Morgunblaðið - 03.06.2005, Qupperneq 37
Elsku afi. Það er á stundum sem
þessum sem maður sest niður, hugs-
ar, spáir í lífið og hvað það er sem
gefur því gildi. Mér þótti svo vænt
um afa minn enda ekki annað hægt
þar sem betri afa er ekki að finna.
Ekki hefði mig grunað að ég þyrfti
að kveðja hann svona fljótt, þar sem
hann var alltaf svo frískur og hress.
Ég minnist allra stundanna sem við
áttum saman í sumarbústaðinum,
það voru góðir tímar. Ég var alltaf
svo velkominn heim til afa míns og
ömmu og var svo gott að læra heima
hjá þeim öll þessi ár sem ég var í
skólanum og hjálpaðir hann mér
mikið með umhyggju og miklum
áhuga á námi mínu. Hefði ég því
gjarnan vilja hafa afa hjá mér síðast-
liðinn laugardag þegar áfanganum
lauk og saknaði hans mikið því ég
veit að hann hefði staðið stoltur við
hlið mér þann dag. Einnig sakna ég
allra stunda sem við amma og afi
spiluðum saman, en við gátum setið
klukkutímum saman og spilað
manna. Ekki má nú gleyma hafra-
grautum hans afa því enginn gerir
betri hafragraut en hann. Ég þakka
mikið fyrir þann tíma sem við afi átt-
um saman úti á Kanarí um síðustu
páska, en þar var hans annað heimili
og sá ég að hann naut sín vel þar.
Vér kveðjum þig með þungri sorg,
og þessi liðnu ár
með ótal stundum ljóss og lífs
oss lýsa gegnum tár.
(Jón Trausti.)
Elsku amma, þú hefur misst mikið
en þú átt stóra fjölskyldu og munum
við standa saman á þessum erfiða
tíma sem bíður okkar. Elsku afi
minn. Ég er þakklát fyrir þann tíma
sem ég fékk að eiga með þér, hvíldu í
friði.
Þín afastelpa
Guðríður Hannesdóttir (Gauja).
Elsku afi minn, þá ert þú búinn að
kveðja þennan heim. Í hjarta mínu
er ólýsanlegur söknuður sem aldrei
fær læknað og aldrei fær gleymt, en
ég veit að þú ert kominn á öruggan
stað það eru ófáar minningar um þig,
minningarnar eru einmitt fjársjóður
sem við geymum alltaf. Ég man svo
þegar við fórum í bústaðinn til ykkar
ömmu, það var alltaf svo gaman. Ég
sat tímunum saman í fanginu þínu
þar sem við horfðum á eldinn í „kab-
yssunni“. Ég man hvað mér fannst
gaman að fá að gróðursetja jólatréð
fyrir austan, en þú varst búinn að
gefa öllum barnabörnum þínum tré
sem komu á undan mér. Þetta var
mjög sniðug hugmynd hjá þér en alls
eru trén orðin tólf. Þér var umhugað
að við hugsuðum vel um trén, vildir
að við pissuðum á þau svo þau
myndu stækka sem þau gerðu og eru
nú myndarlegur skógur í dag. Á
morgnana elduðum við alltaf hafra-
graut og einhverra hluta vegna var
þinn alltaf bestur.
Æ, elsku afi, af hverju þurftir þú
að fara, þetta er svo sárt því þú varst
alltaf svo góður við alla, við erum
miklu betri manneskjur vegna þín.
Þú vildir alltaf hjálpa öllum, enda
varstu með hjarta úr gulli. Núna
held ég áfram að sitja fyrir framan
eldinn með honum Illuga mínum og
kenni honum allt um landið eins og
þú kenndir mér. En ég veit að þú ert
ennþá hjá okkur og átt alltaf eftir að
verða í hjarta okkar.
