Morgunblaðið - 16.12.2007, Blaðsíða 52
52 SUNNUDAGUR 16. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
UMRÆÐAN
UMHVERFIS- og skipulagsmál
snerta okkur öll á margvíslegan
hátt og hafa mikil áhrif á velferð
okkar og öryggi. Þrátt fyrir það hef-
ur efnið ekki verið mikið til umræðu
í fjölmiðlum. Þess vegna lásum við
grein ráðherrans af athygli. Mál-
flutningurinn olli okkur vonbrigðum
og því viljum við setja fram nokkur
mikilvæg atriði, staðreyndir og
sjónarmið, sem eiga erindi í um-
ræðuna.
Fjölþætt skipulagsmál
Skipulagsfræðin eru fjölþætt fag
sem ásamt umferðarkerfi eru flétt-
uð úr félagslegum, hagrænum, vist-
fræðilegum og fagurfræðilegum
þáttum. Gæði skipulagsins ræðst
svo að verulegu leyti af því hvaða
vægi við gefum þeim. Ætlun okkar
er ekki að gera lítið úr mikilvægi
umferðarkerfisins í borgarskipu-
lagi, enda gegnir það því lykilhlut-
verki að koma íbúum og vörum á
milli staða. Hins vegar verður ekki
fjallað um skipulagsmál eingöngu út
frá útfærslu umferðarkerfisins.
Á þessu hefur orðið misbrestur
og fyrir vikið líkist Reykjavík æ
meir þeim borgum Bandaríkjanna
þar sem einkabíllinn ræður ríkjum
og umferðarteppur eru algengar
með tilheyrandi hagrænum og fé-
lagslegum vandamálum.
Vítahringur flokkaða
gatnakerfisins
Flokkað gatnakerfi er skipulags-
kenning sem kom fram um miðja
síðustu öld og var tekin upp víða um
heim, sérstaklega í Bandaríkjunum.
Hugmyndafræðin gengur út á að-
greiningu mismunandi ferðamáta
eftir því hvort fólk er akandi, hjól-
andi eða gangandi. Landnotkunin
er einnig flokkuð eftir því hvort um
er að ræða íbúðarsvæði, verslunar-
og þjónustusvæði eða aðra atvinnu-
starfsemi.
Tilgangurinn er að koma skipu-
lagi á borgirnar, en þrátt fyrir fögur
fyrirheit leiðir stefnan því miður til
stjórnlausrar útþenslu byggðar,
aukinnar umferðar
einkabíla og hnign-
unar almennings-
samgangna. Umferðin
miðast við að farið sé
á milli dreifðra
áfangastaða á einka-
bílnum eftir götum
sem umkringja hverf-
in. Á slíkum tengi- eða
safngötum verður um-
ferðin tiltölulega hröð
og hávaði yfirleitt yfir
viðmiðunarmörkum.
Brugðist er við með
hljóðmönum og þann-
ig fara göturnar að kljúfa í sundur
byggðina, sem aftur veldur erf-
iðleikum við að komast á milli
áfangastaða öðruvísi en á einkabíln-
um.
Í Bandaríkjunum hefur sívaxandi
umferð kallað á viðamikla uppbygg-
ingu umferðarmannvirkja. Nýleg
bandarísk úttekt, sem gerð var á 85
borgum á tímabilinu 1982-2003, sýn-
ir að þrátt fyrir þessa uppbyggingu,
hefur meðaltöf einstaklings sem ek-
ur einkabíl á háannatíma aukist um
200%. Það virðist því næsta óger-
legt að ætla að byggja sig frá um-
ferðarteppunni.
Ný hugsun
Á hinn bóginn býr gatnanet, það
sem einkennir margar evrópskar
borgir, yfir fjölda góðra kosta.
Húsa- og aðalgöturnar mynda þétt
og skjólgóð hverfi með fjölbreyttri
starfsemi, skýru og auðrötuðu
gatnakerfi, heillegri götumynd og
stuttum vegalengdum. Umferð
dreifist jafnt á helstu götur og verð-
ur þar af leiðandi tiltölulega létt.
Þannig nýtist land betur og auð-
veldara er að bjóða upp á annan
ferðamáta en einkabílinn. Slík borg-
arrými, með torgum og aðlaðandi
götumyndum, erum við nær hætt að
sjá í nýrri hverfum hérlendis.
