Morgunblaðið - 23.07.2006, Síða 13
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23. JÚLÍ 2006 13
sem fluttir voru á vettvang með
þyrlum tóku lykilsvæði, þ. á m.
herflugvöllinn El Gamil, við skipa-
skurðinn 5. nóvember. Daginn eft-
ir var samið vopnahlé. Alls féllu
nær 2000 manns í átökunum, lang-
flestir þeirra Egyptar og mikið
tjón varð á mannvirkjum, aðallega
í Port Said.
Innbyrðis misklíð vegna málsins
hjá Vesturveldunum varð enn
heiftarlegri þegar vopnaviðskiptin
hófust. Þegar Frakkar og Bretar
beittu neitunarvaldi sínu hjá ör-
yggisráði SÞ gegn tillögu þar sem
krafist var tafarlauss vopnahlés
leituðu Bandaríkjamenn til alls-
herjarþingsins. Þar var tillagan
samþykkt með þorra atkvæða og
keppinautarnir tveir í kalda stríð-
inu, Bandaríkin og Sovétríkin,
stóðu þá saman gegn Evrópuveld-
unum tveim og Ísrael.
Áróðursstaða gamalla nýlendu-
velda var ekki góð á fundum Sam-
einuðu þjóðanna þar sem æ fleiri
nýfrjálsar þjóðir höfðu nú fulltrúa
og hneigðust til að líta á Egypta
sem fórnarlömb gamalla kúgara.
Bretar fullyrtu m.a. að Egyptar
hefðu ekki tækniþekkingu til að
reka skurðinn og slík móðgun féll
ekki aðeins í grýttan jarðveg í
Kaíró heldur víða í gömlum ný-
lendum. Kröfur um að skurðurinn
yrði rekinn af alþjóðlegri stofnun
fengu lítinn hljómgrunn annars
staðar en í Bretlandi og Frakk-
landi.
Nasser braut ekki alþjóðalög
Eitt af því sem líka gerði auð-
veldara að verja málstað Egypta
var að þjóðnýting þeirra á eignum
Súez-félagsins alþjóðlega, sem rak
skurðinn, var að áliti lögfræðinga
um allan heim ekki brot á neinum
alþjóðalögum. Jafnvel lögfræðing-
ar bresku stjórnarinnar voru sam-
mála um það, hvað sem leið op-
inberum áróðri Edens um að
aðgerðir Nassers væru brot á al-
þjóðalögum. Aðgerðinni mátti ein-
faldlega líkja við eignarnám og
Nasser bauð fullar bætur fyrir
eignirnar. Hann benti einnig á að
samningur sem gerður hafði verið
á fjórða áratugnum um yfirráð
mannvirkisins og Bretar höfðu
samþykkt væri nú runninn út.
Egyptar hefðu einfaldlega ákveðið
að framlengja hann ekki.
„Súezdeilan hefur ekki endilega
breytt svo miklu um stöðu okkar
en hún hefur afhjúpað veru-
leikann,“ sagði íhaldsmaðurinn
Eden þegar deilan var á enda.
Nokkuð skiptar skoðanir voru í
bresku stjórninni um harðlínu-
stefnu Edens gagnvart Nasser og
einn af ráðherrunum sagði beinlín-
is af sér. Nú er fyrir löngu orðið
ljóst að Eden laug blákalt að þingi
og þjóð þegar hann neitaði að haft
hefði verið samráð um árásina fyr-
irfram við Ísraela. Eden hafði ver-
ið utanríkisráðherra í seinni
heimsstyrjöld og taldi Nasser vera
ógn við frið og stöðugleika, rétt
eins og einræðisherrarnir Mussol-
ini og Hitler á sínum tíma. Þeir
hefðu ekki verið stöðvaðir í tæka
tíð en nú mættu menn ekki end-
urtaka þau mistök.
Eden hrökklaðist úr embætti ár-
ið eftir deiluna og sömu örlög
hlaut starfsbróðir hans í Frakk-
landi, Guy Mollet, en David Ben
Gurion í Ísrael hélt þar velli. Eden
þótti mistakast herfilega í Súez-
deilunni en þess ber að gæta að
hann var heilsuveill og auk þess
hefur komið í ljós að hann notaði
ótæpilega örvandi lyf, benzedrine,
sem gæti hafa valdið einkennileg-
um viðbrögðum hans og vanstill-
ingu í sumum tilfellum.
Athyglisvert er að Eden lagði
stund á arabísku og persnesku á
háskólaárum sínum en bent hefur
verið á að það sem helst hafi vald-
ið mistökunum hafi verið skiln-
ingsleysi ráðamanna í London og
París á þankagangi fólks í Mið-
Austurlöndum. Þeir höfðu langa
reynslu af því að meta hernaðar-
legt mikilvægi svæðisins og olíu-
hagsmunina en höfðu sjaldan leitt
hugann að almenningsálitinu í um-
ræddum löndum. Það reyndist
hins vegar helsta vopn Nassers.
