Samvinnan - 01.10.1967, Síða 33

Samvinnan - 01.10.1967, Síða 33
ísraelskir hermenn biðjast fyrir við grátmúrinn í Jerúsalem. af trúarlegum og efnahagsleg- um rótum, sem kristnir menn í Evrópu hafa haft í frammi gegn samborgurum sínum allt síðan á miðöldum. Arabar í Palestínu, kristnir jafnt og múhameðstrúar, töldu sig vera að verja heimkynni sín gegn ásælni framandi þjóðar. Svo var komið um 1930 að gyðingum í Palestínu fór held- ur fækkandi en fjölgandi um nokkurt skeið. Á því varð skjót og gagnger breyting, þegar nazistar komust til valda í Þýzkalandi. Þýzkir gyðingar sem sáu að hverju fór áttu ekki í mörg hús að venda, fá ríki voru fús til að taka við veru- legum fjölda innflytjenda í miðri heimskreppunni. Straum- ur gyðinga á flótta undan villi- mennsku nazista beindist því einkum til Palestínu, og 1936 komst innflytjendatalan upp í 60.000. Það ár blossaði upp upp- reisn araba gegn Bretum og gyðingum og stóð til 1939. Þá viðurkenndi brezka stjórnin loks að fyrirheit Balfour-yfir- lýsingarinnar um að stofna þjóðarheimkynni gyðinga í Palestínu en vernda jafnframt hagsmuni landsfólksins sem fyrir var væru ósamrýmanleg. Bretar hétu því að veita Pale- stínu sjálfstæði að tíu árum liðnum og þann tíma skyldi einungis 150.000 gyðingum í viðbót leyft að flytja til lands- ins. Heimsstyrjöldin síðari ger- breytti öllum aðstæðum. Morð- æði nazista sannfærði gyðinga í Mið-Evrópu um að eina bjargarvon þeirra til frambúð- ar væri í því fólgin að stofnað yrði gyðingaríki, svo þegar stríði lauk vildu flestir þeir sem sloppið höfðu undan böðl- unum fyrir hvern mun komast til Palestínu. Ríkisstjórnir sig- urvegaranna og mikill hluti Evrópumanna hafði slæma samvizku gagnvart gyðingum. Þegar mest reið á höfðu þeir brugðizt þessum samborgurum sínum. Afrek eins og björgun danskra gyðinga voru undan- tekningar. Víðast ríkti af- skiptaleysi, meðan verið var að murka lífið úr milljónum varn- arlauss fólks. Herstjórnir Bandamanna daufheyrðust við áskorunum um að láta gera loftárásir á gasofnana í Ausch- witz og öðrum manndrápaverk- smiðjum. Neitað var um fyrir- greiðslu sem þurfti til að kaupa ungverskum gyðingum líf með vörubílum og varahlutum. Píus páfi neitaði að fordæma gyð- ingamorðin opinberlega. Þann- ig mætti lengi telja. í stríðslok héldu gyðingum engin bönd að komast burt frá Evrópu. Bretar, sem höfðu mik- illa hagsmuna að gæta í lönd- um araba, tregðuðust í fyrstu við að hleypa flóttafólkinu í stórum stíl inn í Palestínu, en Bandaríkin og meginlandsriki Evrópu báru þá ofurliði, bæði með afli atkvæða á þingi SÞ og hverskonar liðveizlu við leynihreyfingu gyðinga, sem flutti trúbræður sína til Pale- stínu og safnaði vopnum til að ryðja þeim land. Þjóðir Vest- urlanda vildu sýna lit á að bæta fyrir brot sitt gagnvart gyðingum, en fáir gættu þess að það var gert á kostnað ar- aba, sem ekkert höfðu til saka unnið. Af þessum meginþátt- um er harmleikur gyðinga og araba spunninn. Hér verður ekki rakin frek- ar atburðarásin sem leiddi til stofnunar ísraelsríkis, aðeins á það bent að eftir að það hafði hlotið viðurkenningu SÞ og hrundið atlögu arabaríkjanna, var óhugsandi að það yrði þurrkað út af landabréfinu. Arabaríkin vilja ekki láta sér skiljast, að með því að neita að viðurkenna tilveru ísraels eru þau að leitast við að afmá sögulega staðreynd. ísraels- menn vilja hins vegar ekki við- urkenna, að með stofnun rík- is þeirra var framinn óréttur gagnvart þjóð sem upphaflega átti óendanlega miklu meiri rétt til hins umdeilda lands en þeir. Og þarna er ekki um að ræða steinaldarþjóð sem unnt er að brytja niður, eins og gert var við indíána í Norður- Ameríku og frumbyggja Ástralíu. Þj óðernishreyf ing araba hefur kennt