Helmingur lands undir
samgöngur
Í dag sér ekki fyrir endann á um-
ferðarþunganum og miðað við nú-
verandi skipulag má búast við stór-
aukinni bílaumferð á
höfuðborgarsvæðinu næstu 20 árin.
Margir kjósa að sjá lausnina í öfl-
ugri umferðarmannvirkjum í stað
þess að fást við orsakirnar. Þær
liggja m.a. í skipulagi gatnakerf-
isins og þeim þáttum í borg-
arumhverfinu sem ýta undir einka-
bílferðir okkar.
Í Evrópu þykja mislæg gatnamót
og önnur stór umferðarmannvirki
afleit lausn innan borgarmarka.
Undir þau fer mikið og dýrmætt
land og umferðarhraði, hávaði og
mengun aukast. Þau mislægu
gatnamót sem sprottið hafa upp
hérlendis á undanförnum árum má
samkvæmt þessu kalla dreif-
býlislausnir og í Reykjavík-
urdreifbýlinu fer þannig um 48%
lands undir samgöngumannvirki.
Færri kílómetrar –
minni hraði – færri slys
Í riti frá sænsku vegagerðinni frá
2000 kemur m.a. fram að til að
fækka alvarlegum slysum í umferð-
inni verði að fækka eknum kíló-
metrum, minnka ökuhraða og
byggja upp auðratað og rökrænt
gatnanet.
Ef fækka á eknum kílómetrum
liggur beinast við að bjóða upp á
valkosti við einkabílinn, s.s. almenn-
ingssamgöngur og bætta aðstöðu
fyrir hjólreiðafólk og gangandi veg-
farendur. Þá þarf fyrst að skapa
mannvænt umhverfi þar sem byggð
er blönduð og stutt er á milli staða.
Byggja þarf samsíða götum og móta
þétta miðbæjarkjarna með torgum
og fjölskrúðugu umhverfi. Hægt er
að halda í einkenni elsta hluta borg-
arinnar, lágreista en þétta byggð og
ekki þarf að halla verulega á sérbýli
sem búsetukost. Uppbygging á
þessum nótum gefur borgarbúum
færi á að velja sinn eigin ferðamáta
og mun væntanlega draga úr um-
ferð einkabíla í kjölfarið.
Stór hluti einkabílferða á höf-
uðborgarsvæðinu er um og undir 1
km, vegalengd sem tekur með-
almanninn um 12 mínútur að ganga.
Að því sögðu skal það áréttað að
bílaeignin í miðbæ Reykjavíkur og
næsta nágrenni er minni en í útjaðri
borgarinnar. Það er engin tilviljun.
Fjölbreytt og mannvænt umhverfi
er nefnilega forsenda þess að íbúar
taki upp á því að ganga á milli
styttri áfangastaða, hjóla, eða
ganga að biðstöð almenningsvagna.
Niðurlag
Eins og fram hefur komið eru
skipulagsmál mikilvægur og flókinn
málaflokkur sem kemur okkur öll-
um við og hefur gríðarleg áhrif á
daglegt líf fólks. Þess vegna er mál-
efnaleg umræða mikilvæg. Efla þarf
innlendar rannsóknir í borg-
arskipulagi og vanda þarf til verks á
öllum skipulagsstigum þar sem lögð
eru drög að byggðinni í landinu.
Borgarskipulag, umferð og umhverfismál
Hrund Skarphéðinsdóttir og
Gylfi Guðjónsson skrifa í tilefni
af grein Kristjáns Möller í
Morgunblaðinu 8. desember sl.
» Fjölbreytt og mann-vænt umhverfi er
nefnilega forsenda þess
að íbúar taki upp á því
að ganga á milli styttri
áfangastaða, hjóla, eða
ganga að biðstöð al-
menningsvagna.
Hrund
Skarphéðinsdóttir
Hrund Skarphéðinsdóttir er verk-
fræðingur og skipulagsráðgjafi. Gylfi
er arkitekt og skipulagsráðgjafi.
Gylfi
Guðjónsson
EITT fyrsta verk mitt sem fé-
lagsmálaráðherra var að kalla
saman hóp sérfræð-
inga í félagsmála-
ráðuneytinu og full-
trúa Umhyggju og
óska eftir tillögum
um breytingar á
meingölluðum lögum
um stuðning við for-
eldra langveikra eða
alvarlega fatlaðra
barna. Breytt lög eru
nú orðin að veruleika
en þau voru sam-
þykkt á Alþingi nú í
vikunni.