Elsku afi, veittu henni ömmu
minni styrk í gegnum þetta, því þið
voruð svo sæt hjón. Alveg eins og ný-
byrjuð saman en samt búin að vera
saman hátt í sextíu ár. Guð veri með
þér elsku afi minn, takk fyrir sam-
fylgdina, nú kveð ég með mikilli sorg
og miklum söknuði í hjarta.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
(Bubbi Morthens.)
Takk fyrir að vera afi minn og
langafi Illuga, við Maggi elskum þig.
Tinna María.
Miðvikudaginn 25. maí bárust þau
sorgartíðindi að elsku afi minn væri
búin að kveðja þennan heim. Eftir
stendur amma og stór fjölskylda
sem syrgja hann mikið. Hann afi var
öðlingsmaður og betri afa er ekki að
finna. Ég er afa mínum þakklátur
fyrir þann tíma sem við áttum sam-
an.
Í sínum huga syrgir hver
sár í hjarta gráta lætur.
sinnið þjakað, þreyttur er
þá er sofnar síðla nætur.
En þegar veröld virðist myrk
og vanti náðarljósið blíð,
biðjum, Guð, þú gefir styrk
af gæsku þinni þeim er líða.
(Óskar Kristjánsson.)
Elsku afi, ég kveð þig með miklum
söknuði.
Gunnar Hannesson.
Fyrir hálfri öld voru engar
hátimbraðar hallir þar sem nú
stendur stærsti kaupstaður landsins,
Kópavogur. Margir hafa lagt hönd á
plóg við að reisa þennan kraftmikla
kaupstað, fyrstu landnemarnir
klömbruðu saman lágreistum húsum
úr kassafjölum enda voru þau vart
ætluð til íbúðar allt árið þó að neyðin
ræki menn til heilsársdvalar. En svo
óx mönnum kraftur, skipulögð
byggð tók að rísa úr varanlegu efni
og jafnframt settust hér að iðnaðar-
menn úr öllum greinum byggingar-
iðnaðar.
Í dag er kvaddur einn af þeim sem
stóð fyrir fjölmörgum byggingum í
Kópavogi, Björn A. Kristjánsson
múrarameistari. Ekki er ástæða til
að fara í langa upptalningu þeirra
mannvirkja er hann stóð fyrir, en
þar á meðal eru helstu kennileiti
Kópavogs, Kópavogskirkja og
Digraneskirkja að ógleymdum brún-
um þremur yfir Hafnarfjarðarveg-
inn, um þá merku framkvæmd væri
ástæða til að rita bók en það verður
að bíða betri tíma.
Leiðir okkar Björns lágu saman í
fjölmörgum byggingum í Kópavogi
fyrr á árum. Þó það orð lægi á okkar
stéttum, múrurum og pípulagninga-
mönnum, kæmi ekki alltaf sem best
saman á byggingarstað þá átti það
aldrei við þar sem Björn átti í hlut,
efalaust vegna hans einstæðu hæfi-
leika til að lynda við alla, jafnvel
skapbráða iðnaðarmenn úr öðrum
stéttum. Með Birni var einstaklega
þægilegt að starfa í byggingum og
vonandi hefur það ekki komið að sök
þó rabb í dagsins önn um landsins
gagn og nauðsynjar vildi stundum
dragast á langinn, það var einfald-
lega unnið upp ef með þurfti.
En lífið var ekki aðeins strit og
streð á þessum skemmtilegu árum
fyrir nokkrum áratugum. Iðnaðar-
mönnum, sem unnu að húsbygging-
um í Kópavogi kom ekki verr saman
en það, að vænn og skemmtilegur
hópur fór saman í ferðir á sumrum
og nefndu þær ferðir menningar-
ferðir, auðvitað var Björn potturinn
og pannan í þeim hópi.
En ég vil þakka Birni samfylgdina
víðar. Við áttum þátt í því að end-
urreisa Byggingarsamvinnufélag
Kópavogs og vorum saman í stjórn
þess félags um árabil. Það félag
leysti vanda ungra manna og kvenna
á þeim árum, gerði þeim kleift að
komast í eigið húsnæði sem ekki
hefði tekist annars.