þeim að líta á sjálfa sig sem eina þjóð- arheild, þótt framandi áhrif hafi valdið því að land hennar skiptist í mörg ríki. Þetta er skýringin á hvers vegna örlög araba í Palestínu eru öðrum arabaþjóðum slíkt tilfinninga- mál. Og ekki má gleyma flótta- mönnunum. Þegar fyrstu styrj- öld ísraels og Arabaríkjanna lauk, voru um 850.000 af 1.250.000 aröbum í Palestínu landflótta í nágrannaríkjun- um. Síðan hefur þorri þeirra dregið fram lífið í flótta- mannabúðum í þeim héruðum Arabaríkjanna sem lágu að ísrael. Flótti Palestínuaraba frá heimkynnum sínum átti sér tvennskonar orsakir. Marg- ir lögðu trú á gort arabiskra áróðursmanna um skjótan sigur. Aðrir hrökkluðust brott undan hörkulegri og sumstað- ar grimmúðlegri framkomu ísraelshers, sem ekki kærði sig um að þurfa að hafa gæt- ur á alltof fjölmennum minni- hluta araba í landinu. Síðan hefur það ævinlega verið skil- yrði Arabaríkjanna fyrir viður- kenningu á ísrael að flótta- mönnunum verði leyft að hverfa aftur til fyrri heimila og þeim skilað eignum sínum. fsraelsmenn þverneita og segja að nóg landrými sé fyrir flótta- mennina í Arabaríkjunum, ef stjórnir þar kærðu sig um að greiða götu þeirra. Áður en í odda skarst í sum- ar var tala araba í flótta- mannabúðum komin upp í 1.300.000, viðkoman á tveim áratugum hafði verið mun meiri en tala þeirra sem tókst að afla sér atvinnu og varan- legs samastaðar. í sex daga styrjöldinni varð verulegur hluti þessa hóps landflótta í annað sinn, en meirihlutinn er þó eftir á svæðunum sem ísrael hertók við Gaza og í Galíleu. Fyrir styrjöldina bjuggu í ísrael 2.600.000 gyðingar og 450.000 arabar, sem njóta tak- markaðs borgararéttar. Nú ráða ísraelsmenn yfir 1.500.000 aröbum, og fái þeir að ráða sem leggja vilja undir sig her- teknu svæðin við Gaza og í Galíleu, auk jórdanska hluta Jerúsalem sem þegar hefur verið innlimaður í ísrael og fjalllendisins handan landa- mæra Sýrlands, verður ein af- drifaríkasta afleiðingin sú að ísraelsmenn gerast í enn rík- ara mæli en áður yfirþjóð yfir undirokuðum aröbum. ísraelsk- um forustumönnum ber saman um að ekki komi til greina að veita aröbum á herteknu svæð- unum borgararéttindi, þó ekki kæmi annað til vegna þess að fæðingartalan hjá aröbum er svo miklu hærri en hjá ísra- elsmönnum, að sýnt er að ekki líður mikið meira en áratug- ur áður en hálf önnur milljón araba hefur aukið svo kyn sitt að kynstofninn fer fram úr höfðatölu hálfrar þriðju millj- ónar ísraelsmanna og viðbættri viðkomu þeirra. Aðflutningur gyðinga til ísraels er orðinn svo dræmur á síðustu árum, að útilokað er að hann hafi veruleg áhrif á hlut- föllin milli þjóðernanna í land- inu, leggi ísraelsmenn her- teknu svæðin undir sig. Framkvæmd landvinninga- drauma, sem ýmsir forustu- menn ísraels ala nú með sér að unninni þriðju styrjöldinni við araba, myndi ekki einungis útiloka málamiðlun milli ísra- elsmanna og nágranna þeirra um ófyrirsjáanlega framtíð. Útþenslu- og landvinninga- stefna af því tagi hlyti einnig að svipta ísrael samúð um- heimsins, sem bjargaði hinu nýja ríki, þegar reynt var að kæfa það í fæðingu. Sú samúð varð til þess að sundurleitustu aðilar, allt frá bandarískum auðkýfingum til sovézku leyni- þjónustunnar, lögðust á eitt að liðsinna fsraelsmönnum með fé, vopnum og mannafla. Lið- veizla af því tagi gæti aldrei hlotnazt því ísrael sem gerzt hefði þrælahaldsríki á borð við Suður-Afríku, hve mikið sem við lægi. Þess er skammt að minnast hvernig Arabaríkin duttu sjálf í þá gryfju sem þau hugðust grafa ísrael. Hámark harm- leiksins í Palestínu væri ef ísraelsmenn veldu nú þann kost að fara að dæmi þeirra. Magnús T. Ólafsson. 33

x

Samvinnan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.