Morgunblaðið - 09.10.2005, Síða 20
Í
nóvember fyrir tæpu ári
þótti dóttur Gylfa, Gerði
Gröndal, faðir sinn óvenju
gulleitur í andliti. Hún er
læknir og dreif hann í
blóðprufu. Í framhaldinu
uppgötvaðist að Gylfi var
með krabbamein í brisi.
Guli liturinn stafaði af galli í blóð-
inu.
„Þetta var gífurlegt áfall, alveg
ólýsanlegt, og ekki bara fyrir mig
heldur alla fjölskylduna. Ég hef allt-
af verið hraustur um dagana og varð
óskaplega hissa þegar ég fékk þenn-
an úrskurð. Mér hefur bókstaflega
ekki orðið misdægurt,“ segir Gylfi.
Strax var ljóst að krabbameinið
yrði ekki læknað. Hins vegar mátti
reyna að hefta útbreiðslu þess. Gylfi
fór í viðamikla skurðaðgerð, þar
sem hann var opnaður frá brjósti og
niður fyrir kvið, en æxlið reyndist of
stórt til að hægt væri að fjarlægja
það. Það lá upp við slagæð og að
skera það burtu var hættulegt.
Ógleði, máttleysi og kulvísi
Gylfi var í framhaldinu settur á
krabbameinslyf. „Gallinn við lyfin er
að aukaverkanirnar eru yfirgengi-
legar, ógleðin er slík og máttleysið.
Þessu fylgir líka kulvísi og margt
annað. Fyrstu krabbameinslyfin
sem ég fékk ætluðu mig lifandi að
drepa,“ segir hann.
Seinna fékk Gylfi önnur lyf sem
hann þoldi betur. Auk þess fór hann
í geislameðferð. Margir þola slíka
meðferð illa en hún fór ágætlega í
Gylfa. Með geisluninni tókst að
minnka æxlið, ekki það mikið þó að
það væri skurðtækt. Lyfin sem
hann er á í dag halda krabbamein-
inu í skefjum. „Lyfin geta ekki
læknað meinið en þau gefa mér
tíma,“ segir hann. Hann hefur um
þriðjungskraft miðað við áður og
segist ekki kvalinn. Verkjalyf nái að
mestu að slá á kvalirnar.
Gylfi er á fótum í dag og er
ánægður með það. „Ég var rúm-
liggjandi meira og minna í þrjá
mánuði. Það var mjög erfitt. Þegar
ég var kominn á fætur leitaði ég í
heitara loftslag og fór til Kanarí-
eyja. Þar gat ég gengið úti við og
aukið mér enn frekar kraft. Til að fá
styrk þarf maður nefnilega að
hreyfa sig. Á lyfjunum verður mér
kalt og því er erfitt að ganga úti á
Íslandi,“ segir hann.
Stríðsfrumur og hryðjuverkasýklar
Gylfi talar vel um krabbameins-
deild Landspítala – háskólasjúkra-
húss. Hann segir þjónustuna góða,
starfsfólkið elskulegt og viðmótið
gott. Í dag er hann heima en fer
hálfsmánaðarlega á göngudeildina
og fær þau lyf sem ekki eru á töflu-
formi. Þeim er dælt í hann í æð. Í
einu ljóðanna lýsir hann því hvernig
hann liggi í fjóra tíma í senn og lyfin
flæði um æðarnar. Hann sér fyrir
sér hvernig hans eigin stríðsfrumur
sæki að hryðjuverkasýklum sem
hertekið hafa brisið, öllum að óvör-
um.
„Þetta er barátta og ég gerði mér
snemma ljóst að hugarfarið yrði að
vera í lagi. Þetta er ekki einungis
líkamleg barátta, hið andlega hefur
einnig mikið að segja. Ég tók strax
þá ákvörðun að vera ekki sýknt og
heilagt að tala um veikindin, til að fá
þau ekki á heilann og þreyta alla í
kringum mig. Ég ákvað að yrkja
mig frekar frá þessu öllu saman.
Menn gera það gjarnan, að skrifa
sig frá hlutunum. Það er kannski
kjarninn í ljóðlistinni. Þá er fólk að
sigrast á einhverju,“ segir Gylfi og
bætir hugsandi við að ljóðin hafi
meira og minna komið af sjálfu sér.
„Það var einkennileg upplifun. Ég
hef fengist við ljóðagerð síðan ég
var ungur og þetta getur verið mjög
erfitt – eilífar endurtekningar og út-
strikanir. Í þessu tilviki var þetta
auðveldara og kom bókstaflega af
sjálfu sér,“ segir hann.
