Morgunblaðið - 02.04.2006, Blaðsíða 24
24 SUNNUDAGUR 2. APRÍL 2006 MORGUNBLAÐIÐ
K
atrín Björk bjóst á sínum tíma
við því að flutningurinn til
Danmerkur yrði leikur einn.
Sú varð hins vegar ekki raun-
in. „Ég hélt að tungumálið
væri mér í blóð borið og að
þetta yrði ekkert mál. Ég
skildi hins vegar ekki neitt fyrst í stað og það
tók mig því langan tíma að mynda sambönd við
fólk innan kvikmyndageirans. Ég byrjaði á því
að fara í Københavns Medieskole þar sem ég
stundaði nám í ljósmyndun og kvikmynda-
fræðum. Ég valdi þann skóla því þar fékk ég
góða undirbúningsmenntun fyrir það sem mig
langaði síðar að læra og vinna við. Þar kynntist
ég einstaklingum sem deila mínum framtíð-
aráformum og dreymir um það sama. Með
þeim hef ég unnið sem kvikmyndatökumaður
að fjölda stuttmynda.“
Að náminu loknu fékk Katrín Björk vinnu
sem aðstoðarmaður þriggja þekktra ljósmynd-
ara í Danmörku.
„Kvikmyndataka og ljósmyndun eru ná-
skyldar greinar og var ég mjög heppin á þess-
um tímapunkti að fá þessa stöðu en þær Trine
Sondergaard, Linda Hansen og Charlotte
Haslund eru mjög virtir ljósmyndarar. Margir
munu þó eflaust hrista hausinn þegar ég segi
að staðan var ólaunuð. Samhliða þessu starfi
vann ég öll möguleg störf innan kvikmynda-
geirans og barðist við að mynda þau sambönd
sem til þarf. Það er erfitt að fá eitthvað að gera
þegar maður er feiminn og á erfitt með að
spjalla við ókunnugt fólk í kokteilboðum. Það
segir sig sjálft að þegar enginn veit hver mað-
ur er og hvað maður kann þá fær maður ekkert
að gera. Ég hef verið heppin og kynnst rétta
fólkinu en fyrir ári fór boltinn að rúlla og ég
fékk mitt fyrsta verkefni við gerð stórrar kvik-
myndar sem annar aðstoðarmaður kvik-
myndatökumanns,“ segir Katrín Björk.
Hugsar í myndum
Hún ólst upp með myrkraherbergi undir
stiganum heima hjá sér og ætlaði alltaf að
verða ljósmyndari.
„Pabbi minn er ofsalega duglegur að taka
myndir og ég mátti alltaf taka allar þær mynd-
ir sem mig lysti og framkalla þær allar. Í dag á
ég fjölda myndaalbúma frá barnæsku minni og
eru þau mér mjög kær. Ég hef alltaf talið mig
vera nokkuð góða í því að taka myndir og einn-
ig að segja sögur. Það að ég geti sagt sögur án
texta er hið fullkomna tjáningarform fyrir mig.
Sumir skrifa ljóð eða bækur, aðrir semja tón-
list, ég tek myndir. Það að fara út í kvikmyndir
var algjör skyndiákvörðum og kom ég sjálfri
mér mjög svo á óvart. En það var eitthvað sem
sagði mér að ég þyrfti að víkka sjóndeildar-
hringinn og hætta að einblína á ljósmyndun.
Það að velja kvikmyndatöku var alveg hárrétt
ákvörðun.“
Leikstjórn heillar marga sem vilja starfa við
kvikmyndir en frá því að Katrín Björk tók sína
ákvörðun hefur leiðin aldrei legið þangað. Það
hefur í raun bara eitt komið til greina.
„Mér var gefið gott auga. Ég elska ljós og
skugga og hugsa í myndum. Ég kann ekkert
annað. Það heillar mig. Kvikmyndataka er
auðvitað líka tæknilegt starf, en ekki bara ein-
hver eintóm rómantík í fallegu ljósi með flotta
skugga. Til að búa til góða mynd þarf kvik-
myndatökumaðurinn að ráða yfir mikilli
tæknikunnáttu. Margir áhorfendur hugsa
kannski ekki mikið um tæknimál, og ef allt er
vel gert þá beinist athyglin ekki að tækninni
heldur sögunni og myndinni sjálfri. Nema fólk
sé auðvitað mikið inni í þessum tæknimálum,
þá tekur það að sjálfsögðu eftir kvikmyndatök-
unni. En ef hlutir eru illa gerðir tæknilega séð
þá fer hinn almenni áhorfandi að taka eftir
mistökunum og þó svo að annað sé í lagi, eins
og leikur og leikstjórn, getur myndin þrátt fyr-
ir það orðið léleg. Ég er svo heppin að pabbi
minn er ekki bara ljósmyndari heldur einnig
rafeindavirki og ég lék mér því með alls kyns
tæki og tól sem barn. Kannski að hann hafi
óafvitandi gert mig að þeim „tæknilúða“ sem
ég er í dag en þessi áhugi minn hefur gert það
að verkum að ég er á hraðri leið með að verða
lærður kvikmyndatökumaður,“ segir Katrín
Björk.
