Morgunblaðið - 18.02.2007, Side 12
12 SUNNUDAGUR 18. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
segir frá í fyrsta skipti þegar það er þrítugt, fer-
tugt eða fimmtugt. Heimurinn hefur batnað að
þessu leyti,“ útskýrir Vigdís.
„Nú veit maður ekki nógu mikið um þá þætti
sem skipta mestu máli varðandi framtíð-
arhorfur þeirra sem verða fyrir þessu. Þær
breytur sem þó er vitað að spá fyrir um afleið-
ingar eru: Hvernig brást umhverfið við þegar
barnið sagði frá? Hversu lengi hafði ofbeldið
staðið yfir? Hversu nákominn var gerandinn
þolandanum? Var það einhver sem barnið lagði
traust sitt á eða einhver utanaðkomandi?
Hversu mikill aldursmunur var á milli geranda
og þolanda. Þetta eru allt þættir sem rann-
sóknir hafa leitt í ljós að skipti máli í því hvaða
afleiðinga er að vænta. Svo skipta persónu-
leikaþættir þolandans miklu máli um hvernig
honum tekst að vinna úr þessu.“
Er hægt að fullyrða eitthvað um ákveðnar af-
leiðingar?
„Það er algjörlega útilokað að fullyrða um
eitthvert heilkenni sem fólk sýni hafi það orðið
fyrir kynferðisofbeldi. Sumir sýna engin ein-
kenni af neinu tagi og eiga ekki í neinum vanda
eftir það. Það má ekki gleyma því að sumir virð-
ast komast nokkuð heilir í gegnum svona lífs-
reynslu, jafnvel án þess að fá utanaðkomandi
hjálp. En svo eru fleiri sem þurfa aðstoð til að
jafna sig. Fólk er svo mismunandi, aðstæður
ólíkar sem og eðli brotanna. Það er mjög erfitt
að spá fyrir um afleiðingarnar en hægt er að
leiða getum að því og segja hvað er algengt.“
Algengar afleiðingar
Og hvaða afleiðingar eru algengar?
„Átraskanir koma stundum fram hjá stelp-
um, sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Alls
konar hegðunarvandamál geta sést hjá þol-
endum – svo sem erfiðleikar með að treysta
öðru fólki og ýmis tilfinningaleg vandamál,
þunglyndi og sjálfskaðandi hegðun. Kynferð-
islegt hömluleysi sést stundum eða erfiðleikar í
tengslum við kynlíf. Fullorðnar konur, sem hafa
þolað kynferðisofbeldi annaðhvort sem ungling-
ar eða börn, eiga stundum erfitt í tengslum við
meðgöngur og fæðingar. Kvenskoðun getur
verið mörgum erfið. Börn geta einangrað sig, til
dæmis átt erfitt með að umgangast jafnaldra og
vini, orðið ofbeldishneigð og reið, leið og hvað-
eina. Vanlíðan hefur svo mörg birtingarform.
Lítil börn, þessi yngstu, sýna oft kynferðislega
hegðun, sem er óvenjuleg miðað við aldur og
þroska. Börn geta fengið martraðir, byrjað aft-
ur að væta rúmið eða misst tök á færni sem þau
hafa verið búin að tileinka sér. Líkamlegar um-
kvartanir sem ekki eiga sér læknisfræðilegar
skýringar eru jafnframt algengar hjá börnum
sem líður illa.“
Dæmi um alvarlegar afleiðingar kynferðisof-
beldis og vanrækslu hafa sýnt sig í tengslum við
meðferð drengja á barnaheimili í Breiðavík.
„Breiðavíkurmálið ætti að geta leitt mönnum
fyrir sjónir hversu alvarleg þessi mál eru og
hversu djúp spor í líf fólks það getur markað að
búa við slæman aðbúnað og misnotkun sem
barn. Mér finnst umhugsunarefni fyrir allt fólk í
sambandi við Breiðavíkurmálið að þarna stíga
fram karlmenn á miðjum aldri, sem geta sagt
frá harðræði og erfiðum lífskjörum og heimilis-
aðstæðum en þegar þeir tala um kynferðisof-
beldið þá fara þeir að gráta. Svona lífsreynsla
virðist sitja mjög í fólki og það er ástæða til að
átta sig á því.“
Nú virðist umræðan um kynferðisofbeldi
vera að opnast og auðveldara að ræða þessi mál
í samfélaginu. Er eitthvað sem þú getur ráðlagt
til að opna umræðuna frekar?
„Ég myndi ráðleggja sálfræðingum, kven-
sjúkdómalæknum, geðlæknum og öðrum þeim
sem vinna með börn og fullorðna, sem leita til
þeirra vegna vanlíðunar, að spyrja fólk hvort
það hafi orðið fyrir misnotkun. Almennt virðist
það ekki vera gert. Mér finnst það sjálfsagður
hlutur að þetta sé eðlileg spurning. Ég heyri
það á skjólstæðingum mínum. Þegar ég spyr
hvort þeir hafi hugleitt að segja frá misnotk-
uninni áður segjast þeir aldrei hafa verið spurð-
ir. Það þarf að skapa fólki vettvang til að segja
frá því þetta er stór þröskuldur fyrir fólk að
fara yfir.“
Kynferðisbrotamaður í hverju hverfi
Kynferðisbrot geta átt sér stað hvar sem er.
