Samvinnan - 01.10.1967, Síða 46

Samvinnan - 01.10.1967, Síða 46
For Helvede! Hurðin hafði rekizt í þrífótinn þegar íslendingurinn opnaði inn í setustofuna. Daninn rauk upp til hálfs, greip þrífót- inn með annarri hendi og reisti hann við, með hinni varði hann falli kvikmynda- vélina á hnjám sér. íslendingurinn hafði dvalizt á gisti- húsinu í nokkra sólarhringa og var van- ur að setjast inn í stofuna að loknum há- degisverði og reykja. Hann hafði verið heppinn með veður; það var sólskin og hiti og fólkið leitaði út. Ætíð hafði hann getað gengið að því vísu að setustofan væri mannlaus um þetta leyti dags. Nokkra stund stóð hann kyrr í dyrunum, gekk síðan hægt og ákveðið að stól gegnt Dananum og settist. Þér hafið væntanlega ekkert á móti því að ég setjist hingað inn, sagði hann og vonaði að broddurinn í orðum hans kæmist til skila. Daninn leit ekki einu sinni upp. Hann bandaði hendi út í loftið og hélt áfram að fást við myndavélina. Á borðinu fyrir framan hann lá hylkið af vélinni, tóm- ar umbúðir af filmu og leiðarvísir sem hann renndi augum yfir stöku sinnum. Daninn hafði áreiðanlega ekki verið í borðsalnum. Hann hefði tekið eftir hon- um. Hann tók alltaf eftir andlitum því að mannþekking hans var grundvöllur þess að honum liði vel í sumarleyfum; furð- anlega fljótt mátti gera sér grein fyrir svipbrigðum og andlitsdráttum og næst- um ósjálfrátt skynjaði hann hvenær andlit ætluðu að gerast nærgöngul. Þá sagði hann umsvifalaust upp herbergi sínu á gistihúsinu og fór. Hann vissi að hann átti mannþekkingu sinni mikið að þakka: fyrir bragðið varð einnig skrif- stofusetan þolanleg. Sessunautinn til hægri varð að forðast um tíuleytið á morgnana. Þá var hann að brjóta saman síðasta dagblaðið, djúp hrukka hafði myndazt milli augnanna og bak við þessa hrukku var stjórnmálaskrifum allra blaðanna att saman; við minnstu upp- örvun yrðu úrslitin kunngerð. Til vinstri mátti ekki líta strax upp úr hádegi. Þar höfðu maturinn og vindillinn slappað alla andlitsdrætti og gert þá talsjúka. Ein- staka stúlkuandlit var nýtt þar sem það grúfði sig einbeitt yfir verkefnið, en þeim svipaði undarlega mikið saman, þessum stúlkuandlitum, og voru brátt auðlesin. Ellefu mánuði ársins sat hann á skrifstofunni með sama fólkinu og þetta fólk var löngu hætt að spyrja hvert hann ætlaði í sumarleyfum. Hann gerði aldrei fasta áætlun. Færi hann ekki til útlanda, hringdi hann í gistihús úti á landi, festi sér einsmannsherbergi til óákveðins tíma og lét huga að bílnum sínum. Hann hafði aldrei freistazt til að eign- ast hest eins og sumir samstarfsmenn hans á skrifstofunni sem fóru í reiðtúra um helgar. Hann var bílamaður. Góður bíll sem var í lagi þegar maður lagði upp tryggði snurðulausa ferð og hann naut þess að renna einsamall eftir þjóðveg- unum. Hann kvartaði aldrei undan hol- óttum vegi því að nautnin var ekki sízt í því fólgin að finna hvernig bíllinn lét að stjórn þegar hann sveigði fyrir hol- urnar og hann vissi að hann gerði það liðlega og mjúklega. Vélarhljóð bifreið- arinnar var honum sem opin bók: hann vissi nákvæmlega hvernig vélin starfaði og hvað var að gerast í henni hverju sinni og hann hafði dulda fyrirlitningu á mönnum sem voru klaufar í höndunum. Daninn var klaufi í höndunum. Hann hélt kvikmyndavélinni sífellt á hnjánum meðan hann stautaði við að koma film- unni í; vélin væri óneitanlega stöðugri á borðinu og auðveldara að eiga við hana. íslendingurinn tók sígarettu úr