Líkamlega erfitt starf
Sem annar aðstoðarmaður kvikmyndatöku-
manns hefur Katrín Björk unnið að gerð fjölda
stórra kvikmynda, meðal annars The Substi-
tute, nýjustu mynd Ole Bornedal, en hann
gerði hina frægu Nattevagten og Far til fire,
sem var mest sótta kvikmyndin í Danmörku í
fyrra. Hún hefur einnig aðstoðað við gerð tón-
listarmyndbanda, eins og til dæmis nýjasta
myndbands hinnar þekktu norsku hljómsveit-
ar Röyksopp við lagið „What Else Is There“ og
að hennar sögn eru auglýsingarnar orðnar svo
margar að hún hefur ekki tölu á þeim lengur.
„Það að vera annar aðstoðarmaður kvik-
myndatökumanns, eða C Fotograf eins og það
kallast í Danmörku, er líkamlega mjög erfitt
starf. Um þessar mundir er ég eini starfandi
kvenkyns C Fotograf í Danmörku. Það er yf-
irleitt litið á þetta sem karlmannsstarf. Ég sé
um að ná í allan kvikmyndabúnaðinn að
morgni upptökudags, oftar en ekki um klukk-
an 6, og er þessi búnaður mjög þungur. Ég
kem honum svo á tökustað og stilli þar upp.
Það er mitt starf að sjá um filmurnar sem tekið
er upp á, en þær mega aldrei líta dagsins ljós,
þannig að ég legg þær í ákveðna kassa inni í
litlu tjaldi þar sem er algjört myrkur. Þetta er
mikið ábyrgðarstarf því ég er eina manneskjan
sem kem við filmurnar og geta þær auðveld-
lega rispast eða orðið rykugar. Vinnudagurinn
minn fer svo í það að skipta um linsur og film-
ur, halda ítarlega dagbók yfir allar upptökur
dagsins og að aðstoða kvikmyndatökumanninn
og fyrsta aðstoðarmann hans við alls kyns
störf,“ segir Katrín Björk.
Vinnur einnig sem kvikmyndatökumaður
Ásamt því að aðstoða reynda kvikmynda-
tökumenn vinnur Katrín Björk einnig að sín-
um eigin verkefnum, tekur mikið af ljósmynd-
um og vinnur við stuttmyndagerð, en þá í
starfi aðal kvikmyndatökumanns.
„Ég fæ ómetanlega reynslu sem aðstoðar-
maður en sú reynsla ein og sér mun ekki gera
mig að kvikmyndatökumanni. Maður lærir
mikið af því að prófa sig áfram og gera hlutina
sjálfur. Þannig að það er mikilvægt að æfa sig,
búa til alls kyns hluti og segja sögur. Ég vinn
mikið með fólki sem starfar sem aðstoðarmenn
í öðrum deildum kvikmyndabransans, fólki
sem er að vinna sig upp og er því í sömu spor-
um og ég. En mest vinn ég með góðum vini
mínum honum Baldvini Z, sem er leikstjóri og
kemur líkt og ég frá Akureyri,“ segir Katrín
Björk.
Saman gerðu þau nýlega auglýsingar fyrir
Kjarnafæði, sem sést hafa í íslensku sjónvarpi
upp á síðkastið, en Baldvin sá þar um leik-
stjórn og hún um myndatökuna. „Það er mjög
skrýtið að fara frá vinnu sem aðstoðarmaður
yfir í það að vera kvikmyndatökumaður, en ég
held að mér hafi tekist ágætlega upp. Það
fylgir því mikil pressa að stjórna kvikmynda-
töku, en ég er þá með tvo aðstoðarmenn, fólk
sem sér um ljósin, menn til að stjórna krönum
og ýmsum öðrum tæknibúnaði og allt er þetta
fólk undir minni stjórn. Ég þarf að hugsa hratt
og segja fólki skýrt og greinilega hvað það á að
gera svo að myndin sem ég hanna líti sem best
út. En það er jafn stórkostlegt og það er skrýt-
ið að vera yfirmaðurinn á tökustað því það þýð-
ir að ég er að segja mína sögu og búa til mínar
myndir með ljósunum og skuggunum sem ég
elska svo mikið,“ segir Katrín Björk.