Komið betur
til móts við fjölskyldur
Ég hef lagt megináherslu á að
lögunum sé ætlað að koma til
móts við þá foreldra sem geta
ekki tekið þátt á vinnumarkaði
vegna umönnunar barna sinna
sem hafa greinst með mjög alvar-
lega og langvinna sjúkdóma eða
mjög alvarlegar fatlanir. Þetta á
við óháð þátttöku þeirra á vinnu-
markaði sem og hvenær börnin
hafa greinst langveik eða fötluð.
Er þar með tryggð jöfn staða for-
eldra sem eru í sömu aðstæðum
óháð öðrum ytri þáttum, svo sem
greiningartíma eða atvinnuþátt-
töku, en það var einn af meg-
ingöllum eldri laga að mínu mati.
Lögin gera ráð fyrir tvískiptu
kerfi. Annars vegar tekjutengdu
greiðslukerfi fyrir foreldra sem
eru á vinnumarkaði þegar börn
þeirra greinast langveik eða alvar-
lega fötluð og hins vegar fé-
lagslegu greiðslukerfi sem ætlað
er foreldrum sem geta ekki verið
virkir þátttakendur á vinnumark-
aði til lengri tíma vegna verulegr-
ar umönnunar barna sinna.
Fyrrnefnda kerfinu er ætlað að
stuðla að því að röskun á tekjuinn-
komu fjölskyldna langveikra eða
alvarlega fatlaðra barna verði
sem minnst meðan foreldrar laga
sig að breyttum aðstæðum með
því að tryggja þeim tekjutengdar
greiðslur í allt að sex mánuði.
Greiðslurnar nema um 80% af
meðaltali heildar-
launa foreldra á til-
teknu viðmið-
unartímabili en um
er að ræða sambæri-
legar greiðslur og
gilda innan fæðing-
arorlofskerfisins en
hámarksfjárhæð
þeirra miðast við
tekjur foreldra að
tæplega 650 þús. kr.
Koma þær greiðslur
til viðbótar við þann
rétt sem ein-
staklingar kunna að
eiga í sjúkrasjóðum stéttarfélaga
sinna.
Þetta tel ég mjög mikilvægt at-
riði en félagslega kerfið tel ég
ekki hvað síst fela í sér mjög
þýðingarmikla réttarbót fjöl-
skyldna þessara barna. Um er að
ræða ótímabundinn rétt foreldra
til fjárhagsaðstoðar meðan að-
stæður eru óbreyttar eða barn
nær átján ára aldri. Í eldra kerfi
gat greiðslutímabilið orðið lengst
níu mánuðir þegar lögin áttu að
koma að fullu til framkvæmda á
árinu 2008. Þetta tel ég skipta
mjög miklu máli því það hefur
verið algjörlega óviðunandi að
foreldrar þessara barna hafi ekki
átt rétt á fjárhagsaðstoð frá hinu
opinbera í lengri tíma. Þetta eru
jafnframt foreldrarnir sem glíma
við alvarlegustu veikindin eða
fatlanirnar með börnum sínum.
Innan félagslega kerfisins
kveða lögin á um mánaðarlegar
greiðslur til foreldra mjög alvar-
lega langveikra eða fatlaðra
barna að fjárhæð 130.000 kr.
enda geti foreldrar ekki verið
virkir þátttakendur á vinnumark-
aði vegna verulegrar umönnunar
barna þeirra. Enn fremur gera
lögin ráð fyrir barnagreiðslum að
fjárhæð 18.284 kr. á mánuði með
hverju barni undir átján ára
aldri. Til viðbótar koma til sér-
stakar barnagreiðslur til ein-
stæðra foreldra sem hafa á fram-
færi tvö börn sín eða fleiri yngri
en átján ára að fjárhæð 5.325 kr.
vegna tveggja barna og 13.846 kr.
vegna þriggja barna. Til sam-
anburðar má geta þess að
greiðslurnar á þessu ári innan
kerfisins voru 95.700 kr. á mán-
uði þannig að þarna er verið að
bæta aðstæður foreldra verulega
frá því sem var.