„Ef að er gáð gerist kynferðisofbeldi í flestum
tilvikum á stöðum sem börn telja sig vera
örugg, eins og á heimili þeirra. Fólk þarf að átta
sig á því að svona hlutir geta gerst hvar sem er,
alls staðar sem börn eru. Mér finnst þessi um-
ræða sem komst á kreik í kjölfar Kompáss-
þáttar ekki gagnleg. Fólk hrópar yfir því að
hafa ekki verið upplýst um að það væri kynferð-
isbrotamaður í hverfinu. Ég treysti mér til að
upplýsa um það hér og nú að það er kynferð-
isbrotamaður í hverju hverfi. Þannig að það
þarf ekki neinn sjónvarpsþátt til að upplýsa fólk
um það. Það að vita hvað hann heitir eða hvern-
ig hann lítur út breytir litlu sem engu um hvern-
ig fólk getur verndað börnin sín.“
Er það jafnvel falskt öryggi?
„Já, það er það. Þeir eru þarna á ferðinni og
það þurfa foreldrar að upplýsa börnin sín um.
Það þarf að upplýsa börnin á hispurslausan og
einfaldan hátt þannig að börnin viti hvað við sé
átt. Börn þurfa að læra að bregðast við ef ein-
hver fer inn fyrir landhelgi þeirra. Það þýðir
ekki að vera með neinn tepruskap. Það þarf að
nota þau orð sem börnin skilja en ekki eitthvert
rósamál. Fræðslan þarf að vera skýr.“
Henni finnst að leggja mætti frekari áherslu
á að fræða þá sem eru að mennta sig í því að
sinna börnum. „Gera fólk í stakk búið að fjalla
opinskátt um þessa hluti við börn. Það þykir
eðlilegt og sjálfsagt í leikskólum að kenna börn-
um umferðarreglunar. Ég hef ekki hitt það
barn sem er orðið fjögurra ára og kemur hingað
sem kann ekki umferðarreglunar. Þetta eru líka
mjög mikilvægar umferðarreglur í þessari
dagsdaglegu umferð.“
Byrgja heldur brunninn
Vigdís vildi gjarnan leggja meiri áherslu á
fyrirbyggjandi starf. „Eins og sakir standa er-
um við að fást við mál sem er vísað hingað.
Barnið er dottið í brunninn. Það væri verðugt
verkefni og skemmtilegt að geta byrgt brunn-
inn,“ segir hún en sem stendur er það ekki hlut-
verk Barnahúss.
„Mér sýnist vinnuálag þeirra sem vinna í
barnaverndarmálum oft vera mikið. Ég velti
fyrir mér hvort að það sé nægilegur mannafli í
þessum málaflokki,“ svarar hún aðspurð um
hvað sé hægt að gera betur.
Hún hefur góða innsýn í barnaverndarmál en
fyrsta starf hennar sem útskrifaður sálfræð-
ingur var hjá barnaverndarnefnd Reykjanes-
bæjar. „Þar fékk ég að kynnast því að vinna að
barnavernd og það var mjög gagnlegur bak-
grunnur fyrir starfið sem ég gegni nú,“ segir
Vigdís, sem er einnig útskrifaður hjúkr-
unarfræðingur og hefur starfað sem slíkur.
Hlutverk Barnahúss er m.a. að aðstoða
barnaverndarnefndir. „Við aðstoðum nefnd-
irnar og erum líka dómstólum til aðstoðar við
skýrslutöku á þolendum,“ segir hún og er það
nokkuð stór hluti starfsins.
Eitt af markmiðum Barnahúss er að skapa
vettvang fyrir samstarf og samhæfingu stofn-
ana sem bera ábyrgð á rannsókn og meðferð
mála er varða kynferðisofbeldi gegn börnum.
„Hugmyndin er fengin frá Bandaríkjunum en
Norðurlöndin hafa verið að horfa til þessarar
starfsemi í því skyni til að koma einhverju hlið-
stæðu á laggirnar þar. Svíar hafa nú þegar
komið af stað sex svipuðum húsum, sem eru til-
raunaverkefni og eru ekki öll eins,“ segir hún.
„Það sem við gerum líka í stórum stíl er að
sinna meðferð barna sem hafa orðið fyrir kyn-
ferðisbrotum. Það er stærsti hlutinn af okkar
starfi. Svo erum við líka með ráðgjöf við bæði
lærða og leikmenn.“
Geturðu lýst því hvernig meðferð fer fram?
„Okkar nálgun er hugræn atferlismeðferð.
Við ætlum okkur þrjú, fjögur viðtöl í að afla
upplýsinga og sjá hvernig er ástatt fyrir
barninu, leggja fyrir það ýmsa spurningalista
og jafnvel einhver sálfræðileg próf ef það er
mögulegt og meta hvað þarf að gera. Svo leggj-
um við upp meðferð, miðum gjarnan við tíu tíma
í venjulegu máli en að sjálfsögðu metum við það
í hverju tilfelli fyrir sig.“
Þegar barnið í viðtalinu er jafnframt þolandi í
máli sem sætir opinberri rannsókn þarf að gera
sérstakar ráðstafanir. „Þá þarf sérfræðingurinn
að vera viðbúinn því að mæta fyrir dóm og geta
gert grein fyrir því sem hann varð vísari í með-
ferðinni,“ segir hún en í því felst að greina frá
greiningaraðferðum og meðhöndlun.
„Það þarf sérfræðingurinn að geta gert á
þann hátt að leikmenn skilji því dómarar, sak-
sóknarar, verjendur og réttargæslumenn eru
ekki sálfræðingar. Þetta kemur til ekki síst
vegna bótakröfunnar því réttargæslumaður
barnsins gerir kröfu um miskabætur barninu til
handa úr ríkissjóði. Vegna þessarar miskabóta-
kröfu er mikilvægt að það liggi fyrir vottorð um
ástand barnsins.“
Vanda betur til rannsókna
Almenningsálitið virðist vera á þann veg að
dómar sem falla í kynferðisbrotamálum séu of
vægir. Vigdís telur að það hafi með tíð og tíma
einhver áhrif á dómaframkvæmdina. „En ég tel
ekki að vægir dómar séu stærsta vandamálið.
Mér finnst mikilvægt að vanda til lögreglurann-
sókna í þessum málum. Ég tel að stundum líði
þau fyrir að hafa ekki verið rannsökuð nægilega
hratt og vel. Það getur hugsanlega leitt til þess
að ekki sé ákært vegna þess að með rannsókn-
inni sé ekki búið að afla nægilega mikilla og ít-
arlega gagna. Í sumum tilvikum, og kannski oft-
ar en er gert, þyrfti að gera húsleit til að athuga
hvort það sé barnaklám í tölvum,“ segir Vigdís
sem finnst jafnframt mikilvægt að börn eigi
ekki að þurfa að bíða eftir skýrslutöku.
„Mér finnst líka að það eigi að taka skýrslur
af börnunum eins fljótt og auðið er og fyrr en nú
er gert. Ég sá í einu máli um daginn að fimm
ára barn beið í níu daga með að gefa skýrslu.
Það er langur tími fyrir fimm ára barn. Ég hefði
talið að það ætti að taka skýrslu af barninu
sama dag og það segir frá. Því má heldur ekki
gleyma að það er íþyngjandi fyrir barnið og að-
standendur að bíða svo dögum skiptir eftir
skýrslutökunni.“
Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Í HNOTSKURN
»Barnahús hóf starfsemi 1. nóvember1998. Frá upphafi hafa meira en þús-
und börn notið þjónustu Barnahúss,
samkvæmt upplýsingum úr nýjustu árs-
skýrslu Barnaverndarstofu, fyrir árin
2004–5.
»Stúlkur eru í miklum meirihlutaþeirra barna sem koma í Barnahús,
eða um 70%.
»Talsverð fjölgun var á greiningar-og meðferðarviðtölum árið 2005,
eða 44% aukning miðað við árið áður.
Fjölgunin var aðallega hjá stúlkum á
aldrinum 10–18 ára.
»Flest börn sem komu í skýrslutökufyrir dómi í Barnahúsi greindu frá
kynferðisofbeldi eða tæplega 90%.
»Meintir gerendur í málum þeirrabarna sem greindu frá kynferðisof-
beldi í skýrslutöku fyrir dómi voru á
aldrinum 15–86 ára og var meðalaldur
34 ár. Alls voru sjö gerendur á aldrinum
15–18 ára, á árinu 2004. Tölurnar eru
mjög svipaðar fyrir árið 2005.
»Þegar skoðuð eru tengsl geranda ogþolanda kynferðisofbeldis árið 2004
kemur í ljós að í 85% tilvika þekkir ger-
andi til barns, þ.e. annað hvort tengdur
barninu fjölskylduböndum eða er því
kunnugur á annan hátt. Árið 2005 var
hlutfallið 87%. Mjög sjaldgæft er að ger-
endur kynferðisbrota séu barninu
ókunnugir með öllu.
»Mér finnst umhugsunarefni fyrir allt fólk í sambandi við
Breiðavíkurmálið að þarna stíga fram karlmenn á miðjum
aldri, sem geta sagt frá harðræði og erfiðum lífskjörum og heim-
ilisaðstæðum en þegar þeir tala um kynferðisofbeldið þá fara
þeir að gráta. Svona lífsreynsla virðist sitja mjög í fólki og það er
ástæða til að átta sig á því.
SÁLRÆNAR AFLEIÐINGAR KYNFERÐISOFBELDIS