En ekki má gleyma pólitíkinni og
ævintýrinu um Þinghól. Við Björn
vorum samherjar á vinstri kantin-
um, Björn var sérkennileg blanda af
ákveðnum sósíalista og glöggum
fjármálamanni og fór vel með hvoru-
tveggja.
Kosningar til bæjarstjórnar ár-
ið1970 gaf okkur vinstri mönnum
rýra uppskeru og foringi okkar,
Ólafur Jónsson, féll fyrir borð. Menn
sátu hnípnir og hengdu haus og þá
fékk ég þá gölnu hugmynd hvort
ekki ætti að peppa upp liðið og efla
innra starfið með því að reisa hús-
næði fyrir samtökin, vorum þá nýbú-
in að missa gamla Þinghól undir
Hafnarfjarðarveginn.
Fyrsti maðurinn sem ég nefndi
þetta við var Björn og fór það eins og
ég bjóst við; hinn varkári fjármála-
maður sá á því öll tormerki. En
stundum veit maður hvar á að sá og
ekki leið á löngu áður en Björn var
byrjaður að fylkja liði og bygging-
arréttur að 3. hæð hússins við
Hamraborg 11 var keyptur og þar
reis samkomustaður og aðsetur fyrir
Alþýðubandalagið í Kópavogi, þar
reis nýr Þinghóll. Þessu aðsetri
stýrðu þau hjónin Björn og Lovísa
alla tíð þangað til að pólitískar hrær-
ingar gerðu það að verkum að þetta
gamla pólitíska hreiður var leyst upp
fyrir fáum árum.
En árin telja og við sem vorum í
baráttunni í Kópavogi fyrr á árum
erum óðum að týna tölunni og nú er
Björn Kristjánsson horfinn yfir
móðuna miklu, það er engin ástæða
til að sýta, við erum öll á leiðinni.
Ég vil þakka Birni Kristjánssyni
fyrir einstaklega þægilega og far-
sæla samfylgd í gegnum öll þessi ár
og ég veit að ég get þar talað fyrir
hönd svo fjölmargra sem gjarnan
vilja vera með í þessum fátæklegu
þakkar- og minningarorðum.
Innilegar samúðarkveðjur til
Lovísu, dætra og sona.
Sigurður Grétar
Guðmundsson.
Skjótt hefur sól brugðið sumri,
kvað Jónas, er Tómas vinur hans og
félagi kvaddi þennan heim. Þá var að
kveðja maður í blóma lífsins, og sem
miklar vonir voru við bundnar. Hér
var að kveðja maður á efri árum,
maður sem virtist enn í góðu gengi
til líkama og sálar. Með skjótum
hætti er lífsþráðurinn slitinn og erf-
itt að gera sér grein fyrir því sem
gerst hefur. Eitt er raunar víst: Ævi
viðkomandi er lokið fyrirvaralaust.
Oft nefndi ég þann, sem horfinn er af
sviðinu, jafnaldra minn, þótt hann
fæddist rúmum sjö vikum seinna en
ég.
Hann var fæddur í sama dalnum
og ég, og frumburður foreldra sinna.
Ólst þar einnig upp og naut þar
barnafræðslu.
Björn Aðils var hann skírður og
bar þar með að fornafni heiti móð-
urföður síns. Hann fæddist að
Hvammi í Laxárdal 15. febrúar 1924.
Voru foreldrar hans Unnur Björns-
dóttir og Kristján Sigurðsson,
bóndasonur frá Hvammi. Þau hófu
búskap á þeim bæ, ásamt föður
Björns Aðils, og dætrum hans tveim-
ur, vorið 1923. Þar var ekki rými fyr-
ir þau að því sinni, og fluttust ungu
nýgiftu hjónin utar á dalinn, að bæn-
um Refsstöðum. Þar bjuggu þau far-
dagaárið 1924–25 í tvíbýli við for-
eldra mína, Elínu Guðmundsdóttur
og Svein Hannesson frá Elivogum.
