Morgunblaðið - 16.12.2007, Qupperneq 48
48 SUNNUDAGUR 16. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
Eftir Ásgeir H Ingólfsson
asgeirhi@mbl.is
Í HUGUM flestra eru ritstörf ansi
einmanaleg iðja og flestir höf-
undar koma aðeins upp á yfirborð-
ið rétt fyrir jól þegar þeir eiga
bækur til að kynna – og viðtöl
vegna þessara bóka takmarkast
langoftast við téða höfunda. En
þótt vissulega vinni höfundar mik-
ið einir eru þeir þó miklu fleiri
sem koma að gerð einnar bókar,
fjöldi sem er vissulega afar mis-
jafn eftir stærð, umfangi og eðli
verks.
Góðir yfirlesarar eru til dæmis
flestum höfundum mikilvægir, sem
og einhver sem hvetur skáldin
áfram, sérstaklega þegar fyrstu
sporin eru tekin. Gagnvart fjöl-
mörgum ungskáldum síðustu ára-
tuga hefur Þórður Helgason sinnt
þessu hlutverki og fyrir skemmstu
hélt skáldafélagið Nykur sérstaka
Þórðarvöku í tilefni sextíu ára af-
mælis Þórðar – og að sögn Emils
Hjörvars Petersen, eins forsvars-
manna Nykurs, tókst vakan svo
vel að rætt er um að gera Þórð-
arvöku að árlegum viðburði og um
leið eins konar uppskeruhátíð
Nykranna, sem á þessu ári hafa
sent frá sér fimm bækur.
En hvaða bókum ætli Þórður
hafi komið nálægt fyrir þessi jól?
„Þær eru nokkrar,“ segir Þórður
mér og telur upp Vaxandi nánd
eftir Guðmund Óskarsson,
Fimmtu árstíðina eftir Toshiki
Toma og Leitina að Fjalla-Eyvindi
eftir Höllu Gunnarsdóttur, en auk
þessara hefur hann prófarkalesið
fjölda bóka og er að gefa út eina
barnabók sjálfur. „Hún heitir
Smárarnir og er um lítinn strák
sem getur ekki sagt stafinn s. En
hann leitar nafna síns, fjögurra
laufa smára, sem maður getur
notað til að óska sér einhvers með
finni maður hann.“ Þórður hefur
gefið út nokkrar barna- og ung-
lingabækur áður og fjórar ljóða-
bækur að auki og segist hafa í
hyggju að fjölga þeim.
Uppreisn gegn
gömlum bókum
En hvernig rataði Þórður í
þetta hlutverk yfirlesara og
skáldafræðara? „Ég hef verið
kennari síðan elstu menn muna og
varð fljótlega var við það að nem-
endur mínir voru að skrifa og
langaði til að fá einhverjar leið-
beiningar, þannig byrjaði þetta.
Ég kenndi þá í Verslunarskól-
anum og þetta fór mjög vel af
stað, ég gaf út bók á hverju ein-
asta ári með ljóðum nemenda
minna í Verslunarskólanum, Ljóð-
drekar hétu þær. Þegar ég fór svo
að kenna í Kennaraháskólanum
byrjaði ég strax að halda nám-
skeið fyrir þá sem vildu tjá sig
með ljóðum og það hefur gengið
afar vel síðan. Út hafa komið 13
ljóðabækur nemenda minna, þær
heita Nemaljóð og sögur.“ Og
hvernig skilar þetta sér niður í
grunnskólana? „Þessu er sinnt
prýðilega í mjög mörgum grunn-
skólum, ég held við getum slegið
því föstu. Það var auðvitað þess
vegna sem ég fór að kenna þetta í
Kennaraháskóla Íslands – ég
treysti því náttúrlega að nem-
endur mínir hér færu með þetta
út í sína eigin skóla þegar þar að
kæmi.“
Ástandið var þó ekki gott þegar
Þórður byrjaði að kenna árið 1972.
