsæll og fiskinn. Þú endurnýjaðir þína báta, koll af kolli eftir getu. Ég man hvað mér fannst skrýtið þegar þú skírðir fyrsta bát- inn þinn Gandí. Og það var ætíð nafnið á þínum skipum upp frá því. Þegar ég hitti einhvern sem vissi að ég átti bróður í Vestmannaeyj- um, og sérstaklega ef það var ein- hver úr Eyjum, þá svaraði ég: „Hann heitir Gunnlaugur Ólafsson.“ Það voru ekki margir sem kveiktu á perunni er ég svaraði því. En ef ég sagði til útskýringar: „Hann er kannski betur þekktur sem Gulli á Gandí.“ Þá stóð ekki á því, Gulla á Gandí þekktu allir í Vestmannaeyj- um. Alls staðar barst þú af þér góðan þokka og hafðir alls staðar mjög gott orðspor. Aldrei miklaðist þú af þinni velgengni. Þú varst með ein- dæmum hógvær maður. En hjarta þitt var úr gulli. Ég er hreykin af þér og hef alltaf verið það. „Ég er systir hans Gulla á Gandí.“ Bara ég ein gat sagt það. Þið voruð mjög samhent og dug- leg hjón. Samrýnd á allan hátt. Það var alltaf yndislegt að koma til ykk- ar til Vestmannaeyja. Síðasta sinnið sem ég sá þig á lífi varst þú um stund á heimili þínu á Klapparstíg 1 í Reykjavík. Þar höfðuð þið hjónin líka komið ykkur upp litlu fallegu heimili. Þú komst svo glaður og brosandi til dyra þegar við Már komum í heimsókn til ykkar. Þú varst að vísu orðinn ansi grannur í andliti. En fallega brosinu þínu gleymi ég aldrei. Mér fannst þú vera orðinn ungur, brosið minnti mig svo sterkt á það. Þá mynd ætla ég alltaf að geyma í hjarta mínu. Elsku Kristín mín, þú varst alltaf með honum, fórst með honum heim um miðjan daginn á meðan hann gat og eftir að hann var alveg kominn á spítalann vékstu ekki frá honum. Í mínum augum ertu hetja. En allt þetta áttu eftir að uppskera. Ég veit að þú og fjölskyldan hafið misst svo mikið, það skarð verður aldrei fyllt. Elsku bróðir minn, frændi og vin- ur. Ég veit að góður Guð hefur tekið vel á móti þér. Og ég trúi því að þú sért líka búinn að hitta pabba okk- ar. Hvíl þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem) Elsku Kristín, Gunna, Ellý, Olla og litlu barnabörnin. Elsku mamma mín. Ég bið að Guð gefi ykkur allan þann styrk sem þið þurfið á að halda. Hinsta kveðja frá Má og börn- unum. Þín systir Sonja. Okkur langar í örfáum orðum að minnast vinar okkar og félaga Gunnlaugs Ólafssonar eða Gulla á Gandí eins og hann var ævinlega nefndur meðal okkar Eyjamanna. Vinátta okkar hefur varað um langt árabil en báðir vorum við lengi út- gerðarmenn á vertíðarbátum hér í Eyjum. Gulli kom upphaflega til Eyja til að nema hér við Stýri- mannaskólann og hér kynnist hann konu sinni henni Kristínu. Segja má að vinátta okkar og kynni hafi eflst til muna þegar við Gulli gengum báðir í Oddfellowregluna hér í Eyj- um árið 1979. Um svipað leyti gengu Kristín og Magga í kvenna- stúku Oddfellowreglunnar. Þar með var kominn sameiginlegur vettvang- ur til að hittast á fundum og við ýmsa samgleði. Upp frá þessum tíma hófum við að fara í ferðalög saman og höfum ferðast víða bæði hér innanlands og eins erlendis. Margs er að minnast frá þessum ferðum okkar hjónanna með þeim Gulla og Kristínu. Ein síðasta ferðin okkar hér innanlands var í júlí 2004 þegar við vorum á ferð um sunn- anvert Snæfellsnes. Ekki hefði mað- ur trúað því að þetta yrði með síð- ustu ferðum okkar saman og minnist ég þess sérstaklega þegar við Gulli sátum næturlangt yfir litlum varðeldi og ræddum málin langt fram á nótt. Er engu líkara en við félagarnir höfum verið að gera upp málin og vissulega verða það viðbrigði að eiga þess ekki kost að fara yfir málin með Gulla á sumri komanda á ferð um landið. Eins er margs að minnast frá ferðum okkar erlendis og sérstaklega minnumst við ferða okkar til Hamborgar en þangað var oft farið á haustin. Í byrjun desember sl. átti að fara í aðventuferð til Frankfurtar. Daginn fyrir brottför fór Gulli í rannsókn á spítala í Reykjavík en var í kjölfarið lagður inn til frekari rannsóknar, þannig að ekkert varð af ferðinni til Þýskalands þetta haustið. Það var því mikið áfall fyrir okkur öll þegar í ljós kom að Gulli hafði greinst með alvarlegan sjúkdóm sem síðan lagði hann að velli á rúmum fjórum mán- uðum. Síðasta samverustundin okk- ar var aðeins viku fyrir andlátið þegar við heimsóttum hann á spít- alann í Reykjavík. Vissulega höfð- um við vonast til að samverustund- irnar gætu orðið fleiri en svo varð ekki. Það er því komið að kveðjustund, kæri vinur, og þrautum þínum er lokið. Við Magga viljum þakka þér fyrir ánægjuleg kynni í gegnum ár- in og oft fengum við kynnast því hversu góður vinur og félagi þú varst í raun. Far þú í friði, friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. (V. Briem) Elsku Kristín, við biðjum algóðan Guð að vernda þig og styrkja á erf- iðum tíma og viljum um leið þakka ykkur Gulla allar samverustundirn- ar á undanförnum áratugum. Við sendum þér, dætrum þínum og öðr- um aðstandendum okkar innileg- ustu samúðarkveðjur. Öll munum við sakna vinar okkar og félaga Gunnlaugs Ólafssonar. Hannes og Magnea. GUNNLAUGUR ÓLAFSSON  Fleiri minningargreinar um Gunnlaug Ólafsson bíða birting- ar og munu birtast í blaðinu næstu daga. Höfundar eru: Magnús og Þór; Sigurgeir B. Kristgeirsson; Ásmundur Friðriksson.

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.