Þar var húsnæði mjög takmarkað,
en ungu hjónin tvenn létu sér það
nægja, og sambýlið var eins og best
verður á kosið. Snáðarnir tveir á
fyrsta æviárinu nutu atlætis og um-
hyggju hvorra tveggja hjónanna,
eftir því sem við þurfti hverju sinni.
En eftir árið var þessu lokið. Þá
fluttust foreldrar mínir lengra út á
Laxárdal, að bænum Sneis, en for-
eldrar Björns Aðils að Litla-Vatns-
skarði, næsta bæ til suðurs. Þar var
dvalist í eitt ár, en síðan flust að
Hvammi, þar sem búið var snotru
búi til vors 1939, að haldið var til
Skagastrandar, að bænum Háa-
gerði, en loks í þorpið Höfðakaup-
stað, þar sem Kristján var starfs-
maður Kaupfélagsins til æviloka,
sjötugur að aldri.
Þegar móðir Björns Aðils lést, ár-
ið 1990, níræð að aldri, skrifaði ég
minningargrein um þau hjón í Morg-
unblaðið og styðst ég við hana að
nokkru. Þessi hjón voru miklir vinir
foreldra minna, enda einkar vin-
gjarnlegar manneskjur. Björn Aðils
erfði eiginleika þeirra: heiðarleika
og iðjusemi, ásamt alúðlegri fram-
komu. Hann naut einnig trausts
þeirra, sem hann starfaði með og
vann fyrir.
Við, snáðarnir tveir, sem ólumst
upp í fjalladalnum Laxárdal, reynd-
um af fremsta megni að vinna fóst-
urjörð okkar, hvor með sínum hætti.
Björn Aðils varð múrari að iðn og
stundaði lengi byggingastarfsemi.
Verka hans sér því víða stað. Við
Björn hittumst öðru hverju og rifj-
uðum þá upp gamla daga. Í sextugs-
afmæli Sigurðar Geirdals, bæjar-
stjóra í Kópavogi, 4. júlí 1999, tók
ljósmyndari af okkur mynd, sem
mér þykir vænt um að eiga nú, þegar
vinur minn og jafnaldri er horfinn af
sviði lífsins.
Björn Aðils var gæfumaður í
einkalífi. Hann kvæntist ungur
ágætri konu og áttu þau saman fimm
börn, sem öll lifa. Ævi hans bar
sannarlega ávöxt. Lífið er framrás,
sem ekkert stöðvar.
Nú kveð ég kæran jafnaldra og vin
með þökk fyrir allt. Fjölskyldunni
vottast samúð við brottför hans af
þessum heimi. Blessuð sé minning
Björns Aðils Kristjánssonar.
Auðunn Bragi Sveinsson.
Fallin er frá ein af styrku stoð-
unum í starfi vinstri manna í Kópa-
vogi í gegnum tíðina. Björn Krist-
jánsson hefur frá unga aldri verið
virkur í samtökum þeirra og gegnt
þar fjölda trúnaðarstarfa. Hann var í
fyrstu stjórn Alþýðubandalagsins
hér í bænum, oftlega á framboðslist-
um til bæjarstjórnar og í trúnaðar-
störfum innan flokks á landsvísu svo
fátt eitt sé nefnt. Síðast var hann
með okkur á vettvangi á aðalfundi
Samfylkingarfélagsins í Kópavogi
nú á vordögum. Við mörg munum
hann þó fyrst og fremst sem fram-
kvæmdastjóra Þinghóls en í því hús-
næði hefur félagsstarfið haft aðstöðu
um langa hríð. Björn var einn af
hvatamönnum þess að ráðist var í
það stórvirki upp úr 1970 að eignast
eigið húsnæði og sat í stjórn Þing-
hóls alla tíð.
