Eimreiðin - 01.07.1927, Page 95
eimreiðin
Eg dæmi þig ekki. —
Ég dæmi þig ekki, syndug sál!
Ég sé, að þú eltir heimsins tál
og gleymir, að guð er nærri.
Ég heyri, að þú talar húmsins mál.
— Þín hugsjón verður æ smærri —
og sigrarnir færri og færri.
Þú áttir forðum svo fleyga þrá,
að ferili þinn hvarf í loftin blá,
við himinsins hjartarætur.
— Sú þrá er hnigin í dauðadá,
— um dimmar og kaldar nætur
í svefninum sárt hún grætur.
Þú áttir forðum svo trausta trú,
að tindana og björgin hrærðir þú,
og bræddir ísinn af ánum. —
Sú trú er orðin að engu nú,
— hún aðeins læðist á tánum
við krossinn — hjá Drotni dánum.
Svo hrein var forðum þín æskuást,
að opnar himinsins dyr þú sást
og ljóssins. engla þar inni. —
Sú ást er horfin, því hjartað brást,
— það heitrofið mörgu sinni
nú veinar í vitund þinni.
Svo glæsileg forðum von þín var,
að vígða musteristurna bar
við skínandi hálofts heiði.
— En alt er nú löngu þrotið þar,
og þúsund hallir í eyði —
og orðnar að lágu leiði.