„Þá fengum við í hendur gömlu ís-
lensku Lestrarbókina enn einu
sinni, það var ekki von til að aum-
ingja börnin og unglingarnir sam-
sömuðu sig einu né neinu þarna
enda ferlega gamaldags og upp-
fullt af þjóðernishyggju og öðru
efni sem engan veginn höfðaði til
nýrrar kynslóðar. En auðvitað
vildi ungt fólk fá eitthvað sem
tengdist þess eigin lífi, þess vegna
var sjálfsagt að flestir góðir kenn-
arar færu að skipta um ljóð og
ljósrita jafnvel upp úr nýjum
ljóðabókum. Um leið og nemendur
sáu nýrri ljóð fundu þeir að þeir
gátu reynt sjálfir. En við fengum
algjörlega kolvitlausar hugmyndir
um ljóðagerð og hlutverk skálda
þegar ég var í grunnskóla og
framhaldsskóla og lásum fyrst og
fremst eldgamalt efni.“
Ljóðið í blóma
Þórður hefur lengi verið sam-
ferða ungskáldafélaginu Nykri,
lesið yfir fyrir skáldin og hvatt
þau til dáða, en saga Nykurs hófst
með þeim Andra Snæ Magnasyni
og Davíð Stefánssyni og hefur fé-
lagið gengið í endurnýjun lífdaga
með nýrri kynslóð.
„Þarna hefur átt sér stað gríð-
arleg gerjun, ungu skáldin koma
fram hvert á fætur öðru með
margar frábærar bækur oft. Það
er mjög mikið að gerast og hefur
alltaf verið – og alveg sérstaklega
núna,“ segir Þórður og bætir við:
„Ljóðið hefur alltaf verið tjáning
unga fólksins. Langflest þeirra
skálda sem gefa út skáldsögur
byrja sem ljóðskáld – það er nán-
ast regla. Ljóðið er tjáning ungs
fólks.“
Tjáning unga fólksins
MENNING
Morgunblaðið/Kristinn
Bækur við bak Þórður Helgason er áberandi baksviðs í ljóðlist ungskálda.
Í 101 galleríi stendur nú yfir samsýning nokk-
urra ungra listamanna sem hafa áður sýnt hjá
galleríinu. Yfirbragð sýningarinnar er nokkuð
lágstemmt og upplýsingar um listamenn og
verk þeirra af skornum skammti. Starfsmaður
gallerísins benti þó á heimasíðuna 101hotel.is
– 101gallery, þar sem sjá má myndir frá
einkasýningum listamannanna í galleríinu.
Slíkur bakgrunnur er oft ómissandi þegar
verk ungra listamanna eru sýnd þar sem
margir listunnendur ná ekki að sjá allar inn-
lendar sýningar.
Verkum Stephans Stephensen fylgja upp-
lýsingar um tilurð myndanna sem hafa orðið
til í áhugaverðu ferli frá lifandi gjörningi til
eigulegs myndlistarverks. Verk annarra á
sýningunni vísa sterklega til vaxandi persónu-
legra höfundarverka þeirra sem eru óðum að
festast í sessi í íslensku myndlistarlífi. Þar má
nefna bráðnandi drauga Guðmundar Thorodd-
sen sem kallast á við glassúrkenndar eða
hrjúfar eldfjallavörður Söru Riel. Ekki er
laust við að hugmyndin um hlýnun jarðar sé
farin að bitna á ímyndunaraflinu, í það
minnsta bræða þá kaldhæðni sem hefur verið
áberandi í samtímalistinni um langt skeið.
Myndheimur myndlistarmannanna á það sam-
eiginlegt að sækja til ævintýra bernskunnar
og máta þau við óra hinna fullorðnu um lífið
og tilveruna. Í þessu felast persónurannsóknir
Lóu Hjálmtýsdóttur í formi dúkkulísa og út-
færsla Helga Þórssonar á Jónasi Hallgríms-
syni í líki frumskógarfígúru. Verk Rakelar
Gunnarsdóttur virðast óræðar og allt að því
skítugar vísanir í mótsagnakenndar ímyndir
bernskunnar, eins og gamall leikfangakassi sé
dreginn upp úr geymslunni með blendnu hug-
arfari.