Breyttar aðstæður í stjórnmálum
með langþráðri sameiningu okkar
vinstri manna, leiddu af sér að Þing-
hóll var leystur upp og hluthöfunum,
sem margir höfðu í upphafi lagt fram
hlutafé af litlum efnum, var greiddur
út hlutur sinn með ávöxtun. Það
fannst Birni skemmtilegt verk; að
koma þeim ávísunum til skila.
Eignir Alþýðubandalags og Al-
þýðuflokks dugðu vel til að eignast
glæsilegt framtíðarhúsnæði sem
byggir á þessum gamla merg. Þar
mun framlag þessara gömlu frum-
herja sjást um langan aldur. Björn
fylgdist með þeim rekstri af áhuga
og gaf okkur góð ráð. Hann var
skoðunarmaður reikninga félagsins
til dauðadags og var það síðasta
trúnaðarstarf hans fyrir hreyfingu
vinstri manna í Kópavogi.
Allt okkar starf í Þinghól var sam-
ofið þeim hjónum Birni og Lovísu
sem þar réð ríkjum innandyra. Það
mikla starf var að mestum hluta
sjálfboðastarf og ekki talið eftir að
skjótast upp í Þinghól á öllum tím-
um. Þau hjón voru geysisamhent í
þessu starfi og í öllu sínu lífi, var
gaman að sækja þau heim hvort sem
það var heim í Bræðratunguna eða í
sumarbústaðinn austur í Grímsnesi
þar sem þau dvöldust mikið yfir
sumarið.
Ég var settur í stjórn Þinghóls
upp úr tvítugu til að læra af þeim
reyndu mönnum sem þar sátu og hef
síðan átt því láni að fagna að geta
kallað Björn Kristjánsson vin minn.
Björn var mikilvirkur múrara-
meistari hér í bæ og vanur því að
segja til ungum mönnum, enda með
langa og mikla starfsreynslu í bygg-
ingageiranum. Okkar leiðir lágu þar
saman og ég hygg að Birni hafi ekki
þótt verra að ég skyldi vera iðnaðar-
maður.
Alltaf hefur hann verið reiðubúinn
til skrafs og ráðagerða um smá mál
eða stór. Verið tillögugóður og
glöggur og forðaði mér á stundum
frá því að gera eitthvað í fljótfærni.
Það er ungum mönnum ómetanlegt
að eiga slíka vini.
Fyrir hönd félaga í Alþýðubanda-
laginu og Samfylkingunni í Kópa-
vogi færi ég Birni Kristjánssyni
þakkir okkar allra fyrir allt og allt.
Lovísu, börnum þeirra hjóna og af-
komendum votta ég mína dýpstu
samúð.
Flosi Eiríksson.
Í febrúar 1996 um hádegisbil á
Ensku ströndinni á Kanaríeyjum.
Hitinn 33° og ég á göngu um smá-
hýsahverfið Santa Fe. Kom ég þar
sem íslenskur fáni er við heimreið og
lestur Einars Ólafs Sveinssonar á
Njálu berst út um opnar dyr. Ég
geri vart við mig og upp af hægindi
sprettur maður sem var svo líkur
hugmyndum mínum um höfðingja og
ráðagerðarmenn í Njálu að furðu
gegndi. Kynnti hann sig sem Björn
Kristjánsson múrara úr Kópavogi en
af húnvetnsku bergi brotinn og réði
hann hér húsum um stundarsakir
ásamt konu sinni Lovísu Hannes-
dóttur sem brátt kæmi úr innkaupa-
leiðangri. Bað hann mig endilega að
doka. Svo kom Lovísa, sjálf alúðin og
gestrisnin holdi klædd og er ekki að
orðlengja það að ég hændist mjög að
þeim hjónum.
En þau vináttubönd sem þarna
hnýttust héldu einnig vel er heim var
komið. Ég var á þessum tíma að ná
mér eftir erfið veikindi, var auk þess
á milli kvenna og bjó við misjafnt
ráðskonugengi. Vitandi um þessi
mín bágindi lögðust Björn og Lovísa
að alefli á árar með mér til að koma
búskaparfleyinu upp úr öldudalnum.
