Andvari - 01.01.1997, Blaðsíða 14
12
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
ANDVARI
Bernskan og námsárin
Jón Helgason ólst upp hjá foreldrum sínum á Rauðsgili til níu ára
aldurs. Snemma kom í ljós hjá honum óvenjulegt næmi. Fimm ára
var hann orðinn fluglæs og tók því ekki vel þegar sóknarpresturinn
húsvitjaði á Rauðsgili og spurði hann þeirrar óþörfu spurningar
hvort hann þekkti stafina. Þá þegar kom í ljós einn af þeim eig-
inleikum sem einkenndu hann alla ævi, að hann lét enga vaða ofan í
sig, og engu fremur þá sem voru taldir með höfðingjum en almúga-
mönnum. Og raunar hafa sagt mér gamlir Borgfirðingar að hegðun
hans og sum uppátæki í bernsku hafi ekki að öllu leyti verið eins og
ætlast var til af vel uppöldum börnum. En gáfurnar vöktu snemma
athygli.
Jón missti föður sinn níu ára gamall. Móðir hans flutti skömmu
síðar til Hafnarfjarðar með börn sín tvö, Jón og Ingibjörgu (f. 16. 1.
1905, d. 18. 6.1952), en trúlega lítil auðæfi önnur, og í Hafnarfirði ólst
Jón upp til seytján ára aldurs. Þar gekk hann í barnaskóla og þar
komu brátt í ljós undraverðar námsgáfur hans. Þar voru þá þeir
menn sem sáu að Jón mundi ekki verða mikill afkastamaður við lík-
amlega vinnu, en hins vegar augljóst að hann byggi yfir þeim hæfi-
leikum sem ekki mættu fara forgörðum. Mér er sagt að góðir menn
hafi séð til þess að hann kæmist í framhaldsskóla, fyrst í Flensborg,
en síðar í Menntaskólann í Reykjavík, og hef ég einkum heyrt til
þess nefndan Þórð Edilonsson lækni í Hafnarfirði, en sjálfur minnist
Jón séra Janusar Jónssonar, sem var kennari hans í Flensborg, og
heiðraði minningu hans með einstaklega fallegri tileinkun framan
við ritgerð sína: ‘Norges og Islands digtning’, sem var prentuð í átt-
unda bindi B af ritröðinni Nordisk kultur 1952. ‘Hann skýrði mér
fyrstur skáldskaparmál’ stendur þar, og má ætla að séra Janus hafi
átt sinn þátt í hvaða fræði það voru sem Jón lagði síðar stund á. Þess-
ara manna er vert að minnast með þakklæti fyrir að stuðla að því að
Jón Helgason varð sá sem hann varð. En tungutak sitt hlýtur hann í
upphafi að hafa lært á æskuheimili sínu og fengið þar þá málvitund
sem síðar var efld og aukin við kynni af fornum og nýjum bókum.