Samsýning ungra
og upprennandi
MYNDLIST
101 gallerí
Sýningin stendur til 3. janúar. Opið þriðjudaga til
laugardaga frá kl. 14 til 18.
Samsýning: Stephan Stephensen, Rakel Gunn-
arsdóttir, Lóa Hjálmtýsdóttir, Guðmundur Thorodd-
sen, Helgi Þórsson, Sara Riel.
Morgunblaðið/Golli
Augu Bráðnandi
draugar Guðmundar
Thoroddsen. Hvað
verður um drauga þeg-
ar þeir bráðna?
Þóra Þórisdóttir Morgunblaðið/Kristinn
Glassúrkennt Eld-
fjallavörður Söru Riel
virða fyrir sér lista-
verk í listaverkinu.
Eftir Helga Snæ Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
SMEKKLEYSA gaf þann
13. desember sl. út geisla-
diskinn Granit Games. Á
honum leikur Tinna Þor-
steinsdóttir íslenska píanó-
tónlist og gefur diskurinn
innsýn í fjölbreytilegan
heim íslenskra tónskálda.
Öll verkanna nema eitt
eru samin sérstaklega fyr-
ir Tinnu og diskurinn heit-
ir eftir verki Mistar Þor-
kelsdóttur, sem finna má á
disknum. Tinna segir að
sér finnist nafnið eiga vel
við diskinn. „Kannski út af
því að nafnið mitt er falið í
titlinum og svo fannst mér
það hljómfagurt,“ segir
Tinna.
Spilarðu ein eða eru
fleiri með á disknum?
„Þetta er fyrsti eiginlegi
sólódiskurinn minn, en svo
er það þannig að ég er
ekki alveg ein, því í þremur verk-
anna er ég með meðleikara í formi
tölvu, sem er afar góður samstarfs-
aðili. Svo er þetta sem betur fer
alltaf náin samvinna með þeim tón-
skáldum sem hlut eiga að máli.“
Þú ert þekkt fyrir að spila nýja
tónlist – eru þetta allt ný verk?
„Þetta er blandaður diskur að
nokkru leyti og einskonar flökku-
saga, en öll verkin á honum eru
eftir íslensk tónskáld. Á honum er
að finna „Fjögur stykki, op. 2“ eft-
ir Jón Leifs frá árinu 1922, sem er
langelsta verkið. En íslensk þjóð-
lög koma líka fyrir í tveimur öðr-
um verkum, verki Áskels Másson-
ar, „Fantasiestück“, en það byggir
hann m.a. á þjóðlagi úr Önund-
arfirði, og svo er að finna á disk-
inum útsetningu Karólínu Eiríks-
dóttur á þjóðlaginu „Enginn lái
öðrum frekt“, sem er einstaklega
fallegt lag og allir þekkja.
Annars eru þetta jú ný verk, allt
verk sem ég hef pantað af tón-
skáldunum, nema verk Jóns
Leifs … og skalinn er býsna fjöl-
breyttur – ja, frá Jóni Leifs til
ungu kynslóðarinnar og allt þar á
milli.“
Er eitthvað hægt að segja um
hvernig ný músík lítur út í dag?
„Ný músík er svo rosalega fjöl-
breytt í dag að það er varla hægt
að flokka hana í skúffur, sem gerir
þennan heim líka svo heillandi og
spennandi finnst mér. Það má gera
beinlínis allt! Áhrif úr öllum geir-
um tónlistar samtvinnuð, nú eða
ekki, og svo mætti lengi telja,“ seg-
ir Tinna að lokum.
Allt frá Jóni Leifs til
ungu kynslóðarinnar
Granít Tinna Þorsteinsdóttir píanóleikari.
Morgunblaðið/ÞÖK