Það var paradísarheimt fyrir
Björn að komast í færi við fjárstofn-
inn hér á Skjaldfönn þar sem tröll-
vöxnustu og afurðarmestu ær lands-
ins spóka sig um víðlenda
sumarhaga.
Stoltið og gleðin var því ósvikin
hjá honum þegar hjörðin var að gera
garðinn frægan haust eftir haust
enda áttu þau hjón drjúgan þátt í
þeim árangri. Strax og kynni okkar
höfðu tekist voru þau komin til að-
stoðar á sauðburði.
Síðasta liðveisla Björns í fjárhúsi
hér var á síðasta hausti er ég var að
taka frá sláturær. Honum varð star-
sýnt á grákollótta á sem heitir Móna
og spurði um aldur hennar. Hún er 8
vetra, svaraði ég , það er enginn ald-
ur sagði Björn og horfði þá frá eigin
sjónarhóli, nýbúinn að tala um að
eitt sauðkindarár jafngilti tíu árum í
mannsævi. Og svo er nafnið svo fal-
legt sagði hann kíminleitur, þeirri
röksemd var auðvitað ekki hægt að
hafna. Í síðasta símtali okkar um
sumarmálin var það fastmælum
bundið að ég hringdi þegar Móna
væri borin, því heilsunnar vegna
taldi hann ekki gerlegt í þetta sinn
að koma í sauðburð. Móna bar
tveimur fallegum gráum hrútlömb-
um sólarhring eftir að Björn var all-
ur og því erfitt um vik að efna gefið
loforð.
Þó tveir áratugir væru á milli í
aldri vorum við steyptir í mjög svip-
að mót hvað varðaði lífsviðhorf, gild-
ismat og hugðarefni. Hann var ham-
ingjumaður í einkalífi, átti
yndislegan lífsförunaut þar sem
Lovísa var, stóran hóp mannvæn-
legra afkomenda og naut virðingar,
trausts og vináttu mikils fjölda sam-
ferðafólks.
Ég mun ævinlega minnast Björns
er ég heyri góðs manns getið.
Okkar innilegustu samúðarkveðj-
ur héðan að vestan sendum við
Lovísu og öðrum aðstandendum sem
eiga um sárt að binda.
Indriði Aðalsteinsson,
Kristbjörg Lóa Árnadóttir
og börn.
Björn var valmenni. Ég hitti hann
oft í vetur og var hann hress bæði til
orðs og æðis. Vissulega var mér
brugðið þegar mér var tjáð að dauða
hans hefði borið að fyrirvaralaust.
Ég sé eftir að hafa ekki notað tæki-
færin þegar við hittumst í vetur til að
þakka honum fyrir það veglyndi sem
hann sýndi okkur í Krossinum á
fyrstu starfsárum okkar. Við leigð-
um af honum húsnæði í Auðbrekk-
unni í húsi Prjónastofunnar Tinnu.
Fyrst á annarri hæð, en það varð of
lítið og þá fluttum við okkur á fyrstu
hæðina. Það varð einnig of lítið og þá
hafði hann milligöngu um að við
keyptum efri hæðina á Álfhólsvegi
32. Björn var okkur traustur og góð-
ur vinur og ég mat leiðsögn hans og
stuðning mikils.
Það var gaman að koma til þeirra
Lovísu og Björns á heimi þeirra í
Bræðratunguna og Björn hafði alltaf
eitthvað markvert til málanna að
leggja. Mér þótti vænt um þetta fólk
og Björn skilur sannarlega eftir
skarð.
Ég votta Lovísu og börnunum
samúð mína og bið góðan Guð um
huggun.
Gunnar Þorsteinsson.
Fleiri minningargreinar
um Björn Aðils Kristjánsson bíða
birtingar og munu birtast í blaðinu
næstu daga. Höfundar eru: Loftur
Þór Pétursson, form. BK; Svava
Víglundsdóttir, Unnsteinn Arason.
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 3. JÚNÍ 2005 37
MINNINGAR