Réttur - 01.04.1976, Qupperneq 39
dáðist að glöggskyggni hennar sem læknis og ekki
síður hjartagæsku hennar og mannkærleika sem
voru sterkir þættir í eðli hennar.
Aldrei brást okkur það, að hún greindi sjúkdóma
rétt hvort heldur það var hjá okkur hjónunum eða
börnunum. Þessu til staðfestingar langar mig til að
segja frá alvarlegu sjúkdómstilfelli, sem dóttir okk-
ar ársgömul fékk. Katrín var strax kvödd til hennar.
Eftir að hafa skoðað telpuna vel og vandlega
sagði hún við mig: Ef ég greini sjúkdóminn rétt,
þá tekur hann 6—8 vikur hvort heldur telpan lifir
eða deyr. Ég vil að hingað séu sóttir fleiri læknar,
sjálf ætla ég að tala við doktor Helga Tómasson
og biðja hann að líta á telpuna fyrir okkur ,því að
mínu áliti er sjúkdómurinn í höfðinu og heilasjúk-
dómar eru hans sérgrein.
Það komu sex læknar auk Katrinar, enginn
þeirra þekkti sjúkdóminn nema hún og doktor
Helgi. Þau komu sér saman um meðalagjöf og með-
ferð sjúklingsins, þar sem Katrín var heimilis-
læknirinn og stundaði telpuna lagði hún mér lífs-
reglurnar um alla meðferð sjúklingsins, sem var
margvísleg. Frá rúmi hennar mátti aldrei víkja
nótt né dag, reyna að næra hana á styrkjandi
fæðu.og þótt hún kastaði öllu upp, átti aftur að
reyna að litlum tíma liðnum. Telpan mókti mestan
hluta sólarhringsins og þá alltaf á sömu hliðinni.
Katrín sagði að hún lægi á verkinn. Þegar hún
mókti átti að hafa kalda bakstra á höfði hennar.
Margar aðrar ráðleggingar lagði hún mér barninu
til líknar og mér til léttis við hjúkrunina.
Veikindin stóðu yfir í 71/2 viku, þau enduðu í
krampa og algeru meðvitundarleysi I 3 sólarhringa.
Allan veikindatímann kom Katrín þrisvar á dag.
Auk þess átti að láta hana vita ef einhver breyting
yrði. Það var að nóttu að telpan fékk síðasta kastið.
Ég hringdi til Katrínar, hún kom undra fljótt, tók
við barninu, lagði það i rúmið og sagði: Hér er
ekkert að gera annað en bíða og vona það besta.
Katrín kom nú 4 sinnum á sólarhring. Eftir 2 sólar-
hringa fullyrti pabbi telpunnar að hún hefði opnað
augun og þekkt sig. Þegar hann sagði Katrinu
þetta, kallaði hún mig á eintal og sagði:: Ég vona
að þetta hafi verið óskhyggja hjá pabba hennar,
því frá læknisfræðilegu sjónarmiði skil ég ekki að
hún komi andlega óskemmd til lifsins. Svo bætti
hún við: En Valgerður mín, góðum guði er ekkert
ómáttugt, mundu það. Hún strauk mér um kinnina
og sagði: Ég kem aftur í kvöld. Þegar hún kom um
kvöldið þekkti telpan hana og orgaði mikið, því
náttúrlega hafði hún oft orðið að meiða hana með
sprautum og öðrum læknisaðgerðum.
Ég gleymi aldrei gleðiljómanum á andliti Katrínar
þegar hún sá að barnið þekkti sig. Nú vona ég
að veikin sé yfirunnin, ég ætla að hvíla hana á
mér og koma ekki í 2 sólarhringa nema eitthvað
sérstakt vilji til, þá lætur þú mig vita.
Til þess að gera langa sögu stutta, ætla ég
aðeins að segja að Katrin hafði rétt fyrir sér,
sjálf veikin var yfirstigin, andleg vöntun reyndist
engin nema heyrnin fór af öðru eyra, en litli lik-
aminn var hart leikinn, þetta kraftmikla hlaupandi
barn hélt nú ekki höfði.
Margar og góðar voru þær ráðleggingar sem
Katrín veitti okkur hjónunum um alla meðferð á
telpunni, hún hresstist furðu fljótt en tvö ár tók
það hana að læra að ganga aftur, henni gekk
vel með allt nám og varð gagnfræðingur á réttum
aldri.
Nú er hún orðin 43 ára gömul kona og 4 barna
móðir. Enga manneskju dáir hún eins og Katrínu
jafnt sem mannvin og lækni, þær voru vinir þangað
til Katrín fór yfir landamærin miklu.
Valgerður Gísladóttir.
103