Þessar auglýsingar eru fyrsta verkefni
hennar fyrir íslenskan markað, en margar af
þeim stuttmyndum sem hún hefur gert hafa
verið sýndar á kvikmyndahátíðum víðs vegar í
heiminum.
Stelpur í minnihluta
„Þær virðast nú ekki vera margar stelpurn-
ar sem ætla sér að verða kvikmyndatökumenn
en þeim fer fjölgandi. Fyrir ekki svo mörgum
árum var mjög erfitt fyrir stelpur að komast í
nám á kvikmyndatökubraut. Skólarnir voru
hræddir um að þær myndu hætta í námi til að
eignast börn eða að vinnan myndi reynast
þeim of erfið. Þetta er að breytast en það er
enn spurt um barneignir í inntökuprófum
kvikmyndaskóla. Það finnst mér svívirðilegt.
Mikil umræða hefur átt sér stað um óréttlæti
þess en stjórnendur skólanna virðast ekkert
kippa sér upp við það og halda enn fast í þá
reglu að hafa stelpur í minnihluta,“ segir Katr-
ín Björk.
Innan flestra deilda kvikmyndageirans eru
karlmenn í miklum meirihluta að hennar sögn
og oftar en ekki er hún eina stelpan á tökustað.
„Í byrjun fannst mér það svolítið erfitt og vildi
ég sanna mig, með því að sýna að ég væri jafn
sterk og þeir og svo framvegis. Það að ég er
ekki karlmaður kemur að sjálfsögðu ekki í veg
fyrir að ég geti unnið vinnuna mína vel.“
Frá því að hún fékk fyrst starf sem annar
aðstoðarmaður hefur Katrín Björk haft nóg að
gera og þessa dagana er hún að vinna að
dönsku bíómyndinni Anja og Viktor. Í haust er
hún væntaleg til Íslands en þá mun hún
stjórna tökum á stuttmynd sem verður leik-
stýrt af Baldvini Z, þeim sama og leikstýrði
auglýsingunum fyrir Kjarnafæði.
„Við hyggjumst bæði nota myndina sem um-
sókn í kvikmyndaskóla, hann í Danmörku og
ég á Englandi. Ég tek með mér danskt kvik-
myndafólk sem mun hjálpa til við gerð mynd-
arinnar, því það er hér í Danmörku sem ég hef
mín sambönd, og þar sem ég er enn ný í faginu
er mjög mikilvægt að vinna með fólki sem
maður þekkir og treystir,“ segir Katrín Björk.
Þó svo að hún hafi enn ekki starfað mikið
fyrir íslenskan markað er aldrei að vita nema
hún geri meira af því í framtíðinni. En núna er
stefnan að komast í gott framhaldsnám ásamt
því að halda áfram að safna í reynslubankann í
Danmörku. „Ég ætla mér að verða kvik-
myndatökumaður af bestu gerð og vonandi
held ég áfram að vera heppin með þau tæki-
færi sem mér gefast svo að ég nái takmarkinu,
að segja öllum heiminum sögur.“
Eina stelpan á tökustað
Katrín Björk Sævarsdóttir hefur
verið búsett í Kaupmannahöfn í þrjú
og hálft ár og undanfarið haft í nógu
að snúast innan kvikmyndageirans í
Danmörku. Hún hefur m.a. aðstoðað
við kvikmyndatöku Far til fire, sem
var mest sótta kvikmyndin þar í
landi í fyrra og The Substitute,
nýjustu mynd Ole Bornedal, sem
gerði hina frægu Nattevagten. Katrín
Björk stefnir á meistaranám í kvik-
myndatöku, en eins og Jón Gunnar
Ólafsson komst að í samtali við hana
ráða karlmenn yfirleitt enn ríkjum
á bakvið tökuvélina.
Baldvin Z og Katrín Björk að störfum við
gerð auglýsinganna fyrir Kjarnafæði.
Ljósmynd/Tina Kristensen
Starf annars aðstoðarmanns kvik-
myndatökumanns, eða C Fotograf eins
og það kallast í Danmörku, er líkamlega
mjög erfitt. Hér burðast Katrín Björk
með hluta kvikmyndabúnaðarins.
„Mér var gefið gott auga. Ég elska ljós og skugga og hugsa í myndum,“ segir Katrín Björk.
Höfundur er fréttaritari Morgunblaðsins.