hylki sínu, kveikti í og saug djúpt að sér reykinn áður en hann sagði: ferðamaður Smásaga eftir Svövu Jakobsdóftur Teikningar Einar Hákonarson Þér hafið kannski heldur ekki á móti því að ég reyki hér inni? Ég er ekki á móti neinu nema lyginni. Hönd íslendingsins stanzaði á miðri leið að öskubakkanum og hann virti Danann betur fyrir sér. Hann var eng- an veginn mótfallinn skyndikynnum í sumarleyfum. Einmitt þess vegna fór hann einn á gistihús í sumarleyfum: til að leyfa sér þann munað að stofna til skyndikynna. Já, og í þetta sinn sagði ég við konu mína, að nú skyldum við hafa sannanir. Ég vildi engin rifrildi meir. Og þess vegna keypti ég kvikmyndavél. Og hún á að sanna eitthvað? Hún á að sanna að við höfum verið hér. Á hverju einasta sumri förum við í ferðalag og á hverjum vetri rífumst við um hvernig það hafi verið. Okkur ber ekki saman um neitt, það er bókstaflega eins og sumarleyfið hafi aldrei átt sér stað þó það hafi átt sér stað. Ég er orð- inn svo þreyttur á þessu að ég sagði við konuna mína þegar við ákváðum þessa ferð til íslands að nú skyldum við bara kvikmynda ferðalagið og kaupa kvik- myndavél og það gerði ég. Ég keypti hana þessa. íslendingurinn færði sig á stól nær Dananum og skoðaði vélina. Hann hafði ekki keypt sér fullkomnustu gerð. Þær voru til nýrri á markaði núna, á sumum þurfti ekki annað en smella filmuhylk- inu í vélina. Daninn hefði átt að fá sér slíka vél. Og nú verður ekki hægt að rengja neitt sem ég segi. Það er hægt að sýna það nákvæmlega eins og það var, hugsið yður, sýna það í stofunni heima hjá okkur eins og það væri að gerast á stund- inni . . . íslendingurinn hlustaði með sívaxandi áhuga því að hann sá að Dananum höfðu orðið á mistök. Stórar, klunnalegar hend- ur hans réðu ekki við fíngerða tækni vél- arinnar, hakinn á spólunni hafði ekki krækt i filmuna og filman mundi ekki snúast í vélinni. Það kæmi engin mynd. Hann opnaði munninn eins og til að segja eitthvað. Um leið smellti Daninn lokinu aftur; smellurinn var öruggur, endanlegur, og Daninn stóð upp sýnilega feginn árangrinum. Samstundis vissi ís- lendingurinn að nú gæti ekkert aftrað honum að fylgja Dananum eftir og horfa á hann kvikmynda konu sína og lands- lagið og konu sína í landslaginu og hann einn vissi að spólan snerist ekki í vélinni og engin mynd kæmi. Enginn gæti held- ur vitað að hann vissi það; ef maður þagði gat enginn sannað hvað maður vissi og sjálfur yrði hann víðs fjarri þeg- ar upp kæmist, í endurminningu Dan- ans aðeins ferðamaður sem brá fyrir í svip. Líkt og kvikmyndavélin væri segull sem drægi hann að sér stóð hann upp og fylgdi Dananum út. Það fyrsta sem hann sá af konunni var hárið. Slétt og tilgerðarlaust féll það niður á herðar. Hún sat á neðstu stein- tröppunni með andlitið móti sólu og sneri í þá baki. Þegar hún heyrði þá koma stóð hún upp og sneri sér við. Hún var fögur. Andlit hennar var ósnyrt og hann sá að fegurð hennar var fólgin í litaraft- inu; húðin var eins og tjald sem miðlaði mildum litbrigðum innan frá og það var sem sólin hefði afráðið að fara nærfærn- islega að konunni, enn hafði hún ekki dekkt húð hennar. Augnsvipurinn bar þess vott, að konan var vör um sig, og þegar hann leit í augu hennar minntist hann þess hve heillaður hann hafði oft verið af þeirri staðreynd að kynni, raun- veruleg kynni, við útlending voru óhugs- andi. Löngum stundum hafði hann unað 46

x

Samvinnan

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.