Kirkjuritið - 01.12.1954, Side 7
HUGLEIÐING
429
Síðar var hann í þessari sömu konungshöll hrakinn og
smáður, dæmdur til dauða og krossfestur.
Það var ekki móðurástin, sem dæmdi hann. Það var
önnur ást. Það var ekki kærleikurinn, sem krossfesti hann,
heldur hinir grimmu eiginleikar manneðlisins.
Þannig eru Ijós og skuggar hinna fyrstu jóla.
Enn eru jólin að koma inn í hinn sama heim sem í
fyrstu. Það er búið um þau í ástúðlegum hjörtum og setið
um þau af grimmd og slægð, ef til vill ekki jólahátíðina
sjálfa, heldur boðskap jólanna: „Yður er í dag frelsari
fæddur“. Sá er meðal mannanna, sem frelsað getur sálir
þeirra frá glötun, gefið mönnunum eilíft líf í kærleika,
friði og einingu — þessa heims og annars. Sá lifir og rikir,
sem gefur mönnunum trú og varðveitir þá í trúnni, í sam-
félaginu við Guð. Jesús, frelsari mannanna er fæddur.
Hann fæðist i hjarta hvers manns, sem trúir á hann.
Og um leið er fluttur annar boðskapur í orði og fram-
kvæmd. Það er boðskapur Heródesar konungs í nýrri
tækni og nýjum tilbrigðum.
Boðskapur þessarra tveggja konunga er fluttur í orð-
um og athöfnum. Þannig hefir það alltaf verið og þannig
er það í dag.
Hvorum er girnilegra að fylgja?
Þú þarft ekki að svara þegar í stað, sízt af öllu
óhugsað. Þessari spurningu má ekki svara í hvatvísi,
hvorki í augnablikshrifningu jólahátíðarinnar, né byggja
á sleggjudómi öfgafullrar andúðar.
Þess er alls ekki krafizt, að spurningunni sé svarað með
einu orði. Kristinn maður svarar henni með lífi sínu, ævi-
starfi, hugsunum sínum og ávöxtum hugans, orðum og
athöfnum.
Hversu lítið er eitt orð í samanburði við heila ævisögu.
Þótt máttur orðsins sé mikill og ótvíræður, er enn meira
um vert að lifa eftir skoðun, lifa þannig, sem innsta þráin
vísar leiðina.