Eden flutti útvarpsræðu í byrj-
un nóvember, þegar átökin stóðu
sem hæst við Súezskurðinn. Hann
lagði áherslu á að hann hefði alla
sína pólitísku ævi verið talsmaður
friðar og stutt ákaft bæði Þjóða-
bandalagið burtsofnaða og nú arf-
takann, SÞ. Þessi viðhorf sín væru
óbreytt þótt hann hefði staðið fyrir
árásinni á Egyptaland.
„Ég gæti ekki verið öðruvísi
maður, jafnvel þótt ég reyndi það
en ég er algerlega sannfærður um
að þær aðgerðir sem við höfum nú
gripið til eru réttmætar,“ sagði
hann.
Eden var að sögn Douglas
Hurd, fyrrverandi utanríkisráð-
herra Bretlands, ekki arkitekt
þeirrar hugmyndar að gera leyni-
legan samning Breta, Frakka og
Ísraela um árás á Egyptaland.
Hún kom upprunalega frá Frökk-
um en Eden leist strax vel á hana.
Edward Heath, fyrrverandi for-
sætisráðherra Bretlands og sam-
verkamaður Edens á þessum tíma,
segir í endurminningum sínum að
Eden hafi ávallt hneigst til að trúa
öllum upplýsingum leyniþjónustu-
manna um veika stöðu Nassers
heima fyrir en hunsað ábendingar
sem bentu til hins gagnstæða.
Reyndar neitaði Eden til æviloka
1977 að Sevres-samningurinn svo-
nefndi hefði nokkurn tíma verið
gerður, hann skipaði einum af
embættismönnum sínum að eyða
eintaki Breta, að sögn Heaths. En
eintak Ísraela fannst fyrir nokkr-
um árum á safni þar í landi.
Sameiginlegir hagsmunir
Ísraelar og Frakkar höfðu ekki
síður en Bretar ástæður til að
amast við Nasser. Forsetinn leyfði
ekki Ísraelum að láta skip sín sigla
um Súezskurðinn og kom einnig í
veg fyrir að þeir gætu nýtt sér ísr-
aelsku hafnarborgina Eilat við
Rauðahafið. Forsetinn studdi auk
þess við bakið á vígahópum sem
gerðu árásir á Ísrael frá Sinaí og
Gaza-spildunni sem þá var undir
stjórn Egyptalands. Hundruð þús-
unda palestínskra flóttamanna
höfðu sest að á Gaza.
Þetta varð til þess að Ísraelar
vildu veita Nasser ráðningu og
þeir voru því fúsir að hlusta á hug-
myndir um árás á Egyptaland sem
ekki síst átti að verða til að grafa
undan Nasser og áhrifum hans
auk þess að treysta tökin á Súez-
skurðinum. Frakkar áttu um þetta
leyti í höggi við uppreisnarmenn í
Alsír og víðar í nýlendum sínum
og vissu að sjálfstæðissinnar fengu
hjálp frá Nasser.
Hagsmunir ríkjanna þriggja
fóru saman, þau vildu öll losna við
Nasser auk þess sem þau vildu
tryggja frjálsar siglingar um Súez-
skurð. Hernaðurinn sjálfur gekk
eins og áætlað hafði verið en það
sem brást var pólitíska víddin, þar
brast ráðamenn Breta og Frakka
dómgreind og undirbúningur fyrir
eftirleik hernaðarins var í skötu-
líki. Umheimurinn snerist gegn
árásaraðilunum, Nasser lét sökkva
um 40 skipum sem voru á leið um
Súezskurðinn þegar árásin var
gerð og gerði skipaleiðina þannig
ónothæfa í nokkra mánuði. Flest
arabaríki slitu stjórnmálatengsl
við Breta og Frakka, Sádi-Arabar
neituðu að selja þeim olíu og
skammta varð olíu og bensín í
Vestur-Evrópu.
Sex vikum eftir að aðgerðin
hófst drógu árásarþjóðirnar síð-
ustu hermenn sína á brott frá
skurðinum. Svo fór að sent var al-
þjóðlegt friðargæslulið á vettvang
í Egyptalandi til að tryggja vopna-
hléið, fyrsta gæslulið sinnar teg-
undar í sögu Sameinuðu þjóðanna.
kjon@mbl.is
Dagur Tími Lið Völlur
19:15 ÍA – Keflavík Akranesvöllur
19:15 KA – Þróttur Akureyrarvöllur
19:15 Valur – Víkingur Laugardalsvöllur
19:15 KR – ÍBV KR-völlur
8 LIÐA ÚRSLIT
Sunnudagur
23. júlí 2006
Mánudagur
24. júlí 2006