Hræðsla við að tala um krabbamein
Gylfi kinkar kolli þegar hann er
spurður hvort skrifin hafi hjálpað
honum. Um það sé engum blöðum
að fletta. Hann bætir hálffeiminn
við að hann hafi ekki ætlast til að
ljóðaflokkurinn yrði gefinn út, þetta
hafi fyrst og fremst verið hans leið
til að glíma við krabbameinið.
„Þegar menn lásu þetta yfir vildu
þeir hins vegar endilega gefa það út
og ég lét á endanum undan. Ég er
alveg búinn að sætta mig við það
núna að þetta komi fyrir sjónir al-
mennings. Það er ábyggilega for-
vitnilegt og gott fyrir þá sem eru
með krabbamein að lesa hugleiðing-
ar og viðbrögð annars sem glímir
við það sama. Einnig gæti það verið
athyglisvert fyrir aðstandendur.
Svona veikindi leggjast kannski enn
þyngra á fjölskyldu og vini en þann
sem er veikur. Áfallið fyrir þau er
gífurlegt.
Það er af sem áður var að ekki
megi tala um sjúkdóm sem þennan.
Mér finnst að um þetta þurfi að
ræða og ekki fara í felur með það.
Þetta er staðreynd sem þýðir ekki
að flýja,“ segir Gylfi. Hann bendir á
að fólk sé almennt hrætt við að tala
um krabbamein. Margir verði vand-
ræðalegir þegar þeir heyri fréttir
sem þessar og viti ekki hvað þeir
eigi að segja.
„Það er svo sem ósköp eðlilegt.
Menn vita hreinlega ekki hvernig
þeir eiga að bregðast við,“ segir
hann.
Þegar allt verður dýrmætt
Aðspurður segir Gylfi að dauðinn
hafi áður verið honum fjarlægur.
Hann hafi í raun ekki velt fyrir sér
þeim möguleika að hann gæti fengið
banvænan sjúkdóm.
„Að berjast við svona veikindi er
alveg ný reynsla,“ segir hann, þagn-
ar örstutta stund en bætir síðan
hlæjandi við: „Ég er nú svo illa að
mér að þegar ég greindist vissi ég
naumast hvað bris var!“
Gylfi segir krabbameinið hafa
breytt hugsunarhættinum. „Þegar
maður liggur svona á sjúkrahúsi og
getur ekki einu sinni farið fram úr,
byrjar maður óneitanlega að hugsa.
Ég fór að hugsa um lífið og dauðann
og það er einmitt það sem ljóðabók-
in fjallar um, hugleiðingar um bar-
áttu við banvænan sjúkdóm. Lífið
gjörbreytist og maður fer að meta
það öðruvísi. Allt verður svo dýr-
mætt, sem maður sá ekki áður. Þá
var það svo hversdagslegt. Núna
þegar á að taka það allt af mér kann
ég að meta það og veit hvers virði
það er. Það er ánægjuleg lífs-
reynsla. Ég iðrast þess bara að hafa
ekki notið lífsins betur þegar ég var
frískur,“ segir hann. Hann bætir við
að það að stíga fyrstu skrefin úr
rúminu eftir leguna, hafi verið eins
og að byrja að lifa á nýjan leik. Það
hafi orðið honum umhugsunarefni.
„Þótt ég nái ekki fullri heilsu,
kemst ég samt þetta. Þó þetta mikil
heilsa er mér mikils virði,“ segir
hann.
Með kveðskap gegn
Gylfi Gröndal hefur stundað
ritstörf allt sitt líf. Nýjasta
ljóðabók hans, Eitt vor enn,
fjallar á opinskáan hátt um
baráttu hans við ólæknandi
krabbamein. Bókin er ólík
öllu því sem Gylfi hefur áð-
ur skrifað, enda tilefnið
óvenjulegt og bókin byggð á
reynslu sem hann átti ekki
von á að verða fyrir. Sigríður
Víðis Jónsdóttir ræddi við
Gylfa um krabbameinið og
heyrði í leiðinni af banda-
rískum her heima í túni og
baráttu á Alþýðublaðinu.
Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Gylfi Gröndal í stofunni heima hjá sér. Hann greindist fyrir tæpu ári með ólæknandi krabbamein í brisi og byrjaði fljótlega að semja ljóð um reynslu sína.
’Ég tók strax þáákvörðun að vera
ekki sýknt og heilagt
að tala um veik-
indin, til að fá þau
ekki á heilann og
þreyta alla í kringum
mig. Ég ákvað að
yrkja mig frekar frá
þessu öllu saman.‘
’En móðir mín hafðimiklar áhyggjur.
Hún sagði að skáld
væru alltaf svo
óhamingjusöm!‘
20 SUNNUDAGUR 9. OKTÓBER 2005 MORGUNBLAÐIÐ