Þá fela lögin í sér nýmæli þar
sem leitast er við að koma betur
til móts við aðstæður foreldra
þegar barn þeirra greinist aftur,
barn þarfnast líknandi meðferðar
eða andast. Að mínu mati eru
þetta allt mikilvægar réttarbætur
enda um að ræða foreldra sem
horfast í augu við gífurlega erf-
iðar aðstæður sem ekkert foreldri
vill þurfa að standa frammi fyrir.
Betur má ef duga skal
Með þessum lögum eru því tek-
in mörg mikilvæg skref fram á
við til að bæta réttarstöðu for-
eldra langveikra barna en mér er
það fullljóst að ekki er nóg að
gert. Það þarf að koma betur til
móts við þær erfiðu aðstæður
sem fjölskyldur langveikra barna
þurfa að horfast í augu við og oft
með litlum eða engum fyrirvara.
Mun ég beita mér fyrir því á
næstu mánuðum að farið verði
heildstætt yfir þjónustukerfið
sem ætlað er þessum fjölskyldum
með það að markmiði að bæta
það.
Mikilvæg réttarbót í höfn
Jóhanna Sigurðardóttir skrifar
um aðgerðir til að koma til
móts við foreldra langveikra
barna
»Með þessum lögumeru því tekin mörg
mikilvæg skref til að
bæta réttarstöðu for-
eldra langveikra barna
Jóhanna Sigurðardóttir
Höfundur er félagsmálaráðherra.
Á UNGLINGSÁRUM mínum
stundaði ég nám í enskuskóla í
Englandi. Ég bjó hjá fjölskyldu
sem hýsti nokkra
nemendur skólans.
Þar var múslimi sem
tók fram bænateppið
sitt fimm sinnum á
dag og baðst fyrir
með því að snúa sér í
átt til Mekka. Eitt
kvöldið fórum við
saman á krá og
drukkum nokkrar
ölkrúsir. Hann sagð-
ist ekki mega drekka
áfengi samkvæmt sið-
um múslima en nú
væri hann fjarri
heimalandinu. Því
gæti hann drukkið.
Síðar kom í ljós að
hann var samkyn-
hneigður.
Ég sat mörgum ár-
um síðar á bekk í
Minneapolis og beið
eftir strætisvagn-
inum. Við hliðina á
mér sat svartasti maður sem ég
hafði séð. Blásvart andlitið var
rúnum rist, óþefurinn lá í loftinu.
,,Nú er það svart, maður,“ hugsaði
ég. Hann ávarpaði mig en ég svar-
aði honum ekki vegna fordóma
minna.
Ég fór á landsleik á Laugardals-
vellinum. Sætið í gömlu stúkunni
var betra en bekkurinn í Minne-
sota forðum. Stemningin stigmagn-
aðist. Áhorfendur gátu vart haldið
vatni af hrifningu eða vandlætingu
yfir gangi leiksins. Ég hreifst með
og lét ýmislegt yfir mig ganga, t.d.
kaffislettur. Brátt fór ég að hrópa í
vandlætingartóni með
áhorfendaskaranum:
,,Út af með dóm-
arann!“.
Það er erfitt að vera
múslimi og eiga líflát
yfir höfði sér fyrir
samkynhneigð. Það er
torvelt að vera litinn
hornauga vegna húðlit-
ar. Það er örðugt að
vera dómari í knatt-
spyrnu. Það er erfiðast
að dæma sjálfan sig.
Á vegferð minni hef
ég komist í kynni við
fólk af öllum kynþátt-
um með ólíkan menn-
ingarbakgrunn, trú og
siði. Þessi kynni hafa
laðað fram jákvætt
hugarfar í mínu dag-
fari. Ég hef jafnan litið
í eigin barm og barist
við mína hleypidóma.
Ég á töluvert langt í
land með að verða fordómalaus en
ég leitast við að bera virðingu fyrir
fólki í ljósi gullnu reglunnar.
Sjálfsskoðunin hefur aukið dóm-
greind mína. Fyrir það er ég þakk-
látur. Það er lífstíðarverkefni að
sigrast á eigin hleypidómum.
Umburðarlyndið
Sighvatur Karlsson skrifar um
gildi þess að líta í eigin barm
Sighvatur Karlsson
» ,,Ég er alvegfordóma-
laus.“ Þessi full-
yrðing er í sjálfu
sér mikill
hleypidómur.
Höfundur er sóknarprestur
á Húsavík.
